Skýrsla stjórnar 2013

Aðalfundur haldinn 26. mars, 2014  á skrifstofu HRFÍ, Síðumúla 15


Síðastliðið ár var mikið samdráttarár hjá deildinni bæði hvað varðar ræktun og sýningar að undanskilinni glæsilegri deildarsýningu sem við héldum í apríl á síðasta ári. Eftirspurn eftir cavalierhvolpum hefur farið minnkandi vegna samdráttar almennt í þjóðfélaginu og eins vegna mikils framboðs af öðrum tegundum og blendingshvolpum svo ekki sé nú minnst á framleiðslu á cavalierhvolpum frá ákveðnum stað á Kjalarnesi. Markaðurinn á Íslandi er ekki stór og töluverðar sveiflur geta verið milli ára svo ekki er ólíklegt að ræktun aukist á ný.
Alls voru 23 got á árinu og 84 lifandi fæddir hvolpar en árið 2012 voru gotin 33 og 135 hvolpar. Meðaltal hvolpa í goti var 3.65 á móti 4.1 árinu áður.
16 ræktendur voru með got á árinu, þar af þrír nýir ræktendur sem allir hafa fengið ræktunarnöfn. Þessi nýju ræktendur eru Anna Björg Jónsdóttir og Arna Bergrún Garðarsdóttir með Kvista ræktun. Gerður Steinarsdóttir með Litlu-Giljár ræktun og Guðrún Birgisdóttir með Akurlilju ræktun. Við bjóðum þessa ræktendur velkomna í ræktendahópinn okkar.

Rakkarnir voru í meirihluta þetta árið en alls fæddust 48 rakkar og 36 tíkur. Litaskiptingin var þannig að blenheim hvolpar voru flestir eins og oftast áður, eða 38 talsins, ruby hvolparnir voru 25, black and tan 17 en aðeins 4 þrílitir.

Á árinu voru 12 rakkar notaðir til undaneldis. Mest notaði rakkinn var Hlínar Erró sem feðraði 5 got, alls 14 hvolpa, næstur honum var Ljúflings Dropi sem var notaður 3svar og átti einnig 14 hvolpa. Ljúflings Dýri var líka notaður 3svar sinnum og átti hann 11 hvolpa. Erró er ruby en hinir eru blenheim.

Á rakkalistanum nú í byrjun árs, eru 22 rakkar, 2 þrílitir, 11 blenheim, 5 ruby og 4 black and tan, þetta er fækkun um fimm frá síðasta ári. Auk þess eru nokkrir rakkar með útrunnin vottorð sem ekki er víst að verði endurnýjuð en vonandi bætast einhverjir ungir rakkar við á þessu ári.
 
Til þess að rakki komist á listann þarf hann að hafa gilt augnvottorð, vera hjarta- og hnéskeljaskoðaður, niðurstaða DNA prófs þarf að vera til staðar og auk þess þarf hundurinn að hafa verið sýndur og hafa fengið a.m.k. „very good“ á sýningu.  Vonandi verða rakkaeigendur duglegir að uppfylla þessi skilyrði, þannig að fleiri góðir rakkar komist á listann á þessu ári.

Á heimasíðu deildarinnar eru eingöngu auglýst þau got, þar sem farið hefur verið eftir öllum reglum deildarinnar varðandi heilbrigðisskoðanir. 18 got voru auglýst á síðunni á árinu, en hver auglýsing kostar 2.500.- , innkoman var því 45 þúsund krónur í ár. Tekjur af auglýsingunum eru til að kosta vistun síðunnar og greiðslu lénsins, annars væri ekki hægt að halda síðunni úti. Auk þess gefur deildin bikara á flestar sýningarnar. Ræktendur eru því hvattir til að auglýsa gotin sín á síðunni og styrkja þar með deildina enda teljum við að það séu ákveðin meðmæli með goti að það sé auglýst þar.

Innflutningur
Tveir cavalierar voru fluttir inn á árinu og komu þeir báðir frá Englandi. Sá fyrri er blenheim rakki, Loranka´s Edge Of Glory f. 10.apríl 2012, ræktandi hans er Lorraine Hughes og eigandi María Tómasdóttir. Hinn er black and tan rakki, Russmic Mordrid f. 7.október 2012, ræktendur hans eru: Mr. D M og Mrs A J Sedgbeer og eigandi er Edda Hlín Hallsdóttir. 2012 kom einnig til landsins blenheim tíkin Salsara Hera, rækt. Miss M Barrett og eig. Þórunn Aldís Pétursdóttir, en Hera var ekki skráð í ættbók fyrr en byrjun þessa árs vegna skorts á pappírum.
 
