Aðalfundur haldinn 26. mars 2015 á skrifstofu HRFÍ, Síðumúla 15
Góðir félagar,
Í ár fögnum við 20 ára afmæli deildarinnar en hún var stofnuð 14. maí 1995 í Sólheimakoti. Af því tilefni verður vegleg afmælissýning þann 13. júní n.k. Þetta verður að sjálfsögðu meistarastigssýning og höfum við fengið mjög þekktan og virtan cavalierræktanda og dómara Mrs.Veronicu Hull frá Englandi til að dæma hundana okkar. Veronica hefur ræktað alla liti í cavalier undir ræktunarnafninu Telvara í um 40 ár og dæmt tegundina um allan heim s.l. 35 ár. Áhersla hennar er á heilsufar, langlífi og gott skap í ræktun sinni og um leið að hundarnir séu af réttri tegundagerð. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir enska klúbbinn og haldið fyrirlestra víða um heim um tegundina. Margir hundanna hennar hafa orðið fjörgamlir og alla vega einn hefur náð um 18 ára aldri.
Starfsemi deildarinnar hefur verið á sömu nótum og undanfarin ár. Árið 2013 var mikill samdráttur í ræktuninni en s.l. ár var nokkur aukning, miðað við það ár, þó ræktunin hafi ekki náð þeim hæðum sem hún var í 2007, þegar yfir 150 hvolpar voru ættbókarfærðir. Alls voru 25 got á árinu og 98 hvolpar en árið á undan voru gotin 23 og 84 lifandi fæddir hvolpar. Meðaltal í goti var 3.92 hvolpar.
18 ræktendur voru með got á árinu, þar af 4 nýir ræktendur, einn þeirra yfirtók ræktunarnafnið Kóngalilju, þ.e. Olga S. Marinósdóttir, hinir nýju ræktendur eru Klara Björnsdóttir, Elín Sigurgeirsdóttir og Halla Grímsdóttir. Við bjóðum þær velkomnar í hópinn.
Tíkurnar voru í meirihluta þetta árið en alls fæddust 58 tíkur og 40 rakkar. Litaskiptingin var þannig að mest var af blenheim hvolpum eða 47, ruby hvolparnir voru 21, black and tan 19 en þrílitir aðeins 11 talsins.
Á árinu voru 14 rakkar notaðir til undaneldis. Flesta hvolpana feðraði Bjargar Kaldi, alls 18 hvolpa, næstur honum var Loranka´s Edge Of Glory með 12 hvolpa og Salsara Sovereign átti 11 hvolpa. Flestir hinna voru notaðir einu sinni en nokkrir tvisvar.
Á rakkalistanum nú í byrjun árs, eru 23 rakkar, 2 þrílitir, 14 blenheim, 2 ruby og 5 black and tan. Það er áhyggjuefni, að fáir nýir rakkar bætast á listann, þar sem mjög hefur dregið úr því að eigendur rakka mæti með þá á sýningar og í augnskoðun. Sérstakt áhyggjuefni er staða ruby rakkanna, þeir eru aðeins tveir og annar þeirra hefur nú þegar verið mikið notaður og að verða 8 ára gamall. Tveir ruby rakkar féllu af listanum vegna hjartamurrs, annar aðeins rúmlega 2 ½ árs en hinn 4ra ára gamall. Þessir hundar hafa báðir verið notaðir í ræktun, sá yngri á 17 afkvæmi en hinn 14.
Þetta er mikið áfall fyrir heillitu ræktunina og afkvæmi yngri hundsins ættu alls ekki að fara í ræktun. Ræktendur þurfa að leggjast á eitt við að stuðla að sem bestri hjartaheilsu í tegundinni. Það verður ekki gert ef afkvæmi hunda sem greinast með murr allt of ungir eru notuð til áframhaldandi ræktunar, þar sem það mundi valda miklum skaða í framtíðinni..
