Skýrsla stjórnar 2015

Aðalfundur haldinn 8. mars 2016  á skrifstofu HRFÍ, Síðumúla 15

Góðir félagar,

Á síðasta aðalfundi deildarinnar gengu úr stjórn þær Elísabet Grettisdóttir og Edda Hlín Hallsdóttir. Í stað þeirra voru kjörnar þær Gerður Steinarsdóttir og Þóra Margrét Sigurðardóttir til 2ja ára og Ingibjörg Halldórsdóttir var endurkjörin.
Ræktunarráð sem skipað var 2014 starfaði áfram.

Eftir almenn aðalfundarstörf  hélt Helga Finnsdóttir, dýralæknir mjög fróðlegan fyrirlestur um ýmislegt í sambandi við innflutning hunda og kom þar ýmislegt miður huggulegt í ljós sem hundarnir geta borið með sér til landsins.

Eftir kaffi og kræsingar í boði göngunefndar og deildarinnar, hélt Halldóra Lind fróðlegt erindi um merkjamál hunda.

20 ára afmælisár deildarinnar var óvenju viðburðaríkt hvað varðar sýningar, því auk afmælissýningarinnar okkar bauð HRFÍ upp á 7 sýningar auk hvolpasýninganna en meira um það hér á eftir. Sýningum verður fækkað árið 2016, því afkoma hefur ekki verið góð.

Ræktunin var aftur á móti mjög svipuð og árið áður, 22 got á móti 25 árið 2014, en hvolpafjöldinn nánast sá sami eða 97 hvolpar en voru 98 árið 2014. Meðaltal í goti var því töluvert hærra eða 4.41 hvolpur en nokkur stór got hækkuðu meðaltalið sem er óvenjuhátt hjá cavalier s.l. ár.

16 ræktendur voru með got á árinu, þar af 3 nýir ræktendur, Þær eru: Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir með Fjallaliljuræktun, Sigrún Fossberg með Ljóslilju ræktun og Fríða Björk Elíasdóttir með Þórshamrar ræktun. Við bjóðum þær velkomnar í hópinn.

Tíkurnar voru  aðeins í meirihluta þetta árið eins og í fyrra en alls fæddust 50 tíkur og 47 rakkar. Venjulega hefur yfirgnæfandi fjöldi hvolpanna verið í blenheim litaskiptingunni en að þessu sinni sótti bl/tan liturinn fast á, blenheim hvolparnir voru þó flestir eða 35, black and tan 28, hvolpar í ruby lit voru 21 og þrílitir ráku lestina en voru þó 13 talsins, sem sagt 49 heillitir og 48 í brotnu litunum.

Á árinu voru 13 rakkar notaðir til undaneldis. Mest notaði hundurinn var Salsara Sovereign með 5 got og 21 hvolp, næstur Loranka´s Edge Of Heaven með 3 got og 17 hvolpa og í þriðja lagi Eldlukku Ögri sem feðraði 2 got og 14 hvolpa.

Rökkum hefur aðeins fækkað á rakkalistanum en á honum er núna 21 rakki, 1 þrílitur, 11 blenheim 4 ruby og 5 bl/tan. Það er afar slæmt hversu fáir mæta með rakkana sína í augnskoðun og á sýningar svo hægt væri að fjölga úrvali rakka til undaneldis

Á heimasíðu deildarinnar eru auglýst þau got, þar sem farið hefur verið eftir öllum reglum deildarinnar varðandi heilbrigðisskoðanir. Þeim ræktendum sem auglýsa á síðunni okkar hefur fækkað mikið, aðeins 12 got voru auglýst á síðunni árið 2015, svo innkoman var aðeins 30 þúsund krónur, miðað við 50 þúsund árið á undan. Deildin þarf að kosta vistun á síðunni og greiðslu lénsins auk þess sem hún gefur bikara af og til. Ræktendur eru því hvattir til þess að styrkja síðuna með því að auglýsa gotin sín þar. Við teljum það meðmæli með gotinu enda tekið fram að undaneldisdýrin hafi uppfyllt öll þau skilyrði sem HRFÍ setur vegna  ræktunar á tegundinni.

