Skýrsla stjórnar 2012

Aðalfundur haldinn 27. mars, 2013  á skrifstofu HRFÍ, Síðumúla 15

Góðir félagar,

Árið í ár er tímamótaár, því fyrir 20 árum síðan hófst ræktun á cavalierum hér á landi, þegar fyrstu tvö gotin litu dagsins ljós árið 1993, alls 12 hvolpar. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar og þó ekki séu til nákvæmar tölur um fjölda cavaliera hér á landi má áætla að stofninn sé í kringum 12 – 14 hundruð cavalierar í dag, ef miðað er við fædda hvolpa og líftímann 10 – 13 ár.

Starfsemi deildarinnar hefur verið á sömu nótum og undanfarin ár en töluverð aukning varð þó á ættbókarskráningum 2012 miðað við 2011 sem var óvenju slakt ræktunarár. Alls voru 33 got á árinu og 135 lifandi fæddir hvolpar en árið 2011 voru gotin 29 og 112 hvolpar. Meðaltal hvolpa í goti var 4.1 hvolpur á móti 3.86 árið 2011, svo það var heldur meiri frjósemi hjá tíkunum okkar s.l. ár. Skráðir cavalierhvolpar í ættbók hjá HRFÍ 2012 voru hins vegar 113 í 30 gotum en hluti af þeim gotum er síðan seinni hluta ársins 2011. Cavalierinn var númer eitt í gotafjölda 2012 hjá félaginu en 28 got voru hjá labrador sem var í öðru sæti. Við urðum svo nr. 2 í hvolpafjölda með 113 hvolpa en labradorinn í fyrsta sæti með 187 hvolpa, töluvert mikill munur þar á. Dvergschnauzer var svo í þriðja sætinu með 102 hvolpa, svo þetta virðast ennþá vera vinsælustu tegundirnar … en cavalierinn hefur verið í toppsætunum í mörg undanfarin ár.

23 ræktendur voru með got á árinu, 6 nýir ræktendur bættust í hópinn og hafa fjórir þeirra fengið ræktunarnafn. Þessir nýju ræktendur eru: Inga Björg Ólafsdóttir með Friðarlilju ræktun, Auður Jónsdóttir með Fríðleiks ræktun, Hrafnhildur Haraldsdóttir með Brekatúns ræktun. Sigurbjörg Guðmundsdóttir með Sjávarlilju ræktun, Hildur Jóna Gunnarsdóttir og að síðustu Guðrún Inga Hraunfjörð. Við bjóðum þessa ræktendur velkomna í ræktendahópinn okkar.

Nokkuð jöfn kynjaskiptin var s.l. ár, þó aðeins tíkunum í hag, því þær voru 70 og rakkarnar 65. Litaskiptingin var þannig að blenheim hvolpar voru í miklum meirihluta núna eða 64 talsins, ruby hvolparnir voru 35, black and tan 19 og þrílitir 17. 

Á árinu voru 15  rakkar í öllum fjórum litaafbrigðunum notaðir til undaneldis. Mest notaði rakkinn var Ljúflings Dýri sem feðraði 24 hvolpa í 6 gotum og næst á eftir honum Drauma Karri með 20 hvolpa í 4 gotum. Ljúflings Prins Valiant var svo þriðji mest notaði hundurinn með 14 hvolpa í 3 gotum. 

Á rakkalistanum nú í byrjun árs, eru 27 rakkar, 2 þrílitir, 14 blenheim, 7 ruby og 4 black and tan, þetta eru jafnmargir rakkar og voru á listanum á síðasta ári. Það segir þó ekki alla söguna, því af þessum 27 rökkum hafa 9 aldrei verið notaðir og margir hinna verða e.t.v. ekki notaðir áfram, þar sem sumir þeirra eru að eldast og nokkrir búa úti á landi, þannig að aðgangur að þeim er ekki eins auðveldur, framboð af rökkum er því í raun töluvert minna en listinn gefur til kynna.

