Skýrsla stjórnar 2008

Aðalfundur haldinn 17. mars 2009 á skrifstofu HRFÍ, Síðumúla 15  Góðir félagar, Eftir stöðuga og mikla aukningu í gotskráningum s.l. 3 ár varð töluverður samdráttur á 14 starfsári deildarinnar. Alls voru 32 got 2008 og 116 lifandi fæddir hvolpar sem er svipað og árið 2003. Meðaltal hvolpa í goti var 3.6 sem er frekar lítið – en í nokkrum gotum voru aðeins 1 eða 2 hvolpar sem dregur meðaltalið niður. Árið 2007 fæddust 157 hvolpar svo það var 41 hvolpi færra þetta árið. Í flestum hundategundum eru skv. rannsókn Lennart Svenson í Svíþjóð aðeins um 10% hundanna notaðir í ræktun en aðeins 6 – 8% cavaliera. Við gerðum lauslega könnun hér sem tók yfir 3 ár og miðað við þann tíma eru um 12 – 15% cavaliera hér notaðir til undaneldis og er þá ekki gerður greinarmunur milli kynja en miklu færri rakkar eru reyndar notaðir í ræktun en tíkur. 20 ræktendur voru með got á árinu þar af 9 nýir ræktendur, fimm þeirra hafa fengið ræktunarnöfn. Þessir ræktendur eru Katrín Sif Sigurgeirsdóttir með Seylar ræktun, Berglind A.Jónsdóttir með Yndisauka ræktun, Fjóla Björk Hauksdóttir með Engla ræktun, Teresa Joanna Troscianko með Terasjo ræktun og Þuríður Hilmarsdóttir með Hrísnes ræktun. Bjóðum við þær velkomnar í ræktendahópinn. Hinar fjórar voru allar með aðeins 1 hvolp í goti og þrjár þeirra hafa ekki ennþá skráð hvolpana í ættbók. Vonandi gera þær bragarbót á því,  því ekki getur talist æskilegt að sumir hvolpar séu óættbókarfærðir enda getur það komið sér illa síðar. Jafnari skipting var á milli kynja að þessu sinni en áður eða 57 tíkur og 59 rakkar.Alls fæddust 65 blenheim hvolpar, 32 tíkur og 33 rakkar, 4 þrílitir, 1 tík og 3 rakkar, 27 ruby hvolpar, 11 tíkur og 15 rakkar og 20 black and tan hvolpar, 13 tíkur og 7 rakkar. Það þarf greinilega að gera bragarbót á þrílitu ræktuninni svo liturinn hverfi ekki alveg úr flórunni. Á árinu voru 18  rakkar í öllum fjórum litaafbrigðunum notaðir til undaneldis. Cavalierhvolpar hafa verið seldir á 180 þús. með tryggingu s.l. ár. Mikil eftirspurn virðist vera eftir hvolpum þrátt fyrir kreppuna og hefur verðið því ekki lækkað enda allur tilkostnaður við gotin orðinn miklu hærri en áður. Óvenju margir hafa einnig spurst fyrir um eldri hunda sem þeir vilja taka að sér. Á heimasíðu deildarinnar eru eingöngu auglýst þau got, þar sem farið hefur verið eftir öllum reglum varðandi heilbrigðisskoðanir. Við tókum upp þá nýbreytni á árinu að rækendur greiða  tvö þúsund krónur ef þeir vilja auglýsa got á heimasíðunni og komu inn 30 þúsund á síðasta ári vegna slíkra auglýsinga. Þetta er til að fá upp í kostnað við að halda síðunni virki,  þ.e. að greiða hið árlega gjald til Isnic fyrir „nickið“ sem er um 8.000.- og vistun á siðunni, en Heiðardals ræktun hefur greitt vistunina s.l. tvö ár. Innilegar þakkir til Hrefnu fyrir það. Auk þess hefur deildin öðru hvoru þurft að kaupa bikara fyrir sýningar. Ef einhver hefur áhuga á að gefa bikara fyrir einhverja komandi sýningu á árinu væri það vel þegið en nokkrir ræktendur hafa þegar gert það en aðallega hefur það verið Dýrabær eða deildin sjálf sem hafa séð um bikarakaup, sem geta farið allt uppí 50 – 60 þús.kr. á ári..Innflutningur hefur nánast alveg dottið niður s.l. ár. Aðeins einn innfluttur cavalier var skráður í ættbók hjá HRFÍ  2008, tíkin Longways Useful Ronja. Hún er þrílit og kemur frá Svíþjóð, eigandi er Birgitta Níelsdóttir, Akureyri. Þessi tík er reyndar töluvert skyld mörgum hundum hér, þar sem hún er hálfsystir An Sofie´s Trotsky Juniors í föðurætt og hálfsystir Sperringgardens Corricone (Bellmans) í móðurætt, sem báðir eiga marga afkomendur hér.  