Á heimasíðu deildarinnar eru auglýst þau got, þar sem farið hefur verið eftir öllum reglum deildarinnar varðandi heilbrigðisskoðanir. 20 got voru auglýst á síðunni á árinu 2014, en hver auglýsing kostar 2.500.- , innkoman var því 50 þúsund krónur í ár. Tekjur af auglýsingunum eru til að kosta vistun síðunnar og greiðslu lénsins. Auk þess gefur deildin bikara á sumar sýningarnar. Ræktendur eru því hvattir til að auglýsa gotin sín á síðunni og styrkja þar með deildina enda teljum við að það séu meðmæli með goti að það sé auglýst þar.
Enginn cavalier var fluttur inn á síðastliðnu ári.
Hjartaskoðanir
Enn fækkar þeim hjartavottorðum sem deildinni berast en þau voru aðeins 86 á síðasta ári og hefur fækkað ár frá ári. 2013 voru 108 hundar skoðaðir og árið 2012 133 en árin þar á undan hafa vottorðin yfirleitt verið yfir 150. Miðað við hvað fáir hundar virðast greinast með murr núorðið bendir ýmislegt til þess að sumir eigandur afþakki vottorðið ef hundurinn greinist með murr. Þar með er útilokað að vita hvar eru góðar hjartalínur og hvar ekki. Það er nauðsynlegt að hjartavottorð sé tekið á hverju ári til og með þess tíma að hundurinn greinist, að minnsta kosti fyrir þá hunda sem hafa verið notaðir í ræktun. Ræktendur og eigendur undaneldishunda verða að sýna þá ábyrgð að taka vottorðið hver sem útkoman er.
Niðurstaða vottorðanna var þannig:
Undir 2ja ára voru 3 skoðaðir, 2 -3 ára = 15 og 3 – 4 ára = 18 eða alls 36, af þeim greindist einn með murr, rakkinn sem áður er nefndur.
Á aldrinum 4 – 5 ára var 21 skoðaður, þar af 2 með murr á byrjunarstigi.
10 cavalierar á aldrinum 5 – 6 ára voru skoðaðir, 9 voru fríir en 1 með gr. 1.
Á aldrinum 6 – 8 ára voru 17 skoðaðir, 14 voru fríir en 3 með gr 1 -2. Tveir cavalierar á aldrinum 9 – 10 ára voru skoðaðir, annar var frír en hinn með gráðu 1.
Útkoman er því þannig að af 86 cavalierum voru 8 með murr á byrjunarstigi en hinir fríir.
Um leið og hjartahlustun fer fram eru hnéskeljar einnig skoðaðar en sem betur fer er hnéskeljalos nánast óþekkt í tegundinni og vonum við að svo verði áfram.
Örlítil breyting var gerð á hjartareglunni að ósk HRFÍen við hana bættist setningin „ Til að vottorð sé gilt þarf að nota eyðublöð frá HRFÍ. „ að öðru leyti er reglan óbreytt. Allar reglur varðandi undaneldi og skýringar á þeim má vinna á heimasíðu deildarinnar www.cavalier.is undir ræktendur.
Augnskoðanir
43 cavalierar voru augnskoðaðir á árinu 2014, 20 færri en árið áður. Eins og venjulega voru tíkurnar í meirihluta eða 28 en rakkarnir voru 15. Boðið var upp á fjórar augnskoðanir, einni fleira en árið áður.
Tvær tíkur greindust með Retinal Dysplasi, önnur „geographic“ en hin „multifokal“. og voru þær báðar settar í ræktunarbann.
Aðrar athugasemdir voru minniháttar svo sem aukaaugnhár og kólestrolkristallar.
DNA prófum fyrir Episodic Falling og Curly Coat hefur fækkað mikið þar sem í flestum tilfellum er ræktað undan fríum hundum, þó ætti alls ekki að taka arfbera sem eru góðir fulltrúar tegundarinnar úr ræktun og hafa vísindamenn hjá AHT og erfðafræðingar lagt ríka áherslu á að það gæti valdið miklum skaða sé það gert. Alls voru skoðaðir 11 cavalierar, þar af voru 6 arfberar fyrir Episodic Falling.
