Meðferð hvolpa

Til hamingju með litlu gersemina þína – blíðari og tryggari vin held ég að þú getir varla eignast.

Mig langar að benda á ýmislegt sem ég held að geti komið þér að notum við uppeldi hvolpsins þíns.  Lítill hvolpur getur auðveldlega farið sér að voða á margan hátt. Að taka að sér lítinn hvolp er raunverulega eins og að fá lítið barn í húsið – algjöran óvita.  Það er margt að varast t.d. rafmagnssnúrur ( sem hann getur nagað í sundur) allt smádrasl, plast, nylonsokka og allt úr nylonefni,  hvolpar hafa dáið úr raflosti  eða vegna einhvers sem þeir hafa étið.

Hvolpurinn er varla farinn að átta sig á hæð, þegar þið fáið hann í hendur og getur þar af leiðandi dottið úr stólum, rúmum eða niður stiga.  Passið ykkur líka að stíga ekki á hann.  Það er auðveldlega hægt að missa hann, þegar hann brýst um, sérstaklega þegar óvanir taka hann upp.  Ég mundi aldrei láta börn halda á hvolpinum nema þau sitji á gólfi á meðan.  Þegar þið takið hvolpinn upp, takið þá alltaf með annarri hendi undir framfætur en hinni undir rassinn.  Hvolpinum er hætt við beinbrotum fyrstu mánuðina og nokkrir cavalierhvolpar hafa beinbrotnað vegna falls eða af því að fólk hefur misst þá.

Munið að ungur hvolpur getur aðeins leikið sér í stuttan tíma í einu, en þarf síðan góðan svefn ef hann á að vaxa og verða að heilbrigðum hundi.  Látið ekki börnin eða leikfélaga þeirra stjórna svefntíma hvolpsins.  Kennið börnum að hvolpurinn er lifandi vera en ekki leikfang.  Skiljið hund aldrei eftir í bíl án þess að hafa rifu á gluggum.  Í sólskini eða í heitu veðri má ALDREI SKILJA HUND EFTIR Í BÍL – bíllinn verður sjóðandi heitur á nokkrum mínútum, þrátt fyrir rifu á gluggum  og hundurinn getur fengið hitaslag og dáið.  Erlendis deyr fjöldi hunda árlega af þessum sökum.

Látið hundinn aldrei setja höfuðið út um glugga í bíl á ferð.  Það fer mjög illa með augun og cavalier hefur viðkvæm augu, vegna þess að þau eru mjög stór og opin.

Þjálfið hvolpinn smátt og smátt við allar aðstæður.  Umferð, margmenni, stiga, lyftur, bíla og aðra hunda (þeir verða þó að vera blíðir og góðir)  Ekki  vorkenna honum ef hann verður hræddur.  Verið vingjarnleg og ákveðin og segið t.d. áfram – duglegur hundur. Látið hann sjá kindur, hesta, ketti, kýr og fugla ( og haldið FAST Í TAUMINN á meðan).

Hvolpurinn öðlast öryggi við umhverfisþjálfun og hún þarf að fara fram meðan hann er enn ungur eða 3 – 5 mánaða.  Notið bæði orð og merkjagafir, verið skýr og samkvæm sjálfum ykkur.  Reiðist ekki þó hvolpurinn hlýði ekki heldur sýnið honum með rólegri röddu og mjúkum handtökum til hvers þið ætlist af honum.  Það er mjög einstaklingsbundið hversu fljótir hvolpar eru að læra.

Allir æsingaleikir hvolps og barns espa veiði og árásarhvöt hvolpsins og valda streitu hjá honum.  Æsingaleikir og tog ættu því að vera í algjöru lágmarki á uppeldis og þroskatíma hvolpsins.  Í slíkum leikjum geta jafnvel tennur og liðir skemmst.  Kennið honum frekar að leysa ýmsar þrautir.  Hvolpaskóli HRFÍ gæti verið góður kostur fyrir þá sem eru að eignast sinn fyrsta hund og síðan e.t.v.  hlýðninámskeið. 

Kennið hvolpinum strax hvað hann má ekki.  Notið eitt neitunarorð, best “NEI”  segið það ákveðið en alls ekki reiðilega.  Notið JÁ um það gagnstæða.  (Já, góður hundur).  Ágæt aðferð til að kenna það er t.d. að setja nammi fyrir framan hvolpinn og segja Já og leyfa honum að fá bitann. Setja síðan annan bita og þegar hann ætlar að taka hann, segja þá ákveðið NEI og halda hvolpinum, segja síðan JÁ og nú má hann éta.  Þetta þarf að endurtaka oft en þó ekki það oft að hvolpurinn þreytist.  Hvolpurinn þarf þó að ná ákveðnum þroska til að skilja þetta.

Ef þið  leyfið hvolpinum að sofa hjá ykkur í rúminu til að byrja með, getur verið erfitt að venja hann af því.  Betra er e.t.v. að hafa rúmið hans við hliðina á ykkar rúmi og láta hendina lafa niður til hans fyrstu næturnar.  Hvolpurinn ætti alls ekki að sofa einn fyrstu næturnar á nýja heimilinu.  Nógu erfitt er nú samt að skilja við mömmuna og venjast nýjum aðstæðum.

