Aðalfundur haldinn 14. mars 2019 á skrifstofu HRFÍ, Síðumúla 15, Reykjavík Góðir félagar,Eins og fram kemur í þessari ársskýrslu er óhætt að segja að mikil og góð starfsemi hafi verið í deildinni okkar allt síðasta ár og megum við vera virkilega stolt af því. Got Á árinu voru 25 got og þar af 12 í brotnu litunum og 13 í heillitum og er það örlítil aukning frá fyrra ári en þá voru gotin 22. Ættbókarfærðir hvolpar voru 91 talsins. Meðaltal í goti var 3.64 hvolpar. Alls voru 14 ræktendur með got á árinu, þar af þrír nýir ræktendur: Anna Þórðardóttir Bachmann með Hafnarfjallsræktun, Anna Guðrún Maríasdóttir og Hanna Björg Björnsdóttir en þær hafa ekki enn fengið ræktunarnafn. Við bjóðum þær velkomnar í hópinn. Tíkarhvolpar voru örlítið fleiri þetta árið, eða 47 á móti 44 rökkum. Algengasti litur var blenheim þeir voru 36, svo ruby 20, þá black and tan 19 og þrílitu hvolparnir voru 16. Ekki hafa jafn margir þrílitir hvolpar fæðst síðan 2011, en þá voru þeir 17. Á árinu voru 12 rakkar notaðir til undaneldis. Mest notuðu rakkarnir voru Tröllatungu Myrkvi með 5 got og 17 hvolpa, Hrísnes Krummi Nói 4 got og 20 hvolpa, Sjávarlilju Emil 4 got og 12 hvolpa og Magic Charm´s Artic 3 got og 14 hvolpa. Aðrir rakkar feðruðu eitt got hver. Rakkalisti Aðeins 16 rakkar eru á rakkalistanum nú í byrjun árs og hefur þeim fækkað um fjóra frá því í byrjun síðasta árs. Af þessum rökkum eru 2 þrílitir, 6 blenheim, þar af tveir innfluttir, 4 ruby og 4 black and tan. Það er verulegt áhyggjuefni hversu illa gengur að fá nýja rakka inn á listann en þessi þróun helst í hendur við að færri hundar eru sýndir og augnskoðaðir. Enginn rakki hefur verið fluttur inn frá árinu 2015, en þá voru fluttir inn tveir rakkar frá Noregi, en annar þeirra hefur því miður aðeins feðrað tvö got og er það synd því það er algjörlega nauðsynlegt fyrir okkar litla stofn að fá reglulega nýtt blóð inn í stofninn. Á heimasíðu deildarinnar eru auglýst þau got, þar sem farið hefur verið eftir öllum reglum deildarinnar varðandi heilbrigðisskoðanir en þeim ræktendum sem auglýsa á síðunni okkar hefur fækkað mikið undanfarin ár og voru aðeins 10 árið 2017. Sú ákvörðun var tekin á árinu 2018, eftir að deildinni barst auglýsingastyrkur frá Dýrabæ að upphæð kr. 60.000.- , að bjóða ræktendum fríar gotauglýsingar á síðunni. Ræktendur eru því hvattir til að auglýsa gotin sín þar. Án þessa styrks frá Dýrabæ væri þetta ekki hægt og færir deildin Dýrabæ bestu þakkir fyrir. Við teljum það meðmæli með gotinu að það sé auglýst á síðunni, enda tekið fram að undaneldisdýrin hafi uppfyllt öll þau skilyrði sem HRFÍ setur vegna ræktunar á tegundinni. Á árinu 2018 auglýstu 9 ræktendur á síðunni og kusu flestir að greiða áfram fyrir gotauglýsingarnar og er deildin þeim þakklát fyrir það, því öll framlög til deildarinnar eru vel þegin þar sem deildin þarf að kosta vistun á síðunni og greiðslu lénsins sem var um 28.000.- kr. á árinu auk þess sem hún gefur bikara af og til. Augnskoðanir 56 cavalierar voru augnskoðaðir á árinu. 