3. stjórnarfundur 2024-2025
25. júní 2024 kl. 17:00
Staðsetning: Spíran Garðheimum
Mættar: Anna Þórðardóttir Bachmann, Bergþóra Linda Húnadóttir, Guðríður Vestars, Sunna Gautadóttir og Svanhvít Sæmundsdóttir
Fundur settur 17:10
Dagskrá fundar:
- Bikarar
Farið yfir bikara fyrir ágústsýningar. Eigum nokkra eldri bikara sem velunnarar deildarinnar hafa gefið og hægt er að endurnýta, þessar gjafir nýtast deidlinni alltaf vel. Enn eru til rósettur fyrir efstu fjögur sæti í keppni um bestu tík og besta rakka, það fyrirkomulag heldur áfram.
- Afmælisár
Stefnum á tvöfalda sýningu á vormánuðum 2025 vegna 30 ára afmælis deildarinnar. Undirbúningur er á frumstigi.
- Sýningaþjálfun fyrir ágústsýningar
Óskum eftir sjálfboðaliða á vegum deildarinnar til að halda utan um sýningaþjálfanir fyrir ágústsýningar. Þessi þjálfun hefur verið ein helsta tekjulind deildarinnar og er því mikilvæg. Er ekki einhver öflugur deildarmeðlimur til í að grípa boltann og sjá um þjálfun í sumar? Hugmyndir af fleiri leiðum til fjáröflunar (t.d. fyrir afmælissýninguna sem er stór viðbuður) eru einnig vel þegnar.
- Ljósmyndir frá sýningum
Gaman væri fyrir deildina að eiga sem mest af myndum frá sýningum og þá sérstaklega af úrslitum úr hverjum flokki. Oft hefur verið mjög lítið af myndum til (jafnvel eingöngu af BOB og BOS) og langar okkur til að bæta úr því. Ef þeir áhorfendur sem ekki eru sjálfir að sýna hafa tök á því að stökkva inn í hring og smella myndum af úrslitum flokka þætti deildinni afar vænt um að fá þær myndir sendar. Svona myndir eru heimildir sem gaman er að geta flett upp síðar.
- Heilsufarsskoðanir í haust
Nýjung hjá Hundaræktarfélaginu er pöntun á skoðunarbeiðnum vegna heilsufarsprófa í gegnum Hundavefinn. Í þróun er að hnéskelja- og hjartavottorð fari þarna í gegn í framtíðinni og þarf að athuga hvort og þá hvaða áhrif þetta hefur á hópskoðanir hjá okkur. Þetta gæti haft þau áhrif að eingöngu ræktunardýr skili sér í hjartaskoðanir en mikilvægt er fyrir stofninn að sem flestir hundar séu skoðaðir. Næsta hópskoðun hjá deildinni er annars áætluð í október.
- Rakkalisti
Ákveðið var að einfalda aðeins rakkalistann og taka út skriflega lýsingu á byggingu og útliti. Allir dómar eru nú aðgengilegir á Hundavefnum og við bendum fólki því á að fletta upp umsögnum þar þegar verið er að velja rakka. Að sjálfsögðu er alltaf velkomið að hafa samband við stjórn deildarinnar ef það vantar aðstoð. Einnig þarf að taka aðeins til í albúmi með myndum af þeim sem eru á rakkalista, nóg er að hafa tvær myndir af hverjum, eina andlitsmynd og eina hliðarmynd.
Undanfarið hefur það aukist að óskað sé eftir rakkalista með öllum litum, en nú þegar það er nóg framboð er algjör óþarfi að deildin gefi út þess háttar lista, undantekning ef það væru t.d. aðeins tveir rakkar í boði fyrir ákveðna tík.
Vekjum sérstaka athygli á því að tilmæli erfðafræðinga eru að ekki skal para skyldara en 6%. Þessi tilmæli hafa nú verið færð á meira áberandi stað á vefsíðunni okkar.
Fundi slitið kl. 18:40
Fundargerð ritaði Sunna Gautadóttir