HeilbrigðismálVið höfum heyrt að mögulega séu tveir ungir hundar með væg Episodic Falling einkenni, við höfum það þó ekki beint frá eigendunum sjálfum, þannig að það er ekki staðfest, en þar sem tveir ræktendur hafa ítrekað parað saman hunda með þekkta bera á bak við sig í báðum línum er ekki ósennilegt að slíkt geti komið upp. Það hvílir mikil ábyrgð á ræktendum, því  það sem gert er í dag, kemur til með að hafa áhrif á stofninn okkar á næstum árum, því er um að gera að vanda sig sem mest og taka ekki óþarfa áhættu í ræktun. Það er rétt að ítreka það að ræktendur bera algjörlega ábyrgð á sinni ræktun, hvort sem það er að para allt of skylt eins og dæmi eru um eða para dýr sem hafa alvarleg heilbrigðisvandamál á bak við sig. Deildin hefur engan rétt á að hafa afskipti af því, því samkvæmt lögum er hún aðeins ráðgefandi þegar ræktendur óska eftir því. Og þó að aðeins einn ræktandi sýni ábyrgðarleysi í ræktun sem getur síðan komið fram löngu síðar sem heilsufarsvandamál í tegundinni þá bitnar það á öllum ræktendum og tegundinni í heild, –  þannig er allur stofninn stimplaður þó til að byrja með sé aðeins um eina ræktunarlínu að ræða.Dýralæknar hafa haft orð á því að sæðingar hafi aukist mjög hjá flestum tegundum. Við vonum svo sannarlega að cavalierinn sé ekki ein þeirra enda það heilbrigð tegund að æxlun á að geta farið fram á náttúrulegan hátt. Eigendur undaneldisdýra verða að ætla þeim eðlilegan tíma til að parast en gefast ekki upp þó pörun hafi ekki farið fram á fyrsta hálftímanum eins og stundum virðist ætlast til. Samkv. reglum FCI eru sæðingar þar að auki ekki leyfilegar nema í algjörum undantekningartilfellum, þegar ákveðin skilyrði eru til staðar. Þess má geta að t.d. í Bretlandi er ekki hægt að ættbókarfæra hvolpa ef sæðing er framkvæmd og bæði undaneldisdýrin eru í Bretlandi. Ekki er heldur hægt að ættbókarfæra hvolpa þar úr mikilli skyldleikaræktun. Hjarta- og augnskoðanirEins og þið vitið er nú krafist hjartavottorða undaneldisdýra vegna skráningar hvolpa í ættbók. Reglan hljóðar þannig: Frá 1. janúar 2008 þarf að framvísa hjartavottorðum undaneldisdýra við skráningu hvolpa í ættbókVottorðin skulu tekin fyrir pörun. Að öðru leyti gilda reglur og tilmæli varðandi gildistíma vottorða og önnur ákvæði sem sjá má á heimasíðu deildarinnar. Síðan þessi regla var sett eru engir hvolpar skráðir í ættbók nema hjartavottorðum undaneldisdýra sé framvísað en áður bar það við að einstaka ræktandi léti ekki hjartaskoða undaneldisdýrin. Langflestir láta nú skoða dýrin fyrir pörun eins og á að gera en í einstaka tilfellum hefur það farist fyrir og þá verið bætt úr því áður en hvolpar hafa verið skráðir í ættbók. Það sama á við um augnvottorðin. Tilmæli okkar í sambandi við ræktun bæði hvað varðar augu og hjarta eru auðvitað, að það eigi að heilbrigðisskoða dýrin fyrir pörun og að þau uppfylli þær heilbrigðiskröfur sem gerðar eru, –  ef ekki á auðvitað ekki að rækta undan þeim. Einn ræktandi paraði þó tík þrátt fyrir að hún greindist með murr 3.9 ára gömul – það er einsdæmi og ekki er  hægt að telja það ábyrgðarfulla ræktun og raunverulega svik við kaupanda hvolpsins sem var aðeins einn sem betur fer, þ.e.a.s. ef hann hefur ekki verið upplýstur um það.  