Skýrsla stjórnar 2020

Skýrsla stjórnar 2020

Ársfundur Cavalierdeildar HRFÍ haldinn 17. mars 2021 á skrifstofu  HRFÍ, Síðumúla 15, Reykjavík.

Í ár eru liðin 25 ár frá stofnun deildarinnar en hún var stofnuð 14. maí 1995 í Sólheimakoti. Deildin hefur stækkað mikið á þessum 25 árum en árið 1995 voru  cavalier hundar í landinu 39 talsins. 

Afmælishátíð deildarinnar var haldin í Sólheimakoti þann 27. maí og alls mættu 19 manns með 14 hunda. Farið var í göngu og nýr vefur opnaður formlega. Síðast en ekki síst var að venju boðið upp á veitingar. Hvetjum við ykkur að skoða myndir hér 

Got

Alls  voru 17 got á árinu. Árið 2019 voru gotin 13 sem er sögulegt lágmark. Ættbókarfærðir hvolpar voru 67 en voru aðeins 48 árið 2019. 

Skipting hvolpanna var þannig; 23 rakki og 44 tíkur. Sé horft til skiptingu lita var hún þannig; 30 blenheim, 10 þrílitir,  15 Black&tan og 12 Ruby. Meðaltal hvolpa í hverju goti var 3.94 en aðeins 3.69 á fyrra ári. Til undaneldis voru notaðir 11 rakkar og 16 tíkur. 

Rakkar sem notaðir voru eru eftirfarandi: Magic Charm´s Artic með 3 got og 13 hvolpa, Sjávarlilju Emil með 3 got og 5 hvolpa, Kvadriga´s Surprice með 2 got og 10 hvolpa,  Demantslilju Prins 2 got og 7 hvolpa, Drauma Elvis með 1 got og 4 hvolpa, Eldlilju Tindur með 1 got og 5 hvolpa, Mánaljós Brúnó með 1 got og 5 hvolpa, Ljúflings Merlin Logi með 1 got og 4 hvolpa, Hrísnes Krummi Nói með 1 got og 6 hvolpa, Tröllatungu Myrkvi 1 got og 3 hvolpa og að lokum Eldlilju Rökkvi með 1 got og 5 hvolpa.

Alls voru 12 ræktendur með got á árinu, þar af voru þrír nýir ræktendur sem er ánægjulegt. Steinunn Rán Helgadóttir með Snjallar ræktun, Kristín Ósk Bergsdóttir með Sóleyjarræktun og Íris Arna Geirsdóttir en hún er ekki komin með ræktunarnafn. 

Við bjóðum þær velkomnar í hópinn.

Rakkalisti 

Á rakkalistanum eru 15 rakkar, 2 þrílitir, 6 blenheim (þar af tveir innfluttir), 3 ruby og 4 black&tan. 

Þess má geta að þar sem augnskoðun hefur ekki verið í boði bíða rakkar tilbúnir að að komast á listann. Þeir hafa undanþágu frá HRFÍ en eru ekki skráðir á lista deildarinnar fyrr en að lokinni augnskoðun. 

Rakkalistinn var gefinn út 21 sinnum á árinu auk fyrirspurna um einstaka skyldleikaútreikninga.

Innflutningur 

Á árinu voru fjórir innfluttir rakkar skráðir hjá HRFÍ og fögnum við því þar sem ekki hefur verið fluttur inn hundur í okkar tegund frá 2015. 

Atti’s Carlos, Black & tan, fluttur inn frá Noregi, ræktandi Aina Rudshaug, eigandi Þórunn Aldís Pétursdóttir

Bonitos Companeros Mr. Spock, Blenheim, fluttur inn frá Þýskalandi, ræktandi Markus Kirschbaum, eigendur Arna Sif Kærnested, Markus Kirschbaum og Anna Þórðardóttir Bachmann

Cavalierbyen Zareen Zayn, Ruby, fluttur inn frá Danmörku, ræktendur Charlotte Frandsen og Lars Norgaard Jensson, eigandi Guðlaug Hulda Tindskard.

Toffee Dobry Rok, Ruby, fluttur inn frá Póllandi, Ræktandi Wioletta Matusiak, eigandi Þórunn Aldís Pétursdóttir

Augnskoðanir 

Ein augnskoðun var á árinu og voru aðeins 13 hundar skoðaðir.

Einn hundur var greindur með Cortical Cataract, tveir með Geografisk Retinal Dysplasia og voru þeir hundar settir í ræktunarbann. 

Einn hundur greindist með Multifocal Retinal Dysplasia, annar með Retinal Dysplasia. Þá greindust nokkrir með Distischiasis (auka augnhár) og Cornea Dystrophi (kolestrol kristalla).