Þó síðan sé að mörgu leyti barns síns tíma, þá er hægt að finna á henni mikið magn upplýsinga sem koma bæði ræktendum og nýjum cavaliereigendum að gagni. Þar eru einnig upplýsingar um flesta þá sjúkdóma sem geta komið upp í tegundinni og leiðbeiningar til ræktenda. Auk þess er hægt að fletta upp sýningarúrslitum mörg ár aftur í tímann, ársskýrslum, fundargerðum og fleiru.
Kostnaður við afmælissýninguna okkar var töluvert meiri en við reiknuðum með, en hallanum var mætt með styrkjum frá nokkrum aðilum, þannig að hún kom út á sléttu..

Tveir blenheim cavalierrakkar voru fluttir inn á árinu 2015 frá Noregi. Þeir eru: Magic Charm´s Artic fæddur 7.2.2015, ræktandi  Unni Olsen og  Kvadriga´s   Surprise, fæddur 17.11.2014, ræktandi Torill Undheim. Eigandi Magic Charm ´s Artic´s er María Tómasdóttir og eigandi Kvadriga´s Surprise, Guðríður Vestars. Báðir þessir hundar hafa mjög góðar ræktunarlínur á bak við sig og koma vonandi stofninum hér til góða.

Hjartaskoðanir
90 cavalierar voru hjartaskoðaðir á árinu 2015 aðeins fleiri en í fyrra en þá voru þeir 86. Þetta er þó mikil fækkun frá fyrri árum en sem dæmi voru 130 cavalierar skoðaðir 2013 og oft upp í 150 á árum áður. Þetta helst í hendur með minnkandi ræktun, því í flestum tilfellum er verið að skoða unga hunda sem á að nota til ræktunar. Fáir virðast taka vottorð þegar hundarnir er ekki lengur notaðir í ræktun og eru komnir með murr en mikilvægt er að taka þessi svokölluðu afmælisvottorð þegar hundurinn fer að eldast til að vita á hvaða aldri murrið greinist fyrst. Ef það væri gert í öllum tilfellum eins og við mælum með, væri e.t.v. hægt að sjá hvort einhverjar hjartalínur eru betri en aðrar. Einnig er örugglega mikið um það að eigendurnir taka ekki vottorð ef hundurinn greinist með murr og því upplýsingarnar ekki tiltækar öðrum en eigendunum sjálfum.

Niðurstaða vottorðanna var þannig:
Undir 2ja ára voru 2 skoðaðir, annar þeirra var með meðfæddan hjartagalla, ekki þó míturmurr. 2ja til 3ja ára voru 15 skoðaðir, 3ja til 4ra ára  = 14,  4ra til 5 ára = 21 eða alls 52, af þeim greindist einn með murr á byrjunarstigi.
19 cavalierar á aldrinum 5 – 6 ára voru skoðaðir, 15 voru fríir en 4 með murr gr. 1
og gr. 2. Á aldrinum 6 – 8 ára voru 13 skoðaðir, 8 voru fríir en 5 greindust með gr. 1.. Fimm cavalierar á aldrinum 8 – 9 ára voru skoðaðir, þrír voru fríir en 2 með murr. Einn 11 ára var svo skoðaður og var hann ennþá án murrs sem er afar sjaldgæft á þessum aldri.

Útkoman er því þannig að af 90 cavalierum voru 7 með murr á byrjunarstigi, 5 með gráðu 2  en hinir fríir.
Um leið og hjartahlustun fer fram eru hnéskeljar einnig skoðaðar. Einn rakki sem áður hafði verið frír,  greindist með gr.1 á öðrum fæti og ein tík greindist með gr. 2 einnig á öðrum fætinum, hún hafði ekki verið skoðuð áður. Auk þess greindist tík með hnéskeljalos á báðum fótum en hún hefur oft verið skoðuð áður og alltaf verið frí, svo þarna er ekki um að ræða arfgengt hnéskeljalos, heldur einhver meiðsli. Eins og sést á þessu heyrir til undantekninga að cavalierar greinist með hnéskeljalos.

