Ársfundur cavalierdeildarinnar – 23. mars 2010 haldinn á skrifstofu HRFÍ, Síðumúla 15 Góðir félagar, Deildin okkar verður 15 ára í maí n.k. og þó hún geti þar með ennþá talist á unglingsaldri þá hefur mikið og gott ræktunarstarf verið unnið á þessum 15 árum af mörgum ræktendum. Við stofnun deildarinnar 1995 voru 36 cavalierar skráðir í deildina en ekki ólíklegt að þeir séu 700 til 800 hundruð í dag. Ræktendur voru þá aðeins þrír en í dag eru virkir ræktendur með ræktunarnöfn um þrjátíu talsins. Gotskráningar á síðasta starfsári voru aðeins færri en í fyrra en alls voru 29 got 2009 og 113 lifandi fæddir hvolpar en 2008 voru gotin 32 og hvolparnir 116. Meðaltal hvolpa í goti var 3.9 sem er venjulegt meðaltal. 21 ræktandi var með got á árinu þar af 7 nýir ræktendur, 4 þeirra hafa fengið ræktunarnöfn. Þessir ræktendur eru Arna Sif Kærnested með Mjallar ræktun, Jón Hilmarsson með Sóllilju ræktun, Jónína Kristgeirsdóttir með Stapafells ræktun og Hrönn Gunnarsdóttir með Kóngaliljuræktun. Aðrir nýir ræktendur eru Sigurbjörg Írena Rúnarsdóttir, Ingibjörg Marísdóttir og Hrafnhildur Tinna Sveinsdóttir. Bjóðum við þau öll velkomin í ræktendahópinn. Tíkarhvolpar urðu að þessu sinni fleiri en rakkarnir eða 61 tík á móti 52 rökkum en venjulega hafa rakkarnir verið fleiri en tíkurnar enda karlkynið duglegra að koma sér á framfæri! Aftur á móti var litaskiptingin mjög óvenjuleg og sennilega einsdæmi þó víða væri leitað. Blenheim liturinn hefur alltaf verið lang algengastur og yfirleitt helmingi fleiri hvolpar fæðst í þeim lit en þeim sem næst hefur komist. Að þessu sinni toppaði ruby liturinn en 38 hvolpar fæddust í þeim lit, 20 tíkur og 18 rakkar, síðan koma 35 blenheim hvolpar, 21 tík og 14 rakkar, 34 black and tan hvolpar, 15 tíkur og 19 rakkar og eins og undanfarin ár, sárafáir þrílitir eða 6 hvolpar, 5 tíkur og 1 rakki. Vonandi fæðast nú fleiri þrílitir hvolpar á þessu ári, við megum alls ekki við því að missa þennan fallega lit út úr litaflórunni. Eftirspurn eftir cavalierhvolpum hefur verið mjög góð hingað til og engin vandræði að finna þeim góð heimili meðan framboð hefur ekki verið meira en áður er sagt. Aftur á móti hefur verið algjör fæðingarsprengja í gangi nú í janúar og febrúar á þessu ári, því tæplega 40 hvolpar komu í heiminn á tæpum mánuði og alls eru nú 9 got auglýst á síðunni okkar. Eftirspurn hefur eitthvað dalað í febrúar og mars en vonandi fá allir þessir hvolpar góð heimili og mikilvægt er að ræktendur slái ekki af kröfum sínum þegar þeir velja heimili fyrir hvolpana þó eftirspurnin sé eitthvað minni í bili. Betra er að halda hvolpunum lengur, því góð heimili finnast alltaf þó einhver bið geti orðið á því. Miðað við þær paranir sem þegar hafa farið fram og vitað er að standa til, má búast við metári í gotskráningum á komandi starfsári eins og hið fræga ár 2007 þegar 157 cavalierhvolpar komu í heiminn. En það ár sló nú metið á fleiri sviðum í þjóðfélaginu. Á árinu voru 14 rakkar í öllum fjórum litaafbrigðunum notaðir til undaneldis. Flesta hvolpana átti Sjarmakots Fígaró Freyr, black and tan rakki, eða alls 27 hvolpa í 5 gotum og í öðru sæti var Salsara Take A Bow, ruby rakki sem eignaðist 21 hvolp í 6 gotum.