Aðalfundur haldinn 28. mars 2012 á skrifstofu HRFÍ, Síðumúla 15.
Góðir félagar,
Töluverður samdráttur var í ættbókarskráningum á cavalierhvolpum árið 2011 miðað við árið 2010 og reyndar hafa fleiri hvolpar verið skráðir öll árin á undan frá árinu 2004. Útlit var þó fyrir að árið yrði algjört metár, þar sem 84 hvolpar höfðu fæðst fyrstu 6 mánuði ársins, en seinni hluta ársins voru mjög fá got.
Sjálfsagt má bæði rekja það til þess að fleiri tíkur hafa reynst tómar eftir pörun en venjulega, hver sem ástæðan er, og einnig er greinilega minni eftirspurn eftir hvolpum og þar af leiðandi er sennilegt að ræktendur hafi minni áhuga á að vera með got.
Annað sem er orðið mjög áberandi, eru öll óættbókarfærðu gotin af óræðum uppruna, sennilega undan hundum frá ónefndu hvolpaframleiðslubúi og einnig þar sem annað foreldri er skráð í HRFÍ og hitt ekki. Einnig eru í einstaka tilfellum óættbókarfærðir hvolpar, þó báðir foreldrar séu með ættbók frá HRFÍ.
Alls voru 29 got á árinu og 112 fæddir hvolpar en 2010 voru gotin 36 og hvolparnir 142. Meðaltal hvolpa í goti á árinu var 3.86 en var 3.95 árið á undan. Meðaltalið liggur yfirleitt rétt innan við 4 hvolpa í goti. Skráðir cavalierhvolpar í ættbók hjá HRFÍ 2011 voru hins vegar 134 úr 33 gotum, en þar koma auðvitað til hvolpar sem fæddir eru síðla árs 2010 en got sem eru síðustu mánuðina 2011 verða svo skráð á árinu 2012. Cavalierinn var nr.eitt í gotafjölda 2011 hjá félaginu og nr.tvö í hvolpafjölda, næst á eftir Labrador.
22 ræktendur voru með got á árinu, flestir með eitt, nokkrir með tvö og einn með þrjú got. 6 nýir ræktendur bættust í hópinn og hafa fjórir þeirra fengið ræktunarnafn. Þessir nýju ræktendur eru: Helga María Stefánsdóttir með Klettalilju ræktun, Svanborg S.Magnúsdóttir með Eldlukku ræktun, Harpa Barkar Barkardóttir með Kolbeinsstaðar ræktun og Ingibjörg Þorvaldsdóttir með Koparlilju ræktun. Aðrir nýir ræktendur eru: Alla Grönvold og Steingerður Ingvarsdóttir. Við bjóðum þessa ræktendur velkomna í ræktendahópinn okkar.
Nokkuð jöfn kynjaskiptin var s.l. ár, því tíkurnar voru 58 og rakkarnar 54. Litaskiptingin var þannig: blenheim hvolpar voru 36, black and tan 33, ruby hvolparnir voru 26 og þrílitir 17 en sá sjaldgæfi litur er loksins farinn að sækja í sig veðrið!
Á árinu voru 16 rakkar í öllum fjórum litaafbrigðunum notaðir til undaneldis. Mest notaði rakkinn var Russmic Jack Junior, sem feðraði 4 got og 20 hvolpa. Chadyline Red Shimmer átti einnig 4 got en 14 hvolpa, þessir hundar eru báðir rauðir eða ruby. Flestir hinna voru notaðir 1 sinni til 2svar. Hlutfallslega fleiri rakkar voru notaðir þetta árið en hingað til og er einmitt æskilegt að fá fleiri rakka inn í ræktunina til að auka genabreiddina.
Á rakkalistanum nú í byrjun árs, eru 4 þrílitir rakkar, 13 blenheim, 7 ruby og 3 black and tan. Af þessum 27 rökkum hafa 9 aldrei verið notaðir. Nokkrir hundar hafa fallið af listanum vegna þess að augnvottorð þeirra hafa ekki verið endurnýjuð og einnig af því að niðurstaða DNA prófa liggur ekki fyrir. Af þeim sem eru á listanum í dag eru 4 arfberar fyrir EF, 2 þrílitir og 2 ruby, en aðrir eru fríir. Þó að leyfilegt sé að nota bera í ræktun með fríum hundi má reikna með því að ræktendur kjósi frekar fría rakka, en líklegra er að það verði ræktað undan tíkum sem eru arfberar. Til þess að rakki komist á listann þarf hann að hafa gilt augnvottorð, vera hjarta- og hnéskeljaskoðaður, niðurstaða DNA prófs þarf að vera til staðar og auk þess þarf hundurinn að hafa verið sýndur og hafa fengið a.m.k. „very good“ á sýningu.
