Fundargerð ársfundar 2009

Aðalfundur Cavalierdeildar HRFÍ var haldinn 17. mars 2009 kl. 20.00 á skrifstofu félagsins.

Þátttaka á fundinum var fremur dræm þar sem aðeins 18 manns  mættu og voru það flest kunnugleg andlit.  Margir nýir ræktendur hafa bæst í hópinn hjá cavalierdeildinni undanfarin ár en þeir virðast frekar áhugalausir um störf deildarinnar miðað við mætingar á aðalfundi og jafnvel þó þar hafi verið flutt frábær fræðsluerindi eins og í fyrra.

Gestur fundarins frá HRFÍ var Margrét Kjartansdóttir.

María Tómasdóttir setti fundinn og bað Þorvarð að sjá um fundarstjórn og Guðríði um fundarritun og var það samþykkt.

Guðríður las því næst fundargerð frá fyrra ári. 

Skýrsla stjórnar

María  las skýrslu stjórnar, hún fylgir hér með.

Kosning 3ja manna í stjórn

Halldóra Friðriksdóttir, Ingibjörg E.Halldórsdóttir og Ingunn Hallgrímsdóttir höfðu allar lokið 2ja ára kjörtímabili. Þær gáfu kost á sér áfram og kom ekkert mótframboð.  Þær verða því stjórnarmenn næstu tvö árin.

Kosning í nefndir

Samkvæmt reglum ræktunardeilda getur stjórn tilnefnt í nefndir.  Stjórnin hefur yfirumsjón með störfum nefnda og skal henni fullkunnugt um alla starfsemi sem þar fer fram hverju sinni.

Á síðasta ári voru í  göngunefnd:  Arna Sif Kærnested, Guðrún Lilja Rúnarsdóttir og Jóhanna Bjarnadóttir.  Engin þeirra var á þessum aðalfundi en þar sem þær hafa ekki sagt sig úr nefndinni, gerðum við fastlega ráð fyrir að þær tækju þetta að sér áfram og var það samþykkt.

Í básanefnd voru kjörnar Kolbrún Þórlindsdóttir, Ásta Björg Guðjónsdóttir og Gerður Steinarsdóttir og í kynningarnefnd Ingibjörg E. Halldórsdóttir, Hrefna Hrólfsdóttir og Bjarney Sigurðardóttir. 

Undir önnur mál kom fram fyrirspurn um hvort ekki væri hægt að hafa strangari reglur í sambandi við ræktun þar sem sjúkdómurinn Episodic falling hefur komið fram. En stjórnin taldi að til þess þyrfti að vera fullsannað að sjúkdómurinn væri til staðar og það gæti verið erfiðleikum bundið enda á það að vera þannig að ræktandi stendur og fellur með sinni ræktun og ber alla ábyrgð á henni. Það væri þá ræktandans að setja ræktunarbann á got ef slíkur sjúkdómur kemur fram í einhverjum hvolpanna.

Ef stjórn vill setja reglur um auknar heilbrigðiskröfur, þarf að gera tilllögur þar að lútandi  til stjórnar HRFÍ sem annað hvort samþykkir þær eða hafnar þeim.

Í lok fundarins fengu allir kaffi, kleinur og aðrar kræsingar sem Halldóra Friðriksdóttir bauð fundargestum upp á.

Fundinum lauk um 10 leytið eftir fjörugt spjall fundargesta.

Fundarritari:

Guðríður Vestars