Skýrsla stjórnar 2007

Fundur haldinn 27. mars 2007 að Hótel Lind, Rauðarárstíg Kæru félagar, Tólfta starfsár deildarinnar hefur verið frekar tíðindalítið svona miðað við síðustu ár – segir ekki einhvers staðar að engar fréttir séu góðar fréttir –  en alla vega hefur ræktunin verið að mestu áfallalaus og eykst með hverju árinu.Alls fæddust 127 hvolpar á árinu 2006 eða þremur fleiri en síðasta ár, en mikill munur var á fjölda gota, því á árinu voru 34 got miðað við 26 got árið 2005.  Meðaltal hvolpa í goti var því mun lægra á þessu ári eða 3.74 hvolpar í goti á móti 4.77 í fyrra, sem er reyndar óvenju hátt meðaltal. Þess má geta að á árinu fæddist stærsti cavalierhvolpur sem hér hefur litið dagsins ljós, heil 406 gr. sem gæti verið heimsmet!22 ræktendur voru með þessi 34 got, þar af 8 nýir ræktendur. Fimm þeirra hafa fengið ræktunarnöfn. Þessir ræktendur eru: Svanhildur Benediktsdóttir með Bensa-ræktun, Þórunn G.Þórarinsdóttir með Snæfjalla-ræktun, Unnur Birna Magnúsdóttir með  Kærleiks-ræktun, Linda Ellen Tómasdóttir með Glóða ræktun og Ásta Björg Guðjónsdóttir með Bjargar-ræktun.  Bjóðum við þessa nýju ræktendur velkomna í hópinn.  34 cavalierræktendur eru nú með skráð ræktunarnöfn en af þeim eru a.m.k. 6 sem eru ekki virkir í dag.Cavalierinn var í fyrsta sæti í gotskráningu hjá HRFÍ árið 2006 og þar með vinsælasta tegundin.  Alls var ættbókarfært 31 got og 131 cavalierhvolpur. Næsta tegund var Labrador retriever en þar voru ættbókarfærð 14 got og 98 hvolpar svo munurinn er ansi mikill.
Rakkarnir voru í meirihluta þetta árið eins og venjulega eða 69 á móti 58 tíkum, nánast sama skipting og í fyrra. Blenheim liturinn var yfirgnæfandi þetta árið eða 89 hvolpar, 20 voru þrílitir, 12 rauðir en aðeins 6 svartir og brúnir.  14 rakkar voru notaðir til undaneldis þetta árið sem er ásættanlegt.Innflutningur
Ekkert lát er á innflutningi og enn eitt metið slegið þar því 10 cavalierar voru fluttir inn á starfsárinu, 6 rakkar og 4 tíkur og eru sennilega flestir þeirra ætlaðir til ræktunar.   Það ætti að vera ræktuninni mjög til góðs, hversu mikið hefur verið flutt inn af cavalierum þrátt fyrir gífurlegan kostnað við innflutning. Í dag geta flestir tíkareigendur valið úr fjölda undaneldishunda, bæði innfluttum og íslensk ræktuðum án þess að óttast of mikla skyldleikaræktun.Eftirtaldir innfluttir hundar hafa verið skráðir í ættbók hjá HRFÍ á starfsárinu:
Lanola Pearl Dancer, blenheim rakki frá Englandi f. 01.05.2005, rækt. Mr.S.R Goodwin, eig. Ingibjörg Halldórsdóttir.
Sperringgardens Crown Dancer, þrílitur rakki frá Svíþjóð, f. 10.07.2004, rækt. Leni Louise Nyby, eigendur María Tómasdóttir og Bjarney Sigurðardóttir
Tveir black and tan rakkar komu frá Noregi, þeir Tibama´s Going for Gold, f. 30.11.2004 og Tibama´s Santas Dream, f. 23.12.2005.  Ræktendur þessar hunda eru Aud og Oystein Holtskog og eru þeir báðir í eigu Lindu Helgadóttur.
Brooksbur Brite´N´Bootiful, blenheim tík frá Englandi f. 28.4.2003, rækt. Mrs. M A Crooks, eig. Sæunn Þórisdóttir.