Reglan í sambandi við DNA prófin er óbreytt og skal niðurstaða DNA prófa liggja fyrir áður en parað er.
Aldursforsetar tegundarinnar eru Drauma Ísar f. 4.4.2001 og Tibama´s Capteins Pride, Dennis f. 13.5.2001. Þeir eru báðir að verða 14 ára gamlir. Ísar er ræktaður af Ingibjörgu Halldórsdóttur en Dennis kom frá Noregi frá Aud Holtskog og er eigandi hans Bjarney Sigurðardóttir. Dennis eignaðist 14 afkvæmi hér á landi og er bæði íslenskur og alþjóðlegur meistari.
Kynning á tegundinni og göngur
Deildin tók þátt í smáhundakynningum í Garðheimum í febrúar og í september á síðasta ári og var aðsókn ágæt í bæði skiptin. Við þökkum þeim sem hafa staðið vaktina þar og kynnt tegundina okkar.
Göngunefnd deildarinnar hefur staðið fyrir 12 göngum á árinu 2014 auk þess að sjá um aðventukaffið. Í langflestum tilfellum fengum við gott veður og góða þátttöku hunda og manna. Fyrsta ganga ársins var samkvæmt venju nýársgangan kringum Tjörnina í Reykjavík, þar sem mjög góð þátttaka var enda frábært veður, logn og 2ja stiga hiti.
Í febrúar var gengið um Fossvogsdalinn í góðu veðri en fljúgandi hálku og var mikið fjör í göngunni, þegar tvífætlingarnir reyndu að fóta sig. Þeim ferfættu gekk nokkuð betur.
Við fengum frábært veður og góða þátttöku í marsgöngunni sem var við Reynisvatn. Mikið fjör var í hundunum sem þurftu þó að sætta sig við að ganga í taumi að þessu sinni, þar sem ekki var ráðlegt að fara upp á heiðina vegna færðar.
Sama blíðskaparveðrið var í aprílgöngunni sem var í Öskjuhlíðinni.
Maígangan hófst í Kaldárseli og síðan var gengið í upplandi Hafnarfjarðar. Í júní var að venju fyrsta kvöldgangan við Rauðavatn og eins og stundum áður í þessari göngu var glampandi sól og 17 stiga hiti. Í Paradísardal er hundunum gefið að drekka og göngufólk tyllir sér, spjallar og nýtur veðurblíðunnar
Langt er síðan við höfum farið í Valaból en í júlí réðum við bót á því, en nú fengum við frekar haustlegt og hryssingslegt veður. Áð var í Valabóli, þar sem er gott skjól og fagurt um að litast.
Í ágúst var kvöldganga við Hvaleyrarvatn. Sól var og 15 stiga hiti. Genginn var skemmtilegur hringur kringum Stórhöfða og stoppað á nokkrum stöðum til að fá sér hressingu. Í september var lausaganga í Varmadal, en þar var lítil þátttaka.
Fjölmennasta ganga ársins var í október en þá var gengið um efsta hluta Elliðaárdalsins, þar mættu rúmlega 50 cavaliereigendur með yfir 40 hunda. Blíðskaparveður var og nutu bæði eigendur og þeir fjórfættu útiverunnar.
Aðventukaffið var haldið 30. nóvember í salnum hjá Gæludýrum á Korputorgi. Spáð hafði verið ofsaveðri en fólk lét það ekkert á sig fá, því samkvæmt gestabókinni mættu 42 tvífætlingar og 37 ferfætlingar. Að venju komu allir með eitthvað á sameiginlegt aðventuhlaðborð en Bjargarræktun Ís-Korku- og Litlu Giljár- ræktun buðu upp á kaffi og gos.
Nýlunda var að heiðraðir voru fimm stigahæstu hundar ársins og mun það framvegis verða tengt þessum viðburði. Stigahæsti hundur deildarinnar var Drauma Bono, eigandi hans og ræktandi er Ingibjörg E.Halldórsdóttir. Hinir voru Ljúflings Hetja, Mjallar Björt, Loranka´s Edge Of Glory og Sandasels Kvika.
