Skýrsla stjórnar 2021

Skýrsla stjórnar 2021

Ársfundur Cavalierdeildar HRFÍ haldinn 17. mars 2022 á skrifstofu HRFÍ, Síðumúla 15, Reykjavík

.

Kæru félagar og vinir. 

Annað óvenjulegt starfsár er að baki sem markast af veiruskrattanum Covid 19 og hafa takmarkanir og veikindi og fleira sett strik í ársstarfið.  Þó var ýmislegt gert með varnfærnissjónarmiðum og sóttvarnarhugsun að leiðarljósi. Þrátt fyrir Covid19 náði deildin að halda úti töluverðu starfi með þó röskun á nokkrum viðburðum þar sem annað hvort þurfti að fresta eða aflýsa.

Í stjórn Cavalierdeildarinnar sitja nú eftirtaldar :  

Valka Jónsdóttir, Gerður Steinarsdóttir og Svanhvít Sæmundsdóttir. 

Tveir stjórnarmeðlimir, Björk Grétarsdóttir og Fríða Björk Elíasdóttir sem sátu í stjórn árið 2020 og hefðu átt að venju að sitja árið 2021 ákváðu að gefa ekki kost á sér til framhaldssetu þar sem kosning þeirra í fyrra var talin ólögmæt og höfðu þær ekki áhuga á að láta endurkjósa sig inn í stjórn vegna þessarar stöðu. Ákvað stjórn því að nýta sér heimild í lögum um að hafa einungis þrjá í stjórn þetta árið.

Á starfsárinu hefur stjórn deildarinnar haldið fjölmarga reglulega stjórnarfundi.   Aðstæður kallað á töluverðan fjölda veffunda í gegnum Teams eða aðra slíka miðla.

Auk reglulegra stjórnarfunda hafa stjórnarmeðlimir verið í ýmsum samskiptum við félagsmenn, göngunefnd deildarinnar, starfsfólk HRFÍ, dýralækna og fleiri. 

RÆKTUN

Got

Fjöldi gota á árinu voru 20 sem er ánægjulegt því það hefur verið stígandi í fjölda gota frá árinu 2019, þegar fjöldi gota var í sögulegu lágmarki.  En betur má ef duga skal því þetta er langt frá því sem áður var.  Sé horft til skiptingu lita þá voru 13 got í brotnu litunum og 7 í heillituðum.  

Ættbókarfærðir hvolpar voru 85 enn og aftur fjölgun og einnig ánægjulegt að segja frá því að meðaltali var 4,25 hvolpur í goti sem er næst hæst frá því 2015 þegar meðaltalið var 4,41 hvolpur.  

Skipting hvolpanna var þannig að 48 rakkar fæddust og 37 tíkur sem er viðsnúningur frá því í fyrra og árið þar á undan þegar mun fleiri tíkur fæddust.

.

Litir hvolpanna skiptust eftirfarandi:  Eins og áður þá eru blenheim hvolpar fjölmennastir eða 40 stykki.  Því næst kom ruby liturinn með 16 hvolpa, þá black og tan með 15 hvolpa og þrílitir voru 14.  

Árið 2021 voru 12 rakkar notaðir við pörun og er listinn settur upp eftir fjölda gota og hvolpa. 

Ánægjulegt er að segja frá því að alls voru 16 ræktendur með got á árinu  Það þarf að leita aftur til ársins 2015 sem svo margir ræktendur voru með got.   

Af þessum 16 ræktendum komu 7 nýir ræktendur inn í hópinn og er virkilega ánægjulegt að sjá svo marga nýja koma inn í ræktunarstarfið.  Eftirtaldir eru nýir ræktendur í stafrófsröð:

  • Esju ræktun – Svanhvít Sæmundsdóttir,
  • Hanna Guðfinna Benediktsdóttir
  • Hvammsheiðar ræktun – Hrund Thorlacius,
  • Koparlilju ræktun – Valdís Ósk Ottisen (nýr rétthafi)
  • Miðkots ræktun – Sunna Gautadóttir,
  • Skaga ræktun – Svava Ragnarsdóttir,
  • Sólrún Júlía Vilbergsdóttir

Við bjóðum þessa ræktendur hjartanlega velkomna og óskum þeim alls hins besta í ræktunarstarfinu þeirra.

