Tegundin

Uppruni og saga

Heimaland Cavalier King Charles spaniel er England en almennt er talið að hann eigi ættir sínar að rekja til Kína eða Japan. Ýmsar skriflegar heimildir eru til um dvergspaniel, eins og hann var nefndur þá, allt frá 13. öld en þá er talið að hann hafi borist frá Kína til Ítalíu á þeim tíma þegar lífleg viðskipti áttu sér stað milli landanna.

Frá Ítalíu hefur hann líklega borist til annarra Evrópulanda. Víst er að hann var mjög ástsæll við hinar konunglegu hirðir Evrópu á 15. og 16. öld. Var hann vel þekktur í Frakklandi og á Ítalíu áður en hann barst til Englands á 16. öld. Eldri frásagnir eru þó til af komu hans til Englands.  Sagt er að á 13. öld hafi einn af hinum konunglegu riddurum krossfaranna, Fitz Ralph, flutt nokkra slíka með sér frá fiskiþorpi á Ítalíu til heimilis síns í Essex. Sumir telja þó að uppruna dvergspaniels megi rekja til landafundatíma og að Portúgalir hafi flutt hann til Spánar frá Kína eða Tíbet og þaðan hafi hann borist til Bretlands.

Dvergspaniel hundar sjást fyrst á málverki Tizians af hertogaynjunni af Urbino á 15. öld og í Louvre má sjá á fögru gobelin teppi frá 14. öld, lítinn cavalier í forgrunni. Á ensku málverki sjást þeir fyrst árið 1554 er Antonio Moro málaði brúðkaupsmynd af Maríu I Bretadrottningu og Philippi II af Spáni með nokkra dvergspaniel hunda við fætur sér. Mörg önnur málverk stóru meistaranna frá 16.-18. öld sýna vel útlit cavaliers þess tíma. Öll sýna þau lítinn hund með “langt” nef, flatt höfuð, háttsett síð, eyru, liðaðan feld og líflegt skott.

Lagðist milli bols og höfuðs
Ýmsar heimildir eru til um uppruna þessara hunda á Englandi.  Anna af Kleve, fjórða eiginkona Hinriks VIII, flutti dvergspaniel með sér til Englands frá Hollandi 1540. Hinrik VIII setti lög um að allir hundar skyldu bannaðir við hirðina nema litlir spanielhundar fyrir hirðdömurnar. Sagt er að Elísabet I Englandsdrottning hafi geymt einn slíkan innanklæða veturlangt til að halda á sér hita. Líflæknir Elísavetar I. Dr. Joh.Caius, taldi þá hafa lækningamátt og þeir gætu linað þrautir, sérstaklega magakvalir – nefndi hann þá “comforters” og gengu þeir oft undir því nafni.  Frægust er þó líklega sagan um Maríu Stuart, Skotlandsdrottningu en hund af dvergspanielkyni hafði hún innanklæða er hún var hálshöggvin 1587. Vildi hann ekki yfirgefa fóstru sína og lagðist á milli bols og höfuðs eftir aftökuna. Þessi tryggi vinur var talinn einn af þeim hundum sem hún hafði haft með sér frá Frakklandi er hún sneri þaðan sem Skotlandsdrottning.

Draga nafn sitt af Karli II
Karl I hélt mikið upp á þessa hunda og átti hann m.a. einn sem hét Rouge (Rauður) og var hann við hlið konungs er hann var hálshöggvinn 1648. Það var þó á ríkisstjórnarárum Karls II Bretakonungs á árunum 1660 – 1685 sem dvergspaniel náði mestum vinsældum. Voru þeir í miklu uppáhaldi hjá konunginum og var hann umkringdur þeim hvert sem hann fór. Hundarnir draga nafn sitt, King Charles spaniel, af Karli II. Sagt er að hann hafi veitt þeim ýmis forréttindi og að þeir hafi haft ótakmarkaðan aðgang að öllum stöðum ríkisins, þ.á.m. Whitehall, Hampton Court og þinghúsinu. Þeir voru í flokkum í hirðsölum og svefnherbergjum og þótti því ýmsum nóg um, því hreinlætinu var ekki fyrir að fara á þessum tímum. Maður getur ímyndað sér flokk af forugum cavalierum stökkva upp í satínsófana, sem prúðbúið fólkið sat í en enginn mátti amast við þeim.

Ýmsum þótti konungurinn sinna hundum sínum um of á kostnað starfa sinna við ríksráðið og eru skriflegar heimildir til um það. Uppáhalds hund sinn hafði hann með sér á ríkisráðsfundi og Rochester lávarður ritaði að hann sæti þar jafn stilltur og gáfulegur og hinir “lávarðarnir”!.

Bjargið hundunum
James II bróðir Karls, tók einnig ástfóstri við tegundina og sagt er að þegar hann varð skipreka við skosku ströndina og þurfti að yfirgefa skip sitt hafi hann kallað “ Bjargið hundunum” en áttaði sig síðan og bætti við “og Colonel Churchill”.
Til allrar hamingju var Col. Churchill bjargað því hann varð síðar 1. hertoginn af Marlborough og ræktaði sinn eigin stofn af King Charles hundum – blenheim litaafbrigðið (hvítir og rauðir), en talið er að flestir hundar Karls II hafi verið black and tan (svartir og brúnir). Skemmtileg saga er til af Söru hertogaynju af Marlborough er hún beið spennt frétta af bardaganum mikla við Blenheim. Sagt er að hún hafi ómeðvitað stöðugt þrýst þumalfingri á höfuð hvolpafullrar tíkar sinnar. Er fréttin um hinn mikla sigur barst fæddust fimm litlir hvolpar, allir með rauðan blett á miðju höfði eftir þumalfingur hennar. Þessi blettur varð þekktur sem “ the blenheim spot” (blenheim bletturinn) og þykir mjög eftirsóknarverður á blenheim hundum í dag.

