Aðalfundur haldinn 17.febrúar 2011- á skrifstofu HRFÍ, Síðumúla 15
Góðir félagar,
Árið 2010 hefur reynst mikið ræktunarár og margir nýir ræktendur hafa bæst í ræktendahópinn. Fæddir hvolpar árið 2010 voru um 25% fleiri en árið á undan en alls voru 36 got og 142 hvolpar en árið 2009 voru gotin 29 og hvolparnir 113. Ekki var þó fæðingarmetið frá 2007 slegið að þessu sinni, eins og við áttum von á þegar síðasti aðalfundur var haldinn. Meðaltal hvolpa í goti var 3.95 nánast eins og undanfarin ár. Alls voru 29 ræktendur með got á árinu, þar af voru 10 nýir ræktendur, 6 þeirra hafa fengið ræktunanöfn, – og nú er meira að segja farið að leita í smiðju cavalierræktenda eftir nöfnum á osta!
Þessir nýju ræktendur eru Sarah During með Islandica´s ræktun, Olga Rannveig Bragadóttir með Valkyrju ræktun, Kolbrún Þórlindsdóttir með Sandasels ræktun, Elsa Hlín Magnúsdóttir með Hólabergs ræktun, Hildur Gunnarsdótir með Ískorku ræktun og Linda Helgadóttir með Prúðleiks ræktun. Auk þess hefur Kristrún Steinunn Sigmarsdóttir fengið ræktunarnafnið Mánalilju- en hún hefur tvisvar verið með got en þó ekki á s.l. ári. Aðrir nýir ræktendur eru Vildís Björgvinsdóttir, Guðrún Rúnarsdóttir, Íris Björk Hjörleifsdóttir og Kristín Hafsteinsdóttir. Bjóðum við þær velkomnar í ræktendahópinn.
Tíkarhvolparnir urðu fleiri eins og í fyrra eða 75 tíkur á móti 67 rökkum. Lita- og kynskiptingin var þannig, að af 59 blenheim hvolpum, voru 36 tíkur og 23 rakkar. Ruby hvolparnir voru 49, 23 tíkur og 26 rakkar. 20 black and tan hvolpar fæddust, 8 tíkur og 12 rakkar og eins og venjulega var lítið um þrílita hvolpa, þó urðu þeir helmingi fleiri en árið áður eða alls 14, 8 tíkur og 6 rakkar.
Eftirspurn eftir cavalierhvolpum var nokkuð góð fyrri hluta ársins en eitthvað var þó um að ræktendur þyrftu að halda hvolpum lengur en venjulega enda mjög mikill fjöldi hvolpa í boði á sama tíma og allt upp í 8 – 9 got auglýst í einu, mikinn hluta ársins. Í janúar 2011 bar þó svo við að þurfti að auglýsa á síðunni að því miður væru engir hvolpar til, en sjálfsagt breytist það nú fljótt á næstu mánuðum enda virðist enn vera heilmikill áhugi á ræktun innan deildarinnar.
Á árinu voru 15 rakkar í öllum fjórum litaafbrigðunum notaðir til undaneldis. Mest notaði rakkinn var Tibama´s Santas Dream, black and tan, sem feðraði 7 got, alls 23 hvolpa. Russmic Jack Junior, ruby rakki, feðraði einnig 23 hvolpa í 6 gotum og Ljúflings Þinur, blenheim rakki, 24 hvolpa í 4 gotum. Aðrir áttu mun færri hvolpa.
Á heimasíðu deildarinnar eru eingöngu auglýst þau got, þar sem farið hefur verið eftir öllum reglum deildarinnar varðandi heilbrigðisskoðanir. Ræktendur hafa greitt 2.000.- fyrir hverja gotauglýsingu og andvirðið fer til greiðslu vistunar á síðunni, árgjaldi til ISNIC og til bikarakaupa. Af þessum 36 gotum voru 25 auglýst á síðunni, þannig að innkoman var 50 þúsund krónur. Sum gotin voru ekki auglýst vegna þess að heilsufarsskoðanir voru ekki í lagi en í sumum tilfellum voru ræktendur með kaupendur og þurftu því ekki að auglýsa. Kostnaður vegna hýsingar á síðunni og árgjaldi lénsins var um 30 þúsund krónur. Bikarakaup námu tæpum 50 þúsum krónum en Dýrabær gaf bikara á eina sýningu. Nú eru sýningarnar orðnar 4, svo fyrirsjáanlegt er að kostnaðar vegna bikarakaupa mun aukast. Stjórnin ákvað á síðasta stjórnarfundi að hækka auglýsingaverðið í 2.500.- fyrir árið 2011 til að reyna að mæta þessum kostnaði en æskilegt væri ef ræktendur gætu tekið sig saman um að gefa bikara á einhverjar sýningar.