Að síðustu var svo jólaganga cavalierdeildarinnar á 3. sunnudegi í aðventu. Þá var gengið í Hafnarfirði og stóð til að heimsækja Jólaþorpið. Það var því miður lokað, þvi spáð hafði verið leiðindaveðri, – það kom þó ekki að sök því allir skemmtu sér vel þrátt fyrir það
Færum við göngunefndinni bestu þakkir fyrir þeirra frábæra framlag til deildarinnar.
Sýningar
Á árinu 2014 voru 5 sýningar á vegum HRFÍ, auk 2 sýninga sem voru eingöngu fyrir hvolpa. Algjört hrun hefur verið hjá okkar deild í þátttöku í sýningum HRFÍ og er það mikill skaði. Erfitt er að meta á hvaða vegi ræktunin er stödd þegar svo fáir hundar eru sýndir og þar að auki oftast sömu hundarnir. Afleiðingin er einnig sú að sárafáir rakkar bætast á rakkalistann. Ekki er gott að segja hvað veldur þessu áhugaleysi. Þegar áhugi var sem mestur á sýningum hjá okkur voru iðulega skráðir jafnmargir og stundum fleiri cavalierar á hverja sýningu en skráðir hvolpar ársins sem ætti að jafngilda því í dag að um 80 – 100 cavalierar væru skráðir á hverja sýningu. Þá hvöttu ræktendur hvolpakaupendur til að sýna til að geta metið árangurinn af ræktuninni en nú virðist eitthvað minna um það. Ef ekki verður því betri skráning á deildarsýninguna okkar í júní, verður þetta örugglega síðasta deildarsýningin okkar í langan tíma.
Fyrsta sýning ársins var Hvolpagleði HRFÍ sem haldin var að Korputorgi, 25. janúar 2014. 120 hvolpar voru sýndir þar af 10 cavalierhvolpar. Dómari var Þórdís Björg Björgvinsdóttir. Besti hvolpur tegundar 4 – 6 mánaða var Mjallar Æska og besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Hrísnes Sonja sem varð 4. besti hvolpur sýningar í sínum flokki.
Vorsýning HRFÍ var haldin 22. – 23. febrúar og voru 35 cavalierar skráðir, þar af 12 hvolpar. Branislav Rajik frá Slóveníu dæmdi cavalierana.en Francesco Cochetti dæmdi tegundahóp 9.
Besti hvolpur tegundar 4 – 6 mánaða var Ljúflings Jarl og besti hvolpur 6 – 9 mánaða var Hrísnes Sonja.
Besti hundur tegundar var ISCh Sandasels Kvika og bestur af gagnstæðu kyni Bjargar Kaldi, sem fékk sitt annað meistarastig, bæði fengu Cacib stig. Eldlilju Melkorka fékk sitt fyrsta meistarastig og vara-Cacib, sem væntanlega verður að fullgildu Cacib stigi ef til kemur. Ljúflings Jarl náði 3. sætinu í úrslitum sýningar í sínum flokki en aðrir komust ekki í úrslit.
Branislav sagðist hafa verið ánægður með heildargæði tegundarinnar. „ Ég var frekar strangur og leitaði eftir góðum topplínum og góðri höfuðgerð. Allir litir komu vel út og ég dæmdi enga hunda sem mér þóttu slæmir !.
Helgina 21. og 22. júní var haldin tvöföld útisýning á flötunum við Reiðhöllina í Víðidal. Fyrri daginn var Reykjavík Winner sýning en seinni daginn afmælissýning HRFÍ og var það alþjóðleg sýning. Þetta var fyrsta útisýning félagsins til fjölda ára og það má með sanni segja að veðurguðirnir hafi strítt okkur í aðdraganda sýningarinnar með úrhellis rigningu og roki, þannig að tjarnir mynduðust á sýningarsvæðinu, en á laugardaginn stytti upp þegar kom að því að sýna cavalierana og á sunnudeginum fengum við sólskin og blíðu svona rétt á meðan við tókum þátt.
