Skýrsla stjórnar 2016

Aðalfundur haldinn 22. mars 2017  á skrifstofu HRFÍ, Síðumúla 15

Góðir félagar,

Á síðasta aðalfundi deildarinnar gengu úr stjórn þær Guðríður Vestar og Guðrún Birna Jörgensen. Í stað þeirra voru kjörnar þær Bryndís Óskarsdóttir og Hrönn Thorarensen til 2ja ára. Ræktunarráð sem skipað var 2015 starfaði áfram.

Eftir kaffi og kræsingar í boði göngunefndar og deildarinnar, hélt Brynja Tomer fróðlegt erindi um hundaræktun.

Sýningar HRFÍ voru 5 á árinu auk hvolpasýninganna. Sýningarnar voru því nokkuð færri en árið áður en þá voru þær 7 auk þess sem deildin var með veglega afmælissýningu.

Ræktunin var mun minni en árið áður eða 18 got á móti 22 árið 2015, og hvolpar einungis 68. Þeir hafa ekki verið færri frá árinu 2001. Meðaltal í goti var 3.77 hvolpar sem er aðeins lægra en í fyrra en þá var meðaltalið óvenju hátt eða 4.41 hvolpa.

11 ræktendur voru með got á árinu, þar af einn nýr ræktandi Elín Dröfn Valsdóttir sem fékk ræktunarnafnið Skógarlilju ræktun. Lilja Bríet Björnsdóttir sem hefur áður verið með got hefur fengið ræktunarnafnið Eðallilju ræktun..Við bjóðum þær velkomnar í hópinn.

Rakkarnir voru heldur fleiri þetta árið en alls fæddust 35 rakkar og 33 tíkur. Venjulega hefur yfirgnæfandi fjöldi hvolpanna verið í blenheim litaskiptingunni en að þessu sinni sótti ruby liturinn nokkuð á, blenheim hvolparnir voru þó flestir eða 29, ruby 22, black and tan hvolpar voru 13 og þrílitir ráku lestina og voru aðeins 4 talsins, sem sagt 35 heillitir og 33 í brotnu litunum.

Á árinu voru 12 rakkar notaðir til undaneldis. Mest notaðu hundarnir voru ISCh RW-14 Loranka’s Edge Of Glory með 3 got og 15 hvolpa og Demantslilju Prins,einnig með 3 got og 14 hvolpa, næstir koma Ljúflinga Kiljan með 2 got og 10 hvolpa, og Salsara Sovereign einnig með 2 got og 6 hvolpa. Aðrir rakkar feðruðu 1 got hver.

Rökkum hefur heldur fækkað á rakkalistanum undanfarin ár, en á honum eru núna 20 rakkar, 2 þrílitir, 7 blenheim , 5 ruby og 6 bl/tan. Það er afar slæmt hversu fáir mæta með rakkana sína í augnskoðun og á sýningar svo hægt væri að fjölga úrvali rakka til undaneldis.

Á heimasíðu deildarinnar eru auglýst þau got þar sem farið hefur verið eftir öllum reglum deildarinnar varðandi heilbrigðisskoðanir. Þeim ræktendum sem auglýsa á síðunni okkar hefur fækkað mikið, aðeins 6 got voru auglýst á síðunni árið 2016 svo innkoman var aðeins 15 þúsund krónur, miðað við 30-þúsund árið á undan. Deildin þarf að kosta vistun á síðunni og greiðslu lénsins auk þess sem hún gefur bikara af og til. Ræktendur eru því hvattir til þess að styrkja síðuna með því að auglýsa gotin sín þar. Við teljum það meðmæli með gotinu enda tekið fram að undaneldisdýrin hafi uppfyllt öll þau skilyrði sem HRFÍ setur vegna ræktunar á tegundinni.
Þó síðan sé að mörgu leyti barns síns tíma, þá er hægt að finna á henni mikið magn upplýsinga sem koma bæði ræktendum og nýjum cavaliereigendum að gagni. Þar eru einnig upplýsingar um flesta þá sjúkdóma sem geta komið upp í tegundinni og leiðbeiningar til ræktenda. Auk þess er hægt að fletta upp sýningarúrslitum mörg ár aftur í tímann ársskýrslum, fundargerðum og fleiru.

Enginn innfluttur cavalier var skráður hjá HRFÍ á árinu en það hefur ekki gerst síðan 1993, og er það áhyggjuefni þar sem nauðsynlegt er fyrir okkar litla stofn að fá reglulega inn nýtt blóð.

