Ársfundur Cavalierdeildar HRFÍ 2025 fyrir árið 2024
Melabraut 17 Hafnarfirði
13. febrúar 2025 kl. 20.00
Fundinn sátu: Stjórn (Anna Þórðadóttir Bachmann, Bergþóra Linda Húnadóttir, Guðríður Vestars, Sunna Gautadóttir og Svanhvít Sæmundsdóttir) auk 6 fundargesta.
Setning ársfundar
Anna Þórðardóttir Bachmann, formaður deildarinnar, setti fundinn kl. 20:15 og bauð gesti velkomna.
Heiðrun aldursforseta
Aldursforseti deildarinnar árið 2024 er Öðlings Nagli en hann er fæddur 22. október 2009. Hann er því orðinn 15 ára og 4 mánaða. Foreldrar hans voru þau Nettu Rósar Billy og Öðlings Asía, eigandi hans Guðbjörg Ingimundardóttir og ræktandi Sólborg Friðbjörnsdóttir. Við óskum eigendum og ræktanda til hamingju með flottan öldung, en hann er búsettur á Akureyri og var því sjálfur fjarri góðu gamni. Fulltrúar frá fjölskyldu hans, Auður og Oddur, tóku á móti viðurkenningu og blómum sem Anna Þórðardóttur Bachmann formaður afhenti fyrir hönd deildarinnar.
Þess má geta að Skutuls Saxi sem var aldursforseti 2023 kvaddi 3. febrúar sl. þá 16 ára og 6 mánaða og því annar elsti í tegundinni frá upphafi. Sendum við kveðju til eigenda hans og ræktanda.
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Formaður lagði til Guðbjörgu Guðmundsdóttur sem fundarstjóra og Sunnu Gautadóttur sem ritara og var það samþykkt án athugasemda.
Boðun fundar
Guðbjörg fundarstjóri staðfesti lögmæti fundarins og fór yfir dagskrá.
- Ársskýrsla 2024
- Ársreikningar
- Stjórnarkjör
- Önnur mál
Fundarstjóri bauð formann velkominn í pontu til að kynna ársskýrslu.
Skýrsla stjórnar
Anna Þórðardóttir Bachmann fór yfir ársskýrslu deildarinnar.
Eftir yfirferð um heilsufarsskoðanir ársins spurði Steinunn Rán Helgadóttir hvort enn sé til staðar dýralæknir á Egilsstöðum sem hefur réttindi til að gefa út hjartavottorð. Sá dýralæknir, Hjörtur Magnason, starfar enn þar og einnig hefur stjórn deildarinnar hvatt dýralækni á Akureyri til þess að sækja um réttindin. Svanborg S. Magnúsdóttir benti á að gott væri ef fleiri dýralæknar hlytu þá þjálfun sem þarf til og Cavalierdeildin og/eða Hundaræktarfélagið gæti þá jafnvel styrkt það nám.
Einnig myndaðist umræða um MRI skönnun vegna holmænu og Arna Sif Kærnested kom þar með tillögu um að deildin stæði fyrir ræktenda spjalli áður en þetta yrði skipulagt nánar, svo hægt væri að komast að einhverju samkomulagi um hvernig við nýtum niðurstöðurnar, áður en skannað er.
Fundarstjóri þakkaði formanni fyrir ítarlega skýrslu og bauð næst Svanhvíti Sæmundsdóttur gjaldkera að kynna ársreikninga.
Gjaldkeri lagði fram og skýrði reikninga deildarinnar
Svanhvít Sæmundsdóttir las yfir ársreikninga deildarinnar.
Steinunn Rán Helgadóttir óskaði deildinni til hamingju með stórt ár þar sem mikið var gert.
Kosning í stjórn
Laus voru þrjú sæti til tveggja ára og Guðríður Vestars og Svanhvít Sæmundsdóttur buðu sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu. Bergþóra Linda Húnadóttir bauð sig ekki fram og þökkum við henni kærlega fyrir sitt framlag síðustu tvö ár. Engin framboð bárust úr sal en skorað var á Steinunni Rán Helgadóttur sem sló til og var hún því sjálfkjörin.