 Á heimasíðu deildarinnar eru auglýst þau got, þar sem farið hefur verið eftir öllum reglum deildarinnar varðandi heilbrigðisskoðanir og teljum við það meðmæli með gotinu sé það auglýst á síðunni.  Ekki hafa margir ræktendur nýtt sér þetta þótt auglýsingin sé endurgjaldslaus á síðunni og viljum við hvetja ræktendur til að auglýsa got sín þar. Það má þó segja að þeir ræktendur sem settu auglýsingu á vefinn styrktu deildina með því að borga fyrir auglýsinguna. Deildin er þeim þakklát fyrir það þar sem fastar tekjur eru engar og nauðsynlegt er að afla fjár til að geta rekið deildina með sómasamlegum hætti. 

Sú nýjung var framkvæmd, það að halda til haga gotlista ársins á vefnum og veita því upplýsingar um þau, þ.e. gera það sýnilegt að ræktendur eru að standa sig.  Gotin voru sett á listann þegar búið var að gefa út ættbækur.  Á listanum eru upplýsingar um fæðingardag, nafn ræktanda og nafn föður og móður.

Rakkalisti

Á rakkalistanum í árslok 2021 voru 17 rakkar.

Það voru 6 í heillitum (1 ruby og 6 B/T) og 11 í brotnu litunum (9 blenheim (þar af tveir innfluttir) og 2 þrílitir).

Þess má geta að margir rakkar sem áður voru á listanum voru á undanþágu frá HRFÍ þar sem augnskoðun hafði ekki farið fram. Ennfremur bættust nokkrir nýir rakkar við á rakkalistann  sem aldrei höfðu farið í augnskoðun en komu inn á undanþágu frá HRFÍ .

Á heimasíðunni okkar má nú finna myndir af rökkum á rakkalista, þ.e. myndir af þeim rökkum á rakkalista sem eigendur hafa sent inn og óskað eftir að myndin sé birt þar.

Innflutningur

Á árinu 2021 var enginn hundur fluttur inn en fjórir rakkar voru innfluttir og skráðir hjá HRFÍ árið áður 2020. Það er vonandi að það verði einhverjir hundar fluttir inn á árinu 2022 þar sem það fer að stefna í óefni með skyldleika. 

Aldursforsetar tegundar  

Aldursforseti deildarinnar árið 2021 er Óseyrar Bóas Castro en hann er fæddur 7. júní 2006. Hann varð því 15 ára og 6 mánaða um áramótin síðustu.  Hann er því orðinn þriðji elsti cavalierinn frá upphafi.  Foreldrar hans eru þau Magic Charm´s Andreas og Skutuls Fífa. Eigandi hans er Guðrún Björnsdóttir  og ræktandi hans er Hugborg Sigurðardóttir.  

Einnig er vert að nefna að óvenjumargir lifandi Cavalier hundar hafa náð 15 ára aldri. Eftir því sem best er vitað eru a.m.k. 4 hundar orðnir 15 ára og eldri.

Á árinu var farið í það verkefni að yfirfara öldungalistann og gera hann eins réttan og mögulegt var.  Einnig var farið í það að óska eftir myndir af öldungum.  Bárust margar myndir og er óskaplega gaman að skoða þær.  Við erum hvergi nærri hætt og viljum gjarnan fá fleiri myndir af öldungum inn á vefinn. 

HEILSUFAR

Augnskoðanir

Vegna Covid 19 var ekki hægt að fá dýralækna til landsins og því gaf HRFÍ öllum tegundum undanþágu til ræktunar án augnvottorða á meðan ekki væri hægt að bjóða upp á þær skoðanir sem til þarf.  Það var þó skilyrði að ræktunardýr væru með staðfestan og greiddan tíma í næstu skoðun sem boðið væri upp á og myndu mæta í hana.