Bavnehöj´s Amina, ruby tík frá Danmörku f. 9.12.2005, rækt. Yvonne-Salling og eigandi Berglind Jónsdóttir. Finch Such An Sofie´s Trotsky Junior, blenheim rakki frá Svíþjóð f. 17.02.2003, ræktandi Anita Backlund og Sperringgardens Catch Of The Day, einnig blenheim rakki frá Svíþjóð  f. 03.04.2006, rækt Leni-Louise Nyby, báðir eru i eigu Maríu Tómasdóttur og svo að lokum Leelyn Lillian, ruby tík frá Englandi f. 9.12.2005, rækt. Mrs L Shinnick og eigandi Edda Hallsdóttir.Auk þess var þrílit tík flutt inn á árinu frá Danmörku en hún hefur af einhverjum ástæðum ekki verið skráð í ættbók hjá HRFÍ ennþá.Það þarf víst varla að taka það fram að cavalierinn var í 1. sæti hjá HRFÍ af innfluttum tegundum en 11 innfluttir cavalierar voru skráðir í ættbók hjá félaginu almanaksárið 2006, í næsta sæti var Papillon með 6 innflutta hunda. Það er ekki að því að spyrja við þurfum alls staðar að troða okkur fyrst og finnst víst sumum nóg um! Heilbrigðismál
Við höfum verið mjög lánsöm þetta árið, því ekkert sérstakt hefur komið uppá í ræktuninni, engin ný tilfelli hvorki af “rough coat syndrome”, “episodic falling”, nýrnabilun eða annarri óáran.
Það er þó mjög mikilvægt að vanda vel til þegar valin eru dýr saman til pörunar, þar sem fullvíst er að berar fyrir þessum sjúkdómum eru til staðar. Forðast ætti því að para saman of skylda hunda, þar sem meiri möguleikar eru á þessum sjúkdómum sé það gert.
Deildin hefur aðgang að forriti þar sem hægt er að skrifa út “trial matings” eða tilrauna ættbækur þar sem skyldleikaprósentan kemur fram og auðveldar það okkar starf mjög þegar benda þarf á undaneldishunda.
Yfirleitt er ráðlegt að skyldleikaprósentan fari ekki yfir 6% nema í algjörum undantekningartilvikum, þegar ekki er vitað um neina arfbera fyrir þekktum sjúkdómum hjá undaneldisdýrunum og nálægum forfeðrum þeirra. Illa ígrundaðar paranir þar sem ekki er tekið tillit til þekktra arfbera, sem geta verið á bak við undaneldisdýrin og jafnvel tekin sú áhætta að skyldleikarækta þar á ofan getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir tegundina og orðið til þess að sjúkdómurinn margfaldast á komandi árum.  Við viljum fyrir alla muni koma í veg fyrir slíkt.Það eru ekki einungis tíkareigendur sem eiga að bera ábyrgð á ræktuninni, því engir koma hvolparnir ef rakkinn er ekki til staðar. Og alveg eins og tíkareigendur eiga að vera samviskusamir í vali á rakka fyrir tíkina sína eða þegar meta skal hvort tíkin sé ræktunarhæf,  þá þurfa rakkaeigendur ekki síður að vera meðvitaðir um nákvæmlega sömu hluti og sýna ekki minni samviskusemi í að lána ekki hundinn sinn á hvaða tík sem er.  Framtíð cavalieranna hér á landi stendur og fellur með því að við séum öll samtaka í því að gera okkar besta fyrir tegundina.  Við skulum muna það að ef hundurinn er ekki heilbrigður er hann einskis virði fyrir ræktunina sama hversu fallegur hann er.Hjartaskoðanir
Engin skipulögð hjartaskoðun vegna míturlokuhrörnunar fór fram á árinu en alls voru þó 89 cavalierar hjartaskoðaðir hjá Helgu Finnsdóttur, dýralækni frá 1. janúar 2006 til 28. febrúar 2007, langflestir á aldrinum 2ja til 5 ára og sennilega flestir vegna væntanlegs undaneldis.Aldursskipting og útkoma var annars þannig:
Á aldrinum 2ja til 3ja ára voru 26 hundar skoðaðir og allir heilbrigðir. 24 hundar voru skoðaðir á aldursbilinu 3ja til 4ra ára og reyndust allir heilbrigðir.  4 – 5 ára hundar voru 26 talsins og einnig allir heilbrigðir. 7 hundar á aldrinum 5 til 6 ára voru skoðaðir, 4 voru heilbrigðir en 3 með murr á bilinu 1 til 3 stig. 6 – 7 ára hundar voru 2, annar heilbrigður en hinn með murr gr. 2. Í flokknum 8 ára og eldri voru aðeins 4 hundar, einn þeirra var enn heilbrigður 10 ára gamall en hinir voru með gr. 1 til 2. Þetta gefur að sjálfsögðu ekki mikla mynd af ástandi stofnins, þar sem svo fáir hundar eru skoðaðir á aldrinum 5 – 6 ára en það er á þeim aldri sem um 50% þeirra greinast með fyrstu einkenni míturlokuhrörnunar samkvæmt eldri könnunum. Það er þó mjög gott að allir skyldu reynast heilbrigðir í flokknum 4 – 5 ára, en þar er sennilega oftast verið að skoða foreldra tilvonandi undaneldisdýra, skv. tilmælum deildarinnar um hrein 4ra ára vottorð foreldra þeirra.Stjórnin hefur ákveðið að birta lista á cavaliersíðunni yfir hunda sem hafa hrein hjartavottorð við lágmark 4ra ára aldur, síðan við 5 ára aldur, 6 ára aldur og eldri og ætti það að verða cavaliereigendum hvatning til að fylgjast vel með hundum sínum með því að láta skoða þá einu sinni á ári og reyna að koma þeim á lista yfir eldri heilbrigða cavalierhunda.  Þetta yrðu einnig góðar upplýsingar fyrir hvolpakaupendur og ræktendur í framtíðinni.  Þó ekki sé ræktað undan öllum þessum hundum er samt mikilvægt að hafa upplýsingar um heilbrigði foreldra og systkina ræktunardýranna og sem flesta forfeður þeirra.Um leið og hundarnir voru hjartaskoðaðir voru hné þeirra einnig skoðuð og reyndist enginn þeirra vera með lausar hnéskeljar.Hjartavottorð gefin út af Helgu Finnsdóttur hafa nú verið samþykkt hjá Sænska Kennelklúbbnum en eingöngu dýralæknar sem hafa smádýralækningar sem sérgrein og hafa fengið þjálfun hjá hjartasérfræðingi í að hlusta eftir hjartamurri eru samþykktir þar. 
Nokkrir aðrir dýralæknar hér á landi eru að ljúka slíku sérfræðinámi á þessu ári og er ekki ólíklegt að þeir leiti eftir slíkum réttindum að því loknu. Það mundi vissulega auðvelda cavaliereigendum að láta skoða hundana sína ef fleiri dýralæknar hefðu slík réttindi.Augnskoðanir
40 cavalierar voru augnskoðaðir í maí 2006 , einn greindist með Geographic Retinal Displasia og annar með Multifocal Retinal Displasia.  Þar sem þessir augnsjúkdómar hafa ekki greinst hér fyrr í cavalier og eru taldir arfgengir, fannst stjórninni rétt að skilgreina undaneldisreglur varðandi augnsjúkdóma betur, en áður var einfaldlega sagt að ekki skyldi rækta undan hundum með arfgenga augnsjúkdóma.Reglan hljóðar því þannig í dag:
Vottorð má ekki vera eldra en 24 mánaða við pörun.  Ekki skal rækta undan hundum sem greinast með eftirtalda augnsjúkdóma: PRA, Starblindu (þ.e. Juvenile cataract) meðfædda starblindu (Microphthalmia cataract)eða MOA, Retinal Dysplasia geographic eða Multifocal RD.