Okkur finnst að á heimasíðunni séu miklar og góðar upplýsingar sem bæði gagnast ræktendum og ekki síður hvolpakaupendum og því ætti það að vera hagur ræktenda sem og ákveðin meðmæli með gotinu að auglýsa á síðunni og styrkja þar með deildina.
Innflutningur
Á starfsárinu voru tveir innfluttir hundar skráðir í ættbók hjá HRFÍ. Ruby rakkinn Chadyline Red Shimmer, fæddur 19.5.2008 var fluttur inn frá Svíþjóð af Söruh Lillan During og hefur þegar hafist handa við að bæta nýjum genum í stofninn og var ekki vanþörf á því. Frá Svíþjóð kom einnig black and tan tíkin Fladerlyckans Ara, fædd 21.06.2005. Hún flutti heim með eiganda sínum Hugrúnu Rúnarsdóttur. Ekki er vitað hvort hún verður notuð í ræktun hér en hún mun hafa eignast hvolpa í Svíþjóð. Ruby tík frá Englandi mun svo hafa komið til landsins nú í janúar og verður væntanlega skráð á þessu ári.
Æskilegt væri að flytja inn góðan black and tan rakka til undaneldis, að öðru leyti stendur stofninn vel að vígi, þó ekki verði um innflutning að ræða á allra næstu árum þó auðvitað sé alltaf gott að fá nýtt blóð í stofninn ef vel er vandað til valsins.
Hjartaskoðanir
Deildin stóð fyrir hjartaskoðunardögum í febrúar og í nóvember s.l. og buðu þrjár dýralæknastofur upp á hjartaskoðun á tilboðsverði í febrúar en fjórða stofan bættist við í nóvember þar sem Hanna María Arnórsdóttir hjá Dýralæknastofunni í Garðabæ, hefur fengið réttindi til að hjartaskoða tegundina. Ágæt þátttaka var í febrúar en frekar dræm í nóvember.
Fleiri hundar voru þó hjartaskoðaðir á árinu 2010 en árið á undan, því alls voru 155 hjartavottorð gefin út á árinu á móti 130 árið á undan. Mun færri hundar á aldrinum 6 – 7 ára voru þó skoðaðir á árinu, en það er sá aldur sem algengast er að þeir byrji að greinast með murr.
Niðurstaða var þannig:
Undir 2ja ára, 5 voru skoðaðir, allir hreinir
2 – 3 ára, 30 skoðaðir, allir hreinir
3 – 4 ára, 32 skoðaðir, allir hreinir
4 – 5 ára, 42 skoðaðir, 40 hreinir en 2 greindust með murr gr.1-2
5 – 6 ára, 19 skoðaðir, 18 hreinir en 1 með murr gr.3
6 – 7 ára, 9 skoðaðir, 7 hreinir en 2 með murr gr. 1
7 – 8 ára, 9 skoðaðir, 6 hreinir, en 3 með gr.1
8 – 9 ára, 1 skoðaður með gr. 2.
9 – 10 ára, 4 skoðaðir, 1 hreinn, einn með gr.1 og tveir með gr. 3-4
11 – 12 ára, 1 skoðaður, hann var hreinn
12 – 13 ára, 3 skoðaðir og allir hreinir.
Af 155 skoðuðum hundum voru 143 hreinir en 12 greindust með míturmurr.
Niðurstaða var nánast sú sama og áður varðandi 5 – 7 ára hundana, um 10% þeirra greinast með murr hér eins og áður, en talið er skv. erlendum könnunum, eins og áður hefur verið sagt í ársskýrslum, að um 50% cavaliera séu komnir með murr á byrjunarstigi á þessum aldri. En auðvitað getur verið að þeir sem greinast með murr taki einfaldlega ekki hjartavottorð og því ekki hægt að byggja alfarið á þessari niðurstöðu. Það gæti verið virkilega áhugavert að fá um 100 hunda á þessum aldri í skoðun til að vita hver raunveruleg staða væri hér varðandi míturmurrið í tegundinni, helst þyrfti sú skoðun að vera nánast án kostnaðar fyrir eigendur hundanna. Kannski verður deildin einhvern tíma svo rík að geta staðið fyrir svona skoðun en algengt er t.d. í Englandi að boðið sé upp á svona fríar skoðanir einu sinni á ári.
Síðan í janúar 2008 hefur verið krafist hjartavottorða undaneldisdýra vegna skráningar hvolpa í ættbók. Þessari reglu var breytt árið 2009 og hún gerð ítarlegri, hún hljóðar því þannig frá og með 1. júlí 2009: Vottorð undaneldishunda má ekki vera eldra en 6 mánaða við pörun og skulu þeir vera án murrs þar til 6 ára aldri er náð. Vottorð eftir að 5 ára aldri undaneldishunda er náð gildir í eitt ár. Vottorð eftir 7 ára aldur undaneldishunda gildir ævilangt. Hjartavottorð þarf að fylgja ættbókarskráningu og niðurstaða kunn fyrir pörun.