Á heimasíðu deildarinnar eru eingöngu auglýst þau got, þar sem farið hefur verið eftir öllum reglum deildarinnar varðandi heilbrigðisskoðanir. 20 got voru auglýst á síðunni á árinu, en hver auglýsing kostar 2.500.- , innkoman var því 50 þús. krónur sem er sama upphæð og í fyrra, þrátt fyrir að þá hafi auglýsingin kostað tvö þúsund krónur, sem skýrist auðvitað af færri gotum s.l.ár. Tekjur af auglýsingunum eru til að kosta vistun síðunnar og greiðslu lénsins, annars væri ekki hægt að halda síðunni úti.
Ræktendur eru því hvattir til að auglýsa gotin sín á síðunni og styrkja þar með deildina enda teljum við að það séu ákveðin meðmæli með goti að það sé auglýst þar.
Innflutningur
Á starfsárinu voru þrír innfluttir hundar skráðir í ættbók hjá HRFÍ. Frá Noregi kom blenheim rakkinn Kvadriga´s Eyes To Iceland, fæddur 25.8.2010, ræktandi hans er Torill Undheim og eigandi Þórunn Aldís Pétursdóttir. Frá Englandi komu tveir black and tan cavalierar, tíkin Salsara Little Dancer, f. 18.11.2009, og rakkinn Salsara Sovereign,f. 13.09.2010, ræktandi beggja er Miss M.Barrett og eigandi tíkarinnar er Þórunn Aldís Pétursdóttir og rakkans Þórunn Aldís og Guðrún Helga Theodórsdóttir.
Hjartaskoðanir
Þrátt fyrir að engir sérstakir hjartaskoðunardagar væru á vegum deildarinnar á s.l. ári voru 154 cavalierar hjartaskoðaðir sem er nánast sami fjöldi og undanfarin ár..
Niðurstaða var þannig:
Undir 2ja ára, voru 4 skoðaðir, 2 -3 ára, 36 og 3 – 4 ára, 32. Þessir hundar voru allir án murrs.
4 – 5 ára, 30 skoðaðir, 28 hreinir en 2 greindust með murr gr.1
5 – 6 ára, 25 skoðaðir, 19 hreinir, 4 með gr.1 og 2 gr.3 – 4
6 – 7 ára, 13 skoðaðir, 7 hreinir, 2 með gr.1 og 4 gr 2 – 3
7 – 8 ára, 5 skoðaðir, allir hreinir
8 – 9 ára, 6 skoðaðir, 4 hreinir, 2 gr. 1-2
10 – 11 ára, 1 skoðaður, hann var hreinn
13 – 14 ára, 2 skoðaðir, báðir hreinir
Af 154 skoðuðum hundum voru 138 hreinir en 16 greindust með míturmurr. Miðað við aldursdreifingu þeirra sem koma í skoðun er augljóst að hjartavottorð eru fyrst og fremst tekin vegna þeirra reglna sem deildin hefur sett varðandi ræktun. Okkur finnst vanta mikið á að haldið sé áfram að fylgjast með hjartaheilsu undaneldishunda eftir að hætt er að nota þá í ræktun, eins og deildin hefur lagt áherslu á í tilmælum sínum til ræktenda og eigenda undaneldisrakka. Ræktunarhunda á að hlusta árlega og taka vottorð þangað til hundurinn greinist með míturmurr, þannig að hægt sé að meta hvar eru góðar hjartalínur. Því miður eru of fáir ræktendur sem sinna þessu mikilvæga hlutverki.
Reglan varðandi hjartavottorð er þannig frá og með 1. júlí 2009: Vottorð undaneldishunda má ekki vera eldra en 6 mánaða við pörun og skulu þeir vera án murrs þar til 6 ára aldri er náð. Vottorð eftir að 5 ára aldri undaneldishunda er náð gildir í eitt ár. Vottorð eftir 7 ára aldur undaneldishunda gildir ævilangt. Hjartavottorð þarf að fylgja ættbókarskráningu og niðurstaða kunn fyrir pörun.