33 tíkur og 23 rakkar og er það nokkur fjölgun frá fyrra ári, þegar þeir voru 32 . Ein tík greindist með PHTVL gr.1, ein tík með Dysplasia fokal, einn rakki með Dermoid, einn rakki með Katarakt cortical og einn með KCS-dry eye. Enginn þeirra fór í ræktunarbann. Nokkrir greindust svo með Distischiasis eða auka augnhár og nokkrir með Cornea dystrophi eða kólistrol kristalla. Hjartaskoðanir Stjórn deildarinnar stóð fyrir tveimur hjartaskoðunardögum fyrir cavaliera á árinu í samstarfi við dýralækninn Steinunni Geirsdóttir. Fyrri skoðunin fór fram þann 3. maí og mættu 22 hundar á aldrinum 1-11 ára. Af þessum 21 voru 17 fríir en 5 með murr gr. 1-4. Gaman er að geta þess að aldursforsetarnir systurnar Skutuls Dula og Skutuls Dögun voru báðar með hreint hjarta, 11 ára gamlar. Seinni hjartaskoðunardagurinn var svo haldinn þann 18. október en þá mættu heldur færri eða 15 hundar á aldrinum 2-8 ára. Af þeim voru 9 með hreint hjarta en 6 greindust með murr gr. 1-4. Alls bárust deildinni 100 hjartavottorð fyrir cavaliera sem hjartahlustaðir voru á árinu 2018, sem er töluverð fækkun frá fyrra ári en þá voru þau 131 talsins. Það er athyglisvert hvað fáir hundar virðast greinast með murr og bendir ýmislegt til að sumir eigendur afþakki vottorð ef hundurinn greinist með murr. Þar með er útilokað að vita hvar eru góðar hjartalínur og hvar ekki. Það er nauðsynlegt að hjartavottorð sé tekið á hverju ári til og með þess tíma að hundur greinist, að minnsta kosti fyrir þá hunda sem notaðir hafa verið í ræktun. Ræktendur og eigendur undaneldishunda verða að sýna þá ábyrgð að taka vottorð sama hver útkoman er.Niðurstaða hjartavottorða á árinu er þessi: 30 cavalierar á aldrinum eins til 4ra ára voru skoðaðir og vou þeir allir fríir, 19 á aldrinum 4-5 ára og voru 18 fríir en einn greindist með murr gr. 3. Á aldrinum 5-7 ára voru 30 skoðaðir og voru 24 fríir, tveir með gr. 1, þrír með gr. 2 og einn með gr. 3. 20 cavalierar á aldrinum 7-12 ára voru skoðaðir og voru 17 fríir, 2 með gr. 1 og einn með gr. 4. Heildarniðurstaðan er því sú að af 100 skoðuðum hundum voru 89 fríir en 11 með murr gr. 1-4. Aldursforsetar tegundarinnar Aldursforsetar tegundarinnar eru systkinin Óseyrar Andrea, eigandi Gríma Björg Thorarensen og Óseyrar Amor, eigandi R. Ása Ingþórsdóttir. Þau eru fædd 7.8.2004 á Eyrarbakka. Ræktandi þeirra er Hugborg Sigurðardóttir. Foreldrar Andreu og Amors voru Lazycroft Orlando (Bobby) sem var lánaður til Íslands frá Svíþjóð í eitt ár. Móðirin hét Clea en hún var úr 10 hvolpa goti undan Skutuls Tönju og Rivermoor Brackan (innfluttum frá Englandi). Sýningar Á árinu voru 6 sýningar, þar af 4 útisýningar auk fjögurra hvolpasýninga. Þrjár af þessum sýningum voru Norðurlandameistarastigs-sýningar eða NKU sýningar, en það er nýjung inn í sýningaflóruna á Íslandi.Á Norðurlandameistarasýningum eru veitt Norðurlandameistarastig, NKU stig ( Nordic Show Chertifiate ), með svipuðum hætti og CACIB eru veitt á alþjóðlegum sýningum. Tvö stig eru í boði líkt og alþjóðlegu stigin, en ólíkt þeim ganga stigin til sigurvegara í besta rakka og bestu tík tegundar óháð keppnisflokki þeirra. Þannig geta bæði öldungar og ungliðar hlotið Norðurlandameistarastig. Veitt eru varastig fyrir annað sæti. Til að hundur geti orðið Nordic Show Champion ( NORDICCH ) Þarf hann að hafa fengið 3 stig frá þremur mismunandi dómurum og auk þess að vera orðinn Íslenskur sýningarmeistari ( ISCh ). Fyrsta sýning ársins var Alþjóðleg hundasýning HRFÍ sem haldin var í Reiðhöllinni í Víðidal 3. – 4. mars 2018. 