Helgina 26.-27. nóvember fór fram síðasta sýning ársins sem kölluð er Winter Wonderland og er bæði NKU Norðurlanda- og Crufts Qualification sýning. 54 cavalier hundar voru skráðir til leiks á laugardeginum (13 hvolpar, 21 rakki og 20 tíkur) en 7 mættu ekki. Dómari var Anne Tove Strande frá Noregi. Deildin gaf eignarbikara fyrir besta ungliða, bestu tík og besta rakka og Þórshamrar ræktun gaf bikar og medalíur fyrir hvolpa.
Í ljósi nýlegra atburða hjá vinum okkar í Noregi vildi deildin sýna samhug og báru sýnendur cavalier hunda, auk starfsfólks og fleiri sem vildu, barmnælur með norska og íslenska fánanum. Þetta vakti athygli og hafa ræktendur í Noregi lýst því yfir hvað þeim þótti vænt um þetta framtak.

Ljósmyndari: Hörður Vilhjálmsson
Besti hundur tegundar var Eldlukku Ljúfi Bruno sem er aðeins ársgamall og því aldeilis glæsilegur árangur hjá svona ungum hundi. Bruno varð einnig besti ungliði, fékk sitt annað ungliðameistarastig og titillinn ungliðameistari því í höfn. Hann fékk líka íslenskt meistarastig og norðurlandameistarastig auk þess sem HRFÍ hafði kynnt nýja titla fyrir þessa sýningu, þ.e. Ísland Winner. Sá titill er veittur bestu tík og besta rakka, bestu ungliðatík og -rakka og bestu öldungatík og -rakka. Bruno hlaut því tvo titla á þessari sýningu; ISJW-22 og ISW-22.
Best af gagnstæðu kyni var ISCh Eldlukku Frán Þulu Lukka með norðurlandameistarastig, auk titilsins ISW-22. Bæði hlutu þau svo einnig Crufts Qualification.
Besta ungliðatík var Litlu Giljár Blær sem hlaut sitt annað ungliðameistarastig og er þar með orðin ungliðameistari. Hún varð einnig önnur besta tík með íslenskt meistarastig og titilinn ISJW-22. Deildin eignaðist því tvo nýja ungliðameistara á þessari sýningu og við fögnum því svo sannarlega.
Besti hvolpur 4-6 mánaða var Eldlukku Vigrar Astró og besti hvolpur 6-9 mánaða Snjallar Silfraða Sylgja. Besti öldungur var Eldlukku Ögri.
Þrír ræktunarhópar voru skráðir og besti ræktunarhópur tegundar var frá Eldlukku ræktun.
Nánari úrslit voru eftirfarandi:
Lesa áfram Winter Wonderland sýning 26. nóvember 2022