Áhersla skal lögð á að ekki má nota hunda sem greinast með míturmurr eftir 6 ára aldur, nema að þeir hafi haft hreint hjartavottorð við 6 ára aldur. Ef það er gert fást ekki ættbækur á hvolpana. Þessi afmælisvottorð eru því mjög mikilvæg og ættu því ræktendur og rakkaeigendur að leggja áherslu á að taka vottorð sem fyrst eftir hvern afmælisdag, hvort sem á að nota hundinn áfram í ræktun eða ekki.
Augnskoðanir
71 cavalier var augnskoðaður á árinu, 46 tíkur og 25 rakkar, en boðið var upp á þrjár
augnskoðanir, í mars, júní og í nóvember. Mjög góð mæting var bæði í vor- og haustskoðunina en aðeins 14 hundar mættu í júní. 46 cavalierar fengu vottorð án athugasemda en 13 cavalierar, allt tíkur greindust með cornea dystrophi, þ.e. kolostrol kristalla og 14 með tvísett augnhár = distichiasis, stundum greindist hvort tveggja í sama hundinum. Æskilegt er að slíkir hundar séu paraðir með fríum, þó þetta teljist ekki alvarlegir gallar. Einn hundur greindist með Posterior Polar Catarakt og fer hann í ræktunarbann. Augnvottorðin gilda nú í 25 mánuði.
Heilsufarskönnun fyrir FCI
Bréf barst frá FCI þar sem beðið var um upplýsingar um eftirfarandi:
1. Registration numbers of the Cavalier K.C.spaniels over the last 10 yrs.
2. Possible breeding programs or research going on in the breed concerning the Mitral Valve Disease and Chiari-like malformation CM/Syringomyelia(SM)
3. Provide all data concerning health programs in the breed
4. Provide data about the mortality (age and possible cause)
Við svöruðum þessu bréfi eins skilmerkilega og við gátum og upplýstum þá m.a. um þær reglur sem hér gilda um ræktun á tegundinni. Ástæða þessarar könnunar voru áhyggjur nokkurra FCI meðlima um heilsufar cavalierhunda eftir BBC þáttinn „Pedigree Dogs Exposed“. Þar á meðal hafa t.d. samtök í Hollandi, „Animal protection foundation“ reynt að fá bann á ættbókarfærslur á tegundinni í Hollandi. Í framhaldi af því hafa verið settar mjög strangar ræktunarreglur á cavalier þar í landi í sambandi við hjartað og syringomyeliu.
DNA prófin
Mjög mikilvæg uppgötun var gerð á s.l. ári þegar vísindamenn hjá „The Kennel Club Genetics Centre at the Animal Health Trust“ uppgötvuðu genin sem valda sjúkdómunum Curly Coat/Dry Eye syndrome og Episodic Falling. Frá og með miðjum apríl 2011 hefur verið hægt að taka DNA próf til að finna út hvort hundur er frír, arfberi eða með annan hvorn sjúkdóminn. Báðir þessir sjúkdómar hafa í för með sér ómældar þjáningar bæði fyrir hundana og eigendur þeirra, svo þetta voru frábærar fréttir fyrir cavalierræktendur.
Dry eye/Curly Coat er galli í ónæmiskerfinu sem veldur því að hvolpar fæðast með mjög þurran og stríðan feld. Táraframleiðsla er engin, þannig að strax og augun opnast myndast sár í þeim. Þessum hvolpum hefur þurft að lóga því engin lækning er til. Sem betur fer eru mörg ár síðan slíkir hvolpar hafa fæðst hér og aðeins örfáir berar fyrir sjúkdóminn hafa greinst hingað til.
Episodic Falling er sjúkdómur í taugakerfi sem líkist helst flogaveiki en er yfirleitt miklu vægari, þannig að hundurinn stífnar upp, verður máttlaus í afturfótum eða dettur á hliðina, krampaflog geta fylgt en hundurinn missir ekki meðvitund, þvag eða saur. Erfitt getur verið að greina þennan sjúkdóm, þar sem einkennin geta bæði verið misjöfn og einnig mjög væg. Oftast kemur sjúkdómurinn fram á fyrsta ári en einstaka hundur getur verið einkennalaus allt sitt líf, þó hann hafi sjúkdóminn. Þannig hundar gætu jafnvel hafa verið notaðir í ræktun, þó við vitum ekki dæmi þess hér á landi. Reikna má með, að hafi einkenni verið mikil, hafi dýralæknar greint hundana með einhvers konar flogaveiki, því fáir dýralæknar hafa haft þekkingu á þessum sjúkdómi hingað til.