24 cavalierar voru skráðir á laugardeginum, þar af 4 hvolpar. Dómari var Ann Marie Mæland frá Svíþjóð.
Besti hvolpur tegundar 4 – 6 mánaða var Prúðleiks Móa Parker en hvorugur hvolpurinn í eldri flokknum fékk heiðursverðlaun og þar af leiðandi enginn besti hvolpur í þeim flokki.
Besti hundur tegundar var Mjallar Von og bestur af gagnstæðu kyni Loranka´s Edge Of Glory. Bæði fengu meistarastig og titilinn Reykjavíkur Winner 2014. Þetta var fyrsta stig Vonar og þriðja stig Loranka´s Edge Of Glory. Cavalierarnir náðu ekki sæti í úrslitum sýningar.
28 cavalierar voru skráðir á sunnudeginum, þar af 3 hvolpar. Dómari var Henrik Johanssen frá Svíþjóð sem kom í forföllum Vincent O Brian frá Írlandi.
Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Prúðleiks Móa Parker en enginn hvolpur í eldri flokknum fékk heiðursverðlaun.
Besti hundur tegundar var Drauma Bono sem fékk sitt fyrsta meistarastig og best af gagnstæðu kyni Ljúflings Hetja með sitt þriðja meistarastig. Bæði fengu Cacib stig. Því miður endurtók sagan sig frá laugardeginum, því enginn cavalier fékk sæti í úrslitum sýningar.
Hvorugur dómarinn lét nokkuð hafa eftir sér um tegundina……
Hvolpasýning HRFÍ var haldin í Mosfellsbæ 26. júlí 2014 og voru 89 hvolpar af 27 tegundum skráðir. Þetta var útisýning í ágætis veðri. 6 cavalier voru skráðir og var Ljúflings Kiljan besti hvolpur tegundar í 3 – 6 mánaða flokki en Kóngalilju Mia í 6 – 9 mánaða flokki. Daníel Hinriksson, dómaranemi dæmdi cavalierana.
Alþjóðleg sýning HRFÍ var haldin 6. og 7. september og var aðeins 21 cavalier skráður og til að bæta um betur mættu 6 þeirra ekki til leiks. Hvolparnir voru aðeins 2.
Sýningin var haldin í Reiðhöllinni í Víðidal og var það mjög ánægjuleg breyting frá Klettagörðum að mati flestra cavaliereigenda. Dómari í okkar tegund var Jussi Liimatainen frá Finnlandi. Hann dæmdi einnig tegundahóp 9 og yngri hvolpaflokkinn.
Besti hvolpur tegundar 4 – 6 mánaða var Ljúflings Kiljan og besti hvolpur 6 – 9 mánaða Prúðleiks Megas.
Besti hundur tegundar var Ljúflings Hetja og bestur af gagnstæðu kyni Drauma Bono. Bæði fengu meistarastig og Cacib. Þetta var annað meistarastig Bono og fjórða meistarastig Hetju sem var of ung til að verða íslenskur meistari, þegar hún fékk þriðja stigið, en síðasta stiginu þarf að ná eftir 2ja ára aldur. Ljúflings Kiljan varð síðan besti hvolpur dagsins í sínum flokki og Ljúflings Hetja komst í 6 hunda úrslit í tegundahópi 9.
Jussi tjáði sig lítið um tegundina í Sámi en sagði þó að cavalierhvolpurinn sem varð besti hvolpur dagsins væri algjörlega frábær. „ Ég veit að ég á ekki að bera saman hvolpa og fullorðna hunda en hann var klárlega besti cavalierinn af öllum og á svo sannarlega bjarta framtíð“.
Nóvember sýning HRFÍ fór fram 8. og 9. nóvember og var einnig haldin í Reiðhöllinni í Víðidal. 749 hundar voru skráðir af 83 tegundum. Aðeins 23 cavalierar voru skráðir þar af 7 hvolpar. Dómari var hinn austuríski Gunther Ehrenreich.
Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Drauma Glódís en enginn hvolpur var skráður í eldri flokknum.
Besti hundur tegundar var ISCh RW-14 Mjallar Björt og bestur af gagnstæðu kyni Bjargar Kaldi. Kaldi fékk sitt þriðja meistarastig og bæði fengu Cacib stig sem var fjórða stig beggja. Ljúflings Hekla fékk sitt fyrsta meistarastig. Enginn cavalieranna komst í úrslit að þessu sinni.
Í Sámi segist dómarinn Gunther Ehrenreich hafa verið mjög ánægður með cavalier hundana sem hann dæmdi og besti rakki og tík voru sérstaklega falleg.“ Mig langar þó að benda ræktendum á að margir hundanna voru með of litlar tennur og neðri kjálka sem er slæmur galli.“
Uppskera ársins varð því sú að við höfum eignast 3 íslenska sýningameistara, þau Loranka´s Edge Of Glory, Ljúflings Hetju og Bjargar Kalda. Tveir alþjóðlegir meistaratitlar eru einnig í höfn og búið að staðfesta annan þ.e. hjá Mjallar Björtu en beðið er staðfestingar fyrir Bjargar Kalda.
Enginn cavalier komst á lista HRFÍ yfir stigahæstu hundana, þar sem þar eru eingöngu hundar sem hafa komist í úrslit í sínum tegundahópi og þetta árið náði enginn cavalier þeim árangri. Tegundahópur 9 er lang erfiðasti hópurinn, yfirleitt 20 tegundir eða fleiri sem keppa, meðan í sumum öðrum grúppum eru sætin sjálfgefin. Því var breytt út af venjunni og deildin verðlaunaði stigahæstu hundana í Aðventukaffinu eins og sagt var hér á undan. Stigahæsti ræktandinn samkvæmt HRFÍ listanum var Ljúflings ræktun.Við þökkum þeim sem hafa gefið bikara á sýningar ársins, en það eru Dýralíf, Dýrabær og cavalierdeildin.
Eins og áður var sagt verður deildin okkar 20 ára í maí og vegleg deildarsýning verður haldin af því tilefni. Til stendur að hafa sama hátt á og á síðustu deildarsýningu að til viðbótar BOB og BOS verði einnig valinn besti cavalier af báðum kynjum í öllum litaafbrigðunum. Hvolpar frá 3ja mánaða aldri geta tekið þátt í sýningunni, en venjulega miðast aldurinn við 4ra mánaða. Nú verða allir ræktendur að hvetja sína hvolpakaupendur til að sýna og allar klippingar og rakstur bannaður þar til eftir sýningu.
Einnig er stjórnin með þá uppástungu að cavaliereigendur geri sér glaðan dag kvöldið fyrir afmælisdaginn 14. maí og fari saman út að borða. Guðrún Birna hefur tekið að sér að skipuleggja það.
Ákveðið hefur verið að hafa hvolpahitting á sumardaginn fyrsta þann
23. apríl. Stefnt er að því að fara fyrst í smágöngutúr í Grafarvoginum og svo býður deildin upp á léttar veitingar og ungviðið fær að leika sér á meðan hjá versluninni Dýralífi upp á Höfða. Allir hvolpar fæddir 2014 eru velkomnir.
Nú á eftir verður kosning til stjórnar og er kosið um 3 sæti. Ingibjörg Halldórsdóttir, Elísabet Grettisdóttir og Edda Hallsdóttir hafa lokið sínu 2ja ára tímabili og mun aðeins Ingibjörg gefa kost á sér áfram.
Helga Finnsdóttir mun síðan flytja stuttan fyrirlestur um innflutning hunda en síðan munum við gæða okkur á þessu veglega kaffihlaðborði, sem göngunefndin og fleiri hafa af rausnarskap útbúið og gefið deildinni í afmælisgjöf.
Þegar allir hafa fengið sér hressingu mun Halldóra Lind fræða okkur um merkjamál hunda.
f.h. stjórnar Guðríður Vestars, formaður
Thaanks for this