Skýrsla stjórnar 2019

Ársfundur haldinn 15.  janúar 2020 á skrifstofu HRFÍ, Síðumúla 15, Reykjavík

Góðir félagar,

Í ár eru liðin 25 ár frá stofnun deildarinnar en hún var stofnuð 14. maí 1995 í Sólheimakoti. Deildin hefur stækkað mikið á þessum 25 árum en árið 1995 voru  cavalierar í landinu 39 talsins. En nú má áætla miðað við meðaltal ættbókarskráðra hvolpa síðastliðin 10-12 ár að stofninn telji um 1.100-1.200 dýr.

Got

Fjöldi gota á árinu sem var að líða var í sögulegu lágmarki.  Aðeins 13 got og ættbókarfærðir hvolpar einungis 48.  Þarf að leita aftur til ársins 2001 til að finna færri got á einu ári, en á því ári voru gotin 11 og hvolpar 49.  Af þessum 13 gotum voru 8 got í brotnu litunum og 5 í heillitum.  Þessa fækkun má að hluta til skýra vegna breyttra reglna um hvíldartíma tíka á milli gota og því að siðanefnd HRFÍ vísaði einum ræktanda úr félaginu í 8 mánuði.

Meðaltal í goti var 3.69 hvolpar og alls voru 8 ræktendur með got á árinu þar af þrír nýir ræktendur:  Sunna Alexsandersdóttir með Norðurorkuræktun, Nanna Dröfn Harðardóttir og Danfríður Árnadóttir en þær hafa ekki fengið ræktunarnafn.  Við bjóðum þær velkomnar í hópinn.

Tíkarhvolpar voru töluvert fleiri þetta árið eða 28 á móti 20 rakkahvolpum. Eins og svo oft áður voru blenheim hvolparnir flestir eða 20, næst komu black and tan 11, þrílitir 9 og ruby 8.  Á árinu voru 7 rakkar og 13 tíkur notaðar til undaneldis.  Rakkar sem voru notaðir voru Magic Charm´s Artic með 3 got og 10 hvolpa, Tröllatungu Myrkvi 2 got og 8 hvolpa, Eldlilju Rökkvi 2 got og 8 hvolpa, Demantslilju Prins 2 got og 7 hvolpa og Hrísnes Krummi Nói 2 got og 7 hvolpa.  Auk þess feðraði Eldlukku Ögri eitt got og 4 hvolpa og Ljúflings Kiljan eitt got og 4 hvolpa.

Rakkalisti

Á rakkalistanum nú í byrjun árs eru 16 rakkar.  Af þessum rökkum eru 2 þrílitir, 7 blenheim, þar af tveir innfluttir, 4 ruby og 3 black and tan.  Það er áhyggjuefni  hversu illa gengur að fá nýja rakka inn á listann en þessi þróun helst í hendur við að færri rakkar eru sýndir og augnskoðaðir.  Enginn rakki hefur verið fluttur inn síðan árið 2015 og fer því að verða brýn þörf á að flytja inn nýtt blóð fyrir stofninn. 

Á heimasíðu deildarinnar eru eingöngu auglýst þau got, þar sem farið hefur verið eftir öllum reglum deildarinnar varðandi heilbrigðisskoðanir og teljum við það meðmæli með gotinu sé það auglýst á síðunni. Sú breyting var gerð árið 2018, að ræktendum var boðið að auglýsa got sín endurgjaldslaust á síðunni og viljum við hvetja ræktendur til að auglýsa got sín þar. Margir ræktendur hafa þó kosið að borga áfram fyrir auglýsingarnar og styrkja þannig deildina. Deildin er þeim þakklát fyrir en deildin þarf að kosta vistun á síðunni og greiðslu lénsins, auk þess sem hún gefur bikara af og til.

Augnskoðanir

35 cavalierar voru augnskoðaðir á árinu og er það mikil fækkun frá árinu áður en þá voru þeir 56.  Skoðaðar voru 23 tíkur og 12 rakkar.  Ein tík greindist með PHTVL gr.1, tvær tíkur með Retinal Dysplasia fokal.  Nokkrir greindust svo með Distischiasis eða aukaaugnhár og nokkrir með Cornea dystrophi eða kólistrol kristalla. 

Hjartaskoðanir

Deildin stóð fyrir tveimur hjartaskoðunardögum fyrir cavaliera á árinu í samstarfi við dýralækninn Steinunni Geirsdóttir. Áður hafði deildin sent bréf til þeirra dýralækna sem hafa réttindi til að hjartaskoða tegundina. Svör bárust frá þremur dýralæknum, einn gaf frá sér þátttöku.  Að fengnum svörum þessara dýralækna var ákveðið taka tilboði Steinunnar. 