Tvær breytingar voru gerðar á hjartareglunni að ósk HRFÍ og deildarinnar og í samræmi við álit Vísindanefndar. Í fyrsta lagi bættist við regluna „ Afkvæmi hunda sem greinast með murr fyrir 4ra ára aldur fara í ræktunarbann,“   Ástæða þess var það alvarlega mál að rúmlega 2 ½ árs gamall rakki sem átti þegar 17 afkvæmi greindist með murr og ekki talið forsvaranlegt að þau afkvæmi yrðu notuð í ræktun. Það er afar sjaldgæft að hundar greinist með murr fyrir 4ra ára aldur, þannig að þessi breyting kemur ekki til með að hafa áhrif, nema í algjörum undantekningartilfellum.
Í slíkum tilfellum ætti alltaf að fá álit annars dýralæknis og ef að hundurinn er frír skv. seinni skoðun, þyrfti að fá álit þriðja dýralæknisins.
Í öðru lagi var eftirfarandi bætt við: „ Einungis eru tekin gild vottorð fagdýralækna sem hlotið hafa þjálfun í að greina hjartamurr hjá hjartasérfræðingi“. Í fyrra var einnig bætt inn í regluna að vottorðin þyrftu að vera á eyðublöðum frá HRFÍ.     Þó þetta hafi ekki verið tekið fram hingað til hefur reglan alltaf verið túlkuð á þennan veg, því það hefur verið skýrt tekið fram í leiðbeiningunum og í skýringum á reglunni. Upp kom dæmi s.l. ár, þar sem almennur dýralæknir taldi að hann gæti gefið út gilt hjartavottorð, þó hann væri hvorki fagdýralæknir né hefði rétt eyðublöð. En gott að þetta er komið inn í regluna þannig að nú er engin hætta á misskilningi.

Reglan hljóðar þá þannig í dag:
„Vottorð undaneldishunda yngri en 5 ára má ekki vera eldra en 6 mánaða við pörun og skulu þeir vera án hjartamurrs. Vottorð eftir að 5 ára aldri er náð gildir í eitt ár. Hunda sem hafa hreint hjartavottorð tekið eftir 6 ára aldur, má nota áfram þó þeir greinist með murr síðar. Vottorð tekið eftir 7 ára aldur undaneldishunda gildir ævilangt. Afkvæmi hunda sem greinast með murr fyrir 4ra ára aldur fara í ræktunarbann. Einungis eru tekin gild vottorð fagdýralækna sem hlotið hafa þjálfun í að greina hjartamurr hjá hjartasérfræðingi. Til að vottorð sé gilt þarf að nota eyðublöð frá HRFÍ. Hjartavottorð þarf að fylgja ættbókarskráningu og niðurstaða kunn fyrir pörun.“
Allar reglur varðandi undaneldi og skýringar á þeim má vinna á heimasíðu deildarinnar www.cavalier.is undir ræktendur.

Augnskoðanir
41 cavalier var augnskoðaður á árinu 2015, sami fjöldi og árið áður, þar af voru 25 tíkur og 16 rakkar. 2 tíkur fóru í ræktunarbann vegna Retinal Dysplasia Geographic og ein vegna Polar catarakt. Einn rakki fór í ræktunarbann vegna Cortical catarakt, hann hafði reyndar verið skoðaður áður og var þetta staðfesting á fyrri úrskurði. Það olli töluverðu uppnámi innan deildarinnar þegar 2 cavalierar voru settir í ræktunarbann auk foreldra sinna vegna PRA gruns, en PRA hefur aldrei komið upp í tegundinni, hvorki hér á landi, í Bretlandi eða Norðurlöndunum svo við vitum til. Sem betur fer kom í ljós í seinni skoðun að þetta var röng niðurstaða og ekkert var að þessum hundum. Eins og áður voru nokkrir sem greindust með Distischiasis eða aukaaugnhár og með cornea dystrophi eða kolestrolkristalla.

Aðeins örfáir cavalierar voru DNA prófaðir fyrir Episodic Falling og Curly Coat á s.l. ári.. Mjög margir cavalierar eru undan fríum foreldrum og þurfa því ekki að taka DNA próf. Arfbera má nota í ræktun og er alltaf eitthvað um það á hverju ári. DNA prófunum gæti þó fjölgað á næstu árum, þar sem ræktendur sem rækta  undan arfberum láta ekki DNA prófa hvolpana og það kemur því í hlut nýrra eiganda seinna meir ef þeir ákveða að rækta.  Aðeins er  ræktað undan litlum hluta stofnins og því óþarfi að DNA prófa aðra en ræktunardýrin.
 
Reglan í sambandi við DNA prófin er óbreytt og skal niðurstaða DNA prófa liggja fyrir áður en parað er, þar sem þess er þörf.