Eftir langa bið voru svo tvær augnskoðanir á árinu, í lok október og svo aftur í desember. Vel var mætt í augnskoðanirnar en alls mættu 82 hundar árið 2021, 50 tíkur og 32 rakkar.

Í fyrsta sinn voru niðurstöður sendar rafrænt inn á hundavef HRFÍ og var svolítil bið eftir þeim. Margt fólk var óþreyjufullt enda mikið í húfi. Niðurstaðan var eftirfarandi:

  •  1 tík greindist með PHTVL gr.1 (Persistent hyperplastic primary vitreous)
  •  4 tíkur og 1 rakki greindist með Retinal Dysplasia (Multi)fokal,
  •  2 tíkur greindust með Retinal Dysplasia  Geografisk,
  •  1 rakki greindist með Kataract puncata,
  • 1 rakki greindist með Kataract cortical
  • 1 rakki greindist með Ektropion/Makroblefaron.
  • Nokkrir greindust svo með með Distichiasis eða auka augnhár og nokkrir með Cornea Dystrophi eða Colestrol kristalla.

Hrein augnvottorð fengu 25 tíkur og 17 rakkar.

HRFÍ var ekki búið að setja nein dýr í ræktunarbann um áramót en ljóst var að einhverjir hundar myndu sæta slíku banni.

Hjartaskoðanir

Deildin stóð fyrir tveimur hjartaskoðunardögum fyrir tegundina á árinu 2021.

Fyrri skoðunin fór fram þann 24. febrúar og mættu 13 hundar á aldrinum 1 – 13 ára.  Af þessum 13 voru 11 fríir en 2 með murr gr. 1-2. Seinni hjartaskoðunar dagurinn var svo þann 25. október og þá mættu 28 hundar á aldrinum 2ja-10 ára. Af þeim voru 20 með hreint hjarta en 5 greindust með murr gr. 1-3.

Þess má geta að enginn hundur yngri en 6 ára greindist með murr í þessum skoðunum sem er virkilega ánægjulegt. 

Það er athyglisvert hvað fáir hundar greinast með murr þegar litið er á þau vottorð sem tekin eru utan hópskoðana deildarinnar og því er full ástæða til að ítreka nauðsyn þess að skila inn vottorði ef og þegar hundur greinist með murr í fyrsta sinn, því öðruvísi er nánast ómögulegt að meta hvar góðar hjartalínur liggja.  Ræktendur og eigendur undaneldishunda verða að sýna þá ábyrgð að taka vottorð sama hver útkoman er.  Það er ekki hvað síst mikilvægt að fylgja því vel eftir með þá rakka sem eru á rakkalistanum.   

Niðurstaða hjartavottorða á árinu er þessi:

45 cavalierar á aldrinum 1-4 ára voru skoðaðir og voru þeir allir fríir, 12 á aldrinum 4-5 ára og voru þeir einnig allir fríir.  Á aldrinum 5-7 ára voru 28 skoðaðir og voru 24 fríir, einn með gr. 1 og einn með gr. 2 og tveir með gr. 3.  Átján á aldrinum 7-13 ára voru skoðaðir og voru 10 hreinir, þrír með gr.1, þrír með gr. 2 og tveir með gr. 3.  Hjartavottorðin voru því alls 103 og af þeim voru 12 greindir með murr eða hlutfall 11,7%. Heildarniðurstaðan er því sú að af 110 skoðuðum hundum voru 98 fríir en 12 greindust með murr gr. 1-3 eða alls 11,7%

DNA vottorð. 

54 cavalierar voru DNA testaðir þar af voru tveir berar fyrir EF.  18 af þeim voru skoðaðir í hóp skoðunum deildarinnar.

Hnéskeljaskoðun

Í hnéskeljaskoðun sem allaf er gerð samhliða hjartaskoðun greindist aðeins ein tík með hnéskeljalos og var hún greind með gr. 2 á báðum hnjám. 

SÝNINGAR OG ÞVÍ TENGT

Sýningar

Vegna samkomutakmarkanna voru ekki allar áætlaðar sýningar haldnar á vegum HRFÍ.  