Þriðji mest notaði rakkinn var An Sofie´s Trotsky Junior með 4 got og 18 hvolpa og fjórða sætið vermdi Sperringgardens Catch Of The Day með 3 got og 11 hvolpa. Á heimasíðu deildarinnar eru eingöngu auglýst þau got, þar sem farið hefur verið eftir öllum reglum deildarinnar varðandi heilbrigðisskoðanir. Ræktendur greiða 2.000.- fyrir hverja gotauglýsingu og andvirðið fer til greiðslu vistunar á síðunni og árgjaldi til ISNIC. Á starfsárinu komu 37.000.- í þann sjóð en kostnaður vegna heimasíðunnar var um 30 þús krónur. InnflutningurÁ árinu bættist kærkomin viðbót við heillita stofninn með ruby hundinum Russmic Jack Junior sem er innfluttur frá Englandi með mjög spennandi og góðar línur á bak við sig. Hann er rúmlega 2ja ára gamall og eigandi hans er Edda Hlín Hallsdóttir. Hún er einnig eigandi ruby tíkarinnar Leelyn Bobby´s Girl sem einnig kemur frá Englandi og er tæplega ársgömul. Mikil vöntun var orðin á nýju blóði í heillita stofninn svo þessi innflutningur var sannarlega þarfur. Einnig voru skráðir hjá HRFÍ þrír cavalierar frá Castlemar´s ræktun í Bandaríkjunum. Castlemar´s Rosemary´s Baby, blenheim tík fædd 2004, Castlemar´s Treasured Topaz, þrílit tík fædd 2002 og Castlemar´s Marshall Dillon, blenheim rakki f. 2004. Skráður eigandi hundanna er Kristín Jóhannsdóttir, Reykjanesbæ. Ólíklegt er þó að þessir hundar verði notaðir í ræktun hér, miðað við aldur þeirra en hvenær þeir komu til landsins eða hvort þeir hafa verið notaðir í ræktun hjá öðru félagi vitum við ekki. HeilbrigðismálEngin heilsufarsleg áföll urðu í ræktuninni á starfsárinu eftir því sem við vitum best.Deildin tók þá ákvörðun á stjórnarfundi 7.júlí s.l. að ekki yrðu auglýst got ef einhver ræktaði undan hundi eða tík úr gotum, þar sem sjúkdómarnir Episodic Falling eða Rough Coat hafa greinst, (þ.e. báðir foreldrar eru þá sannanlega berar) þar sem hægt væri að mistúlka það þannig að deildin mælti með gotinu. Helst ætti að vera ræktunarbann á gotum þar sem báðir foreldrar reynast berar og þyrfti að hvetja ræktendur til þess ef slík got verða í framtíðinni sem má alveg reikna með þó varlega sé farið. Því miður hóf einn af nýju ræktendunum ræktun sína með því að nota tík úr Episodic Falling goti til ræktunar. HjartaskoðanirDeildin stóð fyrir hjartaskoðun í nóvember s.l. og buðu þrjár dýralæknastofur upp á hjartaskoðun á tilboðsverði í eina viku. Alls mættu 56 cavalierar í skoðun þessa daga en í heildina voru 130 cavalierar hjartaskoðaðir á starfsárinu eða heldur færri en s.l. ár, en þá voru yfir 150 hundar skoðaðir. Niðurstaða var þannig:Undir 2ja ára, 7 voru skoðaðir, allir hreinir2 – 3 ára, 41 skoðaður, 40 hreinir en 1 greindist með murr á byrjunarstigi, 0 – 1 gr.3 – 4 ára, 28 skoðaðir, allir hreinir4 – 5 ára, 31 var skoðaður, 28 hreinir en 3 greindust með murr á byrjunarstigi5 – 6 ára, 18 skoðaðir, 17 hreinir en 1 með murr einnig á byrjunarstigi6 – 7 ára, 17 skoðaðir, 14 hreinir en 3 með murr gr. 1 og 2.7 – 8 ára, 7 skoðaðir, 3 hreinir en 4 með murr gr. 1 og 28 – 9 ára, 2 skoðaðir, báðir með mur gr. 1 og 2.9 – 10 ára, 2 skoðaðir, báðir með murr gr. 411 – 12 ára, 3 skoðaðir, allir hreinir. Það er tvennt sem var athyglisvert í þessari skoðun, það er í fyrsta lagi niðurstaða skoðunarinnar á 5 – 7 ára hundum. Á þessum aldri er skv. erlendum könnunum talið að um 50% cavaliera sé kominn með murr á byrjunarstigi en í þessum aldurshópi voru 35 cavalierar skoðaðir hér og af