Langar þig í hvolp?

Langar þig í hvolp?

Hefur þú það sem þarf til að halda hvolp?

Fátt er krúttlegra en lítill hvolpur sem hleypur og hamast og sofnar svo þreyttur og öruggur í fangi þínu. Kúrir hjá þér og fjölskyldunni, svo lítill og mjúkur.

Hvolpar fæðast alveg háðir næringu og hlýju frá móður sinni, einnig sér móðirin um að örva litla hvolpinn til að losa sig við úrgang og halda honum hreinum.

Eftir því sem hvolpurinn eldist öðlast hann meira sjálfstæði og um þriggja vikna aldur getur hann haldið á sér hita og séð um að gera stykkin sín þó hann þurfi eðlilega hjálp við hreinlætið.

Áfram er þó hvolpurinn háður næringu frá móður sinni og svo þegar hann eldist og fer frá henni er hann háður næringu/fóðri frá þér, eiganda sínum.

Hvolpur sefur mikið fyrstu vikurnar og mánuðina af því hann stækkar svo hratt. Svo kemur að því og þá gjarnan um 3-7 mánaða aldur að hann þarf meiri athygli frá eiganda sínum og þá þarf hann einnig að læra mjög margt sem snýr að mönnum, hvað má, hvað má ekki og þá sérstaklega hvernig á að verða húshreinn.

Það krefst mikillar þolinmæði að kenna hvolpi að gera stykkin sín úti og þarf eigandinn eða fjölskyldan öll að taka þátt og vera samstíga ef vel á að takast til. Þá þarf að hafa snarar hendur og fara út með hvolpinum í hvaða veðri sem er og á hvaða tíma sem er.

Hvolpurinn gerir stykkin sín þar sem honum er mál og gerir ekki greinarmun á handofinni tyrkneskri ullarmottu eða gólfdúknum í þvottahúsinu.

Best er ef hvolpurinn hefur aðgang að afgirtum garði en hann þarf þó alltaf að vera undir eftirliti á meðan hann er úti því honum verður mjög fljótt kalt og þar geta leynst margar hættur.

Litlir hvolpar eru eins og lítil börn og taka nýjar tennur þegar mjólkurtennurnar fara. Hvolpana klæjar þá mikið í góminn og þurfa að hafa eitthvað til að naga, sumir naga mikið alla ævi. Þá þarf hvolpurinn að hafa aðgang að nagbeini og dóti. Sumir gera hreinan greinarmun á skótaui og naga bara uppáhaldsskóna þína hvort sem þeir eru Nike, Prada eða fínu gúmmístígvélin hennar ömmu.

Hvolpurinn getur ekki verið lengi einn og hann verður fljótt mjög háður þér og fjölskyldu þinni. Hann vill vera með þér alltaf en getur þó vanist því að bíða einn í nokkra tíma öruggur inni á sínu svæði, en aðeins stutt til að byrja með og svo má smá lengja tímann. Öruggt svæði er þar sem hvolpurinn getur ekki farið sér að voða. Kemst ekki í rafmagnssnúrur eða annað sem getur reynst honum hættulegt. Eiturefni geta leynst víða og munið hann nagar allt!

Þegar litla dýrið þitt stækkar, sem gerist svo ótrúlega hratt, lærir hann smám saman þínar reglur og venjur og oftast gengur vel en þó ekki alltaf og undantekningarnar er gott að hafa í huga þegar þú hugsar um að fá þér hvolp.

 Ertu tilbúin/n í uppeldið?

Mikilvægt er einnig að huga að pössun fyrir hvolpin ef þig langar í frí, helgarferð með saumó eða sólarlandaferð með fjölskyldunni.

Hver hefur aðstöðu og tíma til að passa litla dýrmæta hvolpinn þinn?

Flest allir fjölskyldumeðlimir elska hvolpa og lofa því að þeir munu alltaf passa fyrir þig þennan mjúka krúttböggul. En hvað gerist svo þegar krúttið stækkar og fer með þér í heimsóknir, hefur hann verið húsvaninn og lært hvað má og hvað ekki.

Uppeldið fyrsta árið er grunnurinn að velheppnuðum samverustundum næstu árin.

Flestir ræktendur mæla með að farið sé með hvolpinn og aðra fjölskyldumeðlimi á hvolpanámskeið. Þar lærið þið undirstöðuatriðin við uppeldið og fáið góð ráð.

Rannsóknir hafa sýnt að gæludýr hjálpa fólki á svo ótrúlega marga vegu. Það er hollt og heilbrigt bæði fyrir líkama og sál að fara út að ganga með hund. Hundar hafa sannað sig við meðferð og stuðning við fólk sem glímir við ótrúlegustu sjúkdóma. Börn fá aukið sjálfstraust við lestur fyrir hunda og allskonar sjúkrameðferðir hafa verið þróaðar með hundum.

Bara það að hafa einhvern til að tala við og hugsa um er mannbætandi.

Það er dásamleg upplifun að fá Cavalier í fjölskylduna og enn meira gaman þegar uppeldið tekst vel.

Ef þú ákveður að Cavalier verði þinn næsti félagi máttu vera viss um jákvæð áhrif á líf þitt næstu 10-14 árin. Cavalier er kátur og einlægur vinur sem elskar fólkið sitt takmarkalaust til æviloka.

Nánari upplýsingar má fá hjá cavalier deildinni endilega sendið okkur línu.