Vitað var að berar fyrir báða þessa sjúkdóma væru í stofninum hér og tók því stjórnin strax þá ákvörðun á fundi sínum þann 28. apríl 2011, að nauðsynlegt væri að setja reglu um að öll undaneldisdýr skyldu DNA prófuð fyrir pörun. Fetuðum við þar í fótspor Danska cavalierklúbbsins en okkur er ekki kunnugt um að aðrir cavalierklúbbar hafi sett slíka reglu eða tilmæli í sambandi við þessa sjúkdóma.
Stjórn HRFÍ samþykkti á stjórnarfundi þann 27. júlí erindi deildarinnar varðandi breytingar um skráningu í ættbók og tók reglan gildi frá og með 1. nóvember 2011.
Reglan er þannig:
„Niðurstaða DNA prófa vegna Episodic Falling og Curly Coat skal vera ljós fyrir pörun. Arfbera (carriers) má para með fríum einstaklingi. Hundar sem hafa EF eða CC (affected) fara í ræktunarbann. Ef báðir foreldrar undaneldishunda eru fríir þarf ekki að DNA prófa afkvæmi þeirra. Sýnataka þarf að fara fram hjá dýralækni eða stjórn deildarinnar sem einnig sjá um að póstleggja sýnin. „
Þar sem bæði EF og CC erfast víkjandi er hægt að para bera með fríum, án þess að sjúkdómur komi fram og því óþarfi að taka þekkta bera úr ræktun, sem væri slæmt fyrir stofninn, en það höfum við þurft að gera hingað til. Hundar sem greinast „affected“ fara í ræktunarbann.
Allar upplýsingar eru á síðu deildarinnar, bæði hvernig á að panta sýnatökubúnaðinn og einnig niðurstaða allra prófanna. Okkur finnst nauðsynlegt að engin leynd hvíli yfir niðurstöðunum og að allir geti nálgast þessar upplýsingar. Niðurstöður verða svo færðar í gagnagrunn hjá HRFÍ.
Á árinu 2011 hafa niðurstöður DNA prófa borist fyrir 114 cavaliera, 35 rakka og 79 tíkur. Af þeim voru 3 arfberar fyrir Curly Coat en 39 fyrir Episodic Falling. Ekki má samt draga þá ályktun að þetta sé hlutfall arfbera í stofninum í heild, þar sem margir cavalierar eru undan fríum foreldrum og þarf því ekki að DNA prófa þá. Við vorum t.d. einstaklega heppin með innfluttu undaneldisrakkana síðastliðin ár, þar sem aðeins einn þeirra reyndist arberfi fyrir EF en hinir níu voru allir fríir og þetta hafa verið mest notuðu rakkarnir. Af fimm innfluttum tíkum voru tvær berar fyrir EF.
Engu að síður eru þetta miklu fleiri berar en við áttum von á, sérstaklega í heillitu hundunum, og því var mikið lán að þessi próf skuli vera komin í gagnið. Því miður kom í ljós að í a.m.k. 4 tilvikum hafa tveir berar fyrir EF parast saman s.l. 2 ár. Það hefur einnig gerst áður á undanförnum árum í nokkrum tilvikum, þó ekki sé vitað um marga sem hafa haft einkenni sjúkdómsins.
Búið er að fá niðurstöðu nokkurra hvolpa úr þessum gotum og hafa 5 greinst með Episodic Falling eða „affected“. Þrír þeirra hafa sýnt einkenni sjúkdómsins.
Aldursforsetar tegundarinnar árið 2010 voru systurnar Hlínar Eugenie, Beatrix og Vania, fæddar 14. janúar 1998 og Drauma systurnar Molly og Millý, fæddar í byrjun febrúar sama ár. Þrjár þeirra eru nú fallnar frá, Hlínar Eugine vantaði tæpan mánuð til að ná 14 ára aldrinum, Vanía varð 13.9 ára og Drauma Milly náði 13 ára aldri. Aldursforsetarnir nú eru því Hlínar Beatrix sem varð 14 ára, 14. jan. s.l. og Drauma Molly, sem varð 14 ára í byrjun febrúar. Öðlings Hómer bættist svo í 14 ára hópinn nú í mars. Cavaliereigendur mættu vera duglegri að láta okkur vita um hunda sem ná háum aldri og síðan hvenær þeir falla frá en við erum með upplýsingar á síðunni okkar um hunda sem að lágmarki hafa náð 11 ára aldri undir heitinu „Öldungarnir okkar“.