Önnur mál
Anna Þórðardóttir Bachmann formaður kom í pontu og vakti athygli á því að eftir breytingu á gjaldskrá HRFÍ er nú rukkað fyrir að öll heilsufarsvottorð, þar á meðal hjartavottorðin okkar, séu sett á Hundavefinn. Stjórn deildarinnar hefur nú þegar sent inn erindi til stjórnar HRFÍ um að endurskoða þetta. Vottorðin eru enn í þríriti, dýralæknar kaupa vottorðin af HRFÍ og eigendur hunda kaupa það svo af dýralæknum. Ferlið myndi einfaldast mikið ef hjartavottorðin yrðu strax rafræn en það er ennþá bið í að verði úr því.
Arna Sif Kærnested spurði hvort athugað hefði verið hvort stjórnarmeðlimur geti fengið að setja inn vottorð einu sinni í mánuði og þá án endurgjalds. Það er ein hugmynd en helst viljum við að þetta gjald verið alveg fellt niður. Eitt af því sem nefnt er í NKK dómnum þar sem ræktun á cavalier var bönnum í Noregi, er einmitt ósamræmi í gögnum Cavalierklúbbsins og félagsins. Arna Sif spurði einnig hvað þurfi að borga fyrir leigu á salnum fyrir heilsufarsskoðun en það er sama gjald og í almennri leigu.
Ákveðið var að álykta um þessi atriði.
Formaður fór einnig yfir hvað er fyrirhugað hjá deildinni á árinu en þetta er t.d. mjög stórt sýningaár. Í boði fyrir okkar tegund eru 11 sýningar, tvær eingöngu fyrir hvolpa en rest fyrir allan aldur. Cavalierdeildin á 30 ára afmæli þann 14. maí næstkomandi og þann 10. og 11. maí verður í tilefni þess tvöföld deildarsýning. Einnig er á döfinni að halda fleiri feldhirðunámskeið, hvolpahitting, fleiri göngur en á síðastliðnu ári o.fl. Ef hugmyndir af viðburðum eða öðru vakna má endilega deila þeim með stjórn.
Arna Sif Kærnested beindi spurningu til gjaldkera um hvernig deildin sæi fyir sér að brúa bilið á þessu stóra ári með tvöfaldri deildarsýningu, eftir smávegis tap á síðasta ári. Deildin á ennþá til pening þrátt fyrir það og þó deildarsýning verði tvöföld í ár eru flugleiðir mun hagstæðari nú og sá kostnaður mun því ekki tvöfaldast.
Boðið var upp á kaffi og veitingar á meðan ályktun var sett saman en hún hljóðar svo:
Ársfundur Cavalierdeildar HRFÍ ályktar um nýtilkomna gjaldtöku á innskráningu hjartavottorða og einnig hvað varðar leigu á sal þegar um heilsufarsskoðun er að ræða. Dýralæknar kaupa þar til gerð vottorð af félaginu og eigendur hunda greiða þau hjá dýralækni, því teljum við að gjaldtakan sé tvítekin á hvert vottorð. Fundurinn óskar eftir að stjórn HRFÍ falli frá nýrri gjaldtöku vegna hjartavottorða. Þegar horft er til mikilvægi heilsufarsskoðana á vegum deildarinnar telur fundurinn einnig að leiga á sal vegna hópskoðana ætti að vera gjaldfrjáls.
Ályktunin var samþykkt samhljóða af öllum viðstöddum.
Lok fundar
Engin fleiri mál voru á dagskrá, formaður sleit fundinum því um kl. 21:30 og þakkaði gestum fyrir komuna.
Fundargestir voru:
- Anna Þórðardóttir Bachmann
- Arna Sif Kærnested
- Ásta Björg Guðjónsdóttir
- Bergþóra Linda Húnadóttir
- Guðríður Vestars
- Íris Dögg Gísladóttir
- María Tómasdóttir
- Ólöf Sunna Gautadóttir
- Steinunn Rán Helgadóttir
- Svanborg S. Magnúsdóttir
- Svanhvít Dröfn Sæmundsdóttir
Fundargerð ritaði Sunna Gautadóttir.