Þessi regla tók gildi þann 1. ágúst s.l.29 cavalierar voru augnskoðaðir í nóvember 2006 og reyndust allir fríir af ofangreindum sjúkdómum.Það sem oftast greinist í cavalierum hér er cornea dystrophi, eða lípíð í glæru sem stafar af útfellingu lípid kristalla í glærunni sem mynda gráa flekki í öðru auga eða báðum. Ástæðan er óþekkt og oftast hverfa flekkirnir og virðast ekki valda hundinum neinum óþægindum. Þetta greinist helst á aldrinum 2 – 4 ára. Ekki er talið að þetta hafi nein áhrif á sjón og misjafnt hvort augnlæknar telja þetta arfgengt eða ekki, er jafnvel talið stafa af of fituríku fóðri.  En hvað sem öðru líður ætti ekki að para tvö slík dýr saman, svona til öryggis. Einnig greinist einstaka hundur með Ditchiachis eða innvaxin augnhár en það var víst algengt vandamál í tegundinni á árum áður.Aðrir sjúkdómar
Eins og áður sagði hefur ræktunin sem betur fer verið áfallalaus þetta árið og hvorki nýir sjúkdómar eða aðrir sem áður hafa stungið sér niður látið á sér kræla.  Engu að síður falla auðvitað alltaf einhverjir hundar frá, bæði vegna aldurs, einhverra sjúkdóma eða slysa.Þetta árið vitum við þó aðeins um 19 hunda sem hurfu á vit forfeðra sinna. Fyrstan má telja fyrrverandi aldursforsetann okkar og fyrsta innflutta rakkann,  Sperringgardens Chutney eða Gorba sem var svæfður í nóvember eftir heilablóðfall, tæplega 15 ára gamall.  Annar innfluttur öðlingur, Sperringgardens Christian Collard, Brasse var svæfður tæplega 12 ára gamall vegna æxlis í nýrnahettum. Fyrsti innflutti black and tan rakkinn, Granasil Mr. Darkstar eða Neró fór einnig í hundaheiminn en hann laut í lægra haldi fyrir krabbameini rúmlega 11 ára gamall. Þessir hundar láta allir eftir sig marga afkomendur, þannig að genin þeirra haldast í stofninum okkar. 
Þrjár tíkur, 9, 10 og 12 ára fóru allar úr krabbameini.  Fjórir cavalierar dóu vegna hjartabilunar, þrír rakkar 9 til 10 ára og ein 10 ára tík. 9 ára rakki fór vegna bilaðs ónæmiskerfis og tæplega 4ra ára tík dó úr hvítblæði að talið er.  Rúmlega 7 ára tík fór úr sykursýki og tveir cavalierar, 1 árs og 7 ára dóu úr eitrun. 2 systkini tæplega 3ja ára fóru úr einhvers konar sýkingu að talið er og 2 ungir cavalierar dóu af slysförum. Ætla má að cavalierstofninn telji nú u.þ.b. 600 hunda.  Aldursforsetinn okkar í dag er Ljúflings Askur, sem verður 14 ára í apríl n.k., en hann er úr fyrsta cavaliergotinu hér á landi 1993 og sá eini sem eftir lifir af þeim 12 hvolpum sem fæddust það ár.Kynning á tegundinni
Deildin tók þátt í dýrahátíð VÍS/Agria sem haldin var í Reiðhöllinni í Víðidal s.l. vor. og var þar með bás. Fannst okkur frekar dræm aðsókn að sýningunni enda margt um að vera þessa helgi.  Kynningin í Garðheimum í febrúar tókst aftur á móti einstaklega vel og var mjög mikil aðsókn og góð aðstaða til að kynna hundana. Auk þess hefur deildin verið með kynningarbás fyrir tegundina á öllum sýningum HRFÍ.  Viljum við þakka öllum sem hafa komið að þessum kynningum fyrir gott starf í þágu deildarinnar.Árleg Laugavegsganga HRFÍ fór fram 4. nóvember í hálfgerðu slagviðri og var vel sótt að vanda, en veðrið skyggði þó óneitanlega á.  Komið hafði verið upp tækjum fyrir hundafimi í Hljómskálagarðinum og voru þó nokkrir sem nýttu sér það þrátt fyrir rigninguna. Um kvöldið skemmtu eigendur sér síðan hundlausir í Félagsheimili Fáks í Víðidal og voru nokkrir cavaliereigendur þar á meðal.Göngunefndin okkar hefur verið með reglulegar göngur allt árið u.þ.b. mánaðarlega og voru flestar þeirra vel sóttar a.m.k. þegar sæmilega viðraði en hið árlega grillpartí féll hins vegar niður í júní vegna mjög mikils hvassviðris.  Aftur á móti var aðventukaffið 26. nóvember s.l. mjög vel sótt, enda var frábært veður, sól og logn.  Hlaðborðið svignaði að venju undan kræsingunum og var ekki amalegt að mæta þar eftir hressandi gönguferð.  Hin röska göngunefnd sá um hátíðina að þessu sinni og voru kaffi og gosdrykkir í boði Hnoðra ræktunar.Fræðslukvöld fyrir ræktendur
Mánudagskvöldið 9. október 2006 var fræðslukvöld fyrir cavalierræktendur og aðra sem áhuga höfðu á ræktun tegundarinnar.  Fyrirlesari var formaður norska cavalierklúbbsins og cavalierræktandi til fjölda ára, Aud S.Holtskog, sem kom hingað til að heimsækja nokkra ræktendur og fylgjast með haustsýningu HRFÍ. Hér á landi eru níu Tibama´s hundar, sem hafa verið fluttir inn frá árinu 2002.