Hreinlæti
Byrjið strax að kenna hvolpinum ykkar hreinlæti.  Setjið hann alltaf út strax og hann vaknar, einnig þegar hann er nýbúinn að borða og þegar hann hefur leikið sér. Litlir   hvolpar pissa mjög oft.  Þið lærið fljótt að þekkja einkennin, þegar hvolpurinn þarf að hægja sér.  Hann snýst í hringi og vælir jafnvel.  Þá er um að gera að vera snöggur að koma honum út. Munið að hrósa mikið þegar hann gerir úti.  Ef þið getið ekki sett hann út, notið þá dagblöð t.d. við útidyr. Notið eitt orð, t.d. pissa og hrósið honum í hástert, gefið jafnvel nammi þegar hann hefur gert stykkin sín úti.  Þrátt fyrir þetta á hann örugglega eftir að gera stykkin sín inni öðru hvoru  á næstu mánuðum og munið þá að það er YKKUR að kenna en ekki hvolpinum.  Látið eins og þið sjáið það ekki og hreinsið upp án athugasemda.  Margir skamma hvolpinn og þaðan af verra og afleiðingin verður taugaveiklaður hvolpur sem hefur ekki hugmynd um afhverju hann má ekki sinna þörfum sínum. Eftir það er miklu erfiðara  að gera hann húshreinann.  Þegar hvolpurinn er orðinn eldri, segjum fimm til sex mánaða og á að vera farinn að skilja til hvers er ætlast af honum, segið þá einfaldlega nei og setjið hann út, jafnvel þó hann sé búinn að gera inni ( tilgangslaust nema þið standið hann að verki).  Verið samt ekki reið og skammið hann ekki.  Gott er að strá kartöflumjöli yfir pissubletti í teppum svo ekki myndist gulir flekkir.

Matur
Þegar þið fáið hvolpinn í hendur skulið þið halda ykkur við það fóður sem hann hefur fengið hjá ræktandanum. Ef þið viljið breyta því síðar þarf það að gerast smátt og smátt svo hvolpurinn fái ekki niðurgang. Æskilegt er að hann sé á hvolpafóðri þar til hann er 8 – 9 mánaða. Hvolpurinn þarf að borða fjórum  sinnum á dag þangað til að hann er um það bil 4ra mánaða.  Það getur þó verið misjafnt eftir einstaklingum. Sumum er hægt að gefa þrisvar og þá meira í einu.

Gefið fóðrið helst þurrt, það er betra fyrir tennurnar.  Hafið engar áhyggjur þó hvolpurinn sé lystarlaus fyrstu 2 – 3 dagana, það er eðlilegt þegar hann breytir um umhverfi.  Stundum er hægt að fá hann til að byrja að éta með því að stinga fyrstu kúlunum upp í hann eða strá þeim á gólfið. Mörgum cavalierum finnst betra að borða af “diskamottu” heldur en úr skál! 

Gefið fyrstu máltíð ca. ½ klst. eftir að hvolpurinn vaknar, þ.e. þegar hann hefur gert stykkin sín og leikið sér – þá hefur hann venjulega fengið matarlystina. Gefið þurrfóður og hvolpamjólk (súrmjólk eða AB mjólk)

2. máltíð ca. 4 tímum síðar –  þurrfóður
3. máltíð ca. 4 tímum síðar – þurrfóður
4. máltíð áður en hann fer að sofa  – þurrfóður, hvolpamjólk eða súrmjólk.

Áríðandi er að hafa ALLTAF hreint vatn til að drekka, (sumir hvolpar þola kúamjólk en aðrir fá niðurgang af henni)

4ra mánaða fær hvolpurinn 3 máltíðir og  frá sex til sjö mánaða aldri fær hann að borða tvisvar á dag , þ.e.  morgunmat og kvöldmat , einnig eftir að hann verður fullorðinn hundur.  Hvolpafóður skal gefa þar til hvolpurinn er um það bil 9 mánaða, en þá er skipt yfir í fóður fyrir fullorðna hunda.

Hundurinn má fá nautabein (helst hrá) og gerfi nagbein – öll önnur bein eru honum hættuleg og geta kostað hann lífið. Sumir hafa þó þá skoðun að það sé í góðu lagi að gefa öll bein ef þau eru hrá. (hráfæði).

Snyrting
Dagleg snyrting tekur ca. 5 mín.  Burstið yfir bakið og niður feldinn, greiðið síðan eyrun. Hárhnútar myndast aðallega aftan við eyrun og í nárunum. Strjúkið síðan yfir augun með bómullarhnoðra vættum í soðnu vatni og yfir munnvikin.  Nauðsynlegt er að venja hann strax við tannburstun.  Notið mjög mjúkan bursta eða lítinn klút og þurrkið yfir tennur og tannhold.  Regluleg tannburstun á eftir að spara margar ferðir til  dýralæknis og hundurinn sleppur við hvimleiðan tannstein  og missi tanna. Greenies nagbein eru mjög góð til að hindra tannsteinsmyndun.