Þessi tík hafði áður eignast 9 hvolpa og samkv. reglum deildarinnar á ekki að rækta undan afkvæmum slíkra hunda fyrr en í fyrsta lagi við 3ja ára aldur og séu þeir þá heilbrigðir. Það má geta þess að í Svíþjóð eru slíkir hundar settir í ræktunarbann bæði foreldrar og afkvæmi en það er reyndar eina landið sem hefur slíkar reglur. HjartaskoðanirAlls voru 155 cavalierar hjartaskoðaðir á starfsárinu vegna míturlokusjúkdómsins. Þeir voru á aldrinum tæplega 2ja til 12 ára. 7 hundar undir 2ja ára aldri voru skoðaðir og voru að allir heilbrigðir.46 hundar milli 2ja og 3ja voru skoðaðir, þar voru 45 með hreint hjartavottorð en 1 tík greindist með murr á byrjunarstigi  eða gr. 1, aðeins 2.9 ára gömul. Það er mjög sjaldgæft að hundar greinist svona ungir og við vitum aðeins um eitt slíkt tilfelli hér áður. Þessi tík hefur sem betur fer ekki verið notuð til ræktunar. Á aldrinum 3 – 4 ára voru 33 skoðaðir og greindust 3 með murr, þar á meðal tíkin sem áður er minnst á en hinir hafa ekki verið notaðir í ræktun. Samkv. rannsóknum Per Wallentin greinast um 4% cavalierhunda með murr fyrir 4ra ára aldur og flestir þeirra þá nálægt 4ra ára aldri.  25 hundar 4 – 5 ára voru hlustaðir, 23 voru hreinir en 2 voru með murr.Í næsta aldurshópi þ.e. 5 – 6 ára er algengast að murr greinist í cavalierum og er talið að allt að 50% greinist með murr þegar 6 ára aldurinn nálgast. Í þessum hópi var 21 hundur skoðaður og aðeins 2 greindist með murr sem er ótrúlega góð niðurstaða. 14 hundar voru skoðaðir á aldrinum 6 – 7 ára, þar voru 10 hreinir og 4 með murr, einnig góð útkoma miðað við meðaltalið.Samtals 9 hundar voru síðan skoðaðir á aldrinum 7 til 12 ára, þar voru 3 enn með heilbrigt hjarta en 6 greindust með murr á ýmsum stigum.Líftími hunda sem greinast með murr á byrjunarstigi er á bilinu 3 – 5 ár, í einstaka tilfellum styttri eða lengri.  Talið er að um 10% cavalierhunda deyi fyrir 10 ára aldur vegna míturlokusjúkdómsins. Augnskoðanir72 cavalierar mættu í augnskoðanir á árinu, 48 tíkur og 24 rakkar. 7 hundar greindust með Retinal dysplaisia, þrír af þeim, allt tíkur höfðu reyndar verið greindar áður en æskilegt er að hundarnir komi aftur til að fá greininguna endanlega staðfesta. Tvær þeirra höfðu Ret. Dysplaisia Geopgraphic sem er alvarlegri útgáfan en hinir voru með Multifocal.  Sárasjaldgæft er þó að Retinal Dysplaisia hjá cavalier þróist þannig að hún valdi blindu. Oftast er hún eins alla ævi hundsins og veldur honum í raun engum óþægindum eða sjóntruflunum. Það er aðeins síðustu ár sem þessi sjúkdómur hefur greinst hjá okkur í tegundinni, e.t.v. hefur hann verið til staðar áður en vangreindur, en hvort sem er teljum við að það hafi verið rétt ákvörðun að banna ræktun undan slíkum hundum og reyna að rækta þetta út úr stofninum. Ótrúlegt hvað þessum tilfellum hefur fjölgað s.l. 2 – 3 ár. Tvær tíkur greindust með einhvers konar katarakt en ekki af þeirri tegund sem er arfgeng í tegundinni. 5 hundar voru með distichiasis eða aukaaugnhár og 12 með cornea dystrophi eða útfellinginu lípið kristalla í glæru. Æskilegt er að þegar slíkir hundar eru paraðar að hreinn hundur séu notaður á móti, þó þessir kristallar séu algjörlega meinlausir og hverfi oftast með aldrinum. Við höfum gefist upp á því að reyna að hafa tölu á þeim hundum sem deyja árlega. Eigendur tilkynna yfirleitt ekki þegar hundarnir falla frá svo oftast eru þetta óstaðfestar fréttir og ekki vitað nákvæmlega um dánarorsök. Það deyja líka örugglega margfalt fleiri hundar en við fréttum af. Annar aldursforsetinn féll frá á árinu, Ljúflings Elí dó í haust tæplega 14 ára en systir hans Ljúflings Eldey, kölluð Tanja náði 14 ára aldri í desember.  