Kynning á tegundinni og göngur
Deildin tók þátt í smáhundakynningum í Garðheimum í febrúar og í september á síðasta ári og fannst okkur heldur minni aðsókn að þessum kynningum heldur en oft áður fyrr.
Básanefndin hefur séð um kynningarbás fyrir tegundina á hundasýningum félagsins vor og haust. Viljum við þakka öllum sem hafa komið að þessum kynningum fyrir gott starf í þágu deildarinnar.
Deildin lét útbúa mjög vandaðan og fallegan bækling um tegundina og hafði Guðrún Birna Jörgensen veg og vanda af því og hafi hún bestu þakkir fyrir. Einnig þökkum við kærlega þeim sem studdu útgáfuna og gerðu hana mögulega, þ.e. Dýrabæ, Dýralíf og Hundahreysti.
Og þá að göngunum 2011 – 2012, eftirfarandi pistill kemur frá Guðrúnu Lilju Rúnarsdóttur fyrir hönd göngunefndar:
„Nýtt gönguár hófst ekki vel í fyrra, þar sem fyrstu gönguna varð að fella niður vegna veðurs. Það var því ánægjulegt þegar við hittumst við Árbæjarkirkju 12. maí að veður var heiðskírt og hiti 5°. Jónsmessugangan var að venju farin að kvöldi, á heiðina ofan við Rauðavatn í góðu veðri. Léttskýjað var og hiti 13°. Þessi ganga hefur verið býsna fjölmenn undanfarin ár og var það einnig nú. Það voru því 42 tvífættir sem gengu með 48 hunda og nutu samverunnar þessa kvöldstund.
Veðurguðirnir voru okkur ekki eins hliðhollir í júlí þegar við fórum að Snorrastaðatjörnum með nesti, því það var gola og örlítill rigningarúði. Við létum það þó ekki stoppa okkur af og áttum notalega stund saman. Betra veður brosti við okkur í ágúst þegar gengið var við Sólheimakot, logn og sólskin og 14°hiti. Þessi ganga verður í minnum höfð, þar sem holóttur vegurinn varð til þess að það sprakk á einum jeppanum, en vaskir sveinar í gönguhópi sýndu snilldartakta og skiptu um dekk í snatri. Þessi ganga reyndi svolítið á tvífætlingana sem reyndu að feta kindagötur, en ferfætlingarnir nutu sín vel.
Í september hafði HRFÍ áætlað að vera með hina árlegu Laugavegsgöngu, en hún dróst fram á 22. október sem var svolítið óheppilegt, því daginn eftir gengum við um neðri hlutann í Elliðaárdalnum. Það dró þó ekki úr þátttöku okkar fólks því tuttugu manns og ögn fleiri hundar skemmtu sér konunglega í hvorri göngu og nokkrir brugðu sér í báðar göngurnar. Það var því sannkölluð gönguhelgi hjá þeim duglegustu.
Aðventukaffið í lok nóvember var haldið á nýjum stað í ár, þar sem við fengum lánaðan salinn hjá Gæludýr.is á Korputorgi. Veðrið var fallegt, snjór á jörðu en líka býsna kalt í göngunni. Við settum hlið í opið milli salarins og verslunarinnar og fengu hundar og börn stórt svæði til að hlaupa um og leika sér. Að venju kom göngufólk með kræsingar á hlaðborð og fóru allir saddir og sælir heim eftir þessa samverustund.
Desembergangan var fámenn, einungis 10 göngugarpar með 15 hunda. Hún var þó farin í ákaflega fallegu veðri, snjó, léttskýjuðu og hitinn var um frostmark. Við þræddum leynda stíga um hraunið í Hafnarfirði og enduðum í jólaþorpinu. Þá settumst við niður á Súfistanum og áttum góða stund saman.
Nýjársgangan hefur ávallt verið fjölmennasta gangan okkar en í byrjun árs var svo mikil hálka að ákveðið var að fella gönguna niður.
Febrúar höfum við undanfarin ár farið í göngu um Kópavogsdalinn og var það einnig nú í ár. Í mars fórum við svo nýjar slóðir og þræddum stíga í Öskjuhlíðinni. Gengum upp að Perlunni, meðfram Fossvogskirkjugarði og eftir stígunum í Nauthólsvík. Nokkuð kalt var og vindasamt en þurrt.