Vikulega (ca. 10 mín.)   Sama og að ofan, athugið eyrun líka að innan.  Hreinsið það svæði sem sést með mjúkum pappír eða bómullarhnoðra með einhverju eyrnahreinsiefni – NOTIÐ ALLS EKKI VATN- Skoðið fæturnar, athugið hvort klippa þurfi hár milli þófa eða klippa klær.

Mánaðarlega. – Klippið klær ef þarf.  Athugið að það á alls ekki að klippa feld á cavalier, eingöngu er leyfilegt að klippa hár milli þófa og snyrta aðeins fæturna svo þeir skitni síður.

Baðið hundinn – notið eingöngu hunda-eða hvolpasjampo.  Fyrir bað skal bursta hundinn og greiða úr allar flækjur.  Bleytið feldinn mjög vel áður en sjampo er sett í.  Þvoið höfuðið og eyrun síðast.  Passið að vatn fari ekki inn í eyrun.  Mjög gott er að nota næringu á eftir, hún er síðan skoluð vel úr.  Þurrkið hundinn mjög vel með handklæði og blásið síðan feldinn þar til hann er alveg þurr.  Látið hundinn aldrei leggjast blautan til svefns.

Annað
Ath. að með nammi á ég við alls kyns hundanammi annað hvort keypt í búð eða útbúið af ykkur sjálfum t.d. úr lifur eða kjöti.  ALDREI MÁ GEFA HUNDUM SÚKKULAÐI ÆTLAÐ FÓLKI – Það myndar eitrun í hundinum og það þarf mjög lítinn skammt til að hundurinn verði fárveikur og jafnvel deyi.  Sérstaklega er dökkt súkkulaði hættulegt.

Sumir cavalierar fá sérkennileg andköf, eins konar andateppu (sérstaklegar ef þeir toga í taumi eða verða mjög æstir)  Ýtið þá höfðinu niður og haldið fyrir nasaholurnar augnablik.

Margir cavalierar fæðast með “herniu” (naflahaul) það er fita eða vefur, sem gengur í gegn um naflastrenginn. Haullinn grær fastur þegar hvolpurinn vex og ætti ekki að valda neinum vandræðum.  Yfirleitt er algjörlega ástæðulaust að gera aðgerð til að laga slíka herniu.

Hvolpurinn hefur verið ormahreinsaður 2 til 3ja vikna og síðan aftur 9 vikna með Panacur.  Hreinsið hann aftur eftir u.þ.b. sex mánuði og síðan einu sinni á ári.  Annars eftir tilsögn dýralæknis.

Hann er einnig búinn að fá fyrstu Parvo/lifrarbólgu- sprautu.  Mjög áríðandi er að hann sé bólusettur aftur eftir fjórar vikur og síðan í þriðja sinnið 4 til 8 vikum eftir aðra sprautu.   Hvolpurinn myndar ekki ónæmi fyrr en eftir aðra sprautu.  Þangað til þarf að gæta hans vel og láta hann umgangast aðra hunda sem allra minnst.  Parvoveikin veldur yfirleitt dauða hjá ungum hvolpum.

Ef útferð eða vond lykt kemur úr eyrum , jafnvel kláði farið þá með hundinn til dýralæknis – venjulega eru eyrun hreinsuð vel og síðan gefið FUCIDIN sýklalyf. Ef hvolpurinn rennir sér MJÖG MIKIÐ eftir gólfinu á rassinum, vælir eða reynir að bíta í afturendann, GÆTI hann haft stíflaðan endaþarmskirtil, sem þarf að kreista úr.  Best er að dýralæknir framkvæmi það. Athugið að hvolpurinn rennir sér af og til á rassinum vegna kláða og engin ástæða er til að gera neitt við því. Varist að láta kreista kirtilinn að óþörfu, það getur endað sem krónískt vandamál, þar sem kirtillinn á að tæmast sjálfkrafa.

Ekki er ráðlegt að fara með hvolpinn í langar gönguferðir meðan hann er  að vaxa. Tíu til 15 mínútur í einu er alveg nóg í viðbót við þá hreyfingu sem hann fær í sínum eigin garði. Margir ræktendur telja óæskilegt að fara með hvolp í gönguferð fyrr en eftir 5 – 6 mánaða aldur.

Cavalier ræktunardeildin var stofnuð innan HRFÍ í maí 1995. Deildin er fyrst og fremst hugsuð til að halda utan um ræktunina og að halda hópnum saman. Gönguferðir eða aðrar uppákomur eru venjulega á þriggja vikna fresti. Hundunum finnst mjög gaman að hitta aðra hunda af sömu tegund og vona ég því að þið sjáið ykkur fært að taka þátt í félagsskapnum með okkur svo okkur gefist tækifæri til að fylgjast með þroska hvolpsins  Félagar í cavalierdeild þurfa að vera félagar í HRFÍ og fá .þá félagsblaðið Sám sem flytur fréttir frá öllum deildum félagsins.

Tekið saman af Maríu Tómasdóttir.
M.a. stuðst við námsefni hvolpaskólans og ýmsar cavalierbækur.