Reglur og eyðublöð

Reglur um einstök hundakyn:

CAVALIER KING CHARLES SPANIEL

Ræktandi ber alla ábyrgð á að kynna sér reglur deildarinnar um heilbrigðisskoðanir áður en parað er.

Hjartavottorð, augnvottorð, hnéskeljavottorð og DNA (sjá nánar neðar) þarf að taka fyrir pörun og framvísa þeim þegar sótt er um ættbókarskráningu fyrir hvolpana.

Mælst er til að tíkareigandi hafi samband við eiganda undaneldishunds með góðum fyrirvara vegna augnskoðana og annarra vottorða.


Augnvottorð: Vottorð má ekki vera eldra en 25 mánaða við pörun.
Ekki skal rækta undan hundum, sem greinast með eftirtalda augnsjúkdóma: Starblindu (Juvenile cataract), meðfædda starblindu (Microphtahlmia cataract), arfgenga starblindu (Hereditary cataract), Retinal Dysplasia geographic/detachted. Sé hundur með einhvern af ofangreindum augnsjúkdómum fást hvolpar undan honum ekki ættbókarfærðir.

Dagatal augnskoðunar HRFÍ


Hjartavottorð: Lágmarksaldur undaneldisdýra er 2 ½ ár og skulu hjartavottorð tekin eftir að þeim aldri er náð (gildir frá 06.10.17). Undaneldisdýrin skulu vera án hjartamurrs og vottorðin tekin fyrir pörun.
Vottorð hunda yngri en 5 ára gildir í 6 mánuði en vottorð tekin eftir 5 ára aldur gilda í 1 ár. Hunda sem hafa hreint hjartavottorð tekið eftir 6 ára aldur, má nota áfram þó þeir greinist með murr síðar. Vottorð tekið eftir 7 ára aldur gildir ævilangt. Afkvæmi hunda sem greinast með murr fyrir 4ra ára aldur fara í ræktunarbann. Til að vottorð sé gilt þarf að nota eyðublöð frá HRFÍ. Hjartavottorð þarf að fylgja ættbókarskráningu og niðurstaða kunn fyrir pörun. Einungis eru tekin gild vottorð fagdýralækna sem hlotið hafa þjálfun í að greina hjartamurr hjá hjartasérfræðingi. (Gildir frá 1.6.2015)

Hnéskeljavottorð: Undaneldisdýr skulu hafa gilt hnéskeljavottorð ( gildir frá 1. apríl 2021). Sú skoðun fer fram um leið og hjartaskoðun. Vottorð gefið út fyrir ræktunardýr undir tveggja ára aldri gildir í eitt ár, vottorð tveggja ára ræktunardýrs gildir ævilangt.

Eftirtaldir dýralæknar hafa hlotið þjálfun hjá Dr. Clarence Kvart, hjartasérfræðingi frá Svíþjóð.

Helga Finnsdóttir, Dýralækningastofunni Skipasundi 15, Reykjavík.
Lísa Bjarnadóttir og Ólöf Loftsdóttir, Dýraspítalanum Víðidal.
Steinunn Geirsdóttir, Dýralæknamiðstöðinni, Grafarholti.
Hanna M.Arnórsdóttir, Dýralæknastofan Garðabæ
.

Fékk þjálfun hjá Universitet djursjukhuset Ultuna í Svíþjóð.

Hjörtur Magnason, Dýralæknastofan Egilsstöðum.


Niðurstaða DNA prófa vegna Episodic Falling og Curly Coat

Niðurstaða skal vera ljós fyrir pörun. Arfbera má para með fríum einstaklingi. Ræktunarbann er á hunda sem greinast með annan eða báða sjúkdómana. Ef báðir foreldrar undaneldishunda eru fríir þarf ekki að DNA prófa afkvæmi þeirra (nóv. 2011) en frá og með 1. apríl 2021 þarf að DNA prófa aðra hvora kynslóð.