Til þess að rakki komist á listann þarf hann að hafa gilt augnvottorð, vera hjarta- og hnéskeljaskoðaður, niðurstaða DNA prófs þarf að vera til staðar og auk þess þarf hundurinn að hafa verið sýndur og hafa fengið a.m.k. „very good“ á sýningu.  Vonandi verða rakkaeigendur duglegir að uppfylla þessi skilyrði, þannig að fleiri góðir rakkar komist á listann á komandi ári.

Á heimasíðu deildarinnar eru eingöngu auglýst þau got, þar sem farið hefur verið eftir öllum reglum deildarinnar varðandi heilbrigðisskoðanir. 22 got voru auglýst á síðunni á árinu, en hver auglýsing kostar 2.500.- , innkoman var því 55 þúsund krónur í ár. Tekjur af auglýsingunum eru til að kosta vistun síðunnar og greiðslu lénsins, annars væri ekki hægt að halda síðunni úti.
Ræktendur eru því hvattir til að auglýsa gotin sín á síðunni og styrkja þar með deildina enda teljum við að það séu ákveðin meðmæli með goti að það sé auglýst þar.

Innflutningur
Þrír cavalierar voru fluttir inn á árinu en engir innfluttir cavalierar voru þó skráðir í ættbók HRFÍ árið 2012 sem mun vera vegna vöntunar á réttum pappírum en mjög líklega rætist úr því á þessu ári.
 
Hjartaskoðanir
Heldur færri cavalierar voru hjartaskoðaðir árið 2012 en oftast áður eða 133.
Niðurstaða var þannig:
Undir 2ja ára, voru 2 skoðaðir, 2 -3 ára, 27 og 3 – 4 ára, 33, eða alls 62.  Einn af þeim greindist með murr á byrjunarstigi, hinir voru allir fríir.  Á aldrinum 4 – 5 ára voru 29 skoðaðir og voru þeir líka allir án murrs..
18 cavalierar á aldrinum 5 – 6 ára voru skoðaðir, 15 af þeim voru hreinir en þrír með murr á byrjunarstigi.
Á aldrinum 6 – 8 ára voru 16 skoðaðir, 12 voru fríir en 4 með murr einnig á byrjunarstigi. 8 cavalierar 8 – 10 ára gamlir komu í skoðun, af þeim voru 7 fríir en einn með murr gráðu 2..

Niðurstaðan var því þannig að af 133 skoðuðum hundum voru 124 fríir en 9 með vægt hjartamurr eða innan við 10%, sem telst mjög góð niðurstaða, en eins og flestir cavaliereigendur vita lifa hundarnir oftast í mörg ár eftir að fyrsta gráðu hjartamurr greinist, svo þeir geta þessvegna vel náð 10 ára aldri eða meira þrátt fyrir að greinast með murr á byrjunarstigi um 5 ára aldurinn. Um leið og hjartahlustun fer fram eru hnéskeljar einnig skoðaðar. Hnéskeljalos er nánast óþekkt í tegundinni en tveir af þessum hundum greindust þó með vægt hnéskeljalos og einn með gráðu 2 – 3 á annarri hnéskel, hann hafði áður greinst með gr. 1, svo spurning er hvort þetta er arfgengt hnéskeljalos eða vegna áverka.

Reglan varðandi hjartavottorð er þannig frá og með 1. júlí 2009: Vottorð undaneldishunda má ekki vera eldra en 6 mánaða við pörun og skulu þeir vera án murrs þar til 6 ára aldri er náð. Vottorð eftir að 5 ára aldri undaneldishunda er náð gildir í eitt ár. Vottorð eftir 7 ára aldur undaneldishunda gildir ævilangt. Hjartavottorð þarf að fylgja ættbókarskráningu og niðurstaða kunn fyrir pörun.

Áhersla skal lögð á að ekki má nota hunda sem greinast með míturmurr eftir 6 ára aldur, nema að þeir hafi haft hreint hjartavottorð tekið eftir að 6 ára aldri er náð. Ef það er gert fást ekki ættbækur á hvolpana. Þessi afmælisvottorð eru því mjög mikilvæg og ættu því ræktendur og rakkaeigendur að leggja áherslu á að taka vottorð sem fyrst eftir hvern afmælisdag, hvort sem á að nota hundinn áfram í ræktun eða ekki.

