8. stjórnarfundur 2024-2025
23. janúar 2025 kl. 17:00
Staðsetning: Spíran Garðheimum
Mættar: Anna Þórðardóttir Bachmann, Bergþóra Linda Húnadóttir, Guðríður Vestars, Sunna Gautadóttir og Svanhvít Sæmundsdóttir
Fundur settur kl. 17:20
Afgreitt milli funda:
Bingó og heiðrun stigahæstu hunda og ræktenda sýningaársins 2024 fór fram þann 19. janúar síðastliðinn. Vel var mætt á viðburðinn og allt gekk vel. Við þökkum bæði fyrirtækjum og einstaklingum sem gáfu vinninga og öllum sem mættu fyrir styrkinn. Frábær fjáröflun fyrir tvöföldu deildarsýninguna okkar í vor.
Á dómaraáætlun HRFÍ má sjá að meðal dómara í júní er Jan Törnblöm og í ágúst kemur Joakim Ohlsson. Þeir ræktuðu saman cavalier undir ræktunarnafninu Hackensack og eru því sérfróðir um tegundina. Stjórn sendi erindi til HRFÍ og óskaði eftir að þeir dæmi okkar tegund í sumar. Nú þegar hefur verið birt hvaða dómari dæmir hvaða tegundir í júní og fáum við ósk okkar uppfyllta þar, vonandi mun Joakim Ohlsson svo einnig dæma cavalier þegar þar að kemur.
Dagskrá fundar:
- Ársfundur deildarinnar
Verður haldinn 13. febrúar og næstu dagar fara í að taka saman tölfræði o.fl. fyrir ársskýrslu. Þrjú stjórnarsæti til tveggja ára eru laus.
- MRI skönnun
Mögulega þarf að sækja um sérstakt rannsóknarleyfi en það kostar töluverða upphæð, þá þarf einnig að senda inn greinargerð með rökstuðningi o.fl. Við þurfum að athuga hvort hægt sé að fara aðra einfaldari leið að þessu.
- Viðburðir
Ætlum að halda hvolpahitting einhvern tímann með vorinu.
Sýningaþjálfun fyrir marssýningu verður haldin 11. – 18. og 25. febrúar. Þessar þjálfanir eru okkar helsta fjáröflun.
Gaman er að segja frá því að risastórt sýningaár er framundan og fyrir cavalier eru í boði 11 sýningar. Tvær þeirra eru eingöngu ætlaðar hvolpum 3-9 mánaða en hinar níu fyrir allan aldur. Þar af koma þrjár tvöfaldar sýningar í röð, deildarsýningarnar okkar 10. og 11. maí og nú verða sumarsýningar HRFÍ í júní og ágúst báðar tvöfaldar.
Undirbúningur deildarsýningar heldur áfram. Næst á dagskrá að panta rósettur.
Fundi slitið kl. 18:30
Fundargerð ritaði Sunna Gautadóttir