Göngur


Hér má sjá áætlaðar göngur Cavalierdeildarinnar á árinu. Gönguáætlunin er sett fram með fyrirvara um að veður og aðrar ófyrirséðar aðstæður hamli ekki för en hver ganga verður auglýst sérstaklega þegar nær dregur.

Neðst á síðunni er einnig búið að setja inn liðnar göngur á árinu og smá samantekt um þær.


Endilega sendið okkur athugasemdir eða ábendingar um hvað betur megi fara því við erum alveg nýjar í þessu.

Einnig auglýsum við eftir fleirum í göngunefndina – er ekki einhver sem hefur áhuga á að starfa með okkur – við erum bara alveg ágætar 😀

Með kveðju göngunefndin, Eyrún, Gunna og Íris.


8. janúar: laugardagur kl. 12:00 – Frestað um óákveðinn tíma

Nýársganga í kringum Reykjavíkurtjörn

Okkar árlega nýársganga.  Við hittumst við Ráðhúsið í Reykjavík og göngum í kringum tjörnina einn eða tvo hringi.  Allir hundar í taumi, við viljum benda á að flexítaumar eru ekki æskilegir í taumgöngur vegna slysahættu. Munið eftir skítapokunum12. mars, laugardagur kl. 12:00

Rauðavatn, Paradísardalur

Við hittumst á bílaplani bak við prentsmiðju Morgunblaðsins að Hádegismóum og göngum þaðan á malarstígum á heiðina ofan Rauðavatns og má áætla 2 klst. í gönguna. Tilvalið að taka með sér nesti og munið eftir vatni fyrir hundinn. Lausaganga, en munið eftir skítapokum.


Liðnir gönguviðburðir

16. október 2021: laugardagur kl. 12:00

Grafarvogur

Hittumst við Grafarvogskirkju og göngum niður í voginn. Göngum í kringum Grafarvog. Allir hundar í taumi. Flexitaumar eru ekki æskilegir vegna slysahættu. Munið eftir skítapokunum.

18. september 2021: laugardagur kl. 12:00

Grótta, Seltjarnarnes.

Hittumst við Gróttu og göngum meðfram ströndinni í átt að golfvellinum og í kringum hann.  Létt ganga á sléttlendi. Taumganga. Flexitaumar eru ekki æskilegir vegna slysahættu. Munið eftir skítapokum.

28. júlí 2021: miðvikudagur kl. 17:00

Helgafell Mosfellsbæ.

Í þessari göngu var fámennt en góðmennt. Aðeins voru fjórir Cavalierar, fjórir fullorðnir og eitt barn. Veðrið lék við hópinn þegar hann fór þessa fínu göngu og skemmti fólk og ferfætlingar sér vel.

Elliðaárdalurinn 29. maí 2021

Í dag, á alþjóðadegi Cavalier tegundarinnar gengu um Elliðárdalinn 29 ferfætlingar ásamt 31 tvífætlingum. Gangan tókst afar vel í fínu veðri ☺️

Allir hundar fengu gjöf í lok göngunnar frá versluninni Dýrabæ og þökkum við kærlega fyrir okkur!

🥰Næsta ganga er fyrirhuguð sunnudaginn 27.júní og stefnum við á lausagöngu. Staðsetning tilkynnt síðar.
Hlökkum til næstu göngu! 😊Kveðja, Göngunefndin

May be an image of 1 einstaklingur, standing, hundur og útivistBúrfellsgjá 27. júní 2021 – breytt í Dalaleið – Undirhlíðar við Kaldársel í Hafnarfirði

Cavalierganga í dag – skemmtilegur dagur.

Við Hektor mættum við Kirkjugarðinn í Hafnarfirði og hittum flotta hundaeigendur með úrvals hunda.

Gangan þennan daginn var fámenn, en við vorum nokkrar að rifja upp að við höfum gengið saman í 14 ár. Þegar ljóst var að ekki væri mikil mæting, enda flestir í útilegum eða ferðalögum með fjölskyldum sínum, ákváðum við að breyta aðeins um gönguleið, fórum ekki í Heiðmörk og Búrfellið, heldur styttum aksturinn að bílastæði við Helgafellið í Hafnarfirði og gengum Dalaleið / Undirhlíðar https://skoghf.is/undirhliear/

Veðrið var frábært, félagsskapurinn skemmtilegur og áttu menn og hundar dásamlegan dag saman. Yngstar voru systurnar Embla og Bella, 11 mánaða og elstur var Logi 14 ára. Var ótrúlega gaman að sjá muninn á skottunum sem voru óstöðvandi og þutu fram og aftur, hring eftir hring og hins vegar öldunginn Loga sem tölti virðulega áfram. Dásamlegt að hitta svo flottan öldung.