Hjartaskoðanir
Enn fækkar þeim cavalierum sem eru hjartaskoðaðir, en 108 vottorðum var skilað inn til deildarinnar á s.l. ári. Reyndar var eitthvað um að eyðublöð vantaði hjá dýralæknunum, þannig að deildin fékk ekki alltaf afrit sem er mjög bagalegt, þegar reynt er að fylgjast með hjartaheilsu tegundarinnar. Árið 2012 voru 133 hundar hjartaskoðaðir en árin þar á undan hafa þeir yfirleitt verið um 150.  Skýringin á fækkuninni er eflaust að einhverju leyti sú, að töluvert minni ræktun er nú í gangi en var á fyrri árum og sjálfsagt spilar kostnaður líka inní.

Niðurstaða var þannig:
Undir 2ja ára voru 9 skoðaðir, 2 -3 ára = 17 og 3 – 4 ára = 24, eða alls 50 undir 4ra ára aldri. Þessir hundar voru allir fríir.  Á aldrinum 4 – 5 ára voru 23 skoðaðir, af þeim voru 20 fríir en 3 með gráðu 2.
12 cavalierar á aldrinum 5 – 6 ára voru skoðaðir, 11 voru fríir en 1 með gr. 1.
Á aldrinum 6 – 8 ára voru 20 skoðaðir, 17 voru fríir en 3 með gr.2. Þrír cavalier í 8 – 9 ára hópnum voru skoðaðir og voru þeir allir fríir. Útkoman er því þannig að 101 cavalier var frír en 7 með murr gr. 1 til 2 eða á byrjunarstigi, þ.e. rétt um 7 prósent af þeim sem voru skoðaðir.
Langflestir cavalierar fá ekki murr fyrr en eftir 5 – 6 ára aldur en eftir það aukast líkurnar hratt og  rannsóknir hafa sýnt að um helmingur cavaliera er kominn með murr á byrjunarstigi eftir að 6 ára aldri en náð, en það er enginn ástæða til að örvænta því flestir cavalierar lifa í mörg ár eftir það og hafa engin einkenni fyrr en undir það síðasta. Og þó að þeir greinist með murr um 6 ára aldurinn ná langflestir a.m.k. 10 ára aldri og vel það og deyja oft af öðrum orsökum.

Um leið og hjartahlustun fer fram eru hnéskeljar einnig skoðaðar. Hnéskeljalos er nánast óþekkt í tegundinni en af þessum 108 cavalierum greindust aðeins 2 með vægt hnéskeljalos á annarri hnéskelinni. Hnéskeljalos getur einnig stafað af áverkum sem hundurinn hlýtur og er þá sennilega tímabundið.
Deildin óskaði eftir smábreytingu á orðalagi á hjartareglunni við stjórn HRFÍ í ágúst s.l. þar sem einhvers misskilnings virðist hafa gætt varðandi hvernig túlka á 6 ára vottorðin.
Reglan hljóðar því þannig í dag: 
Vottorð undaneldishunda yngri en 5 ára má ekki vera eldra en 6 mánaða við pörun og skulu þeir vera án murrs. Vottorð eftir að 5 ára aldri er náð gildir í eitt ár. Hunda sem hafa hreint hjartavottorð tekið eftir 6 aldur, má nota áfram þó þeir greinist með murr síðar. Vottorð tekið eftir 7 ára aldur undaneldishunda gildir ævilangt.  Til að vottorð sé gilt þarf að nota eyðublöð frá HRFÍ. Hjartavottorð þarf að fylgja ættbókarskráningu og niðurstaða kunn fyrir pörun.

Enn og aftur viljum við leggja áherslu á mikilvægi afmælisvottorðanna. Skila á inn hjartavottorðum fyrir alla ræktunarhunda a.m.k. einu sinni á ári til 7 ára aldurs og helst lengur meðan þeir eru fríir svo hægt sé að meta hvar eru bestu hjartalínurnar. Þetta skiptir miklu máli fyrir ræktendur bæði núna og í framtíðinni. Oft er það því miður þannig að eftir að hætt er að nota hundana, hvort sem það eru rakkar eða tíkur heyra hjartavottorðin sögunni til.  Sumir ræktendur og rakkaeigendur eru þó algjörlega til fyrirmyndar hvað þetta varðar.

