Saga og stofnun Cavalierdeildarinnar

Fyrstu cavalierarnir sem komu til Íslands voru tvær tíkur, blenheim og þrílit sem fluttar voru inn frá Danmörku líklega 1978. Þær eignuðust þó enga hvolpa því enginn var hundurinn.
Einangrunarstöð ríkisins var opnuð 1991 en fram að þeim tíma hafði innflutningur hunda verið bannaður frá 1909.
Fyrstu ræktunartíkurnar af cavalierkyni voru fluttar inn sama ár frá Sperringgardens kennel í Svíþjóð af Maríu Tómasdóttur, sem varð fyrsti ræktandi tegundarinnar með ræktunarnafnið Ljúflings. Tíkurnar voru Sperringgardens Charmanta (Tina) og ISCh Brunnsgardens Celeste (Lisa). Þær voru undan sænskfæddum mæðrum með enska forfeður og faðir þeirra var Such Tanmerack Michelangelo innfluttur frá Englandi.
1992 voru tveir ræktunarhundar fluttir inn af Maríu Tómasdóttur og Elsu Haraldsdóttur, þeir ISCh Sperringgardens Chutney (Gorbi) og Sperringgardens Corregidor (Icy). Þeir voru einnig undan sænskfæddum mæðrum með enska forfeður og faðirinn var enskur, Such Tanmerack Chardin. Þessir hundar voru allir blenheim (hvítir og rauðir).
Sperringgardens Chutney (Gorbi) varð fyrsti undaneldishundur tegundarinnar og fjórir af afkvæmum hans urðu ísl. sýningarmeistarar.

Ræktunin hófst 1993 með tveimur gotum undan ofannefndum tíkum. Þá fæddust 12 heilbrigðir hvolpar.
1994 flutti María inn fyrsta þrílita hundinn, Intch Isch Sperringgardens Charolais (Castro) undan Such Sperringgardens Charity og Clarence Fairridge of Homerbrent. Amma hans og afi voru hinir frægu sýningarmeistarar Intch Such Sperringgardens Camie´s Blanche og Intch Such Sperringgardens Cylvester, sem átti óslitna sigurgöngu í sýningarhringnum í mörg ár. Sperringgardens ræktunin var í mörg ár sú sigursælasta og varð besta ræktun ársins (allar tegundir) tvö ár í röð 1985 og 1986.
Fyrsta þrílita gotið leit svo dagsins ljós 1995, ræktandi var Halldóra Friðriksdóttir með ræktunarnafnið Nettu Rósar. Þrjú af afkvæmum Castros náðu ísl.meistaratitli.

1995 var fyrsta einlita parið flutt inn, þ.e. ruby (rauðbrúnn) og black and tan (svartur og rauðbrúnn). Það kom frá Granasil ræktuninni í Englandi og innflytjandi var Finnbogi Gústavsson sem varð fyrsti ræktandinn með þessa liti með ræktunarnafnið Hlínar. Þetta voru þau Granasil Mr Darkstar (Nero) og Granasil Chocolate Ice (Ruby). Þau hafa m.a. annars Harana og Sorata línur bak við sig, en þeir ræktendur eru meðal þeirra virtustu í ræktun á þessum litum. Fyrsta einlita gotið sá svo dagsins ljós 1996.

Cavalierdeildin var formlega stofnuð 14. maí 1995, en þá voru cavalierhundar á Íslandi 39 talsins. Í dag er stofninn líklega komin vel yfir 1000 hunda og er þetta sennilega ein vinsælasta hundategund landsins.

Deildin heldur utan um ræktunina og veitir ræktendum ráðgjöf og fræðslu. Margs konar fræðsluerindi varðandi ræktun og umönnun hundana hafa verið flutt á ársfundum deildarinnar. Deildin stendur einnig fyrir heilbrigðisskoðunum (hné- og hjartaskoðun) og hefur haldið ellefu sérsýningar (deildarsýningar), þar sem dómarar sem hafa sérþekkingu á tegundinni, yfirleitt cavalierræktendur til margra ára, hafa verið fengnir til að dæma. Einnig skipuleggur deildin mánaðarlegar cavaliergöngur, heldur hvolpapartý, sumargrill og aðventukaffi og sér um sýningaþjálfun.

Fyrsta sérsýning deildarinnar var haldin í Reiðhöll Gusts í Kópavogi í september 1997. Leni Louise Nyby frá Svíþjóð (Sperringgardens kennel) dæmdi og voru 47 cavalierar sýndir. Besti hundur tegundar var Isch Ljúflings Gáski Geysir og best af gagnstæðu kyni Isch Ljúflings Annetta.

Næsta sýning deildarinnar var 3. júlí 1999 og dómarinn kom frá Englandi, Fiona Bunce (Tanmerack kennel). Skráðir voru 56 hundar eða rúmlega þriðji hluti stofnsins á þeim tíma. Besti hundur tegundar var Hlínar Aleda og bestur af gagnstæðu kyni Rivermoor Bracken.

Fimm ára afmælissýning cavalierdeildarinnar var haldin í maí 2000. Dómarinn kom frá Englandi, einn af þekktustu ræktendum tegundarinnar, Molly Coaker (Homerbrent kennel). 58 cavalierar voru sýndir og einnig var keppni fyrir unga sýnendur. Besti hundur tegundar var Intch Isch Nettu Rósar Sandra og bestur af gagnstæðu kyni Ljúflings Goði. Besti öldungur var Isch Brunnsgardens Celeste. Besti ungi sýnandi var Svava Arnórsdóttir.

