Vinsamlegast hafðu samband við Ræktunarstjórn hafir þú áhuga á að fá upplýsingar varðandi ræktun cavalierdeildinhrfi@gmail.com

Ræktunarmarkmið
Heildarsvipur: Fjörmikill og þokkafullur hundur, sem samsvarar sér vel. Svipur blíðlegur.
Einkenni: Hugaður, vinalegur og alls óttalaus.
Lund: Kátur og vingjarnlegur. Laus við árásargirni eða tilhneigingu til að vera óöruggur.
Haus og hauskúpa: Hauskúpa nánast flöt milli eyrna, brúnavik grunnt. Bil milli ennis og nasaumgjarðar á að vera u.þ.b. 4 cm. Nasaumgjörð svört og kröftugleg án húðlitaðra bletta. Trýni strýtulaga. Varir vel greinilegar en mega ekki lafa. Andlit vel holdfyllt neðan augna og óæskilegt að það sé mjóslegið.
Augu: Stór, dökk og kringlótt en ekki útstæð. Gott bil milli augna.
Eyru: Löng, hásett og vel loðin.
Munnur: Kjálkar sterklegir með jöfnu, lýtalausu og fullkomnu skærabiti, þ.e. tennur í efri kjálka skari þétt tennur í neðri kjálka og séu réttar og reglulegar.
Háls: Meðallangur og aðeins hvelfdur.
Framhluti: Brjóstkassi meðalstór og bógur vel hallandi. Fætur beinir og beinabygging í meðallagi.
Bolur: Stuttur með vel hvelfdu rifjahylki og láréttri yfirlínu.
Afturhluti: Beinabygging afturfóta í meðallagi og hnjáliðir vel vinklaðir. Engin merki mega vera um að hundurinn sé hjólfættur eða kiðgengur.
Loppur: Þéttar, þykkar og hárafanir nægilegar.
Skott: Skottlengd á að vera í jafnvægi við skrokkinn, vel ásett og sýnir merki gleði. Má ekki sperrast mikið hærra en yfirlína baks. Skottstýfing valfrjáls, en ekki má þó stýfa meira en þriðjung lengdar.
(Ath. skottstýfing er bönnuð á Íslandi)
Hreyfing: Hreyfing á að vera frjálsleg og einkennast af tíguleika. Viðspyrna afturfóta góð. Fram- og afturfótahreyfingar skulu vera samsíða séð framan frá og aftan.
Feldur: Langur og silkikenndur og laus við krullur. Smáliðir í feldi teljast þó vera leyfilegir. Hárafanir miklar. Engin merki mega sjást um að feldur hafi verið klipptur.
Litir: Leyfilegir litir eru:
“Black and tan “- svartur og rauðbrúnn: Hrafnsvartur með rauðbrúnum blettum fyrir ofan augu, á kjömmum, innanverðum eyrnablöðkum, á bringu, leggjum og á neðanverðu skotti. Rauðbrúni liturinn á að vera skær. Hvítir blettir óæskilegir.
“Ruby” – rúbínrauður: Einlitur djúprauður. Hvítir blettir óæskilegir.
“Blenheim” Perluhvítur aðallitur með vel afmörkuðum kastaníubrúnum flekkjum. Flekkirnir eiga að skiptast jafnt á haus en mikilvægt er að nægjanlegt rými sé á milli eyrna fyrir hinn eftirsóknarverða, tígullaga blett eða díl, sem er einstakt auðkenni fyrir kynið.
”Tricolour” – þrílitur: Svartur og hvítur litur, greinilega aðskildir, en rauðbrúnir blettir fyrir ofan augu, á kjömmum, innanverðum eyrnablöðkum, innanvert á leggjum og á neðanverðu skotti.
Öll önnur litaafbrigði teljast mjög óæskileg. Þyngd og stærð Þyngd skal vera á bilinu 5.5 – 8.2 kg. Æskilegast er lítill hundur, sem samsvarar sér vel og er vel innan þyngdarmarkanna.
Gallar: Öll frávik frá ofangreindri lýsingu skal líta á sem galla, en hversu alvarlegur gallinn er, skal dæmast í réttu hlutfalli við frávikið frá því sem telst vera rétt.
Helga Finnsdóttir þýddi í ágúst 1997
Þýðing samþykkt með smábreytingum á aðalfundi 1998.