Ennþá hefur enginn cavalier hér náð 15 ára aldri en Gorbi varða 14 ½ árs, kannski hún Tanja litla nái því að verða 15 ára. Það væri gaman að hafa tölu á þeim cavalierum sem hafa náð 11 ára aldri eða meira. Við höfum áhuga á að setja upp lista undir heitinu “Öldungarnir okkar” á cavalierheimasíðunni, einnig væri hægt að hafa myndaalbúm með sama nafni. Viljum við því biðja alla cavaliereigendur sem eiga eða hafa átt langlífa cavalierhunda að senda okkur upplýsingar um þá, þ.e.  ættbókarnafn, fæðingardag og hvað hundurinn var gamall þegar hann dó eða hvort hann er enn á lífi. Gaman væri einnig að fá tvær myndir sendar, aðra e.t.v. af höfði hundsins og hina þar sem hann sést allur.  Slíkur listi er nú til staðar á ensku cavaliersíðunni og við getum líka sent þessar upplýsingar þangað. Kynning á tegundinni og göngurDeildin tók þátt í smáhundakynningum í Garðheimum tvisvar á starfsárinu og hafa þessar kynningar tekist mjög vel og verið fjölsóttar. Það er gaman að því að Garðheimar skuli standa fyrir þessu og þeir leyfa alltaf að hundar komi í búðina með eigendum sínum sem er ekki sjálfgefið. Einnig hefur Halldóra Lind séð um kynningarbás fyrir tegundina á hundasýningum félagsins vor og haust.  Viljum við þakka öllum sem hafa komið að þessum kynningum fyrir gott starf í þágu deildarinnar. Göngunefndin okkar hefur einnig staðið sig frábærlega, ellefu göngur hafa verið farnar eða um það bil mánaðarlega. Þær hafa yfirleitt verið fjölsóttar þó veðrið hafi verið alla vega eins og gengur. Guðrún Lilja hefur séð um að skrifa stutta pistla eftir hverja göngu sem hafa verið birtir á heimasíðunni auk mynda ef þær hafa verið teknar.Hin árlega grillganga var í Guðmundarlundi að þessu sinni og var vel sótt. Mjög góð þátttaka var einnig í aðventukaffinu og göngunni á undan. Kristrún á Akureyri hefur einnig haft forgöngu um að cavaliereigendur þar, hittist í byrjun hvers mánaðar og gangi saman með hundana. Það kemur einnig fram á heimasíðunni okkar. Auk þess tóku cavaliereigendur þátt í Laugavegsgöngunni sem var fjölmenn eins og venjulega en óvenju fáir cavaliereigendur mættu að þessu sinni. SýningarEins og oftast voru aðeins þrjár sýningar sem cavaliereigendum stóðu til boða á starfsárinu. Við eignuðumst loksins einn íslenskan sýningarmeistara ISCH Fuzzyheimens Norwegian Sky Trooper, en s.l. tvo ár á undan hafði engin hundur náð þeim árangri að bæta við sig 3ða meistarastiginu en nokkrir hafa þegar hlotið 2 stig, bæði rakkar og tíkur. Það er erfiðara fyrir okkur en margar aðrar tegundir að eignast sýningarmeistara, þar sem svo margir eru um hituna hverju sinni, hundarnir svipaðir að gæðum, fáar sýningar og mismunandi mikil þekking á tegundinni hjá þeim dómurum sem falið hefur verið að dæma hana. Okkur finnst alltof sjaldan sem við fáum dómara sem hefur sérþekkingu á tegundinni, miðað við þann fjölda cavaliera sem skráður er hverju sinni.   Á þessu ári verður fjórðu sýningunni bætt við í ágúst og síðan verða 4 sýningar á ári,  – e.t.v. rætist þá eitthvað úr þessu hjá okkur.Í maí á næsta ári verður deildin 15 ára og vonandi fáum við sérhæfðan cavalierdómara á júní sýningunni næsta ár,  en venjulega höfum við haft deildarsýningu á svona stórafmælum! Sumarsýning HRFÍ var haldinn þann 28 og 29. júní í Reiðhöllinni í Víðidal. 