Augnskoðanir
63 cavalierar voru augnskoðaðir á árinu, 41 tík og 22 rakkar, heldur fleiri en árið á undan. Boðið var upp á þrjár augnskoðanir eins og í fyrra. 14 greindust með Cornea Dystrophi, þar af 13 tíkur en aðeins 1 rakki, sem sýnir enn og aftur hvað þetta virðist hormónatengt. 13 voru með aukaaugnhár eða Distichiasis. 2 með cort.cataract, sennilega vegna áverka, þar sem það taldist ekki arfgengt. 3 voru með ónóga táraframleiðslu Kerat. Sicca, í einu tilfellinu var það aldurstengt. Ein tík var með PHTVL gráðu 1, sem er meðfætt og hefur ekki greinst hér áður í cavalier en er nokkuð algengt í King Charles hundum. Þessi sjúkdómur er gráðaður og má rækta undan hundum með gr. 1 þegar notaður er frír á móti. Enginn var settur í ræktunarbann vegna þessara athugasemda. Eins og áður gilda augnvottorðin í 25 mánuði.

DNA prófin
Ekki er lengur eins mikil þörf á DNA prófunum vegna Dry Eye/ Curly Coat og Episodic Falling, því í flestum tilfellum er ræktað undan fríum hundum. Arfbera sem eru góðir fulltrúar tegundarinnar ætti þó alls ekki að taka úr ræktun og hafa vísindamenn hjá AHT og erfðafræðingar lagt ríka áherslu á að það gæti valdið óbætanlegum skaða, þar sem genamengi stofnsins mundi minnka mikið væri það gert. Þegar arfberar hafa verið notaðir í ræktun hafa sumir ræktendur látið DNA prófa hvolpana, áður en þeir fara til nýrra kaupenda. Raunverulega er þó óþarfi að DNA prófa aðra hunda en þá sem á að nota í ræktun, þar sem arfberar eru að sjálfsögðu fullkomlega heilbrigðir, hvað þetta varðar. Á árinu voru 17 cavalierar DNA prófaðir, allir voru fríir af DE/ CC og 13 fríir af EF en 4 arfberar.

Reglan í sambandi við DNA prófin er óbreytt: 
Niðurstaða DNA prófa vegna Episodic Falling og Curly Coat skal vera ljós fyrir pörun. Arfbera (carriers) má para með fríum einstaklingi. Hundar sem hafa EF eða CC (affected) fara í ræktunarbann. Ef báðir foreldrar undaneldishunda eru fríir þarf ekki að DNA prófa afkvæmi þeirra. Sýnataka þarf að fara fram hjá dýralækni eða stjórn deildarinnar sem einnig sjá um að póstleggja sýnin. „

Chiari-like Malformation Syringomyela eða CM/ SM
Miklar rannsóknir fara nú fram á þessum sjúkdómi í nokkrum löndum og hefur enski Kennel Klúbburinn farið af stað með það sem þeir nefna CM/SM Scheme og er tilgangurinn að vinna með the Kennel Club´s Mate Select Programme.
Hundarnir eru þá MRI skannaðir og gráðaðir og leiðbeint um pörun eftir niðurstöðunni.  Nú er gráðað fyrir CM frá 0 og upp í 2 og eins fyrir SM en þar eru einnig 3 gráður innan hvers stigs eftir aldri, þ.e. a, b og c. Tilmælin eru þau að ekki má rækta undan hundum sem fá niðurstöðuna gr. 2c og ekki undan neinum sem sýna einkenni sjúkdómsins. Hér á landi er ekki hægt að MRI skanna hunda og því það eina sem við getum gert er að rækta ekki undan hundum sem sýna skýr einkenni SM en þau er helst að hundarnir eru mjög viðkvæmir fyrir snertingu kringum höfuð, háls, axlir og brjóst. Alvarleg tilfelli lýsa sér oft með að hundarnir þola ekki hálsólar og krafsa með afturfótunum út í loftið, þ.e. „air-scratching“. En við skulum muna að heilbrigðir cavalierar þurfa líka að klóra sér eins og aðrar tegundir og ekki dæma allt sem einkenni um sjúkdóm. Sem betur fer höfum við ekki heyrt um marga hunda með einkenni hér, en eitthvað hefur þó verið um það. SM er arfgengt í cavalier og Griffon  hundum og grunur er um að það eigi einnig við um King Charles spaniel. Sjúkdómurinn hefur einnig greinst í Maltese, Yorkshire Terrier, Chihuahuas og Boston Terrierum.

Aldursforseti tegundarinnar er sem fyrr Hlínar Beatrice sem varð 16 ára 14. janúar s.l. og hefur hún náð hæsta aldri cavaliera frá upphafi.  Hún er orðin svo fræg að vera getið á ensku cavaliersíðunni, en haldið var upp á 16 ára afmælisdaginn hennar með pompi og prakt og birt mynd af stórglæsilegri afmælistertu með mynd af dömunni, allt henni til heiðurs, að sjálfsögðu. Snæ Lukka hefur einnig nýlega náð 15 ára aldri og er hún þriðji cavalierinn sem hefur haldið upp á 15 ára afmælisdaginn.

