Fundargerð ársfundar 2021

Fundargerð ársfundar Cavalierdeildar HRFÍ fyrir árið 2021

 17.3.2021 HRFÍ Síðumúla 15. Reykjavík.

Setning ársfundar

Fundur var settur: 20:10

Formaður deildarinnar, Anna Þórðardóttir Bachmann opnaði fundinn og bauð fundargesti velkomna. 

Kosning fundarstjóra og fundarritara

Formaður lagði til að Björk Grétarsdóttir yrði kosin fundarstjóri og Fríða Björk Elíasdóttir fundarritari og var það samþykkt án athugasemda.

Boðun fundar

Fundarstjóri fór yfir boðun fundar og upplýsti að hann væri í samræmi við reglur félagsins. Engar athugasemdir voru gerðar við boðun fundarins.

Dagskrá fundar

Fundarstjóri fór yfir dagskrá fundarins en hún er þannig:

 1. Heiðrun aldursforseta Cavalier.
 2. Ársskýrsla 2020.  
 3. Stjórnarkjör. 
 4. Önnur mál.

Efni fundarins:

Fundarstjóri bauð formann velkomin í pontu að heiðra aldursforseta cavalier.

1. Heiðrun aldursforseta Cavalier.

Formaður deildarinnar, Anna Þ. Bachmann afhenti elsta Cavalier hundi landsins viðurkenningu.  Sjarmakots Fígaró Freyr, fæddur 3. maí 2006, foreldrar: Tibama´s Think Twice og Tibama´s Rainbow High. Fígaró Freyr kom ásamt eiganda sínum Magnúsi Þ. Gissurasyni sem tók við viðurkenningarskjali og blómum.  Ingunn Hallgrímsdóttir ræktandi Fígaró Freys var einnig á fundinum. Teknar voru myndir af Fígaró Frey ásamt eiganda og ræktanda.


2. Ársskýrsla 2020  

Formaður hélt kynningu með helstu atriðum úr skýrslu stjórnar en vegna aðstæðna var reynt að halda fundartíma í lágmarki. Gjaldkeri stjórnar Fríða Björk Elíasdóttir kom í pontu og fór yfir reikninga deildarinnar en útprentun var dreift til fundargesta. Engar athugasemdir bárust vegna ársskýrslu og ársreiknings og þeir því samþykktir. 

3. Stjórnarkjör. 

Kosið var um þrjú sæti í stjórn en kjörtímabili Önnu Þórðardóttur Bachmann var lokið, en auk þess höfðu þær Gerður Steinarsdóttir og Steinunn Rán Helgadóttir sagt af sér stjórnarsetu á starfsárinu. 

Fundarstjóri lagði fram tillögu þess efnis að Theodóra Róbertsdóttir yrði fengin til að sjá um kosningar, engar athugasemdir bárust og steig hún í pontu, hún óskaði eftir því að fá að leita til Margrétar Guðrúnar Bergsveinsdóttur með talningu. Það var samþykkt.

Theodóra óskaði eftir framboði úr sal og bárust fjögur framboð frá fundarsal en Anna Þórðardóttir Bachmann hafði þegar gefið kost á sér.

Theodóra fór yfir reglur til setu í stjórn deilda HRFÍ. 

Frambjóðendur komu síðan í pontu og héldu kynningarræður í eftirtaldri röð:

 • Anna Þórðardóttir Bachmann
 • Droplaug Lára Kjerúlf
 • Gerður Steinarsdóttir
 • Svanhvít Sæmundsdóttir
 • Valka Jónsdóttir

Niðurstaða kosninga var á þá leið að kjör hlutu:

 • Gerður Steinarsdóttir 
 • Svanhvít Sæmundsdóttir 
 • Valka Jónsdóttir 

Stjórn 2021-2022 er því skipuð þannig 

 • Björk Grétarsdóttir (á öðru ári í stjórnarsetu)
 • Fríða Björk Elíasdóttir (á öðru ári í stjórnarsetu)
 • Gerður Steinarsdóttir (kosin til tveggja ára)
 • Svanhvít Sæmundsdóttir (kosin til tveggja ára)
 • Valka Jónsdóttir (kosin til tveggja ára)

Ekki var kosið í nefndir en fráfarandi stjórn setur það í hendur nýrrar stjórnar að ákveða með hvaða hætti kjör í nefndir verður.

4. Önnur mál.

Hrönn Thorarensen óskaði eftir áheyrn og lagði fram erindi þess efnis að hún teldi kosningar frá ársfundi 15. janúar 2020 hafa verið með ólögmætum hætti og að því beri að ógilda kjör Bjarkar Grétarsdóttur og Fríðu Bjarkar Elíasdóttur. Ástæðan ógildingar er sú að kosið hafi verið með umboðum en það hafi ekki verið leyfilegt. Óskaði hún eftir því að kosið yrði um þeirra sæti einnig. 

Theodóra Róbertsdóttir kom í pontu og sagði að ekki væri hægt að fara fram á slíkt þar sem of langur tími væri liðin frá kosningu þeirra. Theodóra sá um talningu atkvæða á þeim fundi en en umsjón með kosningu var í höndum stjórnar en hún sagðist muna að 3 umboð sem allir vissu að hefðu borist og því litlu breytt með úrslitin.

Hrönn Thorarensen óskaði eftir því að álit yrði fengið á þessu.

Arna Sif Kærnested óskaði eftir áheyrn og lagði til að mál þetta færi til skoðunar hjá nýrri stjórn og bað hún fundarmenn að ganga af fundi í vinsemd. Engar athugasemdir bárust og upphófst mikið lófaklapp.

Ekki komu fleiri mál fram og var því fundi slitið.

Fjöldi fundarmanna var 50 manns, þar af 44 með kosningarétt. Vegna persónuverndar verða nöfn þeirra ekki talin upp.

Fundi slitið kl. 21.15

Fundargerð ritaði Fríða Björk Elíasdóttir.