þeim eru aðeins 4 með murr eða um 11% . Hvort við getum dregið þá ályktun að stofninn hér sé betri hvað varðar míturlokusjúkdóminn heldur en annars staðar, vitum við ekki. Þetta gæti verið tilviljun en áður hafa samt svipaðar niðurstöður árið 2008 bent til þess sama. Hitt er líka athyglisvert að þeir 3 hundar sem voru skoðaðir á aldrinum 11 – 12 ára voru allir hreinir, en það er mjög sjaldgæft hvaða tegund sem á í hlut. Þessir cavalierar eru allir undan sama rakkanum, Sperringgardens Christian Collard (Brassa), sem líka var heilbrigður 12 ára og einnig allir úr sömu móðurætt þar sem langlífi er áberandi. Þetta sýnir hversu mikilvægt er að góð hjartalína sé á bak við undaneldishundana. Þessir hundar koma allir frá Drauma ræktun og óskum við henni innilega til hamingju með það. Eins og þið vitið,er nú krafist hjartavottorða undaneldisdýra vegna skráningar hvolpa í ættbók, það hefur verið í gildi frá 1. janúar 2008. Þessari reglu var breytt á síðasta ári og hún gerð ítarlegri, hún hljóðar því þannig frá og með 1. júlí 2009: Vottorð undaneldishunda má ekki vera eldra en 6 mánaða við pörun og skulu þeir vera án murrs þar til 6 ára aldri er náð. Vottorð eftir að 5 ára aldri undaneldishunda er náð gildir í eitt ár. Vottorð eftir 7 ára aldur undaneldishunda gildir ævilangt. Hjartavottorð þarf að fylgja ættbókarskráningu og niðurstaða kunn fyrir pörun. Síðan þessi regla var sett eru engir hvolpar skráðir í ættbók nema hjartavottorðum undaneldisdýra sé framvísað en ennþá ber þó við að parað sé án þess dýrin séu hjartaskoðuð áður. Ræktandi tekur þar með mikla áhættu því hann fær ekki lengur ættbækur á hvolpana ef annað foreldri eða bæði eru komin með hjartamurr. Sem betur fer er þó aðeins um sárafá tilvik að ræða og vonandi verður það alveg úr sögunni á næsta starfsári, því nú eru slík tilvik send beint til siðanefndar sem er ekki beinlínist skemmtilegt fyrir ræktandann eða eiganda undaneldishundsins. Hvernig siðanefnd mun taka á þessum málum á síðan eftir að koma í ljós. Tilmæli deildarinnar eru einnig að undaneldisdýrin hafi náð 2ja ára aldri fyrir pörun, þannig að vitað sé um heilbrigði foreldra þeirra við 4ra ára aldur. Undanskilið er þó að nota má rakka aðeins undir þeim aldri, en aðeins með því skilyrði að báðir foreldrar hans hafi náð 4ra ára aldri eða meira og séu heilbrigðir og einnig að góð hjartalína sé að öðru leyti á bak við rakkann. Einn ræktandi hefur því miður þverbrotið þessa reglu og í tvígang notað sama rakkann mjög ungan. Í fyrra sinnið er hann var tæplega 10 mánaða og þá á 20 mánaða tík, sem einnig er brot á grundvallarreglum HRFÍ og í seinna sinnið rétt um ársgamlan. Hvorugt foreldra hans er komið með 4ra ára vottorð og móðirin verður ekki 4ra ára fyrr en nú í sumar. Eigendur afkvæma þessa rakka geta því ekki notað þau í ræktun ef þeir óska eftir því, fyrr en þau hafa náð rúmlega 3ja ára aldri ef þau vilja fylgja reglum deildarinnar. Ekki er víst að þeir hafi áttað sig á því við kaupin. Það getur tæplega verið að ræktandinn skilji út á hvað þessar reglur ganga og hver tilgangurinn er með þeim. Hvað viðkemur eiganda rakkans sem er ræktandi frá því 2003, hefur áður sýnt sig að hann virðist ekki átta sig á því af hverju þessar undaneldisreglur eru settar, því sem dæmi paraði hann í tvígang tík eftir að hún greindist