Kynning á tegundinni og göngur
Deildin tók þátt í smáhundakynningum í Garðheimum í febrúar og í september á síðasta ári og var aðsókn ágæt í bæði skiptin. Vel er að þessu staðið hjá Garðheimum, og í raun betri aðstaða í gróðurhúsinu en var inni, en töluvert færri virðast þó koma til að skoða hundana eftir að þessu var breytt. Við þökkum þeim sem hafa staðið vaktina þar og kynnt tegundina okkar.

Engir deildarbásar hafa verið á sýningum HRFÍ síðan þær fluttust í Klettagarða og ekki vitað hver framtíðin verður varðandi komandi sýningar.

Göngunefnd deildarinnar  hefur staðið fyrir 12 göngum á árinu 2013 auk þess að sjá um aðventukaffið.  Fyrsta ganga ársins var samkvæmt venju Nýársgangan kringum Tjörnina í Reykjavík,  þar sem yfirleitt hefur verið mjög góð þátttaka, en frekar fámennt var þó þetta árið.

Í febrúar gengum við um Fossvogsdalinn í dásamlegri veðurblíðu, gengið var til suðurs upp Stjörnugróf og svo inn í Kópavog til vesturs. Þar var gengið lengra meðfram Fossvogsdalnum þar til gengið var yfir til Reykjavíkur og til baka Fossvogsdalinn. Þetta þótti mjög skemmtileg gönguleið.

Sama góða veðrið var í marsgöngu deildarinnar, þegar gengið var meðfram Reynisvatni í taumgöngu en síðan upp í skóginn og út á opið svæði, þar sem hundarnir gátu hlaupið lausir. Það voru glaðir cavalierer sem hlupu um móana og skemmtu sér konunglega  ásamt göngufólkinu.
Í apríl var gengið í Öskjuhlíðinni í mjög góðu veðri, göngunefndin ákvað að fara ótroðnar slóðir og fara síðan eigin leiðir eins og þau kölluðu það og var þetta mjög vel heppnuð og skemmtileg ganga.

Maí gangan var í Kaldárseli og þá fengum við aftur sól og blíðu á leiðinni inni í Skólaskóg.  Við áðum í fallegum lundi, þar sem menn snæddu úr nestisboxum sínum og eitthvað slæddist líka í hundana. Í Skólaskógi var sest niður aftur og málin rædd, dáðst að hundum og veðrinu hrósað. Þegar komið var til baka að Kaldárseli, skelltu sumir hundanna sér í Kaldá en aðrir létu sér nægja að slökkva þorstann.

Fyrsta kvöldgangan var í júní en þá var hist við Morgunblaðshöllina og gengið upp heiðina fyrir ofan Rauðavatn og upp í Paradísardal. Þar var sest niður, mannfólkið dró upp nesti og hundarnir fengu að drekka  og allir áttu góða stund saman. Veðrið var yndislegt 14 stiga hiti, milt og fallegt veður. Það sem einkenndi gönguna var hversu mikið var af ungviðum sem skemmtu sér ekki síður en þeir sem eldri voru.

Í júlí var komið að lautarferðinni við Snorrastaðatjarnir, þar var gengið  niður að vatninu og síðan inn í skógræktina, þar sem sest var niður með nestið og spjallað,  meðan hundarnir hlupu um og skemmtu sér konunglega. Góð ganga í þurru veðri og 12 stiga hita.

Í ágúst hittumst við við Hvaleyrarvatn og þar var gengin ný leið sem fæstir höfðu farið áður. Gengið var í kringum Stórhöfða sem er fellið fyrir ofan Hvaleyrarvatn og er í upplandi Hafnarfjarðar. Skemmtileg ganga í fallegu umhverfi þrátt fyrir svolítinn rigningarúða. Hundarnir skemmtu sér vel við að hlaupa um mela og móa í frábæru gönguveðri. Því miður var ekki hægt að setjast niður vegna þess hve blautt var á, en það verður bara gert næst.  Í allar framantaldar göngur hafa mætt í kringum 20 cavaliereigendur og svipaður fjöldi hunda.