Síðan þessi regla var sett eru engir hvolpar skráðir í ættbók nema hjartavottorðum undaneldisdýra sé framvísað og að þau séu heilbrigð, en ennþá kemur þó fyrir að parað sé án þess dýrin séu hjartaskoðuð áður, þó um sárafá slík tilvik sé að ræða í dag. Ræktandi tekur mikla áhættu í slíkum tilfellum, því hann fær ekki lengur ættbækur á hvolpana ef annað foreldri eða bæði eru komin með hjartamurr. Eitt slíkt tilfelli var á árinu, tíkin var hjartaskoðuð eftir pörun og reyndist vera komin með murr, en sem betur fer slapp ræktandinn og eigandi undaneldishundsins við skrekkinn, því engir hvolpar reyndust vera í tíkinni. Ef undaneldisdýrin eru skoðuð eftir pörun eru slík tilvik send til siðanefndar félagsins sem er heldur leiðinlegt fyrir ræktandann og eiganda undaneldishundsins og einhver slík tilfelli voru á s.l. ári. Úrskurðir Siðanefndar eru birtir á heimasíðu HRFÍ en í flestum tilfellum eru viðkomandi aðeins áminntir a.m.k. við fyrsta brot.
Tilmæli deildarinnar eru einnig að undaneldisdýrin hafi náð 2ja ára aldri fyrir pörun, þannig að vitað sé um heilbrigði foreldra þeirra við 4ra ára aldur. Undanskilið er þó að nota má rakka aðeins undir þeim aldri, en aðeins með því skilyrði að báðir foreldrar hans hafi náð 4ra ára aldri eða meira og séu heilbrigðir og einnig að góð hjartalína sé að öðru leyti á bak við rakkann.
Á rakkalista deildarinnar fara nú allir hundar sem orðnir eru 2ja ára, eiga heilbrigða foreldra við 4ra ára aldur, gilda augnskoðun og hjarta- og hnéskeljaskoðun. Auk þess þurfa þeir að hafa verið sýndir og fengið annað hvort einkunina „excellent“ eða „very good“. Rakkaeigendur verða svo að gæta þess þegar þeir lána hunda sína að tíkin sé einnig með gild vottorð, því ef þeir lána hunda sína á tíkur sem ekki hafa vottorð í lagi, eru þeir einnig kærðir til Siðanefndar.
Öll ræktunardýr eiga síðan að fara árlega í hjartaskoðun svo hægt sé að fylgjast með heilbrigði þeirra með tilliti til ræktunar afkvæmanna í framtíðinni.
Augnskoðanir
Töluvert færri cavalierar voru augnskoðaðir á árinu en í fyrra eða 61, 35 tíkur og 26 rakkar. Boðið var upp á 2 augnskoðanir, í júní og í nóvember en hin hefðbundna vorskoðun féll niður. Báðar skoðanirnar fóru fram meðfram sýningum félagsins og virðast færri hundar koma í skoðun með því fyrirkomulagi.
Í júní voru 40 hundar skoðaðir, 11 voru með cornea dystrophi, kólestrol kristalla og 3 voru með tvísett augnhár, og telst þetta tvennt frekar smávægilegir kvillar heldur en augnsjúkdómar. Ein tík hafði áður greinst með Retinal Dysplasia og fékk það staðfest aftur en tveir rakkar greindust með öllu alvarlegri sjúkdóm eða Microthalmia Cataract, annar í öðru auga en hinn í báðum. Þeir fara báðir í ræktunarbann. Þessi augnsjúkdómur er meðfæddur og versnar ekki, hann lýsir sér þannig að í flestum tilfellum er annað augað minna og sést það strax og hvolpurinn fer að þroskast, venjulega heldur hundurinn þó þeirri sjón sem hann hefur í upphafi. Þetta er mjög sjaldgæfur sjúkdómur í tegundinni en báðir hundarnir eru undan sama rakkanum og því var ákveðið að taka hann úr ræktun, þó ekki sé vitað hvernig sjúkdómurinn erfist, þ.e. hvort hann erfist frá báðum foreldrum eða öðru. Þessi sjúkdómur hefur aðeins greinst hér á landi einu sinni áður eða árið 2002.