með murr. Nokkur misbrestur er á því að ræktendur og eigendur undaneldishunda komi með hundana í 4ra ára skoðun og síðan árlega eftir það og er það mjög miður. Margir virðast telja að þegar hætt er að nota hundinn eða tíkina þurfi ekkert að skoða þau meira. En að sjálfsögðu hvílir sú ábyrgð á þeim sem notar hund til undaneldis að koma með hann í árlega skoðun eftir það vegna ræktunar afkvæma þeirra. Augnskoðanir91 cavalier var augnskoðaður á árinu, 58 tíkur og 33 rakkar. Þetta er töluverð aukning frá fyrra ári þegar 72 cavalierar voru skoðaðir enda bauð félagið upp á 3 augnskoðanir á starfsárinu.Eins og áður greindust töluvert margir með Cornea Dystrophi eða tilfallandi kólestrol kristalla og þá fyrst og fremst tíkurnar eða 16 tíkur en aðeins 2 rakkar. Þessir kristallar hverfa yfirleitt eftir 2 – 3 ár og eru algjörlega meinlausir. Við höfum áður nefnt að okkur finnast miklar líkur á að þessir kristallar séu hormónatengdir og þeir greinast einnig miklu oftar á vorin heldur en á öðrum tímum ársins enda er talið að þeir geti bæði verið fæðu- og birtutengdir.Töluvert margir greinast líka alltaf með nokkur aukaaugnhár sem yfirleitt valda þó engum vandræðum en 13 greindust með þau. 4 cavalierar greindust með Retinal Dysplasi, tveir voru með vægari tegundina eða multifocal en hinir tveir með þá verri eða geographic. Þessir sjúkdómar eiga ekki að hafa nein áhrif á sjón hundsins og mjög sjaldgæft er hjá cavalier að hann þróist þannig að hann valdi blindu. En ef ræktað er undan slíkum hundum gætu hvolparnir fengið sjúkdóminn á hærra stigi. Þessir hundar eru því allir komnir í ræktunarbann. Ein tík greindist með cataract en ekki vitað hvort um arfgengt cataract var að ræða, hún fer þó í ræktunarbann þar til hún hefur verið skoðuð aftur. Gildistíma augnvottorða var breytt á árinu úr 24 mánuðum í 25 mánuði. HeimasíðanÁ síðasta ári settum við upp síðu sem heitir Öldungarnir okkar, með nöfnum þeirra hunda sem við vitum að náð hafa 11 ára aldri eða meira. Einnig kemur fram fæðingardagur, foreldrar, nafn eiganda og ræktanda. Örugglega eru miklu fleiri hundar lifandi á þessum aldri en eru taldir þar upp og hvetjum við bæði ræktendur og eigendur slíkra hunda að láta okkur vita um þá.Okkur langaði einnig til að hafa myndaalbúm með þessum hundum en það virðist ekki almennur áhugi fyrir því a.m.k. höfum við aðeins fengið sendar örfáar myndir ennþá.Aldursforseti tegundarinnar í dag er Nettu Rósar Depill tæplega 15 ára gamall, en nokkir cavalierar eru á 15. ári í dag.Á heimasíðunni eru einnig allar fréttir birtar sem varða deildina, svo sem varðandi sýningar, göngur og fleira. Einnig eru þar birtar fundargerðir stjórnar og svo að sjálfsögðu ársskýrslurnar. Kynning á tegundinni og göngurDeildin tók þátt í smáhundakynningum í Garðheimum tvisvar á starfsárinu og hafa þessar kynningar tekist mjög vel og verið fjölsóttar. Það er frábært að Garðheimar skuli standa fyrir þessum kynningum og gaman að þeir skuli leyfa hundum aðgang að búðinni sem er því miður ekki mikið um hér á landi. Gaman að geta t.d. skroppið í kaffi þangað og tekið hundinn sinn með sér.Einnig var deildin með kynningarbás á 40 ára afmælishátið félagsins í Víðidal, „Hundar til gagns og gleði“, sem var mjög vel sótt en kannski aðallega af félögum í HRFÍ frekar en almenningi. Básanefndin hefur séð um kynningarbás fyrir tegundina á hundasýningum félagsins vor og haust. Viljum við þakka öllum sem hafa komið að þessum kynningum fyrir gott starf í þágu deildarinnar. Göngunefndin okkar hefur að venju staðið sig frábærlega, ellefu göngur hafa verið farnar eða um það bil mánaðarlega. Þær hafa yfirleitt verið vel sóttar þó veðrið hafi stundum verið rysjótt. Grillgangan var að þessu sinni 8. júlí við Strípsveg í Heiðmörk.