5. stjórnarfundur 2025-2026
28. ágúst 2025 kl. 18:00
Staðsetning: Húsnæði HRFÍ að Melabraut Hafnarfirði
Mættar: Anna Þórðardóttir Bachmann, Guðríður Vestars, Sunna Gautadóttir og Svanhvít Sæmundsdóttir
Fundur settur kl. 18:05
Milli funda:
Stjórn sendi inn þá ósk til sýningastjórnar HRFÍ að dómarar á okkar tegund yrðu Mikael Nilsson á októbersýningu og Sara Nordin í nóvember. Nú hefur verið birt dómaraáætlun fyrir þessar sýningar á vefsíðu HRFÍ og staðfest að við fáum þessar óskir uppfylltar. Þetta