Í september var aftur komið að sunnudagsgöngunum, nú var það Varmidalur og veðurguðirnir voru svo sannarlega í rok stuði þennan daginn, en samt mættu á milli 35 – 40 cavalierhundar ásamt eigendum sínum í gönguna í Árdalinn. Þrátt fyrir veðrið var þetta fín ganga en flestir urðu hundblautir, bæði hundar og menn.

Í október var bæði Laugavegsganga HRFÍ og ganga í Elliðaárdalnum. Heldur slök mæting var hjá okkar tegund í Laugavegsgöngunni  en aðeins 15 cavalierar létu sjá sig þar. Veðrið var þó yndislegt, bjartviðri og svolítil gola. Mjög gleðilegt er,  að það er komin ný hundasamþykkt svo nú er leyfilegt að vera með hunda bæði á Laugaveginum og í miðbænum. Mjög góð þátttaka var aftur á móti í októbergöngunni um Elliðárdalinn en nú var það efsti gönguhringurinn í dalnum sem varð fyrir valinu. Veðrið lék sannarlega við okkur og var mæting með besta móti 37 cavaliereigendur með 34 hunda

Í nóvember átti að ganga kringum Vífilstaðavatn, en vegna veðurs þurfti að fella þá göngu niður. Vonandi verður sú gönguleið valin aftur, þar sem cavalierarnir eiga alveg eftir að kynna sér þá leið.
.
Aðventukaffi deildarinnar var sunnudaginn 1. desember í salnum hjá Gæludýrum, Korputorgi. Frábær mæting var og hlupu hundarnir um og léku sér meðan mannfólkið naut veitinga af glæsilegu hlaðborði.. Samkvæmt gestabókinni mættu 48 tvítfættir  og 46 ferfætlingar en einhverjir skráðu sig ekki í bókina, þannig að fjöldinn hefur sjálfsagt verið vel yfir 50 manns.

Að síðustu var svo jólaganga cavalierdeildarinnar á 3. sunnudegi í aðventu. Þá var gengið sem leið lá með strandlengjunni í átt að Álftanesi  og endaði gangan  síðan í Jólaþorpinu, þar sem tvífætlingarnir gátu fengið sér heitt kókó hjá Rauða Krossinum. Segja má að hópurinn hafi vakið mikla athygli gesta í jólaþorpinu og voru hundarnir í sínu fínasta  pússi í jólagöllum, lopapeysum eða kuldagöllum.

Færum við göngunefndinni bestu þakkir fyrir þeirra frábæra framlag til deildarinnar.

Sýningar
Á árinu 2013 voru 4 sýningar á vegum HRFÍ og auk þess héldum við veglega deildarsýningu í apríl. Það er nánast hægt að segja að það hafa orðið algjört hrun í skráningum hjá okkur á HRFÍ sýningarnar á s.l. ári, en á þær voru samtals skráðir 119 cavalierar. Til samanburðar voru þeir 184 árið 2012 og 188 árið 2011. Á deildarsýninguna í apríl var 81 cavalier skráður, svo það hefur auðvitað áhrif, en árið 2011 var líka deildarsýning, reyndar ekki með dómara með sérþekkingu á tegundinni en á þá sýningu voru skráðir 51 til viðbótar þeim 188 sem komu á HRFÍ sýningarnar, svo það er greinilegt að áhugi á að taka þátt í sýningum fer minnkandi, það gæti líka spilað inní að við fáum nánast aldrei dómara sem hafa sérþekkingu á tegundinni, meðan sumar tegundir  fá sérfræðinga í sinni tegund nánast á öllum sýningum. Þetta áhugaleysi hefur því miður líka þau áhrif að lítið af nýjum rökkum bætist við á rakkalistann,

Deildin stóð fyrir sýningarþjálfun fyrir deildarsýninguna en annars hafa cavaliereigendur sótt sýningarþjálfun hjá Unglingadeildinni eða Smáhundadeildinni.

Úrslit sýninga:

Vorsýning HRFÍ var haldin 23. – 24. febrúar og voru 38 cavalierar skráðir, þar af 10 hvolpar. Dómari cavalieranna var Ewa Nielson frá Svíþjóð en Ann Ingram frá Írlandi dæmdi tegundahóp 9.  Rauðu borðarnir voru í meirihluta en 17 hundar fengu excellent, 9 very good og 1 good, 8 fengu meistaraefnisborða.
Besti hvolpur tegundar 4 – 6 mánaða var Drauma Bono og bestur í  flokknum 6 – 9 mánaða var Eldlukku Salka.
Besti hundur tegundar var  ISCh Mjallar Björt og bestur af gagnstæðu kyni ISCh
 Ljúflings Dýri, bæði fengu sitt þriðja cacib stig. Meistarastigin komu í hlut Hrísnes Krumma Nóa og Drauma Twiggy. Hvorki hvolparnir né besti hundur tegundar komust í úrslit sýningar.
Ewa tjáir sig lítið um cavalerinn í Sámi, en segir þó að hún hvetji ræktendur hér til að svipast um út í heim og bera hunda sína saman við hunda erlendis til að fá víðara sjónarhorn. Stundum hafi sömu gallarnir verið gegnumgangandi á næstum öllum hundum í ákveðnum tegundum, þetta sé lítið land en til framtíðar litið sé þetta ekki gott og nefnir hún cavalier, chihuahua og golden í þessu sambandi, en hún er sérfræðingur í Golden retriever sem hún hefur ræktað lengi.Ef dómarnir hennar eru skoðaðir þá eru þeir flestir frekar neikvæðir, en áberandi er að hún setur út á topplínu margra hundanna og hreyfingar og finnst margir þeirra ekki nógu skreflangir.

20. apríl héldum við stórglæsilega deildarsýningu, sem haldin var í sal Gæludýra á Korputorgi. 
Dómari var Mrs. Norma Inglis frá Englandi en hún hefur ræktað cavaliera undir nafninu Craigowl í fjölda ára. 81 cavalier var skráður til leiks, þar af 5 hvolpar í flokknum 6 – 9 mánaða. Á þessari sýningu vorum við einnig í fyrsta sinn með litadóma, þar sem besti hundur og tík í hverjum lit var einnig valinn. Auk þess besti unghundur og tík úr ungliða og unghundaflokki.
28 rakkar voru skráðir og fengu 19 excellent og 9 very good, 48 tíkur voru skráðar, 22 fengu excellent, 17 very good og 4 good en 5 mættu ekki. 8 rakkar fengu meistaraefni og 11 tíkur.
Besti hundur sýningar var ISCh Ljúflings Dýri og best af gagnstæðu kyni Ljúflings Czabrina. BOB Junior var Loranka´s Edge Of Glory og BOS junior, Ljúflings Hekla. Meistarstigin komu í hlut Ljúflings Czabrinu og Loranka´s Edge of Glory og er það fyrsta stig beggja.
BOB blenheim var ISCH Ljúflings Dýri, BOS CIB ISCh Ljúflings X-clusive Xenia, BOB þrílitur var Kolbeinsstaðar Teista Dimma og BOS Ljúflings Prins Valiant
BOB ruby var Ljúflings Czabrina og BOS Hlínar Erró og
BOB black and tan var Eldlilju Ugla og BOS Hlínar Castro
Besti hvolpur sýningar var Drauma Bono og best af gagnstæðu kyni Sóllilju Katla.

Norma sendi okkur mjög greinagóða umsögn um álit sitt á tegundinni og er hún birt á cavaliersíðunni. Hennar álit er okkur mikils virði, þar sem hún er sérfróð um tegundina og við eigum virkilega að taka mark á því.

Ef við tökum úrdrátt úr því sem hún segir, þá fannst henni rakkarnir betri að gæðum en tíkurnar og að við ættum nokkra „top quality hunda“, marga „decent but average“  og  þarna hefðu einnig verið nokkrir í „pet quality“.  Hún segir að þetta sé ekki slæmt en mikilvægast sé að para aldrei hunda saman sem hafi sama veikleikann. Svo tekur hún nokkur atriði sem við þurfum að huga sérstaklega að:
Augu: Yfir það heila voru þau dökk og kringlótt eins og vera ber en of margir höfðu allt of lítil augu, sem eyðileggur alveg svip hundsins. Standarinn tiltekur „moderate“ hund í öllu nema augunum, þau eiga að vera stór.
Hún talar um fíngerð bein: Ég sá hunda með þunn „chicken like bone“, en cavalier á að hafa „moderate“ bone.
Leggy, long and large“, cavalier er smáhundur svo fylgjast þarf með þessu.
Ljós nef, cavalier á að hafa svart nef en e.t.v. spilar sólarleysið hér eitthvað inní.
Vinklar bæði að framan og aftan voru ekki nógu góðir hjá mörgum hundanna.
Og svo höfuðin, margir hundanna eru allt of þunnir í framan og sumir þeirra heillitu hafa of djúpt „stop“. Og svo bætt sé aðeins við þetta:   – standardinn segir – „soft expression“ og til að cavalier hafi það, þarf hann að hafa góða fyllingu undir stórum augum.
Og þá að því jákvæða: „Type and temperament“var rétt, allir litu út eins og cavalierar, feldur var mjúkur og silkikenndur eins og hann á að vera. Bit var yfirleitt gott og segist Norma ekki vera mjög hörð á bitinu ef það er eðlilegt séð utanfrá. Hún segist dæma allan hundinn en ekki falla í þá gryfju að „galladæma“ Hún sendir okkur svo bestu þakkir fyrir yndislega helgi.