Augnskoðanir
55 cavalierar voru augnskoðaðir á árinu, 34 tíkur og 21 rakki, en það eru umtalsvert færri en árið á undan. Boðið var upp á þrjár augnskoðanir eins og í fyrra. Enginn greindist með alvarlegan augnsjúkdóm en 13 voru með cornea dystrophi – kolestrol kristalla og 12 með tvísett augnhár, stundum greindist hvort tveggja í sama hundinum. Ein tík greindist með vægt katarakt, þó ekki arfgengt og einn rakki þarf að mæta aftur til frekari skoðunar. Augnvottorðin gilda í 25 mánuði.


DNA prófin
Eins og þið vitið flest, ef ekki öll, var mikilvæg uppgötvun gerð 2011 þegar vísindamenn hjá „The Kennel Club Genetics Centre at the Animal Health Trust“  uppgötvuðu genin sem valda sjúkdómunum Curly Coat/Dry Eye syndrome og Episodic Falling. Árið 2011 voru 114 cavalierar DNA prófaðir fyrir þessum sjúkdómum og eru allar niðurstöður skráðar á heimasíðu deildarinnar. Þar eru einnig upplýsingar um sjúkdómana og hvernig þeir erfast og er ekki ástæða til að fara nánar út í það hér, þar sem einnig var gerð góð grein fyrir þeim í síðustu ársskýrslu.
Þar sem bæði EF og CC erfast víkjandi er hægt að para bera með fríum, án þess að hvolpar fæðist með annan hvorn sjúkdóminn og því óþarfi að taka þekkta bera úr ræktun, en það mundi minnka genapollinn og er því ekki talið æskilegt af erfðafræðingum.Tilhneigingin virðist þó sú að rakkar sem eru arfberar eru síður notaðir, en það er frekar að tíkurnar séu notaðar í ræktun. Hundar sem greinast „affected“ fara í ræktunarbann. Á s.l. ári voru 39 cavalierar DNA prófaðir, 23 tíkur og 16 rakkar, af þeim voru 16 arfberar fyrir Episodic Falling og 4 arfberar fyrir Curly Coat,  en ein tík greindist „affected“ af EF.  Hún hefur tvisvar átt afkvæmi en í bæði skiptin með fríum rökkum, þannig að engin hætta er á að afkvæmi hennar fái sjúkdóminn en þau eru aftur á móti öll arfberar.

Reglan í sambandi við DNA prófin er þannig:
„Niðurstaða DNA prófa vegna Episodic Falling og Curly Coat skal vera ljós fyrir pörun. Arfbera (carriers) má para með fríum einstaklingi. Hundar sem hafa EF eða CC (affected) fara í ræktunarbann. Ef báðir foreldrar undaneldishunda eru fríir þarf ekki að DNA prófa afkvæmi þeirra. Sýnataka þarf að fara fram hjá dýralækni eða stjórn deildarinnar sem einnig sjá um að póstleggja sýnin.
 „

DNA prófunum kemur þó til með að fækka mjög á komandi árum, þar sem oftast er ræktað undan fríum hundum og því munu þau sennilega verða að mestu óþörf í framtíðinni og við laus við þessa tvo sjúkdóma.

Aldursforseti tegundarinnar í dag er Hlínar Beatrice sem varð 15 ára 14. janúar s.l. og hefur hún náð hæsta aldri cavaliera frá upphafi.  Hún er enn ótrúlega ungleg og mjög ern, fer í daglegar gönguferðir og einu sinni í viku á Úlfarsfellið, geri aðrir betur!


Kynning á tegundinni og göngur
Deildin tók þátt í smáhundakynningum í Garðheimum í febrúar og í september á síðasta ári og var aðsókn mjög góð, sérstaklega í september, en aðallega er um fjölskyldufólk að ræða sem finnst gaman að sýna börnunum hundana og fá að klappa þeim.  Við teljum að þessir dagar séu góð kynning á hundum og stuðli að bættri hundamenningu en leiðinlegt er,  að nú skulum við ekki lengur mega vera inni í aðalhúsinu, því mun færri koma að skoða hundana eftir að þessu var breytt nú í vor.Við þökkum þeim sem hafa staðið vaktina þar og kynnt tegundina okkar.

