Ársfundur Cavalierdeildar HRFÍ 2024 fyrir árið 2023
Melabraut 17 Hafnarfirði
27. febrúar 2024 kl. 20.00
Setning ársfundar
Anna Þórðardóttir Bachmann, formaður deildarinnar, setti fundinn kl. 20:10 og bauð gesti velkomna. Lagt var til að fundarstjóri yrði Sigríður Margrét Jónsdóttir og var það samþykkt án athugasemda. Fundarstjóri kom í pontu og staðfesti lögmæti fundarins.
Öldungur heiðraður
Aldursforseti deildarinnar er Skutuls Saxi en hann er fæddur 2. ágúst 2008 og er því 15 ára og 7 mánaða. Foreldrar hans voru þau Sjarmakots Figaró Freyr og Skutuls Daniela. Eigandi hans er Sara Hákonardóttir og ræktandi Bjarney Sigurðardóttir. Saxi mæti galvaskur á fundinn ásamt fjölskyldu sinni til að taka á móti viðurkenningu og blómum.
Skýrsla stjórnar
Fundarstjóri bauð formanni í pontu til þess að fara yfir ársskýrslu. Anna Þórðardóttir Bachmann kynnti skýrslu deildarinnar og fór yfir starfsemi ársins 2023.
Steinunn Rán Helgadóttir spurði hvort til standi að halda fleiri hjartaskoðanir og DNA sýnatökur á árinu og er það á dagskrá, sú næsta áætluð í mars/apríl.
Arna Sif Kærnested spurði út í stigatalningu ungliða og stakk upp á sér stigakeppni fyrir þá, þannig að BOB ungliði á hverri sýningu fengi 10 stig eins og besti hundur tegundar og BOS ungliði fengi 7 stig. Góð hugmynd sem verður tekin til skoðunar. Arna Sif hrósaði einnig deildinni fyrir margar sýningarþjálfanir og þar með góða fjáröflun.
Fundarstjóri lagði ársskýrslu til samþykktar og fundargestir samþykktu með lófaklappi.
Reikningar deildarinnar
Svanhvít Sæmundsdóttir gjaldkeri lagði ársreikning deildarinnar fyrir fundinn og fór yfir hann.
Anna Þórðardóttir Bachmann benti á að auk þess sem Dýrabær gaf bikara og merkingar á þá, höfum við einnig fengið að gjöf eldri bikara til endurnýtingar. Bestu þakkir til þeirra sem hafa gefið þá bikara.
Gerður Steinarrsdóttir spurði hvort ársreikningur verði aðgengilegur á vefsíðu og mun hann verða settur þangað ásamt ársskýrslu.
Ársreikningur samþykktur.
Kosning í stjórn
Laus voru tvö sæti til tveggja ára en kjörtímabili Önnu Þórðardóttur Bachmann og Sunnu Gautadóttur var lokið, þær buðu sig þó báðar fram til áframhaldandi setu. Einnig var laust eitt sæti til eins árs þar sem Fríða Björk Elíasdóttir hafði sagt sig frá stjórnarstörfum á miðju tímabili.
Engin framboð bárust úr sal en skorað var á Guðríði Vestars að bjóða sig fram til eins árs og sló hún til. Anna Þórðardóttir Bachmann og Sunna Gautadóttir voru sjálfkjörnar til tveggja ára.
Önnur mál
Arna Sif Kærnested benti á að mikilvægt væri að DNA og hjartaniðurstöður væru reglulega færðar inn á cavalier.is. Hjartavottorð eru nú komin inn á Hundavefinn en niðurstöður eru í framhaldi einnig birtar á vefnum okkar. Formaður skýrði frá því að deildin hefur fengið öll vottorð frá félaginu í frumriti og vefurinn uppfærður þegar ný vottorð berast. Á árinu skiluðu þau sér ekki öll til okkar og sum fóru bara á Hundavefinn. Við höfum verið að fikra okkur áfram með að finna vinnuflæði sem virkar, þannig að öll vottorð séu pottþétt geymd á sama stað og þannig skili sér allt inn á cavalier.is. Gerður Steinarrsdóttir stakk upp á að við fengjum áfram afrit af öllum vottorðum þótt þau væru einnig á Hundavefnum og þarf að skoða það, en verið er að minnka pappír hér eins og annars staðar.
María Tómasdóttir spurði um MRI skönnun. Víða í Evrópu láta cavalier ræktendur skanna ræktunardýr en hér á landi er einungis til einn dýraskanni. Anna Þórðardóttir Bachmann benti á að aðrar deildir hefðu fengið afnot af mannaskanna og nú hefur einnig opnað ný einkarekin stofa með skanna, sem ekki er læknastofa. Verið er að skoða samstarf við þá stofu og gæti nýst okkur vel ef við fáum gott tilboð í hópskoðun þar. Það þarf einnig að vera dýralæknir á staðnum því skönnunin tekur um 15 mínútur og hundarnir þurfa létta svæfingu á meðan.
Gerður Steinarrsdóttir kom því á framfæri að aflestur myndanna er einnig mjög mikilvægur og upp kom sú hugmynd að niðurstöður yrðu jafnvel sendar erlendis því enginn dýralæknir hér er með sérþekkingu. Höfuðstaða hundanna þegar myndirnar eru teknar skiptir líka máli. Einnig er hægt að skoða það í framtíðinni að sérfræðingur kæmi til landsins og þjálfaði dýralækna hér. Sigríður Margrét fundarstjóri benti á að nýlega voru nokkrir dýralæknar sendir út til þess að læra að framkvæma BOAS próf og mögulega væri líka hægt að senda út dýralækna til að fá þjálfun í MRI skönnun og aflestri.
Anna Þórðardóttir Bachmann minnti á skráningu á deildarsýninguna okkar 20. apríl. Skráning hefur farið vel af stað en skráningarfrestur er til 5. apríl kl. 15.
Lok fundar
Fundarstjóri þakkaði fyrir góðan fund, óskaði deildinni til hamingju með nýja stjórn og alla meistara. Fundi slitið kl. 21. Áður en fundargestir fóru heim bauð deildin upp á kaffi og smá bakkelsi.
Fundargerð ritaði Sunna Gautadóttir.