Til hvers eru þeir?
Hlutverk endaþarmssekkjanna er nokkuð óljóst og til eru fjölmargar kenningar um tilurð og hlutverk þeirra hjá hundum og öðrum spendýrum. Talið er að dýrin tæmi sekkina til að merkja sér yfirrráðasvæði eða að þeir séu jafnvel hluti af kynferðislegu aðdráttarafli karldýra á kvendýr, t.d. hunda að lóða tíkum. Reyndar hafa rannsóknir ekki rennt stoðum undir þá kenningu og sýndi niðurstaða einnar rannsóknar, að hundar sýndu innihaldi endaþarmssekkja frá lóða tíkum engan áhuga. Innihald, lykt eða ástand sekkjanna hjá lóða tíkum var heldur ekkert frábrugðið því hjá tíkum sem voru ekki lóða. Önnur rannsókn leiddi í ljós, að ekkert samband er á milli hormónabúskapar hunda og innihalds endaþarmssekkjanna.
Innihald sekkjanna getur verið misþykkt og kann það að vera ástæða þess að sumum hundum er gjarnara að fá endurteknar bólgur í endaþarmssekkina.
Ekki er óalgengt að sekkirnir tæmist verði hundurinn hræddur eða bregði og það finnst strax á lyktinni!
Orsök
Sýkinga í endaþarmssekkjum og meinafræði er illa skilgreind, en má þó flokka hana í stíflu, bólgu, sýkingu, kýli og æxli, þar sem stífla getur leitt til bólgu sem venjulegast hleypur í sýking og myndun kýlis.
Tilhneigð til breytinga og sjúkdóma í endaþarmssekkjum getur verið margvísleg, en er talin algengust hjá smáhundategundum sem eru léttari en 15 kg, feitum smáhundum og hundum með langvarandi niðurgang eða linar hægðir. Einnig er talið að undirliggjandi sjúkdómar, eins og ofnæmi eða fæðuóþol og jafnvel húðsjúkdómar, geti valdið bólgum í sekkjunum.
Einkenni
Ertingar frá endaþarmssekkjunum, stíflu eða bólgu eru algengust þau að hundurinn ekur sér á botninum eftir gólfinu/grasinu í þeim tilgangi að reyna að losa um innihald sekkjanna. Takist það ekki, eykst innihaldið í sekknum og sýking fylgir í kjölfarið. Hundurinn verður lasinn og fær hita, er slappur og lystarlaus, á erfitt með að setjast niður og sleikir sig gjarnan mikið að aftan. Við skoðun sést mikill bólguhnútur þeim megin sem sýkti endaþarmssekkurinn er og að lokum springur „kýlið“ og innihaldið tæmist úr því, hundinum léttir og líður strax betur.
Meðferð
Strax og ljóst er hvað um er að ræða er hundurinn meðhöndlaður með sýklalyfjum og ekki sízt verkjalyfjum, því bólga í endaþarmssekkjum er mjög sársaukafull og veldur því að losun hægða er bundin sársauka. Nauðsynlegt er líka að setja á hann kraga svo hann sleiki ekki sárið endalaust og tefji þar með fyrir batanum.
Hafi hundur tilhneigingu til síendurtekinna vandræða með bólgur og sýkingar í endaþarmssekkjum, er reynt að tæma þá og skola og meðhöndla síðan hundinn með lyfjum. Um leið verður að reyna að finna orsök vandans, t.d. athuga mataræði (skipta um fóður) eða hvort um óþol eða ofnæmi geti verið að ræða. Engin ástæða er til að tæma endaþarmssekkina í fyrirbyggjandi tilgangi, t.d. í sambandi við snyrtingu eða heimsókn til dýralæknisins, því talið er að það getur aukið ertinguna og jafnvel leitt til sýkingar.
Talið er að trefjaríkt mataræði geti haft fyrirbyggjandi áhrif, því þá eru hægðirnar fastar og ýta á sekkina sem tæmast þá frekar.
Stundum þarf að grípa til skurðaðgerðar og fjarlægja sekkina með skurðaðgerð, en aðgerðin er erfið fyrir hundinn og í undantekningartilfellum getur saurleki fylgt í kjölfarið.
Krabbamein í endaþarmssekkjum er frekar sjaldgæft, en er hins vegar í flestum tilfellum mjög illkynja og dreifir sér hratt sér í nærliggjandi vefi og eitla.