Sýningarárið hófst með hvolpasýningu þann 12. júní þar sem eingöngu var notast við íslenska dómara.  Þetta var úti sýning haldin á Víðistaðatúni í Hafnarfirði.  Alls voru 13 cavalier hvolpar sýndir og var Herdís Hallmarsdóttir dómari.  

Besti hvolpur 3 til 6 mánaða (Best minor puppy) var Þórshamrar Sölku Pría Sól. Hún fór svo inn í stóra hringinn en skv. eiganda orðin mjög þreytt og komst því ekki áfram þar. Besti hvolpur 6 – 9 mánaða (Best puppy) var Mjallar Týr. Hann mætti ekki í stóra hringinn til að keppa á móti hinum tegundunum.

Þess má geta að einnig á þessari sýningu var boðið upp á unga sýnendur og tóku sex cavalierar þátt enda frábær tegund fyrir unga sýnendur að æfa sig og læra að sýna.

Tvær sýningar voru haldnar ágúst á árinu á vegum HRFÍ .

Reykjavíkur Winner og NKU  Norðurlandasýning HRFÍ var haldin þann 21. ágúst 2021.

Alls voru 53 cavalierar skráðir það af 4 hvolpar.  Dómari var Sóley Halla Möller frá Íslandi.  

  • BOB og RW-21 var ISJCh RW-17 Teresajo Sabrína Una, eigandi Anna Þórðardóttir Bachmann og rækt. Dominika Troscianko / Teresa Joanna Troscianko.
  • BOS og RW-21 var ISCh RW-17 Ljúflings Merlin Logi, eigandi Rúnar Már Sverrisson og Guðbjörg Björnsdóttir og ræktandi María Tómasdóttir. 

Þau fengu bæði NKU stig og Teresajo Sabrína Una fékk sitt þriðja íslenska meistarastig og er því orðin íslenskur meistari. 

  • Rakkameistarastigið kom í hlut Eldlukku Mjölnis og er það hans annað stig.
  • Besti ungliði með ungliðameistarastig var Bonitos Companeros Mr. Spock. 
  • Besti hvolpur 4-6 mánaða var Hafnarfjalls Karlottu Moli Kári. 
  • Besti hvolpur 6-9 mánaða var Þórshamrar Sölku Pría Sól.  

Ræktunarhópur frá Hafnarfjallsræktun fékk 1. sæti og heiðursverðlaun.

Afkvæmahópur  Teresajo Sabrinu Unu  fékk heiðursverðlaun og 1. sæti í úrslitum dagsins.

Sunnudaginn 22. ágúst var haldin Alþjóðleg sýning HRFÍ á Víðistaðatúni og í Viðidalnum.  54 cavalierar voru skráðir og þar af 5 hvolpar. Eins og fyrri daginn var cavalierinn sýndur í Víðidalnum. Þrátt fyrir rigningarspá þá hélst hann nánast þurr á meðan cavalierinn var sýndur. Dómari var Svein E: Bjørnes frá Danmörku.

  • BOB var Hafnarfjalls Unu Kolbrún,eig. Sigrún Bragadóttir, rækt. Anna Þórðardóttir Bachmann.
  • BOS var Eldlukku Mjölnir, eig. Vilhjálmur Arnarson,  rækt. Svanborg Magnúsdóttir

Bæði fengu þau meistarstig og CACIB.  Eldlukku Mjölnir fékk sitt þriðja meistarastig og er því orðinn íslenskur meistari. 

  • Besti ungliði var Bonitos Companeros Mr. Spock og fékk hann sitt annað ungliða meistarastig og er hann því orðinn ungliðameistari
  • Einnig fékk Þórshamrar Sölku Dimmey ungliðameistarastig.  
  • Besti öldungur var Eldlukku Ögri með öldunga meistarastig. 
  • Besti hvolpur 4-6 mánaða var Hafnarfjalls Karlottu Moli Kári. 
  • Besti hvolpur 6-8 mánaða Þórshamrar Sölku Pría Sól.