Fyrri skoðunin fór fram þann 30. apríl og mættu 18 hundar á aldrinum 1 – 9 ára.  Af þessum 18 voru 13 fríir en 5 með murr gr. 1-5.  Seinni hjartaskoðunardagurinn var svo þann 7. nóvember  og þá mættu 24 hundar á aldrinum 2ja-12 ára.  Af þeim voru 19 með hreint hjarta en 5 greindust með murr gr. 1-3. Þess má geta að enginn hundur yngri en 6 ára greindist með murr í þessum skoðunum sem er virkilega ánægjulegt. 

Alls bárust deildinni 97 hjartavottorð fyrir cavaliera sem hlustaðir voru á árinu 2019, sem er svipað og á árinu á undan.

Það er athyglisvert hvað fáir hundar greinast með murr þegar litið er á þau vottorð sem tekin eru utan hópskoðana deildarinnar og því er full ástæða til að ítreka nauðsyn þess að skila inn vottorði ef og þegar hundur greinist með murr í fyrsta sinn, því öðruvísi er nánast ómögulegt að meta hvar góðar hjartalínur liggja.  Ræktendur og eigendur undaneldishunda verða að sýna þá ábyrgð að taka vottorð sama hver útkoman er.  Það er ekki hvað síst mikilvægt að fylgja því vel eftir með þá rakka sem eru á rakkalistanum.   

Niðurstaða hjartavottorða á árinu er þessi:  22 cavalierar á aldrinum 1-4 ára voru skoðaðir og voru þeir allir fríir, 26 á aldrinum 4-5 ára og voru þeir einnig allir fríir.  Á aldrinum 5-7 ára voru 27 skoðaðir og voru 24 fríir, einn með gr. 2 og tveir með gr. 3.  Tuttugu og tveir á aldrinum 7-12 ára voru skoðaðir og voru 11 hreinir, sex með gr.1, tveir með gr. 2, tveir með gr. 3 og 1 með gr. 5.

Heildarniðurstaðan er því sú að af 97 skoðuðum hundum voru 83 fríir en 14 greindust með murr gr. 1-5.

Aldursforseti tegundarinnar

Aldursforseti tegundarinnar er hún Óseyrar Andrea, eigandi Gríma Björg Thorarensen.  Hún er fædd 07.08.2004 á Eyrarbakka og er hún því 15 ára og fimm mánaða gömul.  Ræktandi hennar er Hugborg Sigurðardóttir.  Foreldrar Andreu voru Lazycrofts Orlando (Bobby) sem var lánaður til Íslands frá Svíþjóð í eitt ár.  Móðir Andreu hét Clea en hún var úr 10 hvolpa goti undan Skutuls Tönju og Rivermoor Bracken, innfluttum rakka frá Englandi.

Sýningar

Á árinu voru 6 sýningar, þar af 4 útisýningar.

Fyrsta sýning ársins var Alþjóðleg hundasýning HRFÍ sem haldin var í reiðhöllinni í Víðidal 23.-24. febrúar 2019. 34 cavalierar voru skráðir, þar 6 hvolpar. Hvolparnir voru sýndir með tegundinni á laugardeginum en ekki á sérsýningu eins og undanfarin ár. Dómari var Moa Person frá Svíþjóð.

BOB var ISCh NLM Hrísnes Max og BOS Hrísnes Selma, bæði fengu Norðurljósa meistarastig, Cacib stig og Selma fékk sitt þriðja meistarastig og titillinn íslenskur meistari þar með í höfn. Max fékk sitt fjórða Cacib stig og hann því  orðinn alþjóðlegur meistari. Rakkameistarastigið kom í hlut Eldlilju Tinds sem einnig hlaut vara-cacib stig. Ellefu ungliðar voru sýndir en dómaranum fannst enginn þess verður að fá framhald og stig til ungliðameistara. Besti hvolpur var Eldlilju Grettir.

Afkvæmahópur undan Teresajo Sabrínu Unu hlaut heiðursverðlaun og 1. sæti og síðan 2. sæti í úrslitum sýningar. Ræktunarhópur frá Hafnarfjalls ræktun fékk 1.sæti en ekki framhald.

Cavalierdeildin gaf vinningshöfum eignarbikara.