Í nóvember var 21 cavalier skoðaður, ein tík var með cornea dystrophi, sem yfirleitt greinist lítið af á haustin, tveir cavalierar voru með tvísett augnhár en einn rakki greindist með PHTVL með ífarandi katarakt. Okkur vitanlega hefur enginn cavalier greinst með þennan sjúkdóm fyrr, getum ekki fundið neinar upplýsingar um það erlendis heldur og þessi sjúkdómur er ekki talinn upp með þeim sem geta greinst í tegundinni. Aftur á móti er hann vel þekktur í King Charles spaniel og fleiri tegundum. Þetta er alvarlegur meðfæddur sjúkdómur sem orsakast vegna misþroska á fósturstigi, þannig að augað þroskast ekki eðlilega. Sjúkdómurinn er stundum gráðaður frá 1 – 6 og veldur ekki vandræðum á vægasta stiginu, gr. 2 – 5 þýðir að sjónin fer versnandi og gr. 6 þýðir algjör blinda. Nauðsynlegt er að koma reglulega með þessa hunda í skoðun. Sjúkdómurinn er eingöngu greinanlegur hjá augnsérfræðingum. Viðkomandi hundur mun vera með hann á vægasta stigi en nauðsynlegt er að fylgjast með honum.
Rétt er líka að fá sjúkdóminn staðfestan í annarri skoðun og þá jafnvel hjá öðrum dýralækni.
Gildistíma augnvottorða var breytt á árinu úr 24 mánuðum í 25 mánuði og gildir það sama um þau og hjartavottorðin að þau þarf að taka fyrir pörun. Einhver mun hafa misstigið sig varðandi augnvottorðin og var því kærður til Siðanefndar en sem betur fer er það algjör undantekning og vonandi í síðasta skipti sem það hendir.
Siðanefnd hefur að okkar mati unnið mjög gott og þarft starf og er með gott aðhald fyrir ræktendur en öllum getur orðið á og það fékk einn samviskusamur cavalierræktandi að reyna, þegar hann fékk bréf frá Siðanefnd vegna mislestrar á fæðingardegi versus pörunardegi. Þetta getur verið spaugilegt eftir á en ræktandinn sem ekki má vamm sitt vita, þurfti nánast áfallahjálp eftir lestur bréfsins, svo þau eru sennilega nokkuð harðorð!
Á heimasíðunni okkar er listi sem heitir Öldungarnir okkar, með nöfnum þeirra hunda sem við vitum að náð hafa 11 ára aldri eða meira. Einnig kemur fram fæðingardagur, nöfn foreldra, eiganda og ræktanda. Aldursforsetinn okkar Nettu Rósar Depill, dó 28. júní s.l. en hann var fæddur 17.6.1995 og náði því 15 ára aldri. Hann er langlífasti cavalierinn hingað til. Samkv. eiganda hans þurfti hann aldrei á sinni löngu æfi á lyfjum að halda en hann dó úr heilablóðfalli.
Aðrir cavalierar sem náðu háum aldri en dóu á síðasta ári, voru bræðurnir Ljúflings Gáski Geysir og Glói en þeir urðu rúmlega 14 ára gamlir. Aldursforsetar núna munu vera systurnar þrjár, Hlínar Eugenie (Freyja), Beatrix og Vania, en þær urðu 13 ára um miðjan janúar. Aðrir sem hafa nýlega náð 13 ára aldrinum og við höfum fengið staðfestingu á að eru á lífi eru Gæða Jaki og systurnar Drauma Milly og Molly.
Á síðasta ári dóu einnig 4 innfluttir cavalierar sem hafa verið notaðir í ræktun, mismunandi mikið þó. Þeir eru: Moorfields Mulder, black and tan rakki, Tibama´s Golden Cordelia ruby tík, Sperringgardens Cream Chantelle (Tess), blenheim tík og Tibama´s Think Twice (Zorro), black and tan rakki sem hefur haft mikil áhrif á stofninn og á orðið marga afkomendur. Því miður fór hann allt of fljótt, aðeins 7 ára gamall og hafði þá nýlega tekið hreint hjartavottorð, en hann dó vegna óviðráðanlegrar sýkingar í blöðruhálskirtli.
Einnig kvaddi okkur nýlega eða nú í janúar, tík sem allir þekkja sem stunda sýningar, ISCh Drauma Vera. Hún lét mikið af sér kveða í öldungaflokki og var alltaf mjög ofarlega í keppninni um öldung ársins, alltaf jafn glöð og kát. Vera hefði orðið 11 ára 25. janúar s.l.
Á heimasíðunni eru einnig allar fréttir birtar sem varða deildina, svo sem varðandi sýningar, göngur og fleira. Einnig eru þar birtar fundargerðir stjórnar og svo að sjálfsögðu ársskýrslurnar.
Kynning á tegundinni og göngur
Deildin tók þátt í smáhundakynningum í Garðheimum í febrúar og í september á síðasta ári og voru þessar kynningar vel sóttar sem fyrr. Það er alltaf jafn skemmtilegt að mæta í Garðheima og upplifa það jákvæða andrúmsloft sem þar ríkir. Einnig er búið að opna þar mjög fínan veitingastað uppi á loftinu „Spíruna“ þar sem boðið er upp á alls kyns hollar freistingar.