Deildin hefur ekki verið með kynningarbása á sýningum síðan farið var að hafa sýningarnar í Klettagörðum, þannig að básanefndin hefur verið í fríi s.l. ár en sennilega er þetta ekki framtíðarhúsnæði fyrir sýningarnar og því sjálfsagt að halda í básanefndina ef hún er tilbúin til þess.

Og þá að göngunum 2012 – 2013, eftirfarandi pistill kemur frá Guðrúnu Lilju Rúnarsdóttur fyrir hönd göngunefndar:

„Gönguárið 2012-13 lofaði góðu og hófst á göngu um fallegan Laugardalinn í lok apríl í sól og hita.  Göngunefnd var ánægð með mætingu og svo var einnig með mætingu í næstu tvær göngur sem voru í Kaldárseli og á Rauðavatni, báðar göngurnar á svæði þar sem hægt er að hleypa hundunum lausum.  Reyndar hefur gangan við Rauðavatn yfirleitt verið mikið fjölmennari, en nú var veðrið ekki eins gott og verið hafði síðustu ár þar á undan. Það var þó sammerkt með þeim göngum sem farnar voru yfir sumarmánuðina að þær voru almennt fámennar, þó allar væru lausagöngur og áætla mætti að hundaeigendur nýttu tækifæri til að láta hundana spretta úr spori.  Í október var gengið í Elliðaárdalnum, aftur í taumgöngu og þá var vel mætt. Ný leið var kynnt í Hafnarfirði í nóvember þegar gengið var kringum Ástjörn, en var það fámennasta gangan í ár, ásamt göngunni í Varmadal, báðar þessir leiðir eru mjög fallegar og gaman að ganga með hundana þar. Aðventukaffi var haldið í húsnæði Gæludýra.is á Korputorgi eins og í fyrra. Veðrið var afleitt þennan dag svo gangan var felld niður en hundarnir nutu þess að leika lausum hala á svæðinu fyrir innan búðina, meðan eigendurnir gæddu sér á kræsingunum. Fámennt var eins og árið áður.  Meira að segja þátttaka í Nýjársgöngunni hefur minnkað mikið og það þó veðrið væri dásamlegt.
Í fyrra veltum við í göngunefndinni fyrir okkur hvort kreppuáhrifin væru að koma hér fram, en með sanni má segja að enn færri hafi tekið þátt í göngunum í ár en árið þar á undan.  Hvort það er í beinu samhengi við fjárhagsástand þjóðarinnar skal ósagt látið, en samt verður að taka fram að okkur þykir ákaflega gaman að hittast og spjalla saman í göngunum“.
Hér lýkur pistli Guðrúnar og færum við göngunefndinni bestu þakkir fyrir þeirra góða starf á árinu.

Sýningar
Á árinu 2012 voru 4 sýningar á vegum HRFÍ en því miður fengum við ekki leyfi fyrir deildarsýningunni sem við sóttum um í fyrra en bætum það upp með sýningunni okkar núna í apríl. Fjöldi sýndra cavaliera á árinu 2012 var 184, til samanburðar voru 239 cavalierar sýndir 2011 en þá vorum við deildarsýningu í Garðheimum. Ef sú sýning er tekin frá voru 188 hundar sýndir 2011, svo fjöldinn er nánast sá sami þessi tvö ár.

Engin sýningaþjálfun var á vegum deildarinnar árið 2012 og hafa því cavalierseigendur leitað til Unglingadeildarinnar með þjálfun fyrir sýningar.