Ágæt þátttaka var einnig í hinum árlegu aðventu- og nýársgöngum. Auk þess tóku cavaliereigendur þátt í Laugavegsgöngunni sem var fjölmenn eins og venjulega. Í þetta sitt var hún hluti af afmælishátíðinni og fór fram 29. ágúst. Um kvöldið var síðan árshátið að hætti HRFÍ. Auður Sif Sigurgeirsdóttir flutti fyrir okkur erindi um sýningarþjálfun í maí s.l. og fengu þátttakendur einnig að æfa sig úti við. Guðríður Vestar var einnig með sýnikennslu og gaf okkur góð ráð um snyrtingu hundanna fyrir sýningar. SýningarÁ starfsárinu voru óvenju margar sýningar eða fimm, þar sem tvöföld afmælissýning HRFÍ bættist við þessar þrjár föstu sýningar. Í framtíðinni verða síðan 4 sýningar á ári, því ein sýning bætist við í ágústmánuði, svo væntanlega verður eitthvað auðveldara fyrir okkur að ná meistaratitlum á hundana okkar í framtíðinni.Sumarsýning HRFÍ var haldin þann 27 og 28. júní í Reiðhöllinni í Víðidal. Um 650 hundar voru sýndir þar af 42 cavalierar. Dómari var Svein Helgesen frá Noregi. Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Drauma Lay Low og bestur af gagnstæðu kyni Hlínar Nelson Mandela.Í eldri flokki 6 – 9 mánaða sigraði Engla Birta en hún fékk 3. sætið í úrslitum um besta hvolp sýningar í þessum aldursflokki. 16 rakkar voru sýndir og 17 tíkur. Allir fullorðnu hundarnir fengu umsagnirnar „excellent eða very good“ sem samsvarar 1.einkunn eða betra en 6 rakkar fengu meistarefni og 5 tíkur.Besti hundur tegundar var Sperringgardens Catch Of The Day sem fékk sitt þriðja meistarastig á þessari sýningu og þar með titilinn íslenskur sýningarmeistari. Hann náði síðan öðru sætinu í tegundahópi 9. Best af gagnstæðu kyni var tíkin Heiðardals Tína, sem fékk sitt fyrsta meistarastig. Besti öldungur tegundar var Drauma Vera sem varð 3. besti öldungur sýningar. Svein Helgesen frá Noregi vildi lítið segja um einstakar tegundir en tók þó fram að góðir hundar hefðu verið í tegundahópi 9 sem hann dæmdi einnig. Hann hrósaði mjög umgjörð sýningarinnar og framúrskarandi starfsfólki.. Eins og áður var sagt voru tvær afmælissýningar í ágúst, helgina 22. og 23. Laugardaginn 22. ágúst mættu tæplega 690 hundar í dóm, þar af 61 cavalier.Dómari var Helle Dan Pálson frá Danmörku. Hún var mjög nákvæm í dómum og greinilega mjög vel að sér um tegundina. Það fékkst ekkert gefins þennan daginn og e.t.v hefur einhverjum þótt hún óþægilega hreinskilin.Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Mjallar Björt og besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Bjargar Kaldi sem varð annar besti hvolpur sýningar. Best af gagnstæðu kyni var Bjargar Konny. 18 rakkar voru sýndir og 28 tíkur. 