Básanefndin hefur séð um kynningarbás fyrir tegundina á hundasýningum félagsins vor og haust. Viljum við þakka öllum sem hafa komið að þessum kynningum fyrir gott starf í þágu deildarinnar.
Okkar frábæra göngunefnd sem telur 7 eldhressar konur stóð fyrir 11 göngum á árinu. Langoftast hefur verið mjög góð þátttaka, jafnvel þó að himnarnir hafi opnast með steypiregni, eins og í Grafarvogsgöngunni eða nístingsfrost eins og við fengum í Nýársgöngunni, þar sem sennilega hefur verið slegið þátttökumet í cavaliergöngu, þegar milli 85 – 90 manns mættu með óteljandi hunda, í slíkum kulda að ekki var gerlegt að láta alla skrifa í gestabókina. Í júní var mjög eftirminnileg ganga fyrir ofan Rauðavatn vegna einstaks blíðviðris. Þetta var tæplega 2 klt. ganga og þegar göngunni lauk um kl. 22, var enn blankalogn og 18 stiga hiti – ekki algengt veður á Íslandi að kvöldi dags enda tímdum við varla að fara heim. Í júli var í stað hinnar venjulega grillgöngu farin lautarferð við Snorrastaðatjarnir og allir komu með nesti í körfu og teppi og höfðu það huggulegt í góða veðrinu, sem var ekki mikið síðra en í Rauðavatnsgöngunni. Reyndar villtust 2 cavalierar á heimleiðinni og voru komnir upp að Reykjanesbraut en sem betur fór fundust þeir áður en lengra var haldið, við mikinn fögnuð eigenda sinna.
Aðventukaffið okkar féll niður í fyrsta skipti vegna vatnsleysis í Sólheimakoti en í stað þess var slegið upp Jólagöngu í Hafnarfirði. Yndislegt veður var til göngu og býsna hlýtt miðað við árstíma. Göngugarpar mættu með jólasveinahúfur sem svo sannarlega setti skemmtilegan brag á gönguhópinn. Síðan var öllum skaranum óvænt boðið inn í garð hjá þeim heiðurssystrum Ljúflings Úu og Ljúflings Bliku. Það voru eigendur þeirra sem buðu um 40 cavaliereigendum uppá heitt súkkulaði með rjóma og smákökur. Hægt var að losa taumana og leyfa hundunum að leika sér í garðinum. Eftir hressinguna var gengið upp á Hamarinn, þar sem mjög gott útsýni er yfir höfuðborgarsvæðið og endað í Jólaþorpinu. Þökkum við þeim Önnu og Garðari fyrir höfðinglegar móttökur og göngunefndinni fyrir sitt góða starf enda reiknum við með að hún hafi örugglega verið æviráðin!
Auk þessa tóku svo cavaliereigendur þátt í Laugavegsgöngunni í ágúst, en þátttaka var víst fremur dræm enda veðrið heldur vætusamt þann daginn.
Þann 2. nóvember vorum við með opið hús í Sólheimakoti og mættu þar um 25 cavaliereigendur með hunda sína til að læra hundanudd hjá Nönnu Zophoníasdóttur.
Sýningar
Á árinu 2010 voru 4 sýningar, þar sem bæst hefur við árleg alþjóðleg sýning í ágúst. Vorsýningunni í lok febrúar 2010 voru gerð skil á síðasta aðalfundi en þá vantaði reyndar umsögn dómarans sem birtist í Sámi. Dómarinn Ferelith Somerfield frá Bretlandi sagðist hafa verið virkilega ánægð með sýninguna í heild og fannst alveg ótrúlegt hve margir skráðir hundar hefðu mætt á sýninguna þrátt fyrir veður! Ferelith er cavalier king Charles spaniel ræktandi og dæmdi fjöldann allan af cavalier hundum sem hún var mjög ánægð með í heild. „ Ég naut þess að dæma þá og ég var mjög ánægð með besta hund tegundar og hve vel honum gekk í úrslitum tegundahóps 9“, sagði Ferelith, en það var Sperringgardens Catch Of The Day sem náði þar 4. sætinu.
Sumarsýning HRFÍ var haldin þann 5. – 6. júní í Reiðhöllinni í Víðidal.
Tæplega 750 hundar voru skráðir til þátttöku af 80 tegundum og var þetta stærsta sumarsýning félagsins til þessa. Metþátttaka var hjá cavalierunum eða 80 skráðir hundar, þar af 13 hvolpar. Deildin átti 15 ára starfsafmæli á árinu og í tilefni þess fengum við sérfróðan cavalierræktanda og dómara, Annukku Paloheimo frá Finnlandi en hún dæmdi einnig hér á 10 ára afmælinu okkar.