Aud fjallaði um ræktun almennt, línuræktun og hvernig er best að lesa úr ættbókum. Hún tók einnig sérstaklega fyrir ræktun einlitu hundanna og gaf okkur ýmsar ráðleggingar í sambandi við ræktunina í framtíðinni.  26 ræktendur og annað áhugafólk mætti á fundinn og hafa vonandi allir farið fróðari heim.Sýningar
Aðeins þrjár sýningar stóðu cavalierunum til boða s.l. ár eða helmingi færri en árið áður enda bættist enginn íslenskur sýningarmeistari við þetta árið.Sumarsýning HRFÍ var haldin 24. – 25. júní. Dæmdir voru 50 cavalierar þar af 5 í hvolpaflokki.  Dómari var Annika Ultveit-Moe frá Svíþjóð, sem var ansi ströng og gaf 18 hundum aðra einkunn og þremur 3. einkunn. Besti hvolpur tegundar var Kjarna Gold Charm Glódís, sem fékk heiðursverðlaun og keppti um besta hvolp sýningar, þar sem hún stóð uppi sem sigurvegari.  Besti hundur tegundar var Fuzzyheimen´s Norwegian Sky Trooper og best af gagnstæðu kyni var ISCH Nettu Rósar Fiona.Haustsýning HRFÍ fór fram 7. – 8. október 2006 í Reiðhöllinni í Víðidal.  Að þessu sinni voru skráðir 79 cavalierar, sem er nýtt met fyrir utan deildarsýningarnar.  Þrettán voru skráðir í hvolpaflokki. Dómarinn var.Elizabeth Cartledge frá Bretlandi, mjög vel þekktur cavalierdómari.  Að þessu sinni fengu 17 cavalierar 2. einkunn, en hinir hlutu náð fyrir augum dómarans með 1. einkunn.
Besti hvolpur tegundar 4- 6 mánaða var Ljúflings Silvia Nótt og besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Kærleiks Hector Hetja.
Besti hundur tegundar var Sjarmakots D´Or Candy Carmen og bestur af gagnstæðu kyni var ISCH Leelyn City Boy. Besti öldungur tegundar var Gæða Jörvi, sem heldur uppi heiðri tegundarinnar og varð 4. besti öldungur sýningar. Nettu Rósar ræktunin sýndi ræktunarhóp sem varð besti ræktunarhópurinn á laugardeginum.Vorsýning HRFÍ fór fram 4. mars s.l. og kom dómarinn, Cathy Delmar frá Írlandi, 70 cavalierar voru skráðir til leiks, þar af 14 í hvolpaflokki. Útkoman var nokkuð góð, því aðeins 16 cavalierar fengu aðra einkunn og komu tíkurnar að þessu sinni mun betur út –  en venjulega er því öfugt farið. Hins vegar var nokkur óánægja með dómarann, sem þótti skrifa vægast sagt mjög undarlega og óvenjulega dóma. T.d. voru þrír eða fjórir cavalierar settir út af með 2. einkunn vegna þess að þeir höfðu of stór augu!  Stór, kringlótt, dökk augu eru einmitt algjört lykilatriði til að cavalierinn fái þenna rétta mjúka andlitssvip, sem hann er þekktur fyrir – augun hreinlega geta ekki verið of stór, en þau verða að sjálfsögðu að vera dökk og það má ekki sjást í hvítuna til að svipurinn verði réttur.