Deildarsýningar eru fjárhagslega á ábyrgð deildanna og komum við út með rétt um 10 þúsund króna hagnað en hluti skráningargjalda rennur til HRFÍ eða í þessu tilfelli rúmlega 75 þúsund krónur sem samanstendur af grunnkostnaði sem er kr. 21.000.- og síðan kr. 670.- pr. hund. Það er því ljóst að það þarf 70 – 80 hunda til að standa undir deildarsýningu. Dýrabær gaf bikara, Ljúflings ræktun rósettur og Norma gaf bestu hundum cavaliernælur.
Dómarinn fékk handprjónaða peysu og bækur að gjöf. Elísabet Grettisdóttir gaf peysuna, sem var hönnuð og prjónuð af henni. Guðrún Birna Jörgensen gaf prentun á sýningarskrám og veggspjöldum. Deildin þakkar öllum þessum aðilum fyrir stuðninginn og einnig starfsmönnum sýningarinnar, þeim Brynju Tomer hringstjóra, Soffíu Kwaszenko ritara og Sóleyju Rögnu Ragnarsdóttur, aðstoðarritara.  Dómaraefni á sýningunni var Klara Á Símonardóttir.

Fyrsta Reykjavík – Winner sýning HRFÍ var haldin 25. – 26. maí 2013 og voru aðeins 18 cavalier skráðir, þar af 4 hvolpar. Lena Stalhandske dæmdi cavalierana og einnig tegundahóp 9. Allir hundarnir fengu excellent og 8 meistaraefni.
Besti hvolpur tegundar 4 – 6 mánaða var Yndisauka Heimasæta sem varð annar besti hvolpur sýningar í þessum flokki.
Besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Drauma Bono.
Besti hundur tegundar var ISCh Ljúflings Dýri og best af gagnstæðu kyni ISCh Mjallar
 Björt, þau fengu bæði titilinn RVK-WINNER 13. Meistarastigin komu í hlut Loranka´s Edge Of Glory og Drauma Twiggy og er það annað stig beggja.

Lena Stalhandske segir í Sámi að cavalierarnir hafi verið að mjög misjöfnum gæðum og marga vanti meiri fyllingu í höfuðið, Einnig sagði hún augun á mörgum of lítil en það væri að verða vandamál alls staðar í heiminum. „Ég var þó mjög ánægð með besta hund tegundar sem dillaði skottinu sínu allan tímann“. Miðað við þessa umsögn hefur hún verið heldur örlát á rauðu borðana.“

Alþjóðleg sýning HRFÍ var haldin í Klettagörðum 7. – 8. september og voru 28 cavalierar skráðir, þar af 4 hvolpar. .Dómari var Svein Helgesen frá Noregi en Hans Van den Berg frá Hollandi dæmdi tegundahóp 9.
Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Drauma Embla og besti hvolpur 6 – 9 mánaða Yndisauka Heimasæta.
23 fullorðnir hundar voru skráðir, 11 rakkar og 13 tíkur .17 fengu excellent, 6 very good og 1 good, einn mætti ekki, 11 fengu meistaraefnisborða.
Besti hundur tegundar var RW-13 ISCh Ljúflings Dýri og best af gagnstæðu kyni Ljúflings Hetja. Dýri fékk fjórða cacib stigið og verður hann því alþjóðlegur meistari eftir staðfestingu FCI. Hrísnes Krummi Nói fékk 3. meistarastigið og er hann því orðinn íslenskur meistari. Ljúflings Hetja fékk sitt fyrsta meistarastig en var of ung fyrir Cacib stigið sem kom í hlut Sandasels Kviku og var það hennar 4. stig, Deildin uppskar því vel á þessari sýningu, eignaðist 2 alþjóðlega meistara og 1 íslenskan meistara.
Ljúflings Dýri keppti síðan í tegundahópi 9 og náði þar 4. sætinu. Svein Helgesen tjáði sig lítið um cavalierinn en sagðist hafa verið ánægður með heildargæðin.