Aldursforsetar tegundarinnar Drauma Ísar og Tibama´s Capteins Pride, Dennis,  fóru báðir yfir móðuna miklu á árinu 2015, rúmlega 14 ára gamlir.. Aldursforseti tegundarinnar í dag er Drauma Rex Robins sem er fæddur  5.11.2001 og er hann því orðinn rúmlega 14 ára gamall. Systir hans Drauma Ronja Robins, náði einnig 14 ára aldri en hún er nýfallin frá. Þau systkinin eru undan Drauma Vöku og Sperringgardens Cachou sem var kallaður Robin og dvaldi hér í rúmt ár sér til mikillar skemmtunar enda feðraði hann 34 afkvæmi hér á þessum tíma.

Sýningar

Á árinu 2015 voru  7 sýningar á vegum HRFÍ auk 20 ára afmælissýningar deildarinnar. Einnig voru 2 sýningar eingöngu fyrir hvolpa í húsnæði Gæludýra.is á Korputorgi.  Skráning á flestar sýningarnar var jafnvel enn lakari en árið 2014 að undanskilinni deildarsýningunni okkar, þar sem 77 cavalierar  voru skráðir. 

Á hvolpasýningunni sem haldin var 24. janúar á Korputorgi voru 8 hvolpar sýndir. Besti hvolpur tegundar 3 – 6 mánaða var Sandasels Dyngja og Drauma Glósdís var besti hvolpur tegundar í 6 – 9 mánaða flokknum. Dómari var Daníel Örn Hinriksson.

Vorsýning HRFÍ var haldin 1. mars og var 21 cavalier skráður,  þar af 9 hvolpar. Hassi Assenmacker-Feyel frá Þýzkalandi dæmdi cavalierana.
Besti hvolpur tegundar 4 – 6 mánaða var Sandasels Dyngja og besti hvolpur 6 – 9 mánaða Skutuls Aþena.
Besti hundur tegundar var Drauma Bono sem varð íslenskur meistari á þessari sýningu og best af gagnstæðu kyni ISCh Ljúflings Hetja sem náði  lokastiginu til alþjóðlegs meistara. Meistarastigið kom í hlut Ljúflings Iðu.  Dómarinn lét ekki hafa neitt eftir sér um álit sitt á tegundinni í Sámi.
Eignarbikara fyrir sýninguna gáfu Bjargar Klaki og Bjargar Kaldi.

Nýlunda var að um hvítasunnuhelgina voru 2 sýningar, önnur var meistarastigssýning en hin var nefnd Norðurljósasýning. Dýrabær gaf bikara á báðar sýningarnar.
Meistarastigssýningin var haldin  24. maí  og voru 20 cavalier skráðir, þar af 2 hvolpar. Dómari var Harto Stockmari frá Finnlandi.
Besti hvolpur tegundar  6 – 9 mánaða var Ljúflings Lay Low.
Besti hundur tegundar var C.I.B.RW-13 ISCh Mjallar Björt og bestur af gagnstæðu kyni Hrísnes Max sem fékk sitt fyrsta meistarastig.  Tíkarmeistarastigið fékk Ljúflings Hekla og var það annað stigið hennar.
Dómarinn tjáði sig ekki um tegundina í Sámi.
Norðurljósasýningin  var haldin 25. og 26. maí. Nýr titill Norðurljósa Winner kom í hlut þeirra hunda sem unnu BOB og BOS á báðum sýningum helgarinnar en því miður voru cavaliernar ekki svo heppnir að ná að skarta þeim titli. 23 cavalierar voru skráðir þar af 3 hvolpar. Dómari var Sóley Ragna Ragnarsdóttir og var þetta frumraun hennar sem cavalierdómari hér á landi.
Besti hvolpur tegundar  4 – 6 mánaða var Hnoðra Rökkvi og besti hvolpur 6 – 9 mánaða Ljúflings Lay Low. 
Besti hundur tegundar  var ISCh Ljúflings Hetja og bestur af gagnstæðu kyni ISCH Drauma Bono. Meistarastigin fengu Ljúflings Kiljan og Drauma Twiggy sem varð  íslenskur meistari á þessari sýningu.