Hjartaskoðanir
89 cavalierar voru hjartaskoðaðir á árinu 2016 sem er nánast sami fjöldi og í fyrra en þá voru þeir 90. Þetta er þó mikil fækkun frá fyrri árum en sem dæmi voru 130 cavalierar skoðaðir 2013 og oft upp í 150 á árum áður. Þetta helst í hendur með minnkandi ræktun, því í flestum tilfellum er verið að skoða unga hunda sem á að nota til ræktunar. Fáir virðast taka vottorð þegar hundarnir er ekki lengur notaðir í ræktun og eru komnir með murr en mikilvægt er að taka þessi svokölluðu afmælisvottorð þegar hundurinn fer að eldast til að vita á hvaða aldri murrið greinist fyrst. Ef það væri gert í öllum tilfellum eins og við mælum með, væri e.t.v. hægt að sjá hvort einhverjar hjartalínur eru betri en aðrar. Einnig er örugglega mikið um það að eigendurnir taka ekki vottorð ef hundurinn greinist með murr og því upplýsingarnar ekki tiltækar öðrum en eigendunum sjálfum.
Niðurstaða vottorðanna var þannig: 37-cavalierar á aldrinum 2ja ára til 4 ára voru skoðaðir og voru þeir allir fríir.
25 á aldrinum 4-5 ára voru skoðaðir og voru 24 fríir og 1 með murr gr. 1.
Á aldrinum 5-8 ára var 21 cavalier skoðaður og voru 18 fríir en 3 með murr gr. 1 og 2.
6 cavalierar 8-13 ára voru skoðaðir og þeir voru allir án murrs.
Þannig að af þessum 89 hundumvoru aðeins 4 greindir með murr.
Stjórnin hefur ákveðið að koma aftur á skipulögðum hópskoðunum eins og voru hér á árum áður og þá líklega tvisvar á ári, til að fá fleiri til að láta hjartaskoða hundana sína reglulega og hefur sú fyrri þegar farið fram þann 9.febrúar s.l. hjá Steinunni Geirsdóttur, dýralækni. Þar voru skoðaðir 36 hundar á aldrinum 2 – 10 ára og greindust aðeins 2 þeirra með murr sem var ánægjuleg útkoma.

Augnskoðanir
55 cavalier var augnskoðaður á árinu 2016, nokkuð fleiri en árið áður, þar af voru 38 tíkur og 17 rakkar. 4 tíkur fóru í ræktunarbann, tvær vegna Retinal Dysplasia Geographic önnur hafði reyndar verið skoðuð áður og var þetta staðfesting á fyrri úrskurði, ein vegna Retinal Dysplasi-Multifokal og ein vegna Katarakt, cortical og polar. Eins og áður voru nokkrir sem greindust með Distischiasis eða aukaaugnhár og með cornea dystrophi eða kolestrolkristalla.

Aðeins örfáir cavalierar voru DNA prófaðir fyrir Episodic Falling og Curly Coat á s.l. ári. Mjög margir cavalierar eru undan fríum foreldrum og þurfa því ekki að taka DNA próf. Arfbera má nota í ræktun og er alltaf eitthvað um það á hverju ári. DNA prófunum gæti þó fjölgað á næstu árum, þar sem ræktendur sem rækta undan arfberum láta ekki DNA prófa hvolpana og það kemur því í hlut nýrra eiganda seinna meir ef þeir ákveða að rækta.  Aðeins er ræktað undan litlum hluta stofnins og því óþarfi að DNA prófa aðra en ræktunardýrin.
 
Reglan í sambandi við DNA prófin er óbreytt og skal niðurstaða DNA prófa liggja fyrir áður en parað er, þar sem þess er þörf.

Aldursforseti tegundarinnar
Aldursforseti tegundarinnar 2016 var Drauma Rex Robins sem var fæddur  5.11.2001. En hann kvaddi okkur núna í febrúar rúmlega 15 ára gamall. Hann var undan Drauma Vöku og Sperringgardens Cachou sem var kallaður Robin og dvaldi hér í rúmt ár sér til mikillar skemmtunar enda feðraði hann 34 afkvæmi hér á þessum tíma.