Hafnarfjalls og Þórshamrar ræktun voru skráðar með ræktunarhóp. Hafnarfjallsræktun fékk fyrsta sætið en báðir ræktunarhóparnir fengu heiðursverðlaun. 

Afkvæmahópur Teresajo Sabrinu Unu, fékk heiðursverðlaun og 1. sæti í úrslitum.

Síðasta sýning ársins, Winter Wonderland sýningin, fór fram helgina 27. – 28. nóvember í glæsilegri reiðhölls Spretts í Kópavogi. Sýningin var NKU og Crufts qualification sýning. Þetta var stærsta sýning félagsins frá upphafi. Alls voru 50 cavalierar skráðir þar af 12 hvolpar. Svein Bjarne Helgesen frá Noregi dæmdi cavalierana.  

  • BOB var ISCh RW-17-21 Ljúflings Merlin Logi , eigandi Rúnar Már Sverrisson og Guðbjörg Björnsdóttir og ræktandi María Tómasdóttir. 
  • BOS ISCh ISJCh RW-17-21 Teresajo Sabrina Una, eigandi Anna Þórðardóttir Bachmann og rækt. Dominika Troscianko / Teresa Joanna Troscianko.

Bæði fengu NCAC stig og Crufts qualification. Þetta var þriðja NCAC stig Teresajo Sabrinu Unu og hún því orðinn Nordic meistari.

  • Rakkameistarastigið kom í hlut Bonitos Companeros Mr. Spock og 
  • Tíkarmeistarastigið kom í hlut Hrísnes Lukku. 
  • Besti ungliði með ungliðameistarastig var Mjallar Týr. 
  • Einnig fékk Hafnarfjalls Unu Brák ungliðameistarastig. 
  • Besti öldungur var Eldlukku Salka. 
  • Besti hvolpur 4 – 6 mánaða var Koparlilju Erró og 
  • besti hvolpur 6 – 9 mánaða Snjallar Silfraða Sylgja.

Hafnarfjalls og Þórshamrar ræktun voru skráðar með ræktunarhóp. Hafnarfjallsræktun fékk fyrsta sætið en báðir ræktunarhóparnir fengu heiðursverðlaun. Afkvæmahópur Teresajo Sabrinu Unu stóð sig frábærlega í úrslitum og varð besti afkvæmahópur dagsins.

Sýningarþjálfanir 

Deildin stóð fyrir sýningaþjálfun fyrir hverja sýningu.  Voru þær haldnar á Víðistaðatúni fyrir hvolpasýninguna og fyrir útisýningarnar í ágúst en í Blíðubakka húsinu Mosfellsbæ fyrir nóvembersýninguna.  Góð mæting var og er leiðbeinendum og sjálfboðaliðum sérstaklega þakkað fyrir óeigingjarnt starf því þetta er ein af stærstu fjáröflunarleiðum deildarinnar.

Stigahæstu hundar ársins

Eins og áður hefur komið fram voru þrjár sýningar á vegum HRFÍ.  Eftirtaldir hundar urðu stigahæstu cavalierarnir á þessum þremur sýningum.

  1. ISCh RW-17-21 Ljúflings Merlín Logi  20 stig
  2. NORDICCh ISCh ISJCh RW-17-21 Teresasjo Sabrina Una  17 stig
  3. ISJCh Bonitos Companeros Mr. Spock  13 stig
  4. ISCh Eldlukku Mjölnir 12 stig
  5. Hafnarfjalls Unu Kolbrún 10 stig                          

Stigahæstu rakkarnir:
1.    ISCh RW-17-21 Ljúflings Merlín Logi   20 stig
2.    ISJCh Bonitos Copaneros Mr. Spock  13 stig
3.    ISCh Eldlukku Mjölnir   12 stig
4.    Mjallar Týr     4 stig
5-6.Eldlukku Ögri     1 stig
5-6. Hafnarfjalls Unu Máni     1 stig