Sammerkt er með öllum göngunum í ár að færri hafa mætt í hverja göngu en undanfarin ár. Það er líka nýtt að þurfa að fella niður tvær göngur vegna veðurs. Ánægjulegt er þó að sjá að það hefur myndast góður hópur fólks sem kemur reglulega í göngurnar“.
Hér lýkur pistli Guðrúnar og viljum við þakka öllum í göngunefndinni innilega fyrir þeirra góða starf á árinu og ekki spillir fyrir hvað þær eru miklir bökunarsnillingar eins og sjá má á væntanlegu kaffihlaðborði hér á eftir.
Stefnumótunardagur HRFÍ var haldinn 2. apríl og komu þar fram margar nýjar og ferskar hugmyndir. Fulltrúar deildarinnar voru þær: Arna Sif Kærnested, Steingerður Yngvarsdóttir og Guðrún Lilja Rúnarsdóttir og var deildin mjög stolt af fulltrúum sínum sem unnu þar gott starf.
Örugglega á margt gott eftir að skila sér eftir þessa hugmyndavinnu.
Sýningar
Á árinu 2011 voru 4 sýningar á vegum HRFÍ og auk þess var deildarsýning 5. mars í samvinnu með Am.Cocker spaniel- og Schnauzer deildunum í Garðheimum. Fjöldi sýndra cavaliera 2010 var 241 en 239 árið 2011. Þetta er þó ekki alveg sambærilegt, þar sem mjög mikil þátttaka var á júnísýningunni 2010 þegar Annukka Paloheimo dæmdi, eða 80 cavalierar, en á árinu 2011 var aukasýning eins og áður er sagt. Ef bornar eru saman þessar venjulegu sýningar, febrúar, ágúst og nóvember, þá virðist vera u.þ.b. 10% samdráttur frá fyrra ári hjá cavalierunum. En samdráttur í skráningum á sýningar varð til þess að ekki fékkst leyfi fyrir deildarsýningunni á þessi ári eins og stefnt var að en hann mun vera eitthvað um 20% miðað við allar tegundir.
Cavalierdeildin var á meðal þeirra deilda sem sáu um að setja upp og taka niður nóvembersýninguna, auk þess að útvega starfsfólk á sýningunni sjálfri. Er ekki að því að spyrja að cavalierfólkið stóð sig einstaklega vel og hvíldi á því margföld vinna vegna þess hve flestar hinna deildanna stóðu sig slælega, sérstaklega þegar kom að því að taka sýninguna niður. Deildin færir þessu fólki innilegar þakkir fyrir þá miklu vinnu sem þau tóku á sig á þessa helgi sem og þeim sem mönnuðu cavalierbásinn.
Deildin sá um sýningarþjálfun fyrir allar sýningarnar nema nóvembersýninguna.
Úrslit sýninga:
Vorsýning HRFÍ var haldin 26.-27. febrúar og mættu 52 cavalierar til leiks.
Dómari var Michael Forte frá Írlandi, sem er cavalierræktandi og virtur cavalierdómari. Hann dæmdi einnig grúppu 9. Þessi sýning var mjög rauð, eins og við segjum þegar gefnir eru margir rauðir borðar, sem tákna að hundurinn sé „excellent“. Dómarinn var einnig örlátur bæði á heiðursverðlaun og meistaraefni.
Besti hvolpur tegundar 4-6 mánaða var Stapafells Hektor, sem varð 2.besti hvolpur sýningar dagsins. Besti hvolpur í flokknum 6 – 9 mánaða var Bjargar Jara.
Besti hundur tegundar varð Drauma Abraham sem fékk sitt 4. cacib stig og titilinn alþjóðlegur meistari stuttu síðar. Meistarastigið fékk Drauma Karri sem er hans fjórða og varð hann íslenskur sýningarmeistari á þessari sýningu. Best af gagnstæðu kyni varð Ljúflings X-clusive Xenia sem einnig fékk 4. cacib stigið til alþjóðlegs meistara. Eldlilju Móa fékk meistarastigið sem er annað stigið hennar. Besti öldungur var Sjeikspírs Cleopatra.
