Lausleg þýðing Maríu Tómasdóttur úr enskri grein. (2006)
EF í Cavalier King Charles spaniel.
Episodic Falling eða Hypertonicity er sjúkdómur sem hefur komið upp öðru hvoru í cavalierhundum a.m.k. s.l. 30 ár og virðist vera orðinn algengari í dag en áður, en mögulegt er þó að áður fyrr og jafnvel enn í dag sé hann rangt greindur. Margir dýralæknar greina EF sem flogaveiki og í vægustu tilfellum átta jafnvel eigendur hundanna sig ekki á því að eitthvað sé að hundinum.
EF er ólíkt flogaveiki að því leyti að hundurinn missir ekki meðvitund og ekki þvag eða saur og öll líkamsstarfsemi virðist eðlileg, þrátt fyrir mismunandi mikla krampa. Kramparnir koma aðallega við og/eða eftir áreynslu eða æsing. Vöðvarnir herpast og virðast ekki geta slaknað aftur fyrr en eftir dágóða stund.
Einstaka sinnum virðist hundur þó fá krampa án nokkurrar ástæðu, en þá er EF á alvarlegra stigi. EF virðist hafa mismunandi einkenni, sem er ekki auðvelt að lýsa. Hver hundur virðist hafa sín “séreinkenni”. Tíðni og/eða alvarleiki sjúkdómsins getur aukist, minnkað eða breyst með tímanum. EF getur staðið í augnablik (þ.e. hundurinn “frýs”) eða í mjög langan tíma. Í einstaka tilfellum kemst hundurinn ekki út úr kastinu og deyr.
Ef cavalier fær eitt kast, þó vægt sé, má gera ráð fyrir að hann sé með EF.
Venjulega koma fyrstu einkenni í ljós við 5 mán. aldur, geta þó komið á hvaða aldri sem er, en algengast þó frá 15 vikna til 5 mánaða. Útiloka þarf að um einhvern annan sjúkdóm sé að ræða. Blóðprufur og aðrar skoðanir hafa ekki leitt neitt óeðlilegt í ljós, ekki heldur í þeim tilfellum sem hundar hafa dáið og verið krufðir.
EF kast getur verið eitthvað líkt þessu – eitt eða fleiri einkenni geta verið til staðar:
- Hundur “frýs” augnablik.
- “Frýs” eða gengur með höfuðið niður og aðeins hallandi til annarrar hliðar.
- Stífleiki í afturfótum.
- Samhæfingu vantar milli aftur- og framfóta.
- Kanínuhopp.
- Uppsveigður hryggur (kengúrubak) með stífum afturfótum.
- Missir tímabundið vald yfir afturfótum.
- Missir jafnvægið og getur ekki staðið upp aftur, veltur á hliðina.
- Liggur á hliðinni með afturfætur stífa, teygða og titrandi.
- Spasmi.
- Framfætur stífna og sveigjast upp og jafnvel yfir höfuð.
- Munnvöðvar og aðrir andlitsvöðvar herpast, kjafturinn samanklemmdur.
- Augun þrútna þegar vöðvar dragast saman í andlitinu.
- “Deer Stalker” – staða þar sem fram – og afturfætur stífna upp.
Mjög líklegt er að EF erfist með víkjandi geni en rannsókn á Nýja Sjálandi sem stóð í 10 ár virðist staðfesta það. Rannsóknir á sjúkdómnum standa nú yfir í Glasgow í umsjón Dr. J.Penderis. Einnig er hafin leit að geninu sem orsakar sjúkdóminn og hafa eigendur sýktra hunda og einnig eigendur hunda sem eru skyldir sýktum hundum en sýna enginn einkenni (berar og heilbrigðir) verið beðnir að senda blóðprufur úr hundunum til rannsóknar. Einhver lyf virðast koma að notum við meðhöndlun á EF, alla vega tímabundið, en mjög mikilvægt er að gefa ekki flogaveikilyf, þar sem þau virðast gera illt verra.
Tveir ruby cavalierar greindust með EF hér á landi árið 2005. Þeir eru báðir úr sama goti og foreldrarnir eru því báðir berar. Foreldrarnir eiga samtals 42 afkvæmi og gera má ráð fyrir að um helmingur þeirra séu berar fyrir sjúkdómnum. Vandinn er mikill þar sem lítill stofn heillitra hunda er til á landinu og margir þeirra eiga sömu forfeður. Genið fyrir EF gæti að sjálfsögðu leynst miklu víðar án þess að það hafi komið í ljós.
Sjúkdómar, þar sem arfgengi er með víkjandi geni erfast þannig: (miðað við 4 í goti)
Tveir sýktir einstaklingar paraðir saman – öll afkvæmin hafa sjúkdóminn.
Annað foreldri sýkt en hitt beri – 50% sýkt, 50% berar
Annað foreldri sýkt en hitt frítt – öll afkvæmi verða berar.
Báðir foreldrar arfberar – 25% afkv. sýkt, 50% berar og 25% frí.
Annað foreldri frítt en hitt beri – 50% fríir og 50% berar.
Mjög mikilvægt er að að sýktir einstaklingar og þekktir arfberar séu ekki notaðir í ræktun. Í gotum þar sem sjúkdómurinn kemur fram á því hvorki að rækta undan foreldrunum aftur, né afkvæmum þeirra úr því goti, þar sem mjög miklar líkur eru á að þau séu öll berar. Mjög varlega þarf að fara í að rækta undan öðrum afkvæmum þeirra.