Moa Person segir í Sámi að Cavalierinn hafi verið af ójöfnum gæðum og týpum.  Meginvandamálið í tegundinni væri hve margir væru með of stuttan brjóstkassa.  Ræktendur þurfi að hafa varann á þessu vandamáli því ef hundar eru með of stuttan brjóstkassa er ekki nógu mikið pláss fyrir mikilvæg líffæri.

Reykjavík Winner & NKU Norðurlandasýning og Alþjóðleg sýning HRFÍHelgina 8 – 9. júní var tvöföld útisýning HRFÍ á Víðistaðatúni í Hafnarfirði. Það er óhætt að segja að veðrið hafi leikið við menn og hunda í fallegu umhverfi á Víðistaðatúni í Hafnarfirðinum þessa helgi.

Laugardaginn 8. júní var Reykjavík Winner & NKU Norðurlandasýning HRFÍ.
24 cavalierar voru skráðir þar af 4 hvolpar en 1 mætti ekki. Dómari var Jadranka Mijatovic frá Króatíu.  
      

ISCH Kvadriga‘ Surprice varð BOB og BOS varð Skutuls Aþena. Bæði fengu Norðurlandameistarastig og titilinn RW-19. Þetta var þriðja Norðurlandameistarstig Kvadriga‘s Surprice og hann því orðinn Norðurlandameistari. Skutuls Aþena fékk sitt annað meistarastig en rakkastigið kom í hlut Hafnarfjalls Unu Mána sem einnig fékk ungliðameistarastig, besti ungliði tegundar var Ljúflings Tindra með ungliðameistarstig og vara Norðurl.meistarastig. Besti hvolpur 4-6 mánaða var Mánaljóss Carmen og besti hvolpur 6-9 mánaða var Eldlukku Þulu Nera.       
Ræktunarhópur var sýndur frá Hafnarfjallsræktun og afkvæmahópur undan Tereasjo Sabrínu Unu.
Báðir hóparnir fengu 1. sæti og heiðursverðlaun.

Sunnudaginn 9. júní var alþjóðleg sýning HRFÍ.          
Skráðir voru 23 cavalierar þar af 4 hvolpar en 2 mættu ekki. Dómari var Carsten Birk frá Danmörku. Segja má að þessi sýning hafi verið ný upplifun fyrir cavaliereigendur, því aðeins einn hundur fékk ck eða meistaraefni þ.e. ISCh RW-19 Kvadriga´s Surprise en hann varð BOB og fékk sitt fyrsta alþjóðlega meistarastig. Ungliðameistarastigin og ísl. meistarastigin fóru því forgörðum að þessu sinni.  
                                
Besti hvolpur 6 – 9 mánaða varð Eldlukku Þulu Erro.  Sýndur var ræktunarhópur frá Hafnarfjalls ræktun og afkvæmahópur Tereasjo Sabrinu Unu.  Hvorugur hópurinn fékk framhaldseinkunn.

Dýrabær gaf eignarbikara á báðar sýningarnar og þakkar deildin kærlega fyrir þann góða styrk.

Dómarinn Carsten Birk segir í Sámi  að hann hafi ekki verið ánægður með gæðin í Cavalier King Charles spaniel tegundinni, þar þurfi ræktendur að vinna betur að bætingu stofnsins að hans mati.

50 ára afmælissýning HRFÍ

Helgina 24. – 25. ágúst var 50 ára afmælissýning HRFÍ á Víðistaðatúni í Hafnarfirði.  

Laugardaginn 24. ágúst var NKU Norðurlandasýning HRFÍ í mjög góðu veðri, logni og sól sem skein mest allan daginn.  21 cavalier var skráður, þar af einn hvolpur, dómari var Ann Ingram frá Írlandi.

BOB var CIB ISCh NLM Hrísnes Max og BOS ISJCh Eldlilju Kastani Coffee.  Bæði fengu Norðurlandameistarastig (NCAC) og Kastani Coffee fékk sitt annað ísl.meistarastig en rakkameistarastigið kom í hlut Þórshamrar Þór sem einnig fékk ungliðameistarastig. Besti ungliði var Eldlukku Frán Þulu Lukka sem einnig fékk ungliðameistarastig.  Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Eldlukku Líf. Þórshamrar ræktun sýndi ræktunarhóp en fékk ekki framhald.

Dómarinn Ann Ingram segir í Sámi að henni hafi fundist cavalierinn vera blandaður að gæðum og týpu.  Nokkrir rakkanna hefðu verið í þyngri kantinum, með sterka höfuðkúpu og sumar tíkurnar hefðu verið of léttar og ekki með nægilega fyllt trýni.  En á heildina litið hefðu þeir verið með mjög tegundartýpíska glaðlega skapgerð.