Sýningar
Á árinu 2016 voru 5 sýningar á vegum HRFÍ auk 4 hvolpasýninga. Svipaður fjöldi cavaliera var sýndur og undanfarin ár en aðeins 3 hvolpar sem er mun minna áður. Trúlega helst það í hendur við að færri hvolpar fæddust á árinu, en er alveg úr takti við þá aukningu sem var á skráningum á hvolpasýningar hjá HRFÍ á árinu. Kannski þarf að hvetja nýja hvolpaeigendur meira til að sýna hvolpana sína.  
Vorsýning HRFÍ
Fyrsta sýning ársins var haldin helgina 27. og 28. febrúar og voru 25 cavalierar skráðir. Enginn cavalierhvolpur var skráður á hvolpasýninguna.
Þórdís Björg Björgvinsdóttir dæmdi cavalierana og er það í fyrsta sinn sem hún dæmir tegundina.Besti hundur tegundar var Hrísnes Max sem fékk sitt annað meistarastig og fyrsta Cacib á þessari sýningu og best af gagnstæðu kyni C.I.B. ISCh Ljúflings Hetja, sem einnig fékk Cacib stig, en þar sem hún er þegar orðin alþjóðlegur meistari gengur stigið niður í 2. sætið, en það var Hrísnes Sonja sem náði öðru sæti og fékk meistarastig sem er hennar annað og vara-Cacib. Dýrabær gaf eignarbikara fyrir sýninguna.
Í viðtali við Sám segir Þórdís að cavalierinn hafi komið sér skemmtilega á óvart og hún hafi séð mikið af fallegum hundum og hafi verið ánægð með þá sem komust í sæti. Þórdís nefnir að hún hefði viljað sjá aðeins meiri gleði í nokkrum hundum þar sem að hennar mati sé cavalierinn tegund þar sem skapgerðin skipti miklu máli. Bæði besti hundur tegundar og annar besti hundur tegundar hafi verið glöð og vinaleg eins og tegundin eigi að vera, rakkinn vel byggður, í góðu jafnvægi og með fallegt höfuð og tíkin glæsileg tík úr meistaraflokki með allt á réttum stöðum.

Tvær sýningar á vegum HRFÍ fóru fram helgina 23.-24. júlí við Reiðhöllina í Víðidal. Á laugardeginum var Reykjavík-Winner sýning og á sunnudeginum alþjóðleg sýning. Daníel Örn Hinriksson dæmdi cavalierana fyrri daginn og Mikael Nilson frá Svíþjóð þann seinni. 24 cavalierar voru skráðir á RVK-Winner sýninguna og 23 á þá alþjóðlegu. Veðrið var milt en smá rigningarúði fyrri daginn en bjartara þann seinnni þó með smá skúrum. Hvolpasýning var á föstudeginum en engir cavalierhvolpar voru skráðir að þessu sinni.
Úrslit á Reykjvík-Winner sýningunni voru þannig: BOB var Magic Charm’s Artic sem hlaut junior Cac og meistarastig og titilinn RW-16. BOS var Drauma Glódís með meistarastig og titilinn RW-16. Í fyrsta sinn voru gefin meistarastig í ungliðaflokki og komu þau í hlut Magic Charm’s Artic og Tereasjo Sabrínu Unu.
Daníel sagði í viðtali við Sám að honum hefði líkað vel heilt yfir. Hann sagði að það sem hefði komið honum helst á óvart var hversu óhræddir sýnendur voru að mæta með of þunga hunda og þá helst í tíkunum og hefði frekar viljað sjá eigendur taka pásu eina sýningu og mæta svo með dýrið í toppformi. En almennt hafi hundarnir verið vel hirtir og með góðar tennur. Hann sagðist hafa verið mjög ánægður með þá hunda sem fengu hjá honum sæti í úrslitum. Þeir hefðu verið verðugir fulltrúar sinnar tegundar og sýndir í mjög góðu ástandi. Tíkin hafi verið mjög góð og rakkinn sem varð besti hundur tegundar hefði haft einhvern x-faktor. Hann hefði hárrétta eyrnastöðu og víddin í höfðinu svo rétt að þessi milda ásjóna sem cavalierinn á að hafa verið sérstaklega falleg. Hann mörgum fögrum orðum um hundinn og sagðist hafa kolfallið fyrir honum.