Nóvember sýning HRFÍ fór fram 16. – 17. nóvember í Klettagörðum og eins og áður voru miklu færri cavalierar skráðir en árið áður eða aðeins 35, þar af 7 hvolpar. Dómari cavalieranna var Tatjana Urek frá Slóveníu sem einnig dæmdi tegundahóp 9. Sóley R. Ragnarsdóttir var dómaranemi og hefur hún nú fengið dómararéttindi og er fyrsti íslenski cavalierdómarinn, auk þess sem hún hefur réttindi á nokkrar aðrar tegundir. Sóley er aðeins rúmlega 18 ára gömul og er þetta mikið afrek hjá henni. Sýningarnefnd cavalierdeildarinnar tók þátt í að setja upp sýninguna og taka hana niður, auk þess að útvega starfsfólk yfir sýningarhelgina. Við færum þeim öllum bestu þakkir fyrir þeirra störf.
Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Litlu Giljár Vaskur Þokki og besti hvolpur 6  – 9 mánaða Tröllatungu Máni.
28 fullorðnir cavalierar voru skráðir, 10 rakkar og 18 tíkur, 16 fengu excellent, 5 very good, 4 good en 3 mættu ekki, 9 fengu meistaraefnisborða.
Besti hundur tegundar var RW-13 ISCh Ljúflings Dýri og best af gagnstæðu kyni Ljúflings Hetja. Bæði fengu cacib stig og Hetja sinn annað meistarastig. Þar sem Ljúflings Dýri hefur þegar fengið fjögur cacib stig gengur cacib stigið til Bjargar Kalda sem fékk vara-cacib, en hann hlaut einnig sitt fyrsta meistarastig á þessari sýningu.  Ljúflings Dýri stóð sig vel í harðri samkeppni í tegundahópi 9 og fékk þar 3. sætið.

Í Sámi er haft eftir dómaranum Tatjönu að cavalierarnir hafi verið af misjöfnum gæðum en hún hefði verið mjög ánægð með besta rakka og bestu tík.

Stigahæsti cavalierinn árið 2013 var Ljúflings Dýri sem einnig var stigahæsti hundurinn í tegundahópi 9 ásamt Pug á listanum hjá HRFÍ. Stigahæsti ræktandinn var Ljúflings ræktun. Við eignuðumst einn íslenskan meistara á árinu Hrísnes Krumma Nóa  og 2 alþjóðlega meistara Sandasels Kviku og Ljúflings Dýra. Nokkrir hundar eru komnir með 2 meistarastig svo ekki er ólíklegt að einhverjir meistarar bætist við á þessu ári. Við óskum öllum vinningshöfum ársins til hamingju með góðan árangur.
Cavalierdeildin gaf bikara á allar HRFÍ sýningarnar en Dýrabær á deildarsýninguna. Bestu þakkir fyrir það.

Deildin okkar hefur nú starfað í 19 ár og á næsta ári eru því tímamót þegar við verðum 20 ára og ekki spurning að við þurfum að halda vel upp á það, t.d. með veglegri deildarsýningu eða einhverjum öðrum skemmtilegum viðburði, en það kemur í hlut nýrrar stjórnar að ákveða það. Starf deildarinnar hefur aðallega verið í kringum ræktun og göngur, e.t.v. ættum við að brydda upp á einhverju nýju og væri gott að fá hugmyndir um það. T.d. gæti verið gaman að hafa hvolpahitting 2 x á ári, sumar deildir hafa gert það og gæti það verið góð umhverfisþjálfun fyrir unga hunda.
Jafnvel væri hægt að bjóða hundum af öðrum tegundum að taka þátt í því t.d. úr smáhundadeildinni,  því sumir cavalierar virðast stundum vera algjörir hundarasistar, þegar kemur að öðrum tegundum sem þeir eru ekki vanir að sjá.
Ný göngudagskrá og aðrir viðburðir deildarinnar verða auglýstir fljótlega á cavaliersíðunni en næsta ganga er sunnudaginn 13. apríl og þá göngum við í Öskjuhlíðinni þar sem er falleg og skemmtileg gönguleið. 

Nú á eftir verður kosning til stjórnar og er kosið um 2 sæti. Við Guðríður Vestars höfum lokið okkar 2ja ára tímabili og mun ég ekki gefa kost á mér áfram, enda hef ég sennilega setið í stjórn allt of lengi eða í heil 19 ár. Ég efast ekki um að hér eru áhugasamir cavaliereigendur sem eru tilbúnir að gefa kost á sér í stjórnina auk annarra starfa. Öll vinna á vegum deildarinnar er unnin í sjálboðavinnu og deildin okkar er ekki annað en fólkið sem í henni starfar. Ég vil færa cavaliereigendum mínar bestu þakkir fyrir gott og skemmtilegt samstarf í öll þessi ár og færi tilvonandi stjórn árnaðaróskir.

f.h.stjórnar
María Tómasdóttir, formaður

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s