Úrslit sýninga:

Vorsýning HRFÍ var haldin 25. – 26. febrúar og voru 48 cavalierar skráðir.
Dómari var Elizabeth Cartledge frá Bretlandi, mjög virtur dómari sem hefur meðal annars dæmt BIS á Crufts, hún hefur einnig sérþekkingu á cavalier og hefur mikla reynslu í að dæma tegundina. Sýningin var frekar rauð og hún var örlát á meistaraefnisborðana en 24 hundar fengu excellent en 6 very good. 7 rakkar og 5 tíkur fengu meistarefni. 
Besti hvolpur tegundar 4 – 6 mánaða var Ice Hilton Coco Chanel og bestur í  flokknum 6 – 9 mánaða var Kolbeinsstaðar Teista Dimma.

Besti hundur tegundar var Sandasels Kvika, sem fékk bæði meistarastig og Cacib. Þetta var þriðja meistarastig Kviku en þar sem hún varð ekki 2ja ára fyrr en í apríl þurfti hún fjórða stigið til að verða íslenskur meistari. Bestur af gagnstæðu kyni var Salsara Sovereign sem fékk sitt fyrsta meistarastig.
Sandasels Kvika keppti síðan í grúppu 9 hjá dómaranum Lisbeth Mach frá Sviss og náði þar 3. sætinu en hvorugur hvolpanna komst í úrslit.
Eftirfarandi birtist í Sámi, þar sem Elizabeth Cartledge  tjáir sig um sýninguna:
„C.Elizabeth dæmdi cavalier king charles spaniel og sagði stærðina þar misjafna en bestu hundarnir hefðu verið af góðum gæðum. „ Ég fann einn eða tvo með rangt bit en ég er ekki vön að sjá þann galla lengur því þetta er mjög vinsæl tegund í Englandi. Yfirleitt þurfum við tvo dómara á meistarstigssýningum og mjög fáir hundar hafa ekki hið rétta skærabit“, annað lét hún ekki hafa eftir sér varðandi cavalierinn.
 
Sumarsýning HRFÍ var 2. – 3. júní og voru 45 cavalierar skráðir. 
Liliane De Ridder-Onghena frá Belgíu dæmdi cavalierana og gaf hún borða í öllum regnbogans litum nema grænan og var mjög spör á heiðursverðlaun og meistaraefnisborðana. Enginn hvolpur hlaut heiðursverðlaun og var því enginn besti hvolpur tegundar að þessu sinni.

Árangur fullorðnu hundanna var heldur slakur, en 19 cavalierar fengu þó excellent, 14 very good og 6 good, aðeins 2 rakkar fengu meistaraefni en 7 tíkur svo þetta lagaðist nú aðeins þegar á leið. Reyndar var áberandi á þessari sýningu að margir hundanna sýndu sig mjög illa og virtist vanta þjálfun, bæði í taumi og á borði.

Besti hundur tegundar var Mjallar Björt, sem fékk sitt þriðja meistarastig og þar með titilinn íslenskur meistari. Bestur af gagnstæðu kyni var Ljúflings Dýri sem hlaut sitt fyrsta meistarastig.  Mjallar Björt lét ekki þar við sitja heldur rúllaði upp tegundahópi 9 og náði þar fyrsta sætinu hjá dómaranum Kitty Sjong frá Danmörku.

Í viðtali í Sámi við dómarann Liliane var hún gríðarlega ánægð með andrúmsloft sýningarinnar. Hún dæmdi m.a. labrador retriever og sagði að þar væri nokkur vinna fyrir hendi í átt að betri einsleitni og aðeins meiri tegundargerð og sagði það sama eiga við hjá cavalier king charles spaniel. Greinilegt sé að hér séu vandvirkir ræktendur en líka sumir sem reyna bara að margfalda. Hún sagði einnig að sumir sýnendur mættu bæta sig og talaði þá sérstaklega um uppstillingu hunda á borði og um mikilvægi þess að sýnendur væru í sambandi við hundana sem þeir sýndu.