Á alþjóðlegu sýningunni á sunnudeginum var BOB Magic Charm’s Artic sem hlaut sitt annað meistarastig en var of ungur fyrir Cacib stigið, BOS var Bjargar Bríet Korka Sól, sem fékk sitt fyrsta meistarastig og Cacib stig. Sömu ungliðarnir fengu junior meistarastigin og daginn áður og eru því Magic Charm’s Artic og Teresajo Sabrína bæði Junior meistarar en tvö stig þarf til að hljóta titilinn. Cavalierdeildin gaf eignarbikara fyrir báðar sýningarnar.
Dómarinn lét ekkert hafa eftir sér um tegundina í Sámi.

Alþjóðleg sýning HRFÍ var haldin helgina 3. og 4. september en hvolparnir voru sýndir á föstudagskvöldið en engir cavalierhvolpar voru skráðir.

28 cavaliervoru skráðir á alþjóðlegu sýninguna þar sem Colette Muldoon frá Írlandi, dæmdi tegundina. Besti hundur tegundar var ISJCh RW 16 Magic Charm’s Artic og BOS Drauma Glódís, bæði með meistarastig og Cacib. Besta ungliðatík var Ljúflings Mona Lisa með ungliðameistarastig. Þau fengu öll Crufts keppnisrétt. Cavalierdeildin gaf eignarbikara fyrir sýninguna.Colette lét hafa eftir sér í viðtali við Sám, að hún hefði sé marga góða framhluta hjá cavaliernum en ansi marga lélega afturparta.Lokasýning ársins var svo alþjóðlega sýningin 12. og 13.  nóvember. Hvolpasýningin var kvöldið áður þann 11. nóvember, 3 hvolpar voru skráðir í flokki 3-6 mánaða. Dómari var Svend Lövenkjær frá Svíþjóð. Besti hvolpur tegundar var Drauma Sjarmi.
Á alþjóðlegu sýninguna voru 18 cavalierar skráðir, dómari þeirra var Rafael Malo Alcrudo, frá Spáni. Besti hundur tegundar var Hrísnes Selma og BOS ISJCh RW-16 Magic Charm’s Artic.Bæði fengu íslensk og alþjóðleg meistarastig, cert og Cacib.Dýrabær gaf eignarbikara.
Deildin sér ásamt öðrum deildum um uppsetningu, frágang og vinnu á nóvember sýningu hvers árs og færir stjórnin þeim sem að því komu innilegar þakkir. Einnig þeim sem gáfu bikara á sýningar ársins.
Uppskera ársins er því tveir ungliða meistaratitlar.

Stigahæstu hundar ársins eftir þessar 5 sýningar voru heiðraðir á aðventukaffi deildarinnar 26.nóvember. Stigahæsti hundurinn var ISJCh RW-16 Magic Charm´s Artic, eig. María Tómasdóttir, rækt. Unni Lima Olsen, í öðru sæti C.I.B. ISCh Ljúflings Hetja, eig. og rækt. María Tómasdóttir, 3. sæti Hrísnes Max, eig. Laufey Guðjónsdóttir, rækt. Þuríður Hilmarsdóttir og í 4. sæti  Drauma Glódís, eig. og rækt. Ingibjörg E.Halldórsdóttir.. Dýrabær færði vinningshundunum gjafapoka fulla af góðgæti sem þeir kunnu vel að meta. 
Stigahæsti ræktandi ársins var Ljúflings ræktun.

Kynning á tegundinni og göngur
Göngunefnd deildarinnar hefur staðið fyrir 11 göngum á árinu 2015 auk þess að sjá um aðventukaffið.  Fyrsta ganga ársins var samkvæmt venju Nýársgangan kringum Tjörnina í Reykjavík. Ágæt þátttaka var þetta árið og veðrið lék við menn og hunda sem vöktu mikla athygli erlendra ferðamanna.
Í febrúar gengum við um Seltjarnarnesið frá Gróttu meðfram ströndinni og í kringum golfvöllinn og var útsýnið á leiðinni ekki af verri endanum.
Það var vor í lofti í marsgöngu deildarinnar, þegar gengið stóran hring um Öskjuhlíð. Gaman var að í gönguna mætti Rex 14 ára öldungur sem gaf hinum hundunum ekkert eftir.Í apríl var síðan gengið um Grafarvoginn í síbreytilegu veðri sól, snjó, logni og golu.
Maígangan fór fram í blíðskaparveðri þegar gengið var hringinn í kringum Reynisvatn og nágrenni.