Drauma Abraham keppti síðan í grúppu 9 hjá dómaranum Michael Forte og náði þeim ótrúlega árangri að vinna grúppuna í annað sinn í röð. Ekki nóg með það heldur varð hann 2. besti hundur sýningar hjá dómaranum Horst Kliebenstein frá Þýzkalandi. Og ef einhver skyldi vera búin að gleyma því þá varð hann 3. besti hundur sýningar á nóvembersýningunni 2010. Frábær og einstakur árangur hjá Drauma Abraham og ræktanda hans.
Eftirfarandi birtist í Sámi, þar sem Michael Forte tjáir sig um sýninguna:
Af þeim tegundum sem hann dæmdi nefndi hann sérstaklega CKCS sem hann hefur ræktað sjálfur og dæmt um allan heim. „Tegundin í heild var mjög góð og ég var virkilega hrifinn af þremur hundum sem voru framúrskarandi. Ég tel að þessir hundar gætu sigrað hvar sem er í heiminum. Þessir þrír eru einstakir“. Það kom í hans hlut að dæma tegundahóp 9, sem hann sagði vera þann sterkasta hér á landi. „Þetta er virkilega sterkur tegundahópur og svo margir fallegir hundar. Ég var í miklum erfiðleikum með að velja á milli þeirra og það voru 4 – 5 hundar sem ég þurfti að kveðja sem hefðu auðveldlega getað orðið meðal fjögurra bestu. Michael var einnig mjög ánægður með úrslit sýningar og að hann og samdómarar hans hefðu flestir verið sammála um fjóra bestu hundana.
Deildarsýning cavalierdeildar var í Garðheimum 5. mars. 51 cavalier var skráður á sýninguna og kom dómarinn frá Þýzkalandi, Gisa Schicker en hún er Schnauzer ræktandi og fyrst og fremst Schnauzer dómari en hefur réttindi til að dæma cavalier.
Schauzer deildin bauð okkur að taka þátt i þessari sýningu og þáðum við það, þar sem engin deildarsýning hafði verið ráðgerð á árinu. Dómarinn lagði mikla áherslu á tennur og bit og sagði eftir sýninguna að henni hefði yfirhöfuð fundist hundarnir góðir, en að ruby ræktendur þyrftu að taka sig verulega á, því þar hefði hún fundið bæði yfirbit, undirbit og krossbit og hefðu hundarnir fengið einkunnir í samræmi við það. Meiri hluti hundanna fékk þó excellent og rauða borða. Yfirbit er að sjálfsögðu alvarlegur galli og þeir hundar hvorki sýningar- eða ræktunarhæfir en bæði vægt undirbit og jafnt bit í ungum cavalierum lagast oft, allt upp í 2ja – 3ja ára aldur og eru mörg dæmi um það og taka dómarar sem hafa góða þekkingu á tegundinni yfirleitt ekki hart á því.
Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Stapafells Táta og besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Bjargar Jara.
Besti hundur tegundar var Drauma Karri og best af gagnstæðu kyni Sandasels Kvika, sem fékk sitt fyrsta meistarastig á þessari sýningu. Rakkameistarastigið kom í hlut Ljúflings Þins.
Sumarsýning HRFÍ var 4. – 5. júní og voru 46 cavalierar skráðir.
Unto Timonen frá Finnlandi dæmdi cavalierana og gaf 25 hundum rauða borða en 7 bláa. Ekkert var haft eftir honum um tegundina í Sámi.
Besti hvolpur tegundar 4 – 6 mánaða var Drauma Tilda og besti hvolpur 6 – 9 mánaða Stapafells Týra, þær komust ekki í úrslit um bestu hvolpa sýningar.
Besti hundur tegundar var Drauma Abraham en meistarastigið fékk Heiðardals P Lukas sem er hans fyrsta. Best af gagnstæðu kyni var Mjallar Björt sem einnig fékk sitt fyrsta meistarastig á þessari sýningu.
Drauma Abraham hlaut svo 4. sætið í tegundahópi 9, hjá dómaranum Birte Scheel frá Danmörku.
Ágúst sýning HRFÍ fór fram dagana 27. – 28.ágúst og voru 39 cavalierar skráðir. Dómari var Kornelija Butrimova frá Litháen. Allir hundarnir að undanskildum 2 tíkum, fengu rauða borða eða excellent.
Besti hvolpur tegundar 4 – 6 mánaða var Eldlukku Ögri sem varð 4. besti hvolpur sýningar og besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Skutuls Lúna. .