Kitty Sjong sem dæmdi tegundahóp 9,“ sagði að valið þar hafi ekki verið auðvelt þvi margir hundanna hafi verið svo góðir. Hún dæmdi ekki sjálf cavalier king charles spaniel, sigurvegara tegundahópsins en sagði sjaldgæft að sjá cavalier sem væri svo góð táknmynd tegundarinnar og að tíkin búi yfir svo miklu af því sem cavalier skuli búa yfir. Þar af leiðandi var það mjög ánægjulegt að setja hana í fyrsta sæti. Í öðru sæti var griffon bruxellosis sem sömuleiðis var af miklum gæðum svo erfitt hafi verið að velja á milli en í þetta skipti hafi cavalierinn unnið“.

Ágúst sýning HRFÍ fór fram dagana 25. – 26. ágúst og var 41 cavalier skráður. Dómari var Colette Muldoon frá Írlandi. Nú kvað við annan tón, því allir hvolparnir fengu heiðursverðlaun, flestir fullorðnu hundarnir excellent og rauða borða eða 28 en 6 fengu very good.  5 rakkar og 5 tíkur fengu meistaraefni
Besti hvolpur tegundar 4 – 6 mánaða var Drauma Lionel Messi og besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Eldlilju King Arthur.

Besti hundur tegundar var Sandasels Kvika, sem fékk nú fjórða meistarastigið og þriðja cacib stigið sitt. Hún varð því íslenskur meistari á þessari sýningu. Bestur af gagnstæðu kyni var ISCh Drauma Karri sem fékk cacib stigið, en meistarastigið kom í hlut Ljúflings Dýra.

Cavalierarnir riðu ekki feitum hesti í úrslitum því hvorki hvolparnir né besti hundur tegundar komust í úrslit að þessu sinni.

Í Sámi er haft eftir dómaranum Colette Muldoon að hún hafi verið ánægð með sýninguna og allar þær tegundir sem hún dæmdi. Hún segir um cavalierana: „ Þeir voru mjög góðir. Ég var mjög ánægð en ég held að faðir og dóttir hafi unnið. Ég þurfti einungis að lækka mjög fáa í einkunn, þeir voru allir af framúrskarandi gæðum, kannski einn eða tveir sem ég þurfti að lækka en ég var mjög ánægð“.

Það er óhætt að segja að þetta hafi verið mjög jákvæð kona, en það voru reyndar hálfsystkin sem unnu en ekki faðir og dóttir.

Á haustsýningu HRFÍ sem fór fram dagana 17. – 18. nóvember í Klettagörðum, voru 50 cavalierar skráðir, dómari var Tapio Eerola frá Finnlandi. Í þetta sinn fengum við mjög bláa sýningu, þveröfugt við fínu rauðu ágústsýninguna okkar, enda var dómarinn mjög strangur, eins og finnskir dómarar eru yfirleitt, t.d. fengu aðeins 3 hvolpar heiðursverðlaun af þeim 13 sem mættu til leiks.
Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Ljúflings Hekla og varð hún 4. besti hvolpur sýningar. Besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Bjargar Bríet Korka Sól.

Aðeins 9 cavalierar fengu excellent, 18 fengu very good og 3 good, 3 rakkar fengu svo meistaraefni og 4 tíkur, – minnumst þess reyndar ekki að við höfum áður fenguð svona útreið á cavalierana en minnið getur nú verið fallvalt.
Besti hundur tegundar var ISCH Mjallar Björt og bestur af gagnstæðu kyni var Ljúflings Dýri, sem fékk sitt þriðja meistarastig og þar með titilinn íslenskur meistari. Bæði fengu cacib stig og Grettlu Tinu Salka fékk meistarastig og vara-cacib.

Besti hundur tegundar og besti hvolpur í 6 – 9 mánaða flokki komust því miður ekki í úrslit að þessu sinni.
 
