15. stjórnarfundur Cavalierdeildar HRFÍ 2021-2022

Fundur haldinn rafrænt á Teams þann 6. febrúar 2022

Mættar: Gerður Steinarrsdóttir, Svanhvít Sæmundsdóttir, Valka Jónsdóttir.

Dagskrá:

  • Dómur um ræktunarbann í Noregi
  • Ársfundur fyrir liðið ár 2021
  • Deildarsýning 
  • HRFÍ- Sýning í mars
  • Vorhátíð í Sólheimakoti –  Tombóla
  • Cavalier – Ganga
  • Fræðslumoli
  • Önnur mál

Efni fundar:

Dómur um ræktunarbann í Noregi

Dómur féll í Noregi á mánudag í máli dýraverndunarsamtaka þar í landi gegn NKK, nokkrum ræktendum og ræktunardeildum félagsins þar sem niðurstaðan varð að ræktun á Cavalier og Enskum bolabít var bönnuð í Noregi, þó eru tegundirnar sjálfar og eignarhald á þeim ekki bannaðar. 

Afleiðingar þessa, standi niðurstaðan óhögguð geta m.a. verið þær að það opnist frekar leið fyrir aðila til ræktunar sem ekki huga að heilsu eða skráningum tegundanna.  Stjórn hefur óskað eftir fundi með HRFÍ vegna þessa máls.  Það er mikilvægt að deildin standi vörð um ræktun tegundarinnar þ.e. ekki verið hnikað frá reglum eða tilmælum deildarinnar varðandi heilsufar ræktundardýra.  Sem dæmi um það er að ekki séu yngri en 2 ½ árs dýr notuð í ræktun.  Oftast eru  einkenni sjúkdóma t.a.m. holmænu komin fram hjá dýrum sem  komin eru á þennan aldur. Einnig hafa foreldrar ræktunardýrs náð 5 ára aldri og ættu þá að vera án míturmurrs og annarra sjúkdóma.  Skoða þarf hvort endurskoða þurfi þær heilbrigðiskröfur sem deildin gerir til undaneldisdýra í ljósi dómsins í Noregi.

Ársfundur fyrir liðið ár 2021

Ákveðið að halda ársfund Cavalier-deildarinnar fimmtudaginn,  17. mars 2022 á skrifstofu HRFÍ að Síðumúla 15,  kl. 20.  Fundurinn verður auglýstur fljótlega.  Það eru tvö sæti laus til stjórnar sem kjósa þarf um á ársfundinum.   Einnig þarf að huga að því hvort fleiri vilji ekki gefa kost á sér í göngunefndina.

Deildarsýning

Norma Inglish mun dæma á sýningunni. Hún hefur einnig samþykkt að auk hefðbundinna verðlauna verða einnig verðlaunaðir bestu hundar í hverjum lit. Kynning á dómara mun koma á síðu deildarinnar á næstu dögum.  

Búið er að stofna sýninganefnd, sem mun vinna með stjórn að því að deildarsýningin verði okkur öllum til sóma.  Í sýningarnefnd eru Anna Þ. Bachmann, Guðríður Vestars og Kristín Bergsdóttir, auk stjórnar.  Búið að boða fyrsta fund sem verður nú í febrúar.  

HRFÍ-sýning í mars

Anna Þ. Bachmann hefur tekið að sér að halda sýningarþjálfun fyrir deildina og er henni þakkað kærlega fyrir það óeigingjarna starf.  Fyrsta sýningaþjálfunin verður 10. febrúar nk. að Eirhöfða en sýningaþjálfunin verður sérstaklega auglýst.  

Vorhátíð í Sólheimakoti – Tombóla

Þar sem ekki var hægt að halda aðventukvöld né nýársfögnuð vegna samkomutakmarkana, er ákveðið að fagna vori og nýrri tíð með blóm í haga, með því að halda vorhátíð þar sem engar samkomutakmarkanir verða (vonandi) því veiruskrattinn er á undanhaldi. 
Þá verður tombólan haldin til styrktar deildarsýningunni á vorhátíðinni.   Vonandi sjá flestir sér fært  að mæta og styrkja deildina. 

Frá göngunefnd

Stefnt er á að halda næstu göngu þar sem verið er að aflétta öllum samkomu takmörkunum en hún er áætluð 12. febrúar og verður gengið í kringum Reynisvatn.

Fræðslumoli

Nýlega var ritaður áhugaverður fræðslu pistill um fimm mismunandi leiðir í mataræði fyrir hunda og áhugavert að heyra hvort fólk hafi prófað þessar ólíku leiðir.  Næsti moli verður sendur út í lok febrúar. 

Önnur mál

Huga þarf að næstu hjartahópsskoðun en mikilvægt er að doka við um stund þar til hundapestin sem hrjáir hunda í dag gengur yfir. Stefnt er á mars eða apríl.

Fundi slitið kl. 12.00. Fundargerð ritaði Valka Jónsdóttir