Alþjóðleg sýning HRFÍ 25. ágúst 2019
Sunnudaginn 25. ágúst var framhald 50 ára afmælissýningar HRFÍ á Víðistaðatúni í Hafnarfirði, nú var komið að alþjóðlegu sýningunni. Vegna mjög slæmrar veðurspár voru dómarar beðnir um að hraða sér sem mest og var áætlað að úrslit gætu hafist um kl. 12:30 og dæmt í tveimur hringjum. Pre-judging var sleppt. 19 cavalierar voru skráðir, þar af einn hvolpur og sennilega hefur dómarinn Fransesco Cochetti frá Ítalíu slegið hraðamet því hann var aðeins um 70 mín að dæma þá 42 hunda sem voru á undan okkar tegund, c.a. 2 mín á hund og ekki dró hann af sér með okkur og þá sem á eftir komu, þannig að sumir vissu varla hvort þeir væru að koma eða fara. Langfyrstur af dómurunum meðan aðrir þurftu lengri tíma og seinkaði því úrslitunum um rúmlega klukkustund.   

BOB var INTCh ISCh ISJUCh Magic Charm´s Articog BOS Ljúflings Tindra.  Tindra var einnig besti ungliði, fékk sitt annað ungliðastig og titillinn ungliðameistari því í höfn, auk þess sem hún fékk ísl. meistarastig, Cacib stigin fengu Magic Charm´s Artic og Litlu-Giljár Arabella. Besti ungliði af gagnstæðu kyni var Þórshamrar Þór sem einnig fékk sitt annað ungliðastig og titilinn ungliðameistari. Rakkameistarastigið kom í hlut Hafnarfjalls Unu Mána og er það annað stigið hans, auk þess sem hann hlaut vara-Cacib, sem uppfærist sem Cacib stig. Besti hvolpur tegundar var Eldlukku Líf.

Hafnarfjalls ræktun sýndi ræktunarhóp sem fékk heiðursverðlaun.

Magic Charm´s Artic komst í 6 hunda úrslit í tegundahópi 9.

Ljúflings ræktun gaf eignarbikara á báðar sýningarnar og færir deildin henni bestu þakkir fyrir.

Winter Wonderlandsýning HRFÍ

Síðasta sýning ársins, Winter Wonderland sýningin fór fram helgina 23. – 24. nóvember í reiðhöll Fáks í Víðidal. Sýningin var NKU og Crufts qualification sýning. Þetta var stærsta sýning ársins en alls voru 842 hundar skráðir.  38 cavalierar voru skráðir, þar af 11 hvolpar. Ásta María Guðbergsdóttir dæmdi cavalierana.  

BOB var ISJUCh Ljúflings Tindra og BOS CIB ISCh ISJUCh Magic Charm´s Artic, bæði fengu NKU stig og Crufts qualification og Tindra hlaut sitt annað stig til meistara. Rakkameistarastigið kom í hlut Hafnarfjalls Unu Mána og er það þriðja stigið hans. 5 ungliðar voru sýndir en enginn þeirra fékk framhaldseinkun. Besti öldungur var Eldlukku Mandla sem fékk stig til öldungameistara. Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Þórshamrar Natalíu Freyja og besti hvolpur 6 – 9 mánaða Eldlukku Mjölnir sem varð 4. besti hvolpur dagsins.

4 ræktunarhópar voru sýndir og fengu 3 þeirra heiðursverðlaun. 1. sæti fékk Hrísnes ræktun.

Drauma ræktun gaf vinningshöfum eignarbikara og Dýrabær gaf öllum hvolpunum verðlaunapeninga.  Deildin færir þeim bestu þakkir fyrir.

Deildin sér ásamt öðrum um uppsetningu, frágang og vinnu á nóvembersýningu hvers árs. Stjórnin færir öllum þeim sem lögðu fram vinnu sína kærar þakkir fyrir.

Deildin vill einnig koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem gáfu bikara og önnur verðlaun á sýningum ársins.  En það voru Dýrabær, Ljúflingsræktun og Draumaræktun.  Auk þess gáfu Brelluræktun og Hafnarfjallsræktun, sinn farandbikarinn hvor.

Uppskera ársins

Á árinu eignuðumst við 5 nýja meistara þar af fyrsta Norðurlandameistarann. En eftirtaldir urðu meistarar á árinu:

Hrísnes Max Alþjóðameistari, Hrísnes Selma Íslenskur meistari, Kvadriga´s Surprice Norðurlandameistari, Ljúflings Tindra Ungliðameistari og Þórshamrar Þór Ungliðameistari.