Í viðtali við Sám sagði Sóley Ragna  að hún hefði verið mjög ánægð með gæðin yfir heildina. „Þetta voru vel byggðir hundar almennt. Helstu vandamálin sem ég varð vör við voru of látlausir hausar. Ég hefði viljað sjá fylltari trýni og meiri fyllingu undir augum til að skapa þennan mjúka cavaliersvip sem við þekkjum.Hundarnir hreyfðu sig almennt vel en sumir skeiðuðu þó. Feldur var almennt góður. Eins fannst mér mjög góður andi meðal sýnenda og heiður fyrir mig að fá að dæma svona fallega hunda“. Sóley var mjög hrifin af tíkinni sem varð besti hundur tegundar. „Hún var með réttar útlínur, fallegt andlit, mjúkan svip, stór og dökk augu og rétt staðsett eyru sem mynduðu saman hið fallega höfuð“. Einnig fannst henni tíkin hreyfa sig mjög vel og liturinn var góður. Besti rakki tegundar var einnig mjög fallegur, í góðu jafnvægi og ekki of grófur.“ Hann var með fallegar hreyfingar og andlit sem hefði þó mátt vera örlítið fylltara. Einning fannst mér hann vanta meiri hvítan lit til að brjóta upp heillitinn“.

20 ára afmælissýning deildarinnar fór fram laugardaginn 13. júní á Korputorgi. Dómari var Mrs. Veronica Hull frá Englandi en hún hefur ræktað cavaliera undir nafninu Telvara í rúm  40 ár. 77 cavalierar voru skráðir þar af 10 hvolpar. Hvolpar frá 3ja mánaða aldri gátu tekið þátt og einnig voru litadómar og bestu unghundar sýningar valdir.  Auk þess var brugðið á leik og besta parið valið og glaðasti hundurinn. Dýrabær gaf bikara og deildin gaf stórar og glæsilegar rósettur fyrir öll vinningssætin. Dómaranemi var Daníel Örn Hinriksson sem hefur nú útskrifast sem fullgildur cavalierdómari.
Besti hundur sýningar var Ljúflings Kiljan sem fékk sitt annað meistarastig og best af gagnstæðu kyni ISCh Ljúflings Hetja. Tíkarmeistarastigið kom í hlut Hlínar Jessicu Parker er það hennar fyrsta.
Junior Winner var Ljúflings Kiljan og BOS Hrísnes Selma.
Besti hvolpur sýningar  3 – 6 mánaða var Ljúflings Megas og best af gagnstæðu kyni Ljúflings Mona Lisa.
Litadómarnir fóru þannig að besti black and tan var Drauma Mugison, besti ruby Atti´s Kisses From Happy, besti þríliti hundurinn var  Eldlukku Þula og besti  blenheim Ljúflings Hetja. Þetta var ekki gæðadómur hundanna eins og ætlunin var í fyrstu, því dómarinn ákvað að velja þá hunda sem hefðu besta feldlitinn í þessum fjórum litaafbrigðum og bestu litaskiptinguna  í samræmi við ræktunarmarkmiðið.
Hún tók þó fram að enginn þrílitu hundanna á sýningunni hefði verið nægilega vel litaskiptur.
Í fyrsta sæti um besta parið voru Hlínar Sarah Jessica Parker og Hlínar India og glaðasti hundurinn var Hlínar Asia Noom.

Í tilefni afmælisins 14. maí gerðu cavaliereigendur sér glaðan dag og fóru út að borða kvöldið fyrir afmælisdaginn á veitingastaðnum Nauthól.

4. júlí var aftur hvolpasýning á Korputorgi en þá voru aðeins 2 hvolpar sýndir í 6 – 9 mánaða flokknum. Besti hvolpur tegundar var Ljúflings Merlin Logi.  Dómari var Guðrún Th. Guðmundsdóttir

Helgina 24. – 25. júlí voru 2 sýningar á vegum HRFÍ haldnar á flötunum við Reiðhöllina í Víðidal, auk þess sem hvolparnir voru sýndir á sérsýningu á föstudagskvöldinu.  Jan Törnblom og Joakim Ohlson frá Svíþjóð dæmdu cavalierana en þeir ræktuðu tegundina í fjölda ára undir ræktunarnafninu Hackensack með góðum árangri. Hvolpana dæmdi Ásta María Guðbergsdóttir. Lilja Dóra Halldórsdóttir valdi síðan 4 hvolpa úr hverjum aldursflokki til að keppa til úrslita á laugardeginum en  þar dæmdi Jan Törnblom. Aðeins þrír cavalierhvolpar voru skráðir og varð besti hvolpur tegundar 3 – 6 mánaða  Ljúflings Merlin Logi sem komst í úrslit og hlaut þar 3. sætið um besta hvolp sýningar.