Sýnataka skal fara fram hjá dýralækni.

Hér linkur á Labogen.

Hér má sjá niðurstöður vegna DNA prófa.

Félagsmanni í HRFÍ ber að:

  1. Nota hunda af sömu tegund til ræktunar og einungis hunda sem eru ættbókarfærðir hjá HRFÍ eða öðru félagi sem HRFÍ viðurkennir ættbækur frá. Ræktun, kaup og sala á óættbókarfærðum hundum er bönnuð.
  2. Stunda ræktun af alvöru og ábyrgð og láta í té réttar og nákvæmar upplýsingar um hunda sína og ræktunarstarf. Vera trúr ræktunarstefnu HRFÍ og vera vel að sér um það ræktunarmarkmið sem gildir fyrir viðkomandi kyn og ef því er að skipta, ákvæði varðandi vinnu- eða veiðipróf, sem í gildi eru fyrir það hundakyn sem hann ræktar.
  3. Ávallt bera heilsu og vellíðan ræktunardýra og afkvæma þeirra fyrir brjósti. Nota aðeins til ræktunar hunda, sem eru bæði líkamlega og andlega heilbrigðir og hafa gott geðslag sem er einkennandi fyrir viðkomandi kyn. Ekki skyldi nota hund sem sýnir hegðunarbresti svo sem ýkt hræðsluviðbrögð eða árásarhegðun án tilefnis og við hversdaglegar aðstæður.
  4. Fara eftir gildandi reglum um erfðasjúkdóma sem forðast þarf í ræktun sbr. reglur um skráningu í ættbók HRFÍ og forðast pörun dýra sem skv. fyrirliggjandi upplýsingum gefa auknar líkur á alvarlegum sjúkdómi/fötlun afkvæma. Ekki skyldi endurtaka pörun þar sem fæðst hafa hvolpar með alvarlegan galla.
    Ekki nota ræktunardýr sem haldin eru víkjandi arfgengum sjúkdómi og einungis nota bera fyrir víkjandi arfgengum sjúkdómum ef þeir eru paraðir við einstaklinga sem sannanlega bera ekki sama sjúkdóm, svo fremi það stangast ekki á við ræktunarmarkmið eða reglur félagsins.

Hjartavottorð gilda í 6 mánuði en 1 ár eftir að hreint 5 ára vottorð er tekið.

Athugið að foreldrar undaneldisdýra þurfa einnig að hafa haft heilbrigt hjarta við 4ra ára aldur, sjá hjartalista á síðu deildarinnar

Greinist hundur sem notaður hefur verið til undaneldis með murr fyrir 4ra ára aldur fara öll afkvæmi hans í ræktunarbann

Athugið að um leið og tík/rakki eru notuð til undaneldis hvílir sú skylda á ræktanda og eiganda undaneldishunds að taka hjartavottorð við 4ra ára aldur(vegna mögulegs undaneldis afkvæmanna) og síðan árlega eftir  (gott að miða við afmælisdag) þar til ræktunardýrin greinast með murr.

Þetta er nauðsynlegt til að meta ræktunarhæfi afkomenda.

Ræktandi skal ítreka slíkt við eiganda þess undaneldishunds sem hann velur, því sumir eigendur rakka fylgjast ekki nógu vel með ræktunarreglum deildarinnar. Hundar gætu verið með nýrri vottorð en kemur fram á rakkalista.

Hjartavottorð er best að taka sem næst þeim tíma sem parað er.

Samkvæmt ráðleggingum erfðafræðinga skal ekki para skyldara en 6% og helst vel innan þeirra marka.

Athugið að það er alfarið ákvörðun rakkaeigenda hvort þeir lána rakka sína í hverju tilfelli fyrir sig.

Öll eyðublöð HRFÍ er að finna hér: www.hrfi.is/eyublöð

Ræktunarreglur HRFÍ: www.hrfi.is/ræktunarreglur