Urðu vinsælir meðal almennings
Fall Stuartanna varð einnig fall King Charles hunda við hirðina og þeir fóru úr tísku en urðu vinsælir meðal almennings. Viktoría drottning átti þó einn, sem hét Dash (þrílitur), 1838 um það leyti sem hún var krýnd og sagan segir að hún hafi þurft að flýta sér heim eftir krýninguna til að baða Dash. Á seinni hluta 19. aldar byrjuðu ræktendur að sýna hunda á hundasýningum og var þá útliti hundsins markvisst breytt og fékk hann þá útlit austurlenskra hunda sem voru mjög í tísku um þær mundir. Sá hundur varðveittist og heitir King Charles spaniel í dag. Hann er minni en cavalier með mjög stutt trýni, mjög síð lágsett eyru og hvelft höfuð.

Blenheim hundarnir sem ræktaðir voru af Marlborough ættinni á Blenheim setrinu voru þekktir fyrir frábæra veiðieiginleika sína og einnig sem gæluhundar fjölskyldunnar. Enn í dag sýna margir cavalierar mikla veiðináttúru, gott þefskyn og dugnað við að finna og fæla upp fugla.

Í lok 19. aldar var upprunalegi King Charles hundurinn nánast horfinn í Englandi, að undanskildum Marlborough hundunum en þeir voru þá taldir sérstök tegund því þeir voru heldur stærri og háfættari. Árið 1926 er upprunalegi hundurinn hafinn til vegs og virðingar fyrir atbeina Roswell Eldridge frá New York sem veitti vegleg verðlaun á Crufts í 5 ár fyrir besta hund og tík af upprunalegu gerðinni. Árið 1928 var stofnaður Cavalier King Charles spaniel klúbbur á Englandi. Ann´s Son, ættfaðir flestra cavalier hunda dagsins í dag varð fyrirmynd tegundarinnar og er ræktunarmarkmiðið (standardinn) skrifaður eftir útliti hans en King Charles og cavalier King Charles töldust þó sama tegundin þar til eftir stríð. Cavalierinn er nú meðal alvinsælustu hundategunda í mörgum löndum meðan frændi hans King Charles telst frekar sjaldgæf hundategund.

Góður fjölskylduhundur
Cavalier er einstaklega hentugur fjölskylduhundur. Hann þarf enga klippingu (klipping er reyndar bönnuð á sýningarhundum), aðeins daglega burstun og bað mánaðarlega. Hann er af mjög þægilegri stærð, harðger, mjög félagslyndur og barnelskur. Hann er glaðvær, skynsamur, einkar geðgóður og geltir yfirleitt minna en flestar aðrar smáhundategundir. Hann þarf meðalhreyfingu en sættir sig við það sem eigandinn býður honum. Hann elskar þó útivist, daglega göngutúra og að fá að hlaupa laus. Nauðsynlegt er fyrir cavaliereigendur að hafa lokaðan garð því ekki er hægt að treysta því að hundurinn fari ekki burt hafi hann tækifæri til.  Aldrei ætti að binda cavalier úti í garði, hann hefur enga ánægju af þesskonar útivist auk þess sem það er varasamt af öðrum ástæðum – garðurinn á að vera lokaður, svo hundurinn sé öruggur. Allt of margir cavalierar hafa orðið undir bíl vegna kæruleysis eigenda.

Cavalierinn er stærstur smáhundanna, yfirleitt 6 til 10 kg – en ræktunarmarkmiðið er 5.5 til 8.2 kg. Fjórir litir eru leyfðir, blenheim (hvítur og rauður), þrílitur (hvítur með svörtum flekkjum, brúnt yfir augum, á kinnum, innan á eyrum og undir skotti), black and tan (svartur og rauðbrúnn) og ruby, einlitur rauður.

Fyrstu cavalierarnir sem fluttir voru inn til ræktunar voru tvær blenheim tíkur sem komu til landsins 1991 frá Svíþjóð, þær voru undan sænsk fæddum mæðrum en að öðru leyti með enska forfeður. Tveir blenheim hundar komu ári síðar, einnig frá Svíþjóð. 1993 var fluttur inn fyrsti þríliti hundurinn og 1995 fyrsta parið af ruby og black and tan. Fyrsta cavaliergotið á Íslandi sá dagsins ljós 17. apríl 1993. Fyrsti ræktandinn var María Tómasdóttir með Ljúflings ræktun en í dag eru yfir 20 ræktendur skráðir með ræktunarnöfn. Rúmlega 500 cavalierhundar eru til á landinu í dag.

Höfundur texta: María Tómasdóttir 

(Greinin var fyrst birt í Sámi í júlí 1997 en endurskoðuð í september 2005.)

Heimildir:
Cavalier King Charles spaniel – Birgitta Östergren
Cavalier King Charles spaniel – Beverly Cuddy
Cavalier King Charles spaniel – Mary Forwood
All about the Cavalier King Ch.spaniel – Evelyn Booth
Royal Toy spaniels – Alicia Pennington