13 cavalier voru skráðir á Reykjavíkur-Winner sýninguna á laugardeginum – dómari var Jan Törnblom.
Besti hundur tegundar var Hrísnes Sonja sem fékk sitt fyrsta meistarastig og BOS var Ljúflings Kiljan með 3. meistarastigið. Bæði fengu Rvk.-Winner-titil. Hrísnes Sonja landaði svo 3. sætinu í tegundahópi 9.
Jan tjáði sig í Sámi og sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með sína eigin tegund. „Skottstaða og croup hefur alltaf verið vandamál í tegundinni og þeir mega ekki hafa of stutt trýni. Ef þeir eru með rétt augu þá eru þeir með dæmigerðan svip fyrir tegundina. Ég hefði viljað sjá mun betri hreyfingar en var hins vegar ánægður með besta hund tegundar sem var mjög klassískur og af réttri stærð og tegundagerð“.

Alþjóðleg sýning HRFÍ var sunnudaginn 26. júlí og þar voru einnig 13 cavalierar skráðir. Dómari var Joakim Ohlson frá Svíþjóð sem hafði ólíkar áherslur og skoðanir en félagi hans og hafði enn minna álit á tegundinni miðað við dómana.
Besti hundur tegundar var ISCh Drauma Bono sem fékk 4. stigið til alþjóðlegs meistara. Enginn rakki var þess verður að fá íslenska meistarastigið að áliti dómarans. BOS var Mjallar Von sem fékk sitt annað meistarastig og fyrsta Cacib.
Sem betur fer tjáði dómarinn sig ekki um tegundina í Sámi.

Alþjóðleg sýning HRFÍ var haldin helgina 19. og 20. september en hvolparnir voru sýndir á föstudagskvöldið, 18. september.  Dómari á hvolpasýningunni var Daníel Örn Hinriksson og varð Teresajo Sabrína Una besti hvolpur tegundar 3 – 6 mánaða.

18 cavaliervoru skráðir á alþjóðlegu sýninguna þar sem Michael Leonard frá Írlandi dæmdi  tegundina. 
Besti hundur tegundar var ISCh Ljúflings Hetja og bestur af gagnstæðu kyni ISCh Drauma Bono. Ljúflings Kiljan fékk sitt fjórða meistarastig og Mjallar Von fékk þriðja stigið og með því íslenskan meistaratitil.
Besti öldungur var Bjargar Klaki en nokkuð langt er orðið síðan öldungar hafa verið sýndir hjá okkur.
Cavalierdeildin gaf eignarbikara fyrir sýninguna.
Í Sámi sagði Michael Leonard að cavalier væri tegund sem hann ætti og ræktaði og varð hann fyrir miklum vonbrigðum með hundana hér en tók þó fram að hann hefði orðið hrifinn af bestu tík og besta rakka tegundar. „Margir hundanna voru með of lítil höfuð og „pigment“ ekki nógu gott yfir höfuð“  er haft eftir Michael.

Lokasýning ársins var svo alþjóðlega sýningin 13. – 15.  nóvember. Hvolpasýningin var kvöldið áður þann 13. nóvember, 9 hvolpar voru skráðir og var dómari  Sóley Ragna Ragnarsdóttir. Besti hvolpur tegundar 3 – 6 mánaða var Drauma Gígja og besti hvolpur 6 – 9 mánaða Teresajo Sabrína Una.

Á alþjóðlegu sýninguna var 21 cavalier skráður, dómari þeirra var Annika Ultveit-Moe frá Svíþjóð.
Besti hundur tegundar var C.I.B.ISCh Ljúflings Hetja og BOS ISCh Drauma Bono.Ljúflings Kiljan fékk 5. meistarastigið og Ljúflings Iða sitt annað.
Besti öldungur tegundar var Kjarna Next Top Model – Týra. Dýrabær gaf eignarbikara.
Eftir Anniku er haft í Sámi að hún hafi verið ánægð með nokkra hundanna en yfir heildina fannst henni ýmislegt vanta. Stærsta vandamálið var „pigment“ sem marga vantaði.

Deildin sér ásamt öðrum deildum um uppsetningu, frágang og vinnu á nóvember sýningu hvers árs og færir stjórnin þeim sem að því komu innilegar þakkir.  Einnig þeim sem gáfu bikara á sýningar ársins.