51 cavalier var skráður hjá dómaranum Roberto Velez Pico frá Puerto Rico en hátt í 600 hundar voru skráðir til leiks þessa sýningarhelgi. Besti hvolpu 4 – 6 mánaða var Drauma Kátur Herkúles sem varð síðan 4. besti hvolpur sýningar. Best af gagnstæðu kyni var Eldlilju Kría.Í eldri flokki 6 – 9 mánaða sigraði Bjargar Dímon sem varð annar besti hvolpur sýningar í úrslitum dagsins. Best af gagnstæðu kyni var systir hans Bjargar Donna Karan.Besti hundur tegundar var Nettu Rósar Billy sem fékk sitt annað meistarastig á þessari sýningu og náði hann 4. sætinu í tegundahópi 9. Best af gagnstæðu kyni var tíkin Leelyn Lillian. 13 rakkar voru sýndir og 27 tíkur.Besti öldungur var Drauma Vera en hún fékk ekki sæti í úrslitum.Drauma ræktun fékk 1. sæti og heiðursverðlaun fyrir ræktunarhóp.Drauma ræktun gaf vinningshöfum bikara á þessari sýningu.Allir fullorðnu hundarnir fengu umsagnirnar „excellent eða very good“ sem samsvarar 1.einkunn eða betra en aðeins 3 rakkar fengu meistarefni en 6 tíkur hlutu þá einkunn.Haft er eftir Roberto í Sámi að honum hafi fundist vanta upp á gæði cavalierhundanna í heild og sagði of algengt að þeir væru of feimnir þegar þeir væru skoðaðir á borði. Undarlegt að gefa öllum excellent eða very good þegar vantar upp á gæðin, spurning hvort dómarinn hafði yfirleitt reynslu í að dæma tegundina en hann hafði þó mynd af cavalier á borðinu til að styðjast við! En það er rétt að það vantar nokkuð upp á að sýnendur æfi hundana vel á borði, líklegt að það sé frekar lítil þjálfun heldur en feimni sem þjakar þá á borðinu. Á haustsýningu HRFÍ sem var haldin 27. – 28. september í Reiðhöllinni í Víðidal voru 750 hundar skráðir, þar af 64 cavalierar. Dómari var Annaliisa Heikkinen frá Finlandi sem er þaulvanur cavalierdómari.Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Ljúflings Ævar Krulli og best af gagnstæðu kyni var Ljúflings Æska Birta. Krulli komst ekki í 4ra hvolpa úrslit.Besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Eldlilju Kría sem varð annar besti hvolpur dagsins í þessum aldursflokki. 21 rakki var skráður og fengu 11 einkunina „excellent eða very good“ og 9 einkunina „good“ eða bláan borða. Skv. reglunum í dag er gefinn blár borði fyrir „very good“ en gulur fyrir einkunina „good“. Það tekur væntanlega smátíma að venjast þessum breytingum.  Dómarinn gaf síðan 5 rökkum einkunina meistaraefni.Undanfarið hafa töluvert fleiri tíkur en rakkar verið sýndar og var það einnig á þessari sýningu en tíkurnar voru 35 að þessu sinni og þar af fengu 28 „excellent“ eða „very good“ en 7 fengu einkunina „good“. 8 tíkur fengu meistaraefnisborða.  Besti rakki tegundar var Fuzzyheimen´s Norwegian Sky Trooper sem fékk sitt þriðja meistarastig á þessari sýningu og þar með titilinn íslenskur meistari en besti hundur tegundar var tíkin Drauma Daría sem náði þriðja sætinu í úrslitum í tegundahópi 9. Besti öldungur var Drauma Vera sem varð 3. besti öldungur sýningar.Besti ræktunarhópur var frá Drauma ræktun og besti afkvæmahópur frá Bjargar ræktun. Báðir hóparnir náðu 3. sætinu í úrslitum dagsins. Cavalierdeildin gaf vinningshöfum bikara.Annaliisa sagði í viðtali við Sám að í stofninum mætti sjá sömu galla og annars staðar þar sem hún hefur dæmt tegundina. Hún sagði gæði hundanna svipuð hér og í Svíþjóð. Annaliisa kvaðst mjög ánægð með bæði besta hundinn og tíkina og sagði þau geta unnið hvar sem er. Hún var sömuleiðis ánægð með næstbestu tíkina og öldunginn en nefndi að gæði hundanna hefðu verið nokkuð mismunandi. Þannig væri það þó alls staðar,  þar sem tegundin er svo vinsæl og þægileg að eiga, blíð og glöðCavalierdeildin sá að hluta til um uppsetningu á þessari sýningu og viljum við þakka öllum sem tóku þátt í því.  