Vegna Covid 19 hefur ekki verið unnt að fá dýralækna til landsins og því gaf HRFÍ öllum tegundum með kröfu til augnskoðunar undanþágu til ræktunar án augnvottorða á meðan ekki væri hægt að bjóða upp á þær skoðanir sem félagið hefur hingað til boðið upp á. Þó er skilyrði að ræktunardýr eigi tíma í næstu skoðun sem boðið er uppá og mæti í hana.

Stjórn Cavalierdeildar sendi stjórn HRFÍ ábendingu vegna þessara undanþágu en fékk ekki viðbrögð við því erindi. 

Hjartaskoðanir

Í ár stóð deildin fyrir tveimur hjartaskoðunum fyrir tegundina okkar. Líkt og áður vorum við í samstarfi við Steinunni Geirsdóttur dýralækni en hún sýndi mestan áhuga þeirra sem stjórnin hafði samband við. Á árinu bættist Hjörtur Magnason dýralæknir á Egilsstöðum við hóp þeirra sem leyfi hafa til að gefa út hjartavottorð á vegum HRFÍ og fögnum við því.

Fyrri skoðunin fór fram 10. júní 2020 en þá mættu alls 29 hundar, af þeim voru 25 með hreint hjarta en 3 með murr gr. 1 og 1 með murr gr. 4. Seinni skoðunardagurinn var svo 24. febrúar 2021 en þá mættu 13 hundar. Að þessu sinni voru 11 með hreint hjarta en 2 með murr, 1 með gr. og 1 með gr. 2.

Alls bárust deildinni 111 hjartavottorð fyrir Cavalier sem hlustaðir voru á árinu, sem er nokkru meira en árið áður en þá voru vottorðin 97 alls.

Niðurstaða hjartavottorða á árinu er þannig: 

  • 2-3 ára voru 46 vottorð
  • 4-5 ára voru 36 vottorð, 1 með gráðu I og annar með gráðu II
  • 6-7 ára voru 19 vottorð, 2 með gráðu I
  • 8-9 ára voru 7 vottorð. 2 með gráðu II
  • 10-13 ára voru 3 vottorð.  1 með gráðu IV

DNA vottorð

Nýjar reglur sem taka gildi 1. apríl 2021 kveða á um frekari  kröfur er varðar skráningar til ættbókar. Stjórn Cavalierdeildar sendi stjórn HRFÍ erindi þess efnis að félagið yrði með hópskoðun vegna þessara breytinga þar sem deildin hefur góða reynslu af hópskoðunum en HRFÍ fannst ekki tilefni til að taka þátt.

Stjórn samdi við Steinunni Geirsdóttur dýralækni að bjóða upp á sýnatöku fyrir DNA samhliða hjartaskoðun og tókst vel til. Alls mættu 16 Cavalier hundar til sýnatöku og tók stjórnin að sér að senda sýnin og bíðum við eftir niðurstöðum. Þá hafa fleiri Cavalier eigendur sent sýni út og bíða einnig niðurstöðu.

Þegar hafa 11 skilað inn niðurstöðu prófana. 

  • Sex hundar sem tóku bæði prófin voru hreinir. 
  • Einn hundur var hreinn af CC en arfberi af EF. 
  • Þrír hundar tóku ekki CC prófið, tveir af þeim voru hreinir af EF en einn var arfberi. 
  • Einn hundur tók ekki EF prófið en er hreinn af CC.

Fyrir þá sem vilja kynna sér betur hvað EF / Episodic Falling og CC / Curly Coat/Dry eye má finna frekari upplýsingar á síðu deildarinnar hér

Þess má geta að sú rannsóknarstofa sem hingað til hefur verið notuð er ekki lengur starfandi og því var farið að skoða hvaða rannsóknarstofur væru í boði og HRFÍ mælir með. Við völdum rannsóknarstofuna LABOGEN í Þýskalandi sem er notuð af mörgum deildum og samþykkt af HRFÍ. Nánari upplýsingar má finna hér

Ræktunar- og staðlanefnd 

Ræktunar- og staðlanefnd óskaði eftir aðkomu stjórnar á endurskoðun 10. kafla um skráningar til ættbókar. Stjórn óskaði eftir aðkomu aðila utan stjórnar við úrlausn þessa máls en það tókst því miður ekki að fá þátttöku í verkefnið. Stjórn fór ítarlega yfir kaflann og leitaði ráða hjá dýralæknum og var  bæði horft til Norðurlandanna og Evrópu.

