Allar færslur eftir sunna

Winter Wonderland 24. nóvember 2024

BOB og BIS-4 NORDICCh ISCh ISJCh ISW-23 RW-24 Bonitos Companeros Mr. Spock

Winter Wonderland & Ísland Winner sýning HRFÍ var haldin í reiðhöll Spretts í Kópavogi 23.-24. nóvember. Sýndir voru samtals 51 cavalier hundar; 7 hvolpar, 19 rakkar og 25 tíkur, auk þriggja ræktunarhópa. Dómari var Veli-Pekka Kumpumäki frá Finnlandi og Dýrabær gaf verðlaun.

Þó dómarnir innan tegundarinnar hafi verið mismunandi, nokkuð margir Very good og fjórir Disqualified sem sjaldan er gripið til, þá batnaði dagurinn heldur betur þegar á leið! Við áttum fulltrúa í úrtaki og/eða toppsætum í öllum úrslitum dagsins en þau eru nánar útlistuð hér að neðan. Cavalier hundar hafa aldrei náð eins góðum heildarárangri í úrslitum áður, stórkostlegur endir á sýningaárinu fyrir tegundina okkar.

Besti hundur tegundar var NORDICCh ISCh ISJCh ISW-23 RW-24 Bonitos Companeros Mr. Spock og besta tík ISJCh RW-23-24 ISJW-23 Elixir D’Amour-Bl The Enchanting Dreamcatchers, bæði fengu þau titilinn Ísland Winner (ISW-24) og Crufts Qualification. Mr. Spock rúllaði síðan upp keppni í tegundahópi 9 og ekki nóg með það heldur endaði hann sem fjórði besti hundur sýningar af rúmlega 1.000 hundum, stórglæsilegur árangur! Cavalier hefur ekki oft unnið grúppu 9 í gegnum tíðina og ennþá sjaldan náð sæti í keppni um besta hund sýningar, en það gerðist síðast í febrúar 2011 þegar C.I.B. ISCh Drauma Abraham varð annar besti hundur sýningar.

Íslensku og Norðurlandameistarastigin gengu niður til Cavalion Blues Brothers og Hafnarfjalls Selmu Karlottu sem urðu í 2. sæti í keppni um besta rakka og bestu tík tegundar. Cavalion Blues Brothers var að fá sitt þriðja íslenska stig og verður því íslenskur meistari.

Besti ungliði tegundar var Mjallar Garpur og besta ungliðatík Seljudals Ósk, bæði með íslenskt og Norðurlanda-ungliðameistarastig, einnig titilinn Ísland Junior Winner (ISJW-24). Mjallar Garpur varð síðan í 3. sæti í úrslitum ungliða í tegundahópi 9.

Besti hvolpur 4-6 mánaða var Esju Nætur Viktoría og besti rakki í sama aldursflokki Mjallar Gotti Cosmo. Viktoría gerði sér svo lítið fyrir og varð besti hvolpur dagsins af öllum tegundum. Besti hvolpur 6-9 mánaða var Snjallar Tjaldur og landaði hann 4. sætinu í úrslitum allra tegunda. Heldur betur góð byrjun á sýningaferli þeirra. Besti öldungur tegundar var ISCh ISVetCh RW-17-21 Ljúflings Merlin Logi með Norðurlanda-öldungameistarstig og titilinn ISVW-24, hann náði svo í 7 hunda úrtak í úrslitum.

Besti ræktunarhópur tegundar kom frá Hafnarfjalls ræktun og enn og aftur gerði tegundin okkar það gott í úrslitum, besti ræktunarhópur dagsins af samtals 12 hópum. Þessi sýning mun seint gleymast og verður gaman að sjá hvað næsta sýningaár ber í skauti sér.

Ítarlegri úrslit að neðan:

Lesa áfram Winter Wonderland 24. nóvember 2024