4 rakkar fengu meistaraefni en aðeins 3 tíkur, heldur slök útkoma miðað við þann fjölda af tíkum sem sýndur var.Besti hundur tegundar var ISCh Sperringgardens Catch Of The Day, sem varð í 4. sæti í tegundahópi 9, en meistarastigið fékk Drauma Karri. Best af gagnstæðu kyni og sitt fyrsta meistarastig fékk Ljúflings X-clusive Xenia. Besti öldungur var ISCh Drauma Vera og besti öldungur af gagnstæðu kyni Öðlings Askur. Í viðtali við Sám kom fram að Helle fannst gæði hundanna misjöfn. Hún segir: „ Það sem skiptir mig mestu máli er að hundarnir hreyfi sig vel og séu heilbrigðir. Ég sá of marga horaða hunda en tegundin á að vera notalegur, heitur og mjúkur hundur. Að sjálfsögðu sá ég líka afar fallega hunda af góðri tegundagerð“. Sunnudaginn 23. ágúst voru heldur færri hundar skráðir eða um 670 og þar af 57 cavalierar. Dómarinn Marie Petersen kom einnig frá Danmörku og var heldur gjafmildari en stallsystir hennar daginn áður, en þetta voru meira og minna sömu hundarnir sem voru sýndir báða dagana.Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Mjallar Björt og besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Bjargar Kaldi. Best af gagnstæðu kyni var Drauma Lay Low. Hvorugur hvolpanna komst í úrslit um besta hvolp sýningar þennan daginn. 16 rakkar voru skráðir og 25 tíkur. 5 rakkar fengu meistaraefnisborða og 6 tíkur.Besti hundur tegundar var Drauma Abraham sem fékk sitt 3. meistarastig og þar með titilinn íslenskur sýningarmeistari. Hann varð síðan í 4. sæti í tegundahópi 9. Best af gagnstæðu kyni var Bjargar Darma, sem fékk sitt fyrsta meistarastig. Besti öldungur varð aftur ISCh Drauma Vera, sem varð síðan3. besti öldungur sýningar, en bestur af gagnstæðu kyni var Öðlings Askur.Þó sömu hundar virtust að mestu leyti raða sér í verðlaunasæti báða dagana, vakti það athygli að nokkrir hundar sem fengu gulan borða eða „good“ á laugardeginum hjá Helle voru gráðaðir excellent á sunnudeginum hjá Marie en það sést kannski best á þessu hversu misjafnar áherslur eru hjá dómurunum þó alltaf sé dæmt eftir „standardinum“ eða ræktunarmarkmiðinu. Marie segir í viðtali við Sám að gæði cavalierhundanna séu virkilega góð miðað við mörg önnur lönd. Hún taldi aðalvandamál tegundarinnar vera stærðina en þeir væru orðnir of stórir um allan heim. Hún sagði tíkurnar hafa verið betri en rakkana og margar þeirra hefðu verið algjörlega framúrskarandi. –Reyndin virðist samt vera að hlutfallslega fá alltaf fleiri rakkar meistaraefni en tíkur, þannig að það mætti ætla að rakkarnir væru yfirhöfuð betri þ.e.a.s. af þeim sem mæta á sýningar. Dýrabær gaf vinningshöfum bikara báða dagana og færum við eigendum fyrirtækisins bestu þakkir fyrir. Á haustsýningu HRFÍ sem fór fram dagana 3. – 4. október í Reiðhöllinni í Víðidal voru 750 hundar skráðir, þar af 57 cavalierar. Dómari var Norman Deschuymere frá Belgíu, mjög þekktur dómari sem dæmdi einnig BIS á sunnudeginum.Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Stapafells Brá og besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Heiðardals Louisu Þorri sem náði 4. sæti í úrslitum um besta hvolp sýningar. Best af gagnstæðu kyni var Yndisauka Bella. 18 rakkar voru skráðir og 26 tíkur. 