Niðurstaða stjórnar var ekki samhljóða og var tillaga lögð fyrir nefndina þess efnis að lækka ræktunaraldur undaneldisdýra niður í 2 ár en þó með því skilyrði að foreldar ræktunardýrs hafi bæði náð fimm ára aldri. Nefndin samþykkti aldursbreytinguna en ekki skilyrðið sem lá að baki tillögunni sem stjórnin lagði til.

Stjórn óskaði ítrekað eða fimm sinnum eftir fundi þar sem umræddur misskilningur yrði leiðréttur en engin viðbrögð voru fyrr en nú á nýju ári. Niðurstaða var sú að aldur til ræktunar myndi standa frá fyrri reglu eða 2,5 ár.

Með nýrri reglu er óskað eftir hnéskeljaskoðun en ekki gerð krafa um gráðu eða niðurstöðu. Þessar upplýsingar eru á hjartavottorði deildarinnar og því ekki krafist frekari gagna en niðurstöðu á því blaði.

Með nýrri reglu eru auknar kröfur vegna DNA prófana fyrir aðra hverja kynslóð og beinist sú prófun að EF / Episodic Falling og CC / Curly Coat/Dry eye  sjúkdómum.

Aldursforsetar tegundar: 

Óseyrar Andrea féll frá í lok árs, 16 ára og 4 mánaða gömul . Sendum við eigendum hennar samúðarkveðju okkar. Í dag er Sjarmakots Fígaró Freyr aldursforsetinn eftir því sem næst verður komist. Hann er fæddur 3. maí 2006 og er því 14 ára og 10 mánaða. Foreldrar hans eru Tibama´s Think Twice og Tibama´s Rainbow High en þau eru bæði innflutt frá Noregi. Ræktandi Sjarmakots ræktunar er Ingunn Hallgrímsdóttir.

Cavalier.is: 

Á árinu tók stjórn deildarinnar við umsjón á vef deildarinnar cavalier.is en María Tómasdóttir hefur frá upphafi haft veg og vanda af umsjón hans. Deildin og allir unnendur Cavalier tegundarinnar búa nú vel að þeim fróðleik og upplýsingum um hvaðeina er tengist ræktun ofl. Þökkum við Maríu af hjartans einlægni hennar óeigingjarna framtak.

Ákveðið var að setja upp nýjan vef en byggja hann að flestu leyti á þeim eldri og var hafist handa við það í mars, fyrsta útgáfa leit dagsins ljós á 25. ára afmæli deildarinnar 14. maí sl. Síðan þá hefur verið unnið jafnt og þétt að því að uppfæra og bæta þær upplýsingar sem þar er að finna. Höfum við fengið margar ábendingar frá félögum um hvaðeina sem betur hefur mátt fara og erum við þakklátar fyrir þetta góða samstarf og hlýhug sem við finnum fyrir innan deildarinnar.

Stjórn leitaði til Sunnu Gautadóttir sem gaf vinnu sína við útlitshönnun vefsins og Borgars Valgeirssonar sem sömuleiðis aðstoðaði okkur við stillingar og annað tæknilegt þar sem þekking okkar reyndist ekki næg. Þökkum við þeim kærlega fyrir sitt framlag.

Sunna hefur auk þess gefið kost á sér við umsjón mynda hluta vefsins og fyrir það erum við þakklátar enda er hún okkar uppáhalds ljósmyndari.

Þegar ný stjórn tók við keflinu þurfti hún að skrá allan gagnagrunn deildarinnar til skyldleika útreikninga að nýju, en mikill tími hefur farið í innslátt gagnanna sem eingöngu voru til í skjalaformi frá 2003. Við sjáum nú fram á betri tíð enda nánast öll gögnin komin í kerfið.

Þess má að lokum geta að stjórnin óskar áfram eftir öllum ábendingum um það sem betur má fara í netfangið cavalierdeildinhrfi@gmail.com

Sýningar

Tvær sýningar voru á árinu á vegum HRFÍ. 

Sú fyrri var Alþjóðleg sýning nefnd Norðurljósasýning  29. febrúar – 1. mars 2020.

Cavalier hundar voru sýndir á laugardegi en 42 voru skráðir, þar af 9 hvolpar, allir í eldri hvolpaflokki. 

Dómari var Tatjana Urek frá Slóveníu.  

BOB var CIB ISCh ISJUCh RW-16 Magic Charm´s Artic og BOS Eldlukku Frán Þulu Lukka. Bæði fengu Cacib stig, NLM stig og Lukka sitt fyrsta meistarastig. Þetta var annað NLM stig Artic´s sem varð þar með Norðurljósameistari. Artic náði svo 3. sætinu í sterkum tegundahópi 9.