Annukka skrifaði mjög ítarlega dóma um hvern hund svo allir ættu að hafa fengið góða leiðsögn um kosti og galla sinna hunda og hvað hver og einn getur gert til að bæta sýningarárangur sinn ef um það er að ræða.
Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Ljúflings Bjarmi og best af gagnstæðu kyniLjúflings Busla Brák. Bjarmi varð síðan 3. besti hvolpur í úrslitum á sunnudeginum.
Í eldri flokki 6 – 9 mánaða varð Eldlilju Dorrit besti hvolpur tegundar, en hún var eini hvolpurinn í þessum aldurshópi.
67 fullorðnir cavalierar voru skráðir, 27 rakkar og 40 tíkur. Langflestir hundanna fengu „excellent“ eða 44, 18 fengu“ very good“, 1 „good“, en 4 mættu ekki. 10 rakkar og 10 tíkur voru meistaraefni að dómi Annukku.
Besti hundur tegundar var Drauma Karri sem fékk sitt þriðja meistarastig á þessari sýningu en þar sem hann hafði ekki náð 2ja ára aldri á sýningunni, þarf hann 4. stigið til að geta orðið íslenskur sýningarmeistari. Best af gagnstæðu kyni var tíkin Ljúflings X-clusive Xenia sem einnig fékk sitt þriðja meistarastig og varð því íslenskur meistari á þessari sýningu. Drauma Karri komst því miður ekki í úrslit í grúppu 9.
Besti öldungur tegundar var ISCh Drauma Vera, hún varð einnig 2. besta tíktegundar og endaði síðan sem 2. besti öldungur sýningar en bestur af gagnstæðu kyni var Öðlings Askur.
Drauma ræktun sýndi ræktunarhóp sem fékk 1. sæti í úrslitum á sunnudeginum.
Annukka var mjög ánægð með cavalierana og sendi okkur eftirfarandi póst eftir sýninguna, les umsögn hennar óþýdda : „I am really happy to see that you in Iceland have now so many Cavaliers with Excellent Fronts!! and Lovely Eyes!! Lots of fronts are „lost“ in England and Europe. The lovely arch of the neck, good shoulders and upper arms – not too many left!! And other things as well. I am happy that there were only about 2 to 3 „modern“ heads, now so popular but Wrong: The round skull, deep stop, very short muzzle. This is a big change in UK and I am not happy. It is another breed then“.
Í Sámi er haft eftir Annukku um cavalierana: „Ég var hér fyrir 5 árum og gæðin eru 500% betri í dag en þá og þeir standast fyllilega samanburð við hvaða land í Evrópu sem er fyrir utan heimalandið, England“. Hún sagði hundana heilbrigða og mjög góða og að ræktendur hafi greinilega staðið sig frábærlega hér. Hún var einnig gríðarlega ánægð með sýninguna og andann sem ríkti á svæðinu. Starfsfólk sýningarinnar var til fyrirmyndar sem og umgjörð sýningarinnar og gestrisni HRFÍ. Hún vonaðist til að fá aftur tækifæri til að koma til Íslands.
Ágúst sýningin var haldið 28. – 29. ágúst, þá voru skráðir til þátttöku u.þ.b. 760 hundar af 82 tegundum. 46 cavalierar voru skráðir þar af 12 hvolpar. Því miður forfallaðist dómarinn okkar Bo Skalin, sem er mjög vanur cavalierdómari en í stað hans fengum við finnskan dómar Juha Putkonen sem virtist nokkuð óvanur og óöruggur í dómum. Hann gaf þó öllum mjög ítarlega dóma en nokkrir cavalierar voru settir töluvert niður í einkunn vegna tannsteins og óheilbrigðra góma – nokkuð sem vert er að hafa í huga fyrir næstu sýningar.
Besti hvolpur tegundar 4 – 6 mánaða var Sandasels Kvika, sem lét ekki þar við sitja, heldur sló í gegn og varð besti hvolpur dagsins í þessum aldursflokki.
Besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Ljúflings Bjarmi en hann varð 3. besti hvolpur dagsins í sínum flokki. Best af gagnstæðu kyni var Eldlilju Tína.
34 fullorðnir cavalierar voru skráðir, 18 rakkar og 16 tíkur. 19 fengu rauðan borða, 10 bláan, 3 gulan, 1 grænan og 1 mætti ekki. 13 fengu meistaraefnisborða.
Besti hundur tegundar var ISCh Drauma Abraham og best af gagnstæðu kyni ISCh Ljúflings X-clusive Xenia, bæði fengu cacib stig en Abraham komst því miður ekki í úrslit í grúppu 9. Meistarastigin fengu Heiðardals Prins Robin og Eldlilju Móa og voru þetta fyrstu stig beggja.