Uppskera ársins er því þrír íslenskir meistarar, þau Drauma Bono, Drauma Twiggy og Mjallar Von.
Ljúflings Hetja
 fékk staðfestingu á alþjóðlegum meistaratitli en Drauma Bono bíður eftir sinni staðfestingu. Bjargar Kaldi hefur heldur ekki fengið staðfestan sinn titil.

Stigahæstu hundar ársins eftir þessar 8 sýningar voru heiðraðir á aðventukaffi deildarinnar 29.nóvember. Stigahæsti hundurinn var C.I.B. ISCh Ljúflings Hetja, í öðru sæti ISCh Drauma Bono, 3. sæti RW-15 Ljúflings Kiljan og í 4. sæti  C.I.B.RW-13 ISCh Mjallar Björt. Dýrabær færði vinningshundunum gjafapoka fulla af góðgæti sem þeir kunnu vel að meta. 

Stigahæsti ræktandi ársins var Ljúflings ræktun.

Kynning á tegundinni og göngur
Deildin tók þátt í smáhundakynningum í Garðheimum í febrúar og í september á síðasta ári og var aðsókn ágæt í bæði skiptin. Við þökkum þeim sem hafa staðið vaktina þar og kynnt tegundina okkar.

Göngunefnd deildarinnar  hefur staðið fyrir 12 göngum á árinu 2015 auk þess að sjá um aðventukaffið. Veðrið hefur verið með ýmsu móti eins og gengur og gerist hér á landi: Þátttaka hefur verið heldur minni en undanfarin ár í flestum göngunum eða frá 7 hundum og upp í 28 hunda þegar hún var mest. Sennilega verður metþáttakan í Elliðaárdalnum í október 2014 seint slegin en þá mættu 50 cavalierar í einstaklega góðu veðri.

Nýársgangan er alltaf vel sótt en þá mættu 24 cavalierar með eigendum sínum í góðu gönguveðri. Góð þátttaka var einnig í Öskjuhlíðargöngunni 22 cavalierar og í gönguna inn í Valaból mættu 27 cavalierar í yndislegu gönguveðri. Þá mætti einnig myndatökumaður frá RÚV sem fylgdi okkur fyrstu metra göngunnar, en þeir eru að gera þátt eða þáttaröð um hunda. Við eigum sjálfsagt eftir að sjá einhverja  cavaliera þar, þ.e.a.s. ef þátturinn fer í loftið.

Við fengum frábært veður í Paradísardalnum fyrir ofan Rauðavatn í júlí, þá mættu 19 fjórfættir og eins við Hvaleyrarvatnið í ágúst, þar sem 17 ofurhressir hundar mættu með eigendum sínum.

Besta mætingin var samt í jólagöngunni í Hafnarfirði þann 13. desember s.l. en þá mættu 29 eigendur með 28 hunda í gönguna í frábæru veðri.
Aðventukaffið var svo nokkuð vel sótt að venju en 34 prúðir hundar mættu þar með 29 eigendum sínum, þó töluvert færri en árið áður. Þar var spjallað, borðað, hlaupið og þefað, auk þess sem stigahæstu hundar deildarinnar voru heiðraðir eftir sýningar ársins eins og áður var greint frá.
 Allir komu með eitthvað á sameiginlegt kaffihlaðborð.
Færum við göngunefndinni okkar bestu þakkir fyrir sitt góða starf.

Deildin hélt hvolpahitting  þann 23. apríl í húsnæði verslunarinnar Dýralífs upp á Höfða og var það mjög vel sótt. Ungviðið fékk að leika sér og deildin bauð upp á létta hressingu og síðan var farið í stuttan göngutúr í Grafarvoginum. 

Nú á eftir verður kosning til stjórnar og er kosið um 2 sæti. Guðríður Vestars og Guðrún Birna Jörgensen hafa lokið sínu 2ja ára tímabili og munu þær ekki gefa kost á sér áfram. Deildin þakkar þeim fyrir vel unnin störf.

Að loknum fundinum á eftir mun Brynja Tomer flytja mjög áhugaverðan fyrirlestur um ræktun hunda sem við ættum öll að geta haft gagn og gaman af.  Þá getum við líka gætt okkur á þessu glæsilega kaffihlaðborði.


f.h. stjórnar Guðríður Vestars, formaður

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s