Stigahæstu tíkurnar:
1.       NORDICCh ISCh ISJCh RW-17-21Tereasjo Sabrina Una   17 stig
2.       Hafnarfjalls Unu Kolbrún   10 stig
3.       Hrísnes Lukka    7 stig
4.       Hafnarfjalls Unu Tinna     6 stig
5-6.   ISJCh Ljúflings Tindra     5 stig
5-6.   Þórshamrar Natalíu Freyja     5 stig
7.       Þórshamrar Sölku Dimmey    3 stig
8.       Hafnarfjalls Unu Brák    1 stig

Stigahæstu öldungar:

1. Eldlukku Ögri    1 stig

Stigahæsti ræktandinn

Stigahæsti ræktandinn var í ár Hafnarfjallsræktunin – Anna Þ. Bachmann með 17 stig.  

Uppskera ársins

Á árinu eignuðumst við 4 nýja meistara og eru þeir:

  • Teresajo Sabrína Una – íslenskur meistari
  • Eldlukku Mjölnir – íslenskur meistari 
  • Bonitos companeros Mr. Spock – ungliðameistari
  • Teresajo Sabrína Una – Norðurlandameistari 

Deildin óskar eigendum og ræktendum þessara hunda innilega til hamingju með nýju sýningarmeistarana.

Deildarsýning

Stjórnin lagði inn beiðni fyrir deildarsýningu en slíka beiðni þarf að leggja inn til stjórnar HRFÍ sex mánuðum fyrir áætlaðan sýningardag.  Í slíkri beiðni þarf að vera búið að útvega húsnæði, dómara, hringstjóra og ritara sem og vera búið að gera fjárhagsáætlun. HRFÍ samþykkti beiðnina í nóvember síðastliðnum.  Stjórn hefur komið á sýningarnefnd sem þegar hefur hafið störf við undirbúning sýningarinnar sem verður haldin 14. maí nk. í reiðhöll Dallandi.

Búið er að fá Mrs. Normu Inglish sem dómara.  Herdís Hallmarsdóttir mun taka að sér hringstjórahlutverkið og ætlar að læra að dæma Cavalierinn í leiðinni.  Daníel Örn eða Lilja Dóra verða ritarar.

VIÐBURÐIR

Málstofa deildarinnar

Þann 14. júní hélt deildin málstofur undir yfirskriftinni „Hvert stefnum við“ og var hún opin öllum félagsmönnum deildarinnar. Herdís Hallmarsdóttir fráfarandi formaður HRFÍ stýrði málstofunni með stakri snilld. Fyrst hélt hún fræðsluerindi um störf deilda og tegundina en í framhaldinu var boðið upp á þrjú mismunandi efni sem öll tengjast áherslum deildarinnar í nánustu framtíð.  Efni sem var boðið upp á:

  1. Starf stjórnar og nefnda;  Þátttaka í sjálfboðastarfi, hvernig hvetjum við fólk til að koma að starfinu fyrir tegundina/deildina?
  2. Ræktunarstefna og gagnagrunnur. Heilsufarskröfur og kröfur til ræktunar, þarfnast þær endurskoðunar við? Hver eru helstu vandamálin í tegundinni í dag. Hvar á áherslan að vera?
  3. Fræðsla og annað félagsstarf. Hvernig sinnir deildin skyldu sinni að miðla fræðslu – hvað má betur fara?

Þar sem fáir völdu lið eitt um sjálfboðaliða þá var ákveðið að fella niður það efni.  Margt var rætt og skiluðu hóparnir niðurstöðu sem verður betur kynnt hér á eftir og verður leiðsagnarit fyrir komandi stjórnir.  Verður það tekið fyrir síðar á fundinum undir önnur mál.  Þó ákvað deildin að vera með reglulega fræðslumola á vefnum til að koma til móts við fræðsluþörf félagsmanna.

Eftirtaldir fræðslumolar voru skrifaðir og birtir á vefsíðu deildarinnar.