Besti öldungur tegundar og 3. besta tík var ISCh Drauma Vera sem fékk því miður ekki sæti í úrslitum að þessu sinni.
Í Sámi er haft eftir dómaranum Juha Putkonen að hann hafi verið ánægður með sýninguna í heild sinni og með hundana sem hann dæmdi. Hann hafði ekki margt að segja um sýninguna vegna tungumálaörðugleika en ákvað að reyna sitt besta. Hann nefndi sérstaklega starfsfólkið í hringnum, hann segist hafa verið ansi stressaður og það hafi komið sér vel að hafa gott starfsfólk sér til halds og trausts. Hann sagðist hafa dæmt marga fallega íslenska fjárhunda og einnig nefndi hann cavalier king Charles spaniel og þá sérstaklega besta hund tegundar, besta hund tegundar af gagnstæðu kyni og besta öldung tegundar.
Á haustsýningu HRFÍ sem fór fram dagana 20. – 21. nóvember í Reiðhöllinni í Víðidal voru 829 hundar skráðir, þar af 56 cavalierar, dómarinn okkar var Hans Rosenberg frá Svíþjóð. Rudi Hubenthal frá Noregi dæmdi grúppu 9 og Andrew Brace frá Englandi besta hund sýningar.
Þessi sýning verður sennilega lengi í minnum höfð sem „bláa sýningin“ okkar, nema þetta sé það sem koma skal á næstu sýningum. En vonandi verður hennar þó fyrst og fremst minnst vegna þess frábæra árangurs sem náðist á sýningunni, þegar cavalier varð 3. besti hundur sýningar.
Úrslit urðu annars eftirfarandi:
Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Ískorku Atlas ogbest af gagnstæðu kyni Ískorku Aska Ísafold.
9 hvolpar voru sýndir í flokknum 6 – 9 mánaða og þar var besti hvolpur Sandasels Kvika, en enginn rakki í þessum aldursflokki fékk heiðursverðlaun en dómarinn var óvenju spar á þau. Hvorugur hvolpanna komst í úrslit um besta hvolp dagsins.
45 fullorðnir cavalierar voru skráðir, 18 rakkar og 27 tíkur. 15 fengu rauðan borða, 24 bláan og 3 gulan, – 3 mættu ekki. 10 hundar fengu meistarefnisborða. Eins og áður er sagt var þetta afar blá sýning en ef blái borðinn er sambærilegur við gömlu 1. einkunina, þá er sennilega nær lagi að fleiri séu með bláan borða heldur en rauðan, en það er samt greinilegt að dómararnir túlka þessar einkunnir mjög misjafnlega og meðan svo er, geta raunverulega allir búist við að fá stundum rauðan og stundum bláan borða á sama hundinn. En óneitanlega getur verið erfitt fyrir eigandann að taka því, að hundur sem nokkrum mánuðum áður fær excellent, meistaraefni og 2. eða 3. sæti sem besti hundur, sé dæmdur niður í „good“ og gulan borða.
Besti hundur tegundar var ISCh Drauma Abraham og best af gagnstæðu kyni var ISCh Ljúflings X-clusive Xenia, bæði fengu þriðja cacib stigið sitt en fjögur stig þarf til að hljóta titilinn alþjóðlegur meistari. Drauma Abraham er stigahæsti cavalier ársins og í 9. sæti ásamt fleirum í keppninni um stigahæsta hund ársins. Tíkin Ljúflings Xenia hefur einnig náð frábærum árangri á árinu, verið besta tík á öllum 4 sýningum ársins. Heiðardals Prins Robin og Drauma Díma fengu meistarastigin og er þetta annað stig beggja, vonandi ná þau því þriðja á þessu ári en þá standa 5 sýningar cavalierunum til boða, það er því spennandi ár framundan í sýningarhringnum.
Besti öldungur var ISCh Drauma Vera sem náði því miður ekki sæti í úrslitum en varð þrátt fyrir það 3. stigahæsti öldungur ársins og var það ekki lítið afrek fyrir tík hátt á 11. aldursári.
ISCh Drauma Abraham mætti til leiks í grúppu 9, en þar kepptu alls um 20 smáhundategundir, allt glæsilegir fulltrúar sinnar tegundar. Cavalierarnir hafa nokkuð oft komist í 4ra hunda úrslit í grúppu 9, sem er þó langt í frá auðvelt – en að þessu sinni kom hann Abraham með stæl inn í hringinn og hreint og beint rúllaði þessu upp og varð í 1. sæti í grúppunni hjá Rudi Hubenthal við mikinn fögnuð cavaliereigenda. Fyrir mörgum árum síðan eða árið 2000 náðu tveir cavalierar þessum árangri, Nettu Rósar Sandra á vorsýningunni og Gæða Jökull á sumarsýningunni á Akureyri, – árið 2000 var því mjög farsælt ár fyrir cavalierna. Homerbrent Elation (Pútin) náð einnig 1. sæti í grúppunni árið 2003.