 
Slæmt þegar svona fáar sýningar eru að fá ekki dómara sem hefur meiri þekkingu og áhuga á tegundinni því greinilegt var að henni hundleiddist að dæma cavalierana. En hvað um það besti hvolpur tegundar 4 – 6 mánaða var Kjarna Magnificient Rocker Magni og besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Drauma Daría.
Besti hundur tegundar var Nettu Rósar Billý og best af gagnstæðu kyni Nettu Rósar Snædís. Besti öldungur var eins og oft áður Gæða Jörvi.  Engin cavalier komst í úrslit sýningar, en Nettu Rósar ræktunin vann besta ræktunarhóp sýningar á sunnudeginum sem var smá uppbót fyrir okkur cavaliereigendur.Við viljum þakka Dýrabæ, sem hefur gefið deildinni bikara á nánast hverja einustu sýningu.
———————————Þá er nú upptalið það helsta sem hefur farið fram á árinu.  Auk þessa stóð svo göngunefndin okkar fyrir hundlausu skemmtikvöldi þann 29. apríl og var það mjög ánægjuleg kvöldstund, sem fleiri cavaliereigendur hefðu mátt taka þátt í. Á heimasíðunni okkar birtast nú allar þær fréttir og tilkynningar sem varða deildina en deildarfréttir í Sámi verða að mestu aflagðar, þar sem ekki er talin þörf á þeim lengur, þar sem langflestir hafa nú aðgang að netinu og búið er að birta þar allar upplýsingar löngu áður en Sámur kemur út.   Reyndar hefur vistun á heimasíðunni verið í uppnámi s.l. vikur, þar sem Nýherji var ekki tilbúinn að vista síðuna lengur ókeypis sem er skiljanlegt. Við fengum þó eitt ókeypis ár þar,  sem við erum að sjálfsögðu þakklát fyrir. Við höfum samið við annað fyrirtæki og fáum vistun þar á góðu verði en verið getur að við þurfum að leita til ræktenda um einhver samskot til að halda síðunni gangandi síðar. Heiðardals ræktun – Hrefna Hrólfsdóttir var svo rausnarleg að kosta vistun síðunnar fyrsta árið.Við höfum ekki sótt um neina deildarsýningu á þessu ári en stefnum á það næsta ár, en þá verða þrjú ár liðin frá síðustu deildarsýningu, endanleg ákvörðun hefur þó ekki verið tekin og verður í höndum næstu stjórnar. Við þurfum að kjósa í göngunefnd á eftir og einnig í bása- og kynningarnefnd og erum við þess fullviss að þið eruð tilbúin að gefa kost á ykkur til starfa fyrir deildina.  Stjórnin hefur nú í mörg ár verið skipuð sama fólkinu, en Sigurður Einarsson hefur ákveðið að gefa ekki lengur kost á sér til starfa í stjórninni og þökkum við honum vel unnin störf,  mörg undanfarin ár.Mig langar að lokum til að segja ykkur frá cavalierbók “The World of Cavaliers 2005 and 2006” sem á að gefa út í haust í Hollandi. Þessi bók verður á ensku, um 300 síður, glæsilega litprentuð með fjölda greina um cavalier og ræktun hans.  Auk þess verða greinar frá hverju landi, þar á meðal Íslandi og litmyndir af öllum cavalierum sem hafa orðið sýningarmeistarar þessi tvo ár. Ræktendur geta líka birt auglýsingar í bókinni, en það höfðar varla til okkar hér og kostar auk þess töluvert.  Hægt er að panta bókina fyrirfram og er hún þá mun ódýrari og verður þar að auki send hingað án burðargjalds. Þeir sem hafa áhuga geta haft samband við mig og ég get þá sent þeim “linkinn” með öllum upplýsingum.Vil ég svo þakka ykkur áheyrnina og gott samstarf á árinu.