Deildin óskar eigendum og ræktendum þessara hunda innilega til hamingju með nýju sýningarmeistarana.

 Stigahæstu hundar ársins

  1. 28 stig ISCh NORDICCh RW-19 Kvadriga´s Surprise, eig. Guðríður Vestars, rækt. Torill Undheim            
  2. 27 stig CIB ISCh ISJCh RW-16 Magic Charm´s Artic, eig. María Tómasdóttir, rækt. Unni L.Olsen og Otto Egil Olsen
  3. 23 stig CIB ISCh NLM RW-18 Hrísnes Max, eig. Laufey Guðjónsdóttir, rækt. Þuríður Hilmarsdóttir
  4. 22 stig ISJUCh Ljúflings Tindra, eig. og ræktandi María Tómasdóttir

Stigahæsti ræktandi ársins var Hafnarfjallsræktun með 11 stig.

Sýningarþjálfarnir

Cavalierdeildin stóð fyrir allmörgun sýningarþjálfunum á árinu, þar af tveimur sérstaklega ætluðum ungum hvolpum og var vel mætt í þær allar.

Kynningarmál

Deildin tók þátt í smáhundakynningum í Garðheimum í febrúar og september á árinu og var ágætis aðsókn í bæði skiptin.  Deildin færir þeim sem stóðu vaktina þar þakkir.

Viðburðir

Viðburðir á vegum deildarinnar voru m.a. hvolpahittingur og aðventukaffi ásamt fjölmörgum göngum.

Hvolpahittingur

Hvolpahittingur var haldinn í góðu veðri í Sólheimakoti þann 28. maí.  Samkvæmt gestabók mættu 40 manns og 17 hvolpar.  Deildin bauð upp á grillaðar pylsur og drykki. Sunna Gautadóttir tók myndir og fangaði stemminguna með skemmtilegum myndum.  Allir voru sammála um að þetta hefði verið hin besta skemmtun og lukkast mjög vel.  Það var mál manna að mikilvægt væri að halda slíkan viðburð reglulega.

Aðventukaffi

Hið árlega aðventukaffi deildarinnar var haldið í Sólheimakoti 30 nóvember.  Góð mæting var að þessu sinni alls 20 manns og 21 fjörugur cavalier, svo kátt var í kotinu. Gaman var að sjá hversu mikinn metnað félagsmenn lögðu í að koma með hundana í einhverju jólalegu.  Þeir sem kusu fóru í stutta göngu áður en sest var að glæsilegu hlaðborði sem gestir lögðu til, en kaffi og gos var í boði deildarinnar.

Göngur

Fyrsta ganga ársins var að Nýársgangan og var hún að venju vel sótt.

Nýja göngunefndin sem tók til starfa eftir síðasta ársfund, setti saman metnaðarfulla göngudagskrá fyrir árið.  Göngur voru nú í hverjum mánuði og mæting var svipuð og árið áður. Alls voru farnar 9 göngur eftir að nefndin tók til starfa og að meðaltali mættu 13 manns og 5 hundar. Í þessar 9 göngur mættu samtals 48 hundar en sumir mættu í fleiri en eina og í heildina mættu 69 manns einu sinni eða oftar.

Ein best sótta ganga ársins var bæjarrölt í Hafnarfirði þar sem 30 manns og 21 hundur mætti. Eftir gönguna var sest niður á kaffihúsinu Pallet sem er eitt af fáum kaffihúsum sem leyfir hunda. Veður var gott og nutu hundar og menn vel  þeirra forréttinda sem það er á Íslandi að hundur og maður geti sest niður og slakað á í góðum félagsskap eftir góða göngu. Ekki er langt síðan slíkt var óhugsandi á Íslandi.

Önnur mál

Sótt hafði verið um kennitölu fyrir deildina á árinu 2018 og sú vinna kláruð á árinu 2019 og hefur því deildin nú fengið kennitölu. Í framhaldi af því var svo stofnaður reikningur í nafni deildarinnar hjá Íslandsbanka. Uppl. um kennitölu og reikningsnúner deildarinnar má finna inni á vefsíðu deildarinnar cavalier.is.

Einnig lét deildin útbúa nafnspjöld til að nota í kynningarstarfi deildarinnar.

Lokaorð

Að lokum vill stjórnin þakka öllum styrktaraðilum sem styrkt hafa deildina með ýmsum hætti, sjálfboðaliðum sem hafa tekið að sér ýmis störf og öllum félagsmönnum fyrir skemmtilegt og gott starfsár.

F.h. stjórnar Gerður Steinarrsdóttir