Á vorsýningu HRFÍ voru yfir 800 hundar sýndir af 90 tegundum og er það stærsta hundasýning sem haldin hefur verið hingað til. Sýningin var haldin 28. febr. – 1. mars og voru cavalierarnir dæmdir á laugardeginum. 60 cavalierar voru skráðir að þessu sinni og hafa oft verið fleiri enda slógu labradorarnir okkur við að þessu sinni. Við áttum von á mjög góðum dómara, sérfróðum um tegundina, Michael Forte frá Írlandi, hann veiktist því miður, þannig að í stað hans dæmdi Seaumus Oates einnig frá Írlandi. Hann er alrounder dómari og dæmir aðallega stóru tegundirnar. Hann er ræktandi að Bulldog og St. Bernhardshundum. Hann stóð sig samt ágætlega og var afskaplega hlýr og góður við hundana og okkur sýnendurna. Hann var ekki strangur í dómum og gaf öllum fullorðnu hundunum annaðhvort „excellent eða very good“. Hann leggur mest upp úr góðri byggingu og hreyfingu og almennu heilbrigði hundanna í dómum sínum. Við höldum samt að hann þyrfti að fá betri gleraugu, svo hann gæti greint bitið betur í hundunum.Nú var nýja sýningarkerfið tekið upp þannig að nú er gefinn rauður borði fyrir „excellent“, blár fyrir „very good“ og gulur fyrir „good“, en að þessu sinni fékk enginn einkunina „good“. Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var tíkin Ljúflings Ögn sem varð annar besti hvolpur dagsins í úrslitum.Besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Hrísnes Frakkur og best af gagnstæðu kyni tíkin Nala. Hrísnes Frakkur náði ekki sæti í úrslitum dagsins. 17 rakkar voru skráðir og fengu 8 einkunina  „excellent“ og rauðan borða en 9 rakkar fengu „very good“ og bláan borða.Dómarinn gaf síðan 7 rökkum meistaraefni. Besti rakki og besti hundur tegundar var Drauma Abraham sem fékk sitt 2. meistarastig. Hann komst því miður ekki í úrslit í tegundahópi 9.30 tíkur voru skráðar til leiks og fengu 15 einkunina „excellent“ og 14 fengu „very good“. Ein mætti ekki þar sem hún væntir sín. Dómarinn gaf síðan 6 tíkum einkunina meistaraefni.Besta tík var Drauma Díma og besti öldungur var Drauma Vera  sem varð síðan 4. besti öldungur sýningar.Drauma ræktun sýndi ræktunarhóp sem fékk heiðursverðlaun og frábæra dóma en tók ekki þátt í úrslitum.Þetta var því sannkölluð Draumasýning hjá Draumaræktandanum sem rúllaði okkur hinum hressilega upp.Cavalierdeildin gaf vinningshöfum bikara.Við komum ekki til með að vita hvað dómaranum fannst um tegundina almennt fyrr en í næsta Sámi sem kemur út á vordögum eða í sumar.  Á síðasta ári kom út bókin „The World of Cavaliers“, þar sem sagt er frá cavalier í hinum ýmsu löndum m.a. frá Íslandi. Myndir eru einnig af þeim hundum sem orðið hafa sýningarmeistarar á þessum árum. Bókin tekur yfir árin 2005 – 2007. Þó nokkrir cavaliereigendur hér fjárfestu í þessari bók. Bókin liggur hér frammi fyrir þá sem hafa áhuga á að kíkja á hana. Útgefandinn hefur áhuga á að gefa aðra bók út 2010, sem tekur þá yfir árin 2008 – 2010. Ekki er víst að við tökum þátt í því þar sem aðeins einn meistari hefur bæst í hópinn síðan síðast og lágmark er nú að fylla 1 bls.eða hafa þrjá meistara til að státa af. Þetta er nú það helsta i starfsemi deildarinnar á árinu. Á eftir þurfum við að athuga hvort göngunefndin er tilbúin að halda sínu góða starfi áfram og eins þarf að fá einhverja til að sjá um cavalierbásinn á næstu sýningum.  Stjórnin þakkar ykkur öllum fyrir gott samstarf á árinu.