Rakkameistarastigið kom í hlut ungliðans Eldlukku Mjölnis sem einnig varð besti ungliði tegundar, BOS ungliði var Hafnarfjalls Selmu Sara, bæði fengu ungliða meistarastig.

Besti hvolpur tegundar var Þórshamrar Natalíu Freyja sem gerði sér lítið fyrir og varð 2. besti hvolpur sýningar dagsins í þessum aldursflokki. BOS hvolpur var Hafnarfjalls Nói.

Besti öldungur var Eldlukku Mandla sem fékk sitt annað öldunga meistarstig. BOS öldungur var Eldlukku Ögri sem einnig fékk öldunga meistarastig.

Afkvæmahópur Hrísnes Selmu fékk heiðursverðlaun og 1.sæti og 3. sæti í úrslitum sýningar,  ræktunarhópur frá Hafnarfjallsræktun fékk heiðursverðlaun og 1. sæti en komst ekki í úrslit.

Eldlukku Mjölnir keppti um besta ungliða sýningar á sunnudegi en komst ekki í úrslit. Sama gilti um Eldlukku Möndlu sem keppti um besta öldung sýningar á sunnudeginum.

Dýrabær gaf vinningshöfum eignarbikara og öllum hvolpunum þátttökuviðurkenningu og þakkar deildin kærlega fyrir þann góða styrk.

Eftir sýningu fór góður hópur Cavalier unnenda út að borða á Grillhúsinu og átti ánægjulega stund saman.

Match show – Útsláttarkeppni HRFÍ var haldinn 20. júní. 

Einn cavalier tók þátt hin 5 mánaða Hrísnes Lukka en hún komst ekki áfram.

Sýningarþjálfanir 

Deildin stóð fyrir tveim sýningaþjálfunum fyrir febrúar sýninguna, þær voru í hundasalnum að Eirhöfða og voru vel sóttar.

Viðburðir

Feldhirðu námskeið. var haldið 3 júní, Steinunn Rán Helgadóttir ásamt Önnu Þórðardóttur Bachmann kynntu þar ýmis hagnýt ráð þegar kemur að feldhirðu. Mæting hefði mátt vera meiri en sex manns mættu í Síðumúlann en einnig var streymt frá viðburðinum og tóku fjórir þátt með þeim hætti.

Samprjón. Guðrún Lilja Rúnarsdóttir var með samprjón á vegum, Við elskum cavalier og Cavalierdeildar HRFÍ sem vakti þónokkra athygli og eignuðust margir Cavalier hundar nýjar peysur, fyrir áhugasama má sjá nánar hér 

Vegna aðstæðna féllu fastir liðir eins og hvolpahittingur og aðventukaffi niður á árinu.

Göngur 

Nýja göngunefndin sem tók til starfa eftir síðasta ársfund, setti saman metnaðarfulla göngudagskrá fyrir árið þar sem fara átti í eina göngu í hverjum mánuði en vegna Covid aðstæðna hefur sú áætlun ekki haldist nema að hluta sem hér segir:

  • Nýársgangan – Tjörnin – 11. janúar 2020 – 13 manns með 9 hunda
  • Febrúar ganga – Seltjarnarnes – 15. febrúar .2020 – 14 manns með 13 hunda
  • Mars – engin ganga vegna Covid takmarkana
  • Maí ganga – Rauðavatn/Paradísardalur – 7. maí 2020 – 12 manns með 13 hunda
  • Júní ganga – Stórhöfði – 24. júní 2020 – 8 manns með 10 hunda
  • Ágúst ganga – Reynisvatn – 15. ágúst 2020 – 14 manns með 11 hunda
  • September ganga – Langavatn – 17. september 2020 – 12 manns með 9 hunda
  • Október – janúar – engar göngur vegna Covid takmarkana
  • Febrúar ganga – Rauðavatn/Paradísardalur – 20. febrúar 2021 – 11 manns með 6 hunda

Lokaorð.

Nú er lokið einu skrýtnasta starfsári deildarinnar en hvern hefði órað fyrir því að við ættum eftir að lenda í heimsfaraldri með tilheyrandi fjöldatakmörkunum. Við lærðum þó ýmislegt af nýjum aðstæðum og fóru samskipti að miklu leyti fram með rafrænum hætti. Ferfætlingarnir okkar fóru þó á mis við sýningar, göngur og ýmsar samverustundir. 

Stjórnin þakkar öllum sem lagt hafa hönd á plóg sína aðkomu og vonar að við getum hist oftar á komandi ári.

Stjórnin,

Anna Þórðardóttir Bachmann, formaður

Björk Grétarsdóttir, ritari

Fríða Björk Elíasdóttir, gjaldkeri