21 cavalier var skráður og var dómarinn að þessu sinni íslenskur, Sóley Ragna Ragnarsdóttir. Samtals voru 652 hundar sýndir um helgina og voru þeir dæmdir í 5 sýningarhringjum af fimm dómurum sem voru frá Svíþjóð, Portúgal, Finnlandi og Íslandi. 2 hvolpar voru sýndir föstudaginn 2. mars og dæmdi Sóley Ragna þá líka, en 155 hvolpar voru mættir til að keppa um besta hvolp sýningar í tveimur aldursflokkum. Besti hvolpur tegundar 3-6 mánaða var Eldlilju Darri og besti hvolpur 6-9 mánaða var Drauma Skutla. BOB var ISCh ISJCh RW-16 Magic Charm´s Artic og BOS ISCh RW-16 Drauma Glódís, bæði fengu fjórða Cacib stigið og verða því alþjóðlegir meistarar eftir staðfestingu frá FCI. Þau fengu einnig stig til Norðurljósameistara og var það annað stig Glódísar sem einnig varð Norðurljósameistari, NLM. Rakkameistarastigið kom í hlut Hrísnes Tinna II sem þar að auki fékk sitt annað ungliðameistarastig og er því ungliðameistari ISJCh. Meistarastigið hjá tíkunum kom í hlut Ljúflings Lay Low og var það hennar 3. og hún þar með íslenskur meistari ISCh. Besti öldungur tegundar var ISCh Hrísnes Krummi Nói sem fékk heiðursverðlaun. Ljúflingsræktun sýndi ræktunarhóp sem hlaut fyrsta sæti og heiðursverðlaun. Dýrabær gaf eignarbikara. Dómarinn Sóley Ragnarsdóttir segir í Sámi að cavalierinn hafi verið almennt af góðum gæðum en af frekar ólíkum týpum og fékk hún allan skalann af þeim í hringinn til sín. Hundarnir sem unnu voru virkilega góðir fulltrúar sinnar tegundar. Rakkinn sem sigraði tegundina átti hringinn með sitt „ sjáðu mig, horfðu á mig „ framkomu. Hann var í mjög góðu jafnvægi og með guðdómlegt höfuð. Tíkin sem varð besti hundur af gagnstæðu kyni var einnig dásamleg og full af gæðum en hún hefði viljað hafa aðeins meiri framkomu í henni, ef hún hefði mætt með sama viðhorf og rakkinn þá hefðu úrslitin getað breyst. Almennt voru hundarnir af góðum gæðum og með góða brjóstkassa en hún hefði viljað sjá betur fyllta hausa. Trýnið var stundum of mjótt og vantaði fyllingu undir augun og djúpt stop sem skemmir ljúfu svipbrigðin þeirra. Hvolpana sagði hún almennt af fínum gæðum. Reykjavík-Winner og NKU Norðurlandasýningu HRFÍ 9. júní 2018 Helgina 8 – 10. júní var þreföld útisýning HRFÍ á Víðistaðatúni í Hafnarfirði. Þetta var í fyrsta sinn sem útisýning fer fram þar, en áður hafa útisýningar félagsins farið fram í Víðidal. Umgjörð sýningarinnar var góð og staðurinn fallegur þótt heldur hafi verið kalsalegt og úrkomusamt. Átta dómarar frá 7 löndum dæmdu hundana. Hvolparnir voru sýndir á föstudeginum og voru 100 hvolpar skráðir, þar af 13 cavalierhvolpar, allir í 3 – 6 mánaða flokknum. Christian Jouanchicot frá Frakklandi dæmdi cavalierana. BOB hvolpur var Hafnarfjalls Selmu Rósa og BOS hvolpur Hlínar Pedro. Hafnarfjallsræktun gaf eignarbikara og þátttökumedalíur. Reykjavík-Winner og fyrsta NKU sýning félagsins fór fram