Göngur 

Ný göngunefnd tók til starfa eftir síðasta ársfund.  Í henni voru Íris Hilmarsdóttir, Gunnhildur Björgvinsdóttir og Eyrún Guðnadóttir.  Reynt var að fá fleiri sjálfboðaliða í nefndina þar sem það voru helst til fáir í nefndinni svo vel megi vera, en því miður bar ekki árangur.  Þær stóðu því vaktina ásamt stjórn og stóðu sig með prýði og þökkum við þeim fyrir gott starf.

Nefndin setti saman skemmtilega göngudagskrá fyrir starfsárið.  Reynt var að halda göngurnar þrátt fyrir samgöngutakmarkanir.  Það gekk virkilega vel og aðeins varð að fella niður eina göngu. Í flestar göngur var almennt vel mætt.  Um sérstaklega vel heppnaða viðburði má nefna gönguna um Elliðarárdal sem haldin var á degi tegundarinnar, viðburðinn ganga og grill í Sólheimakoti, gönguna um Stórhöfðann og Jólagönguna í Hafnarfirði.

  • Maí                                   Elliðaárdalur
  • Júní                                   Búrfellsgjá
  • Júlí                                     Helgafell Mosfellsbæ
  • Ágúst                               Sólheimakot – ganga og grill
  • September 2021        Grótta
  • Október 2021 Grafarvogur
  • Nóvember 2021           Stórhöfði
  • Desember 2021            Jólaganga Hafnarfirði
  • Janúar 2022                   Nýársgangan – féll niður vegna samkomutakmarkana
  • Febrúar 2022                 Reynisvatn
  • Mars 2022                      Gengið í kringum tjörnina í Reykjavík

Aðrir reglulegir viðburðir

Ekki var hægt að halda upp á okkar árlegu viðburði eins og hvolpahitting og aðventukaffi vegna veirunnar. Ákveðið var að halda nýársgleði í stað aðventukaffis en enn og aftur varð að aflýsa og er nú áætlað að halda vorfagnað en það bíður nýrra stjórnar að gera slíkt.

Fjáröflun

Eins og þið vitið þá fær deildin engar reglulegar tekjur og til að geta haldið deildarsýningu þarf að fara í fjáröflun.  Deildin var búin að vinna að því að safna gjöfum fyrir tombólu.  Ætlunin var að vera með tombóluna samhliða aðventukaffinu, svo með nýársgleðinni en verður örugglega haldin nú í vor því betur má ef duga skal því okkur bráðvantar fjármagn til að halda flotta deildarsýningu.  Einn ræktandi ákvað að greiða styrki reglulega inn á reikning deildarinnar og tvö fyrirtæki hafa styrkt félagið með peningaupphæð.  Síðast en ekki síst þá hafa sýningaþjálfanirnar gefið vel.  Vil ég þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóginn við þessi verkefni.

Vefsíðan

Deildin hefur haldið áfram að þróa vefinn og er sífellt að bætast við efni inn á hann. (Auk þess sem að ofan hefur verið nefnt þá hefur saga cavaliersins hér á land verið endurbætt, upplýsingar um sjúkdóma, undirbúningur fyrir sýningar, fræðslumolar, skýringar á úrslitum, farið í vinnu að laga myndaalbúm, lista  o.fl.  

Lokaorð

Nú er lokið öðru mjög svo sérstöku starfsári deildarinnar. Við höfum þó lært á þessum tveimur mjög svo skrítnum Covid árum að gera gott úr öllu saman og reyna að halda gleðinni og ánægjunni og njóta samverustunda sem gefast með okkar ástsælu hundum, fjölskyldu og vinum.  Það er nefnilega svo að okkar hundar þurfa fyrst og fremst á sínum eigendum að halda, ást umhyggju, öryggi og nærveru þá eru þeir glaðir.  

Að lokum vill stjórn þakka öllum sjálfboðaliðum og göngunefndinni fyrir þeirra góðu störf og framlag á árinu. Einnig viljum við þakka ykkur félagsmönnum fyrir ykkar framlag með því að sýna áhuga á deildinni og taka þátt í því starfi sem þar fer fram.  

Fyrir hönd stjórnar

Valka Jónsdóttir, formaður