Lei­beiningar fyrir rŠktendur

Ræktunarstjórn vill benda á eftirfarandi varðandi starfssvið ræktunarstjórnar:

Ræktunarstjórn er ráðgefandi aðili um allt er viðkemur ræktun, eðli og umhirðu tegundarinnar og á að halda utan um allar upplýsingar varðandi got, innflutta hunda, heilsufarsskoðanir og sýningaárangur.

Öll ábyrgð á ræktun hvílir alfarið á tíkareiganda og eiganda hundsins. 
Vilji ræktandi leita ráða hjá ræktunarstjórn varðandi pörun á tík sinni, skal hann senda skriflega ósk um það u.þ.b. 2 mánuðum fyrir væntanlegt lóðarí tíkarinnar. Ræktunarstjórn hefur 1 mánuð til að svara og bendir á þá hunda af rakkalistanum sem koma til greina með tilliti til skyldleika og litar. Ræktanda er í sjálfvald sett hvort hann notar einhvern þessara hunda eða einhvern annan. Æskilegt er að para ekki skyldara en 6% og helst vel innan þeirra marka. 
Óski ræktandi eftir að bent sé á væntanlegt got, skal hann senda ræktunarstjórn netpóst þar sem kemur fram hvaða tík var pöruð og með hvaða hundi.  Einnig er hægt að tilkynna gotið eftir að hvolpar eru fæddir.  Ekki er bent á got nema allar heilsufarsskoðanir séu í lagi.

Lágmarksaldur undaneldisdýra fyrir pörun er 2 1/2 ár frá og með 6.10.2017 og þurfa þau að hafa gild hjarta- og augnvottorð auk þess sem foreldrar beggja þurfa að hafa hreint hjartavottorð við 4ra ára aldur. Hægt er að fylgjast með því á hjartalista deildarinnar hér á síðunniAuk þess þarf að DNA prófa bæði undaneldisdýrin fyrir pörun vegna sjúkdómanna Episodic Falling og Curly Coat. (Undantekning: ef báðir foreldrar ræktunardýrs eru fríir (clear) þarf ekki að DNA prófa afkvæmin).

Óski ræktandi eftir því að gotið sé auglýst á síðu deildarinnar, skal hann senda upplýsingar þar að lútandi í netpósti: hvað margir hvolpar fæddust, kyn hvolpa og liti og hverjir foreldrarnir eru. Ræktandi skal einnig láta vita þegar  hann er búinn að ráðstafa öllum hvolpunum. Ekki þarf að greiða fyrir auglýsinguna en framlög eru vel þegin.

Starf stjórnarinnar er að halda utan um ræktunina og til þess að það gangi vel þarf samstarf við ræktendur að vera gott. 

Ræktendur eru hvattir til að láta hjartaskoða hunda sína a.m.k. einu sinni á ári og augnskoða annað hvort ár og beina sömu tilmælum til hvolpakaupenda sinna.
Gildistími hjartavottorða vegna ræktunar er 6 mánuðir til 5 ára aldurs en 1 ár ef vottorðin eru tekin eftir að 5 ára aldri er náð. Gildistími augnvottorða er 25 mánuðir.
Hjartavottorð þurfa að vera frá einhverjum eftirtalinna dýralækna sem allir hafa hlotið þjálfun hjá Dr. Clarence Kvart, hjartasérfræðingu frá Svíþjóð:

Helga Finnsdóttir, Dýralækningastofunni Skipasundi 15, Reykjavík
Lísa Bjarnadóttir og Ólöf Loftsdóttir, Dýraspítalanum Víðidal
Steinunn Geirsdóttir, Dýralæknamiðstöðinni, Grafarholti
Hanna M.Arnórsdóttir, Dýralæknastofan Garðabæ

Athugið að augnskoðanir eru yfirleitt fjórum sinnum á ári og panta þarf tíma á skrifstofu HRFÍ, sem sér um að fá sérfræðinga í augnsjúkdómum erlendis frá til að skoða hundana. HRFÍ gefur ekki út ættbækur nema foreldrarnir hafi gild augn- og hjartavottorð. Sjá gildistíma hér að ofan.
Ræktunarstjórn mælir eingöngu með og upplýsir um þau got, þar sem framangreindum reglum er fylgt.

Ræktendur eru einnig beðnir um að tilkynna til ræktunarstjórnar ef upp koma gallar eða sjúkdómar í hundum þeirra eða hvolpum svo hægt sé að halda utan um alla þá kvilla og sjúkdóma sem mögulega geta hrjáð tegundina.  Aðeins með opinni umræðu og vitneskju um það sem miður fer er hægt að koma í veg fyrir eða minnka áhættu á ýmsum meðfæddum sjúkdómum. 

Nánari upplýsingar undir reglur og tilmæli í sambandi við ræktun.

Ræktunarráð cavalierdeildar (netf. cavalierdeildinhrfi@gmail.com )
Ræktunarstjórn (netf. cavalierdeildinhrfi@gmail.com )