Tapio Eerola frá Finnlandi var mjög ánægður með sýninguna, hann segir m.a. í Sámi, að það hljóti að vera erfitt að rækta margar hundategundir hér á landi vegna lítils fjölda aðgengilegra undaneldisdýra. „ En þetta þýðir þó ekki að gæði aukist sjálfkrafa með auknum fjölda, því gæði cavalier, sem var fjölmennasta tegundin mín með 50 skráða hunda, voru ekki svo mikil“. Þegar Tapio dæmdi cavalier king chargles spaniel var íslenskt dómaraefni með honum í hringnum. „ Hún var mjög fær, þekkir öll smáatriði. Ég las nokkrar af umsögnunum hennar og hún þekkir í þaula mikilvæg atriði í tegundinni, mögulega betur en ég og ef ég ber hana saman við unga dómara í Finnlandi stendur hún þeim jafnvel framar.  Það að verða dómari hér, krefst því meira af fólki og ég sá það á vinnu hennar, undirbúningsvinnan hafði verið unnin mjög vel“.  Þetta mun hafa verið Þórdís Björgvinsdóttir sem var dómaranemi  á þessari sýningu.

Stigahæsti cavalierinn árið 2012 var Mjallar Björt, en hún var í 23 – 24. sæti á listanum yfir stigahæsta hund ársins hjá HRFÍ.  Við eignuðumst þrjá íslenska meistara á árinu, fyrrnefnda Mjallar Björt, Sandasels Kviku og Ljúflings Dýra.

Enginn varð alþjóðlegur meistari á árinu en góð von er til þess að svo verði á þessu ári, þar sem þrír cavalierar eru með 3 alþjóðleg stig og vantar aðeins það fjórða.

Cavalierdeildin gaf bikara á febrúar- og nóvembersýninguna. Dýrabær gaf bikara á júnísýninguna og Mjallar ræktun á ágústsýninguna. Við þökkum þeim öllum fyrir sitt framlag.

Eins og áður var sagt stendur mikið til hjá okkur 20. apríl. Þá verður vegleg deildarsýning, þar sem við leyfum okkur að breyta aðeins til innan leyfilegra marka  og veljum besta hund í hverjum lit okkur til gamans, einnig besta unghund. Vinningshundarnir fá allir bikara í heiðursskyni og glæsilegar rósettur sem við létum útbúa á Crufts sýningunni, en samkvæmt reglum eru aðeins meistarstigin veitt fyrir BOB og BOS.  Vonandi fáum við góða skráningu, því deildin ber alfarið allan kostnað vegna sýningarinnar og til að hróður okkar berist nú út fyrir landsteinana, þá verðum við að standa okkur með fjölda hunda og sýna þá vel.  Svo nú þurfa allir að leggjast á eitt og æfa hundana vel.  Dómarinn okkar Mrs Norma Inglis, heldur úti pistlum á ensku cavaliersíðunni og þar á hún örugglega eftir að segja frá þessari sýningu og jafnvel birta myndir.

Til að hundarnir verði nú sem best útlítandi mun Guðríður Vestars hundasnyrtir  verða með sýnikennslu í Dýrabæ á snyrtingu cavalierhunda fimmtudagskvöldið 11.apríl n.k. kl. 20:00 og kynna þá einnig ýmis góð efni til feldhirðu.

Við munum svo verða með sýningarþjálfun  3svar sinnum, fyrst sunnudaginn 7/4 milli 13:00 – 14:00, fimmtudaginn 11/4 milli 17:30 og 18:30 og að síðustu laugardaginn 13/4 milli 16:00 og 17:00.

Eftir sýninguna stendur til að fara út að borða með dómaranum Normu Inglis og fyrir valinu varð 19. Hæðin, þar sem við höfum fengið tilboð í hlaðborðið fyrir 6.290.- krónur og 10% afslátt ef við náum 40 manna hópi. Nú er um að gera að skrá sig sem fyrst hjá Betu.

Nú á eftir verður kosning til stjórnar og mun Ingunn Hallgrímsdóttir sem hefur setið í stjórn frá árinu 2007 eða í 6 ár ekki gefa kost á sér til endurkjörs.  Viljum við færa hennar sérstakar þakkir fyrir starf hennar í þágu deildarinnar.

Ný göngudagskrá og aðrir viðburðir deildarinnar verða auglýstir fljótlega á cavaliersíðunni en næsta ganga er sunnudaginn 14. apríl og þá göngum við í Öskjuhlíðinni.


María Tómasdóttir, form. fyrir hönd stjórnar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s