Fundargerð ársfundar 2008

Aðalfundur Cavalierdeildar HRFÍ var haldinn 26. mars 2008 kl. 20.00 á skrifstofu félagsins að Síðumúla 15. Þátttaka á fundinum var frekar lítil en sautján manns  mættu fyrir utan stjórnina.  María lagði til að Þorvarður yrði  fundarstjóri og Guðríður fundarritari, það var samþykkt.  María las því næst skýrslu stjórnar, hún fylgir hér með.

 Kjósa átti um 2 menn í stjórn, þær Maríu og Guðríði, þær gáfu kost á sér áfram og kom ekkert mótframboð.  Þær verða því stjórnarmenn næstu tvö árin.

Undir liðnum önnur mál var rætt um heimasíðu deildarinnar.  Hrefna Hrólfsdóttir hefur greitt árgjöldin hingað til, en nú er komið að deildinni að taka við þeim kostnaði. Til að standa undir kostnaði var stungið upp á að þeir sem auglýsa á síðunni, t.d. got eða þegar auglýstir eru eldri hundar greiði 2.000 kr. fyrir auglýsinguna.  Þetta var samþykkt.

Samkvæmt reglum ræktunardeilda getur stjórn tilnefnt í nefndir.  Stjórnin hefur yfirumsjón með störfum nefnda og skal ítrekað, að gera þarf stjórn grein fyrir allri starfsemi sem fram fer í nefndunum. Í göngunefnd gáfu kost á sér Arna Sif Kærnested, Guðrún Lilja Rúnarsdóttir, Jóhanna Bjarnadóttir og Halldóra Konráðsdóttir, hún dró sig síðan til baka.  Í bása og kynningarnefnd var enginn valinn en Ingibjörg E. Halldórsdóttir tók að sér að fá fólk til vinnu.

Arna Sif kom með tillögu um að fólk skrifaði sig á lista ef það væri tilbúið til leita vegna týndra cavalierhunda. Þessi listi yrði síðan settur á heimasíðuna.

Bergljót Davíðsdóttir ræddi um tryggingarmál, fram kom að bætur eru mismunandi eftir tryggingarfélögum.  TM greiðir ekki ef um arfgengan sjúkdóm er að ræða, en VÍS hafði greitt alla vega svo vitað sé, eitt tilfelli þar sem um var að ræða míturhjóð.Ræddi hún um að þrýsta þyrfti á félögin og  til þess þyrfti nefnd. Þeir sem gáfu kost á sér í hana auk Bergljótar voru A. Karen Kristjánsdóttir og Edda Hallsdóttir.

 Helga Finnsdóttir dýralæknir hélt fyrirlestur um Syringomyellu.  Þetta var einstaklega fróðleg erindi og vel unnið.  Mikil umræða spannst um þennan sjúkdóm,  og fékk Helga margar spurningar.

Fundi var slitið 22,15.

Fundarritari: Guðríður Vestars