Fyrsta kvöldgangan var í júní en þá var hist við kirkjugarðinn í Hafnarfirði og ekið í samfloti að Kaldárseli. Þaðan var svo gengið í Valaból. Þar var sest niður, mannfólkið dró upp nesti og hundarnir fengu að drekka, allir áttu góða stund saman.
Í júlí var komið að Rauðavatns göngunni. Veðrið lék við menn og hunda, sem skemmtu sér vel við að hlaupa lausir um.
Í ágúst hittumst kirkjugarðinn í Hafnarfirði og ókum í samfloti upp að Hvaleyrarvatni.Gengið var í kringum Stórhöfða sem er fellið fyrir ofan Hvaleyrarvatn og er í upplandi Hafnarfjarðar. Skemmtileg ganga í fallegu umhverfi þrátt fyrir svolítinn rigningarúða.

Í september var aftur komið að sunnudagsgöngunum, nú var það Kaldársel. Gengið var um skógræktina og veðrið lék við hunda og menn..
Október ganga deildarinnar átti að vera um Mosfellsbæ, þar sem ganga átti góðan hring um bæinn og enda með leik í hundagerðinu þar í bæ. En fella varð gönguna niður vegna veðurs.

Aðventukaffi deildarinnar var haldið laugardaginn 26. nóvember í salnum hjá Gæludýrum, Korputorgi. Hlupu hundarnir um og léku sér meðan mannfólkið naut veitinga af glæsilegu hlaðborði.
Að síðustu var svo jólaganga cavalierdeildarinnar á 3. sunnudegi í aðventu. Þá var gengið sem leið lá með strandlengjunni í átt að Álftanesi og endaði gangan  síðan í Jólaþorpinu, þar sem tvífætlingarnir gátu fengið sér heitt kókó hjá Rauða Krossinum. Segja má að hópurinn hafi vakið mikla athygli gesta í jólaþorpinu og voru hundarnir í sínu fínasta pússi í jólagöllum, lopapeysum eða kuldagöllum.
Færum við göngunefndinni bestu þakkir fyrir þeirra framlag til deildarinnarKynningarmál
Deildin tók þátt í smáhundakynningum í Garðheimum í febrúar og í september á síðasta ári og var aðsókn ágæt í bæði skiptin. Við þökkum þeim sem hafa staðið vaktina þar og kynnt tegundina okkar.
Deildinni var svo boðið að skrifa grein í Sám og kynna deildina. Stjórnin tók að sér að skrifa greinina sem birtist í Jóla Sámi.
Auk þessa stofnaði deildin síðuna Cavalerdeild HRFÍ á facebook.

Deildin hélt hvolpahitting þann 2. júní í Sólheimakoti sem heppnaðist einstaklega vel. Þar hittust 27 hvolpar á aldrinum 3 -18-mánaða ásamt fjölskyldum sínum, alls 44 manns. Stjórnin bauð upp á veitingar, grillaðar pylsur, gos og snarl fyrir menn og hunda.Veðrið var yndislegt og ætla má að flestir hafi haft gaman að. Stefnt er á að gera þetta að árlegum viðburði.

Göngu- og viðburðanefnd kom á fót feldhirðufræðslu í byrjun nóvember sem heppnaðist vel. Færri komust þó að en vildu. Gurrý í Dýrabæ bauð upp á námskeiðið og þakkar stjórn henni fyrir vel heppnað kvöld.

Stjórnin hefur fengið leyfi fyrir tvöfaldri deildarsýningu í apríl n.k. og hafði boðið mæðgunum Ernu-Britt Nordin og Söru Nordin að dæma hér, auk þess sem þær ætluðu að halda fyrirlestur um tegundina fyrir ræktendur og íslensku cavalierdómarana. En því miður forfölluðust þær og komast ekki. Í stað þess að sleppa sýningunni höfum við fengið dómarann Svend Erik Björnes til að hlaupa í skarðið og verður sýningin því haldin laugardaginn 22. apríl n.k.og vonandi fjölmenna cavaliereigendur með hundana sína og njóta þess að eiga saman skemmtilegan cavalierdag.

Nú á eftir verður kosning til stjórnar og er kosið um 3 sæti. Gerður Steinarrsdóttir, Ingibjörg E. Halldórsdóttir og Þóra Margrét Sigurðardóttir hafa lokið sínu 2ja ára tímabili, þær gefa allar kost á sér áfram

Að loknum fundinum mun Steinunn Geirsdóttir dýralæknir flytja okkur fræðsluerindi um skyndihjálp hunda.f.h. stjórnar Gerður Steinarrsdóttir 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s