Að sjálfsögðu blossaði upp ást í svona rómantískri skógarferð og dönsuðu þau Hektor og Sera daðurdansinn af list. Perla mætti með tvær hlaupastelpur með sér sem sáu um að lokka hundana hraðar yfir okkur bílstjórum til mikillar ánægju.

Og gestabókin er þá svona:

  • Halldóra, Björn og Ísey Rún með Sóleyjar Emblu og Bellu
  • Erna, Birna og Sara með Perlu
  • Kristín með Loga
  • Sunna með Seru
  • Guðrún Lilja með Hektor.

Takk fyrir frábærlega skemmtilega samveru

26. ágúst 2021: fimmtudagur kl. 18:00

Sólheimakot, ganga og grill.

Fimmtudaginn 26. ágúst var sumarskemmtun þ.e. ganga og grill í Sólheimakoti.

Þar hittust um 40 hundar og eigendur þeirra sem voru einnig um 40 manns.

Veðrið var þurrt en dumbungur og aðeins blés þannig að hár og grös bærðust. Genginn var stuttur hringur þar sem margir hundar fengu að hlaupa um lausir. Þarna mátti sjá hunda á öllum aldri eða frá 3 mánaða og upp úr.

Eftir göngu setti fólk sitt hvað á grillið og naut samverunnar við fólk og hunda. Þökkum við kærlega fyrir hversu margir sáu sér fært að mæta og þessa skemmtilegu stund.

Nokkrar myndir voru teknar í misgóðum gæðum. Biðjum við ykkur að taka viljann fyrir verkið 😃https://photos.google.com/…/AF1QipM_IcNV…

Næsta ganga er áætluð laugardaginn 18. september og ætlum við að ganga um Gróttu á Seltjarnarnesi. Hlökkum til að sjá sem flesta í þeirri göngu.

Með kærri kveðju, Göngunefndin.

Hvaleyrarvatn – Stórhöfði

Gönguhópurinn. Á myndina vantar hundana Gismo, Úlfu sem vildu miklu frekar hlaupa og leika sér.

20. nóvember 2021 dásamlegur dagur þar sem yndislegt fólk mætti með ferfætlingana sína í göngu í krígum Stórhöfða í Hafnarfirði. Hópurinn var ekki mjög fjölmennur , 12 manns og 7 hundar. Kannski ekki skrítið miðað við ástandið á veiruskrattananum. En það sem við nutum okkur í stórbrotnu landslagi þar sem sólargeislar dönsuðu í kringum okkur og okkar fallegu hunda. Við fórum hægt yfir og gengum í rúman einn og hálfan klukkutíma með góðum stoppum. Fegurðin var þvílík og veðrið lék við okkur öll.

Aldursforseti göngunnar var hin bráðfallega Korka Sól sem mætti með fjölskylduna sína. Hún er að verða 10 ára. Sá yngsti var krúttið hann Tumi aðeins 6 mánaða og mætti einnig með sína fjölskyldu. Allir hundarnir nutu þess að hlaupa um lausir og leika sér við hvern annan. Skemmtilegt að segja frá að það voru einhverjir hundar voru að hlaupa lausir í fyrsta sinn. Auk Korku Sólar og Tuma komu Myrra, Úlfa, Gismo, Afríka og Múlan í gönguna með sitt fólk.

Fleiri myndir má finna hér Ganga um Stórhöfða Hafnarfirði

11. desember 2021: laugardagur kl. 12:00

Jólaganga í Hafnarfirði

Hittumst á bílastæðinu fyrir framan Hafnarfjarðarkirkju og Tónlistarskólann.  Þá förum við í taumgöngu um Hafnarfjörð og endum síðan á því að heimsækja jólaþorpið.  Gaman væri ef sem flestir mættu með jólasveinahúfur eða eitthvað jólalegt, bæði menn og hundar.  Í jólaþorpinu er síðan hægt að fá heitt kakó ef kalt er í veðri.  Allir hundar í taumi, við viljum benda á að flexítaumar eru ekki æskilegir í taumgöngur vegna slysahættu. Munið eftir skítapokunum.

12. febrúar: laugardagur kl. 12:00

Reynisvatn Grafarholti

Við hittumst við Húsasmiðjuna í Grafarholti og ökum í samfloti að Reynisvatni.  Göngum í kringum vatnið og komum við í skemmtilegum lundum. Gengið verður síðan upp á heiðina fyrir ofan vatnið þar sem hægt er að hleypa hundunum lausum.  Munið eftir skítapokum.