Hefur þú áhuga á að sýna hund

Hér eru nokkrir punktar til að hafa í huga þegar sýna skal hund

Texti fenginn frá Auði Sif Sigurgeirsdóttur
 
 Fyrir sýningu: 

  • Kauptu sýningartaum sem hentar hundinum.
    Gott er að taumurinn sé í sama lit og hundurinn.
    Gæta þarf þess að kaupa ekki of fíngerðan taum fyrir stóra og grófa hunda og ekki of grófan taum fyrir smáhunda. 
  • Umhverfisþjálfaðu hundinn, þ.e. farðu með hann á fjölfarna staði, innan um aðra hunda o.s.frv. þannig að hundurinn sé vanur ýmsum aðstæðum. 
  • Hundurinn á að vera í mátulegum holdum, vel þjálfaður og vöðvastæltur. 
  • Hundurinn þarf að vera vanur því að tennur hans séu skoðaðar. Gott er að æfa þetta reglulega og biðja gesti og gangandi um að kíkja á tennur. Hrósaðu hundinum þegar hann gerir rétt. 
  • Hundurinn þarf að vera vanur því að hann sé þreifaður og þurfa karlhundar að vera vanir því að athugað sé hvort þeir séu með tvö rétt staðsett eistu. 
  • Þjálfaðu hundinn í að standa í sýningarstellingu (fer eftir viðkomandi tegund hvernig sýningarstellingin er). Hundurinn þarf einnig að vera kyrr meðan dómari skoðar hann. 
  • Þjálfaðu hundinn í að hlaupa/brokka fallega við hlið þér/sýnandans. 
  • Smáhunda þarf að þjálfa á borði. Dómarinn á að geta skoðað hundinn gaumgæfilega á borði, þ.e. þreifað á honum og skoðað tennur hans. Ef ekki er sýningarborð til staðar er gott að æfa hundinn á venjulegu borði með stamt undirlag svo hann renni ekki til og verði þar af leiðandi óöruggur. Gott er að fá gesti og gangandi til að skoða hundinn á borðinu. Athugaðu vel að hundurinn verði ekki undir neinum kringumstæðum fyrir slæmri reynslu á borðinu. Æfingar á borðinu eiga alltaf að vera skemmtilegar fyrir hundinn og sniðugt er að gefa honum bita þegar hann gerir rétt. 
  • Gættu þess að tennur hundsins séu hreinar fyrir sýningu og láttu taka burt tannstein ef hann er til staðar. 
  • Nauðsynlegt er að fara í sýningarþjálfanir með hundinn, bæði er það gott fyrir þig/sýnandann og hundinn. Ekki hika við að leita þér upplýsinga hjá reyndum aðilum um allt það sem brennur á þér fyrir sýninguna. 
  • Gott er að fara á sýningar og fylgjast með hvernig allt fer fram. x
  • Farðu með hundinn í snyrtingu tímanlega (ef þarf) og kynntu þér vel hversu mikla feldhirðu hundurinn þarf fyrir sýningu. Ræktandinn þinn ætti að geta svarað því og leiðbeint þér. Panta þarf tíma á hundasnyrtistofum með góðum fyrirvara þar sem mikið annríki er fyrir hundasýningar. 
  • Klipptu klær um viku fyrir sýningu. 
  • Mundu að skrá hundinn á sýninguna á réttum tíma!