Sunnudaginn 21. nóvember mættu 10 fulltrúar grúppanna til keppni um besta hund sýningar hjá dómaranum Andrew H. Brace. Mikil eftirvænting ríkti þegar Abraham hógvær og lítillátur með dillandi skott, trítlaði inn í hringinn og komst í 4ra hunda úrslit. Þegar hann tók við þriðju verðlaunum um besta hund sýningar frá dómaranum Andrew H.Brace, fögnuðu viðstaddir cavaliereigendur gífurlega.
Þetta telst besti árangur sem cavalier hefur náð hingað til, þar sem þetta er svo stór sýning, en áður hafa þó 3 cavalierar komist í 4ra hunda úrslit um besta hund sýningar. Gæða Jökull varð besti hundur sýningar á sumarsýningunni á Akureyri árið 2000, dómari var Kenneth Edh. ISCh Sperringgardens Chutney (Gorbi) varð í 4. sæti, mörgum árum áður, þá dæmdi Rudi Hubenthal cavalierana og Homerbrent Elation (Putin) afi Abrahams varð einnig 3. besti hundur sýningar, haustið 2003 og hver haldið þið að dómarinn hafi verið, að sjálfsögðu okkar ástkæri Rudi Hubenthal. Við ættum að fara fram á það að hann dæmi hér á hverju ári!
Deildin óskar eiganda og ræktanda Abrahams, Ingibjörgu Halldórsdóttur, innilega til hamingju með árangurinn.
Hvað cavalierdómaranum fannst almennt um sýninguna og hundana okkar kemur ekki í ljós fyrr en næsti Sámur kemur út, en mjög áberandi var í dómunum að honum fannst margir með það sem kallað er „sloping croup“ eða hallandi lend og lága skottstöðu en það er nokkuð algengur galli í tegundinni, einnig setti hann töluvert út á hreyfingar margra hundanna.
Það er stutt í næstu sýningu eða sýningar, eftir rúma viku er vorsýning HRFÍ og viku síðar verður deildarsýning cavalierdeildar sem haldin er í samvinnu við Schnauzer- og Amerísku Cocker spaniel deildirnar. Þessi sýning verður í Garðheimum, dómarinn Giza Schicker sem kemur frá Þýzkalandi, mun skrifa dómana á þýzku, þar sem hún treystir sér ekki í enskuna, en hinn dómarinn, eiginmaðurinn, mun verða á staðnum og þýða dómana fyrir þá sem vilja yfir á ensku.
Sunnudaginn 6. mars eftir sýninguna, stefnum við á að fara saman út að borða, ásamt dómurum og öðru starfsfólki, á veitingastaðinn 19. Hæðin í Kópavogi. Þar verður glæsilegt hlaðborð og væri gaman að sem flestir cavaliereigendur gætu komið, hvort sem þeir hafa sýnt um helgina eða ekki.
Árið 2008 kom út bókin „The World of Cavaliers“ 2005 – 2007 í Hollandi. Þetta er glæsileg, fallega myndskreytt bók með upplýsingum um cavalier um allan heim eins og titillinn ber með sér. Margir cavaliereigendur hér eiga þessa bók og eintak liggur hér frammi. Í sumar stendur til að útkomi sams konar bók sem tekur þá árin 2008-2010 fyrir. Upplýsingar um íslenska cavalierheiminn voru í eldri bókinni og stendur til að það verði einnig í þeirri seinni.
Ef bókin er pöntuð og greidd fyrirfram kostar hún 49.50 evrur og einnig er hægt að fá fyrri bókina á 47.25 evrur ef báðar eru pantaðar saman. Fyrirfram pantaðar bækur eru sendar án burðargjalds. Svo bætist við 7% virðisaukaskattur. Þetta er ca. 20% – 30% lægra verð en ef pantað er beint frá útgáfu eftir að bókin kemur út, því þá bætist burðargjald við. En auðvitað er þetta dýr bók eins og evran kostar í dag.
Þeir sem hafa áhuga á að eignast bókina eða bækurnar geta haft samband við mig en ekki þarf að greiða fyrr en seinna í vor.
Núna á eftir ætlar Guðríður Vestars, hundasnyrtir, að sýna okkur hvernig best er að búa hundana okkar undir sýningu svo þeir geti skartað sínu fegursta.
Stjórnin þakkar ykkur gott samstarf á árinu og vonandi verður næsta ár til gleði og gæfu fyrir okkur öll, bæði menn og hunda.