laugardaginn 9. júní. 17 cavalierar voru skráðir en 4 mættu ekki. Hans Almgren frá Svíþjóð dæmdi cavalierana. Birgit Seloy frá Danmörku dæmdi tegundahóp 9. BOB var ISCh NLM Hrísnes Max og BOS Litlu-Giljár Arabella. Bæði fengu Nordic cac og titilinn RW-18 og Arabella fékk sitt fyrsta meistarastig. Rakkameistarastigið kom í hlut Kvadriga´s Surprise og var það annað stigið hans. Cavalierdeildin gaf eignarbikara. Dómarinn Hans Almgren segir í Sámi að hann álíti gæði cavaliersins ekki góð og stór vandamál í tegundinni. Cavalier eru algengir fjölskylduhundar og margir sem kaupa þá án þess að huga að gæðum sem leiðir að því að ræktendur rækti til þess að selja fjölskylduhunda en ekki til þess að bæta stofn tegundarinnar. Hann sagði að það þyrfti virkilega að hafa varann á þessu og byrja að vinna að því að bæta stofninn og huga betur að tegundinni. Í sama blaði er haft eftir dómaranum Christian Jouanchicot sem dæmdi hvolpana að hann hefði fengið inn í hring stóran hóp af cavalierhvolpum sem hann var ánægður með , þeir hreyfðu sig allir nokkuð vel þrátt fyrir ungan aldur og voru ljúfir í lund. Það kom honum á óvart gæðamunurinn á tíkum og rökkum þar sem honum fannst tíkurnar betri. Þær voru almennt með sterkari byggingu og betri skottstöðu. Alþjóðleg sýning HRFÍ fór svo fram á Víðistaðatúni í Hafnarfirði sunnudaginn 10. júní. Átta dómarar frá 7 löndum dæmdu hundana. 18 cavalierar voru skráðir en 3 mættu ekki. Birgit Seloy frá Danmörku dæmdi cavalierana og Ozan Belkis frá Tyrklandi dæmdi tegundahóp 9. BOB var ISCh RW-16 NLM Drauma Glódís og BOS ISCh NLM RW18 Hrísnes Max, bæði fengu CACIB stig. Meistarastigin fengu Kvadriga´s Surprise sem fékk sitt 3. stig og er þar með íslenskur meistari og Eldlilju Kastani Coffee sem fékk sitt fyrsta stig, hún fékk einnig stig til ungliðameistara. Cavalierdeildin gaf eignarbikara. Dómarinn lét ekkert hafa eftir sér um tegundina í Sámi. Helgina 24 – 26. ágúst var þreföld útisýning HRFÍ á Víðistaðatúni í Hafnarfirði í dásamlegu veðri sem hélst alla helgina, kærkomin tilbreyting eftir votviðrasamt sumar. Átta dómarar frá 6 löndum dæmdu hundana. Föstudagskvöldið 24. ágúst fór fram hvolpasýning HRFÍ, þar kepptu 147 hvolpar af 35 tegundum um titilinn besti hvolpur sýningar í tveimur aldursflokkum, 3 – 6 mánaða og 6 – 9 mánaða. 23 cavalierhvolpar tóku þátt í báðum aldursflokkunum og voru þeir langflestir af sömu tegund sem er ánægjuleg tilbreyting frá síðustu sýningum, þar sem aðeins örfáir cavalierhvolpar hafa verið skráðir. Marie Petersen frá Danmörku dæmdi cavalierana.Besti hvolpur tegundar 3 – 6 mánaða var Brellu Afríku Kvika og bestur af gagnstæðu kyni Eldlukku Funi Þulu Spori. Besti hvolpur tegundar 6 – 9 mánaða var Hafnarfjalls Selmu Rósa og bestur af gagnstæðu kyni Hafnarfjalls Selmu Jökull. Eignarbikara og þátttökumedalíur gáfu Hafnarfjalls og Eldlukku-ræktun.Dómarinn Marie Petersen segir um hvolpana í Sámi að hún hafi verið vonsvikin með heildargæðin og að þeim skorti meiri týpu. Sigurvegarnir voru af ágætum gæðum. Skapið í tegundinni almennt gott. Hún sagði cavalier væri frábær tegund sem ætti skilið betri framtíð.NKU sýning félagsins fór svo fram laugardaginn 25. ágúst. 