Næsta deildarsýning var í ágúst 2003. Dómari var Anne Reddaway frá Englandi (Homeranne kennel). 67 hundar voru skráðir til leiks. Besti hundur tegundar var Drauma Ída og bestur af gagnstæðu kyni var Drauma Ib.

10 ára afmæli sínu fagnaði deildin með tveimur glæsilegum sýningum helgina 7. og 8. ágúst 2005. 105 cavalierar voru skráðir á laugardag. Dómari var Dr. Annukka Paloheimo frá Finnlandi (ræktunarnafn Anncourt). Besti hundur tegundar var Isch Drauma Vera og af gagnstæðu kyni Isch Leelyn City boy.
94 cavalierar voru skráðir til keppni á sunnudeginum. Dómari var Marja Kurrittu (Marjaniemen kennel) einnig frá Finnlandi og urðu sigurvegararnir frá deginum áður aftur í toppsætunum, þ.e. Isch Drauma Vera og Isch Leelyn City Boy.

Öðrum tegundum í tegundahópi 9 var boðin þátttaka á sunnudeginum og voru 132 hundar skráðir. Besta þáttakan var hjá Chihuahuadeildinni því 82 af þeirri tegund mættu til leiks. Dómarinn Francesco Cochetti frá Ítalíu dæmdi Chihuahua og Poodle, en Annukka Paloheimo hinar tegundirnar. Besti hundur sýningar varð svo Isch Drauma Vera, sem fór heim hlaðin blómum og bikurum.

Í janúar 2008 var deildin með sýningu ásamt nokkrum öðrum deildum, Smáhundadeild, Papillon og Tíbetspanieldeild. Caroline Ackroyd Gibson (Toraylac kennel) frá Bretlandi dæmdi cavalierana sem voru 92, en Kitty Sjong dæmdi hinar tegundirnar. Besti hundur tegundar var Drauma Abraham og best af gagnstæðu kyni Sperringgardens Celeesa. Drauma Abraham varð svo besti hundur sýningar í 2. sæti varð franskur bulldog, 3. sæti Papillon og í 4. sæti Tíbet spaniel.

Í mars 2011 var deildarsýning cavalierdeildarinnar, í samvinnu við Schnauzer- og Am.Cocker spaniel deildirnar, haldin í Garðheimum. Dómari var Gisa Schicker frá Þýzkalandi. 51 cavalier var skráður og sigurvegari varð ISCh Drauma Karri og best af gagnstæðu kyni Sandasels Kvika.

Í apríl 2013 var deildin með sérsýningu hjá Gæludýrum á Korputorgi. Dómari var Norma Inglis frá Englandi ( Craigowl kennel), mjög vel þekktur dómari og ræktandi og var 81 cavalier sýndur. Nýbreytni var að einnig var valinn besti ungliði og besti hundur í hverjum lit. Besti hundur tegundar var ISCh Ljúflings Dýri og best af gagnstæðu kyni Ljúflings Czabrina, besti ungliði var Loranka´s Edge Of Glory. Besti black and tan var Eldlilju Ugla, besti ruby Ljúflings Czabrina, besti þríliti Kolbeinsstaðar Teista Dimma og besti blenheim ISCh Ljúflings Dýri.

20 ára afmælishátíðarsýning deildarinnar fór fram 13. júní 2015 á Korputorgi. Dómari var Veronica Hull frá Englandi en hún hefur ræktað cavaliera undir nafninu Telvara í rúm 40 ár og hefur dæmt tegundina á Crufts. 77 cavalierar voru skráðir til leiks.
Hvolpar frá 3ja mánaða aldri tóku þátt, einnig voru litadómar og besti ungliði sýningar valinn. Auk þess var brugðið á leik og besta parið valið og glaðasti hundurinn. Glæsilegar rósettur voru fyrir öll vinningsætin. Númer hvers hunds var einnig happdrættismiði en deildinni bárust góðar gjafir sem dregið var um í lok sýningar. Besti hundur sýningar var Ljúflings Kiljan og best af gagnstæðu kyni ISCh Ljúflings Hetja. Junior winner var einnig Ljúflings Kiljan. Besti black and tan var Drauma Mugison, besti ruby Atti´s Kisses From Happy, besti þríliti Eldlukku Þula og besti blenheim ISCh Ljúflings Hetja. Besta parið var Hlínar Sarah Jessica Parker og Hlínar India og glaðasti hundurinn Hlínar Asia Noom.

22. apríl 2017 fór fram 11. sérsýning deildarinnar á Korputorgi. 48 cavalierar voru skráðir. Dómari var Svein Erik Björnes frá Danmörku, sem kom með litlum fyrirvara í forföllum Söru Nordin frá Svíþjóð (Cavamirs-kennel). Í úrslitum sýningar voru valdir 4 hundar, auk BOB og BOS. Deildin gaf glæsilegar rósettur fyrir öll vinningssætin. BOB og BIS var ISJCh Magic Charm´s Artic og BOS og BIS2 var Skutuls Aþena, BIS3 var Kvadriga´s Surprise og BIS4 var Drauma Lay Low sem einnig var besti öldungur.