6 rakkar fengu meistaraefni og 7 tíkur.Besti hundur tegundar var ISCh Sperringgardens Catch Of The Day en meistarastigið fékk Drauma Karri. Best af gagnstæðu kyni var Nettu Rósar Annalisa. Besti öldungur var ISCh Drauma Vera. Ræktunarhópur frá Drauma ræktun varð í 1. sæti í úrslitum sýningar á sunnudeginum. Dómarinn virtist vera mjög vel að sér um tegundina og gaf mjög langa og nákvæma dóma. Hann lagði mikla áherslu á góða byggingu og hreyfingar. Frekar óvenjulegt er að dómarar sem hingað koma spái mikið í litasamsetningar en þessi dómari vildi að blenheim hundarnir væru hvítir með brúnum flekkjum en ekki í brúnni kápu eins og sagt er og fengu margir þann dóm að þeir væru of brúnir. Hann gerði líka athugasemd ef heillitu hundarnir höfðu hvítan blett í bringu. Einnig var áberandi í dómunum að honum fannst margir hundanna of þröngir að aftan og sumir jafnvel kiðfættir. Miðað við suma dómana var hann þó frekar gjafmildur þar sem hann gaf öllum hundunum excellent eða very good. Hann var þó ekkert að spreða heiðursverðlaunum að óþörfu, t.d. fékk engin af 9 hvolpatíkum 6 – 9 mánaða heiðursverðlaun, þó hann tæki fram um flestar þeirra, að þær væru „very promishing“. Eftir honum er haft í Sámi að cavalierarnir hér á landi væru ekki þeir hundar sem hann hefði viljað taka með sér heim! Og þá vitum við það! Hann var annars gríðarlega ánægður með sýninguna og sagði að önnur félög gætu tekið HRFÍ sér til fyrirmyndar þegar kemur að skipulagi og umgjörð hundasýninga. Stærsta hundasýning HRFÍ til þessa fór fram í Víðidal helgina 27. – 28. febrúar sl. þegar 870 hundar af 88 tegundum voru skráðir til leiks. Óvenju fáir cavalierar tóku þátt að þessu sinni, miðað við vorsýningu, en 59 cavalierarvoru skráðirog hafaþeir ekkiveriðfærrisíðan 2004. Reyndar skýrist það af því að óvenjufáir hvolpar voru sýndir að þessu sinni eða aðeins 5, þannig að í raun voru ekki færri fullorðnir hundar en venjulega. Ferelith Somerfield frá Bretlandi dæmdi cavalierana en hún er þaulreyndur cavalierdómari.Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var tíkin Eldlilju Dorrit og besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Hlínar Katla. Þær komust því miður hvorugar í úrslit dagsins. 22 rakkar voru skráðir og 32 tíkur. Allir fengu „excellent“ eða „very good“.Dómarinn gaf 8 rökkum og 8 tíkum meistaraefni. Besti hundur tegundar var ISCh Sperringgardens Catch Of The Day sem náði 4. sæti í tegundahópi 9, en meistarastigið fékk Bjargar Kappi. Best af gagnstæðu kyni var Ljúflings X-clusive Xenia sem fékk sitt annað meistarastig. Besti öldungur var ISCh Drauma Vera sem varð 4. besti öldungur sýningar. Við komum ekki til með að vita hvað dómaranum fannst um tegundina almennt fyrr en í næsta Sámi sem kemur út á vordögum eða í sumar.Stigahæsti cavalierinn var ISCh Sperringgardens Catch Of The Day sem varð ásamt fleirum í 7. sæti hjá HRFÍ yfir stigahæstu hunda ársins 2009. ISCh Drauma Vera stóð sig frábærlega og varð 3. stigahæsti öldungur ársins en hún er orðin 10 ára gömul. Fyrstu helgina í júní n.k.verður sumarsýning HRFÍ og í tilefni af 15 ára afmæli deildarinnar fáum við mjög þekktan og sérhæfðan cavalierdómara. Þetta er Annukka Paloheimo frá Finnlandi, með ræktunarnafnið „Anncourt“ sem hefur ræktað cavalier í yfir 35 ár en hún byrjaði ræktun sína óvenju ung eða aðeins 16 ára. Hún hefur átt sýningarmeistara í öllum litum og einnig King Charles hunda. Annukka dæmdi hér ásamt öðrum dómara á 10 ára afmæli deildarinnar árið 2005. Vonandi verður góð þátttaka hjá okkur á þessari sýningu. Stjórnin þakkar ykkur gott samstarf og vonandi verður næsta ár heillaríkt bæði fyrir menn og hunda. |