Besti hundur tegundar var Sperringgardens Catch Of The Day en Hrísnes Krummi Nói fékk rakkameistarastigið. Best af gagnstæðu kyni var Sandasels Kvika sem hlaut sitt annað meistarastig. Bæði fengu Cacib stig og Sperringgardens Catch Of The Day fékk síðasta stigið til alþjóðlegs meistara. Hann keppti í grúppu 9 hjá dómaranum Carlos Fernandes-Renau og náði þar 4. sætinu.
Í Sámi er haft eftir dómaranum Korneliju Butrimovu að hún hafi verið ánægð með sýninguna, skipulagið, vel þjálfað starfsfólk og sagðist hafa séð marga fallega hunda. Hún dæmdi cavalier king charles spaniel og var ánægð með tegundina í heild sinni. „Ég dæmdi marga fallega hunda með góðan feld, byggingu og skapgerð“.
Á haustsýningu HRFÍ sem fór fram dagana 19. – 20. nóvember í Reiðhöllinni í Víðidal var 51 cavalier skráður, dómari var Stelios Makaritis frá Grikklandi
Miðað við rauðu borðana sem dómarinn gaf verður ekki annað séð en að stofninn hér sé framúrskarandi góður, þar sem allir að undanskildum tveimur rökkum fengu dóminn „excellent“, sama má segja um ágústsýninguna, en þá voru það reyndar tíkurnar sem fengu bláu borðana. Hitt er annað að skv. dómunum sem Stelios gaf þá hefðu bláir eða jafnvel gulir borðar átt betur við umsagnirnar, því að mikið ósamræmi var oft í umsögnun og borðalit.
Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Eldlilju Ugla og besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Eldlilju Salka Berg. Hvorugar komust í úrlit um besta hvolp dagsins.
Besti hundur tegundar var Kvadriga´s Eyes To Iceland sem fékk sitt fyrsta meistarastig en var of ungur fyrir Cacib stigið sem kom í hlut Bjargar Kalda. Best af gagnstæðu kyni var Mjallar Björt, sem bæði fékk Cacib stigið og sitt annað meistarastig. Rony Doedijns frá Hollandi dæmdi grúppu 9, en cavalierinn komst ekki í úrslit að þessu sinni.
Stigahæsti cavalierinn árið 2011 er Drauma Abraham, sem var 3. stigahæsti hundur ársins hjá HRFÍ. Tvær tíkur unnu til 2ja meistarstiga á árinu, þannig að þær eru jafnar að stigum, Sandasels Kvika og Mjallar Björt.
Við eignuðumst þrjá alþjóðlega meistara á árinu, þau Drauma Abraham, Sperringgardens Catch Of The Day og Ljúflings X-clusive Xeniu. Þá varð einn rakki íslenskur sýningarmeistari, þ.e. Drauma Karri. Nokkrir cavalierar hafa hlotið tvö meistarastig, svo vonandi verður skammt að bíða þess að nýr meistari verði skráður á árinu 2012.
Cavalierdeildin gaf bikara á febrúar- og ágústsýninguna. Dýrabær gaf bikara á júnísýninguna og Drauma- og Ljúflingsræktun á deildarsýninguna í Garðheimum. Heiðardals- og Grettluræktun gáfu svo bikara á nóvembersýninguna. Við þökkum þeim öllum fyrir sitt framlag.
Á síðasta ársfundi deildarinnar var Guðríður Vestars, hundasnyrtir með sýnikennslu á snyrtingu cavalierhunda og kynnti ýmis góð efni til feldhirðu. Við stefnum á að vera aftur með slíka sýnikennslu fyrir júnísýninguna og þá á hundasnyrtistofunni í Dýrabæ, sem er handhægara en hér. Þetta verður auglýst á síðunni okkar þegar þar að kemur. Einnig er á döfinni að fá Steinnuni, dýralækni til að flytja aftur fyrir okkur fyrirlesturinn um „Meðgöngu og fæðingu“ sem hún var með fyrir nokkrum árum, efni sem er alltaf gott að rifja upp, auk þess sem margir nýir ræktendur hafa nú bæst í hópinn. Ný göngudagskrá og aðrir viðburðir verða auglýstir fljótlega á cavaliersíðunni.
Stjórnin þakkar ykkur gott samstarf á árinu og vonar að bráðum rætist úr þeirri kreppu sem hefur bitnað á hundarækt sem og öllu öðru í þjóðfélaginu og vonandi getum við svo haft veglega deildarsýningu árið 2013.
Stjórnin