20 cavalierar voru skráðir en 1 mætti ekki. Carmen Navarro frá Spáni dæmdi cavalierana. BOB var ISJCh RW-17 Tereasjo Sabrína Una og BOS ISCh Kvadriga´s Surprise . Bæði fengu Norðurlandameistarastig (Nordic Show Certificate). Sabrína Una fékk sitt annað ísl.meistarastig en rakkameistarastigið kom í hlut RW-15 Ljúflings Kiljans og hann því orðinn íslenskur meistari. Besti ungliði var Eldlukku Salínu Sunshine Sera og fékk hún ungliðameistarstig. Cavalierdeildin gaf eignarbikara. Dómarinn Carmen Navarro segir í Sámi að cavalierarnir hafi verið af mismunandi týpum. Megin vandamál tegundarinnar fannst henni vera afturparturinn sem henni fannst ekki vera nógu sterkur. Sumir hafi verið kiðfættir eða ekki nægilega vinklaðir. Hún valdi tík sem besta hund tegundar og sagði hana hafa verið ljúfa með hreinar hreyfingar og af góðum gæðum. Á sunnudeginum fór svo fram Alþjóðleg sýning HRFÍ, í blíðskaparveðri. Átta dómarar frá 7 löndum dæmdu hundana í 8 hringjum. 19 cavalierar voru skráðir en 2 mættu ekki. Marie Petersen frá Danmörku dæmdi cavalierana og tegundahóp 9. BOB var ISCh ISJCh RW-16 Magic Charm´s Artic og BOS ISCh RW-16 NLM Drauma Glódís, bæði fengu CACIB stig. Hrísnes Selma fékk sitt annað meistarastig og Eldlilju Kastani Coffee fékk sitt annað ungliðameistarastig og er þar með orðin ungliðameistari. Cavalierdeildin gaf eignarbikara. Marie Petersen var ánægðari með fullorðnu cavalier hundana heldur en hvolpana sem hún dæmdi á föstudeginum. Hún sagði það vera áhyggjuefni að hvolparnir væru ekki betri. Það voru þó fáir fullorðnir hundar sem voru afburða góðir. Föstudagskvöldið 23. nóvember fór fram hvolpasýning HRFÍ og Royal Canin í reiðhöllinni í Víðidal. Keppt var í tveimur aldursflokkum 3 – 6 mánaða og 6 – 9 mánaða. 14 cavalierhvolpar voru skráðir í báðum aldursflokkunum, 5 í yngri flokknum og 9 í þeim eldri, en 3 hvolpar mættu ekki. Eva Nielsen frá Svíþjóð dæmdi cavalierana. Breytingar hafa verið gerðar á sýningarreglum í hvolpaflokkunum, áður voru veitt heiðursverðlaun fyrir mjög lofandi hvolpa en því hefur nú verið breytt og voru hvolpunum gefnar einkunnir. Um þrjár einkunnir er að ræða. Sérlega lofandi (SL), lofandi (L) og minna lofandi (ML). Hvolpar í 1 sæti með einkunina sérlega lofandi (SL) keppa um besta hvolp tegundar. (BIK = best i klassen). BOB hvolpur 3 – 6 mánaða var Ljúflings Tekla og BOB hvolpur 6 – 9 mánaða var Eldlukku Frán Þulu Lukka. Litlu Giljárræktun gaf eignarbikara og þáttökumedalíur. Haustsýning HRFÍ sem var NKU sýning fór fram 24. – 25. nóvember í Reiðhöllinni í Víðidal. Þar voru skráðir 24 cavalierar og voru þeir sýndir á sunnudeginum. Eva Nielsen frá Svíþjóð dæmdi cavalierana. Á sýningunni voru gefin stig til norðurlandameistara. Besti hundur tegundar – BOB var ISCh Kvadriga´s Surprise og BOS var Hafnarfjalls Unu Tinna, sem er aðeins 10 mánaða. Bæði fengu Norðurlandameistarastig og Tinna hlaut auk þess sitt fyrsta meistarastig og ennfremur ungliðameistarastig og varð hún besti ungliði tegundar. Þau náðu því miður ekki sæti í úrslitum sýningar. Ræktunarhópur frá Hafnarfjalls ræktun fékk 1.sæti og heiðursverðlaun en komst ekki í úrslit. Afkvæmahópur Teresajo Sabrinu Unu, frá Hafnarfjalls ræktun fékk heiðursverðlaun og 1. sæti í úrslitum dagsins. Cavalierdeildin gaf eignarbikara. Deildin sér ásamt öðrum um uppsetningu, frágang og vinnu á Nóvembersýningu hvers árs og færir stjórnin öllum þeim sem að því komu, innilegar þakkir fyrir. Deildin vill einnig koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem gáfu bikara og önnur verðlaun á sýningum ársins. En það voru Dýrabær,Hafnarfjallsræktun, Eldlukkuræktun og Litlu Giljárræktun Uppskera ársins Það er ánægjulegt að segja frá því að alls eignuðumst við 9 nýja meistara árinu. Nýju Alþjóðlegu meistararnir eru þau: Magic Charm´s Artic, Drauma Glódís og Hrísnes Sonja (Sonja bíður þó enn eftir staðfestingu frá FCI). Drauma Glódís fékk svo einnig titilinn “Norðurljósameistari” Nýju Íslensku meistararnir eru einnig þrír og þau eru: Ljúflings Kiljan, Ljúflings Lay Low og Kvadriga´s Surprice. Og svo bættust einnig við 2 Ungliðameistarar á árinu, þau: Hrísnes Tinni II og Eldlilju Kastaní Coffee. Deildin óskar eigendum og ræktendum þessara hunda innilega til hamingju með sýningarmeistarana. Stigahæstu hundar ársins Stigahæstu hundar ársins eftir þessar 6 sýningar eru 1.Drauma Glódís með 35 stig, eigandi og ræktandi Ingibjörg E. Halldórsdóttir. 2. Kvadriga´s Surprise með 33 stig, eigandi Guðríður Vestars, ræktandi Torill Undheim.3. agic Charm´s Artic með 28 stig eigandi María Tómasdóttir, ræktandi Unni L Olsen. 4. Hrísnes Max með 22 stig, eigandi Laufey Guðjónsdóttir, ræktandi Þuríður Hilmarsdóttir.Stigahæsti ræktandi ársins er Ljúflingsræktun með 9 stig. Stigahæstu hundar ársins ásamt aldursforsetunum verða heiðraðir hér á eftir. Sýningarþjálfanir Cavalierdeildin stóð fyrir nokkrum sýningarþjálfunum á árinu og var vel mætt á þær. Þar sem erfitt hefur reynst að fá hentugt húsnæði fyrir þjálfanir deildarinnar, langar okkur að biðja ykkur að hafa samband við stjórnina ef þið vitið um hentugt húsnæði. Kynningarmál Deildin tók þátt í smáhundakynningum í Garðheimum í febrúar og september á árinu og var aðsókn góð í bæði skiptin. Deildin þakkar þeim sem stóðu vaktina og kynntu okkar ástsælu tegund. Viðburðir Þrír viðburðir voru á vegum deildarinnar á síðasta ári. Hvolpahittingur var haldinn í Sólheimakoti þann 28. maí og heppnaðist mjög vel. Samkvæmt gestabók mættu 52 tvífætlingar með 30 hvolpa. Þrátt fyrir slæmt veðurútlit rættist ótrúlega vel úr veðrinu og sól skein í heiði og menn og hundar nutu samverunnar. Deildin bauð upp á veitingar fyrir fólkið og Dýralíf upp á nammi fyrir hvolpana. Hvolpasýning Cavalierdeildarinnar Sýningin fór fram að Sörlastöðum í Hafnarfirði 30. september og voru 25 hvolpar skráðir á sýninguna á aldrinum 3ja til 9 mánaða. Þetta er fyrsta hvolpasýning deildarinnar með þessu sniði, þar sem allir hvolpar fengu umsögn en ekki var keppt um sæti, þannig að allir fóru heim sigurvegarar. Allir fengu verðlaunapening fyrir þátttökuna og góðgæti frá Dýrabæ sem var styrktaraðili sýningarinnar og bauð gestum einnig upp á veitingar en alls mættu um 80 manns. Þetta var einstaklega skemmtilegur viðburður og gaman var að fylgjast með þessu fallega ungviði og sýnendum þeirra. Dómari var Daníel Örn Hinriksson og ritari Guðbjörg Guðmundsdóttir. Stjórnin þakkar þeim fyrir frábær störf, einnig þakkar hún Dýrabæ fyrir rausnarskapinn og hestamannafélaginu Sörla fyrir frí afnot af salnum. Aðventukaffi Hið árlega aðventukaffi deildarinnar var haldið í Sólheimakoti 2. desember og tókst vel til að vanda. 18 cavalierar , margir prúðbúnir, ásamt 21 tvífættlingi mættu á staðinn. Þeir sem kusu fóru í stutta göngu í fallegu en köldu veðri áður en sest var að glæsilegu kaffihlaðborði sem gestir lögðu til, en kaffi og gos var í boði Drauma ræktunar. Göngur Á síðasta aðalfundi var ekki skipað í göngunefnd heldur tók stjórn að sér að sjá um og skipuleggja göngurnar. Ástæða þess var að mæting hafði verið með lélegasta móti undanfarin ár án þesss að einhver augljós skýring væri á því. Stjórnin lagðist undir feld og ákvað svo að prófa að hafa göngurnar færri , eða annan hvern mánuð og jafnframt miða við að hafa göngur frekar léttar svo flestir hefðu kost á að vera með. Okkur finnst hafa tekist nokkuð vel til og mæting verið þokkaleg þrátt fyrir eitt votviðrasta sumar ásins. Þá er það niðurstaða stjórnar að það sé nauðsynlegt að hafa starfandi göngunefnd innan deildarinnar. Göngurnar voru 7 á árinu og fyrsta gangan var Nýjársgangan í kringum Reykjavíkurtjörn og var hún vel sótt að venju, 30 manns og 25 hundar . Í mars var gengið um Grafarvoginn og mættu 12 manns og 16 hundar.Í maí var gengið um Elliðaárdalinn og mættu þar aðeins fjórir með 4 hunda. Í maí var síðan gengið við Reynisvatn og þá mættu 15 manns og 16 hundar. Sumarhittingur var svo í Sólheimakoti í júní og þar mættu 17 mann og 15 hundar. Í ágúst var farið í bæjarrölt í Hafnarfirði og endað á kaffihúsinu Pallet, þar sem vel var tekið á móti hundum og mönnum. Góð mæting var í þessa göngu en talningu vantar. Síðasta ganga ársins var svo jólagangan í Hafnarfirði. Í gönguna mættu 14 manns og 16 hundar. 50 ára afmæli Hundaræktarfélags Íslands. Hundaræktarfélag Íslands verður 50 ára þann 4. september næstkomandi og af því tilefni hefur félagið sett á laggirnar afmælisnefnd. Afmælisnefndin hélt svo fund með formönnum deilda í byrjun þessa árs til skrafs og ráðagerða þar sem farið var yfir hugmyndir um hvernig mætti fagna þessum tímamótum. Ekkert hefur enn verið ákveðið en þetta verður örugglega eitthvað skemmtilegt og gaman að taka þátt í. Nú á eftir verður kosning til stjórnar og verður kosið um 3 sæti. Þóra Margrét Sigurðardóttir, Ingibjörg E. Halldórsdóttir og Gerður Steinarrsdóttir hafa allar lokið sínu 2ja ára tímabili. Þóra Margrét og Ingibjörg gefa ekki kost á sér til áframhaldandi starfa en Gerður sækist eftir endurkjöri. Deildin þakkar þeim fyrir vel unnin störf. Á árinu var ákveðið að sækja um kennitölu fyrir deildina og er þeirri vinnu lokið. Stjórnin þakkar ykkur öllum fyrir gott samstarf á árinu. Eins og áður var sagt, munum við að loknum fundinum heiðra stigahæstu hunda ársins og aldursforsetana og síðan mun Auður Sif Sigurgeirsdóttir, flytja okkur erindi um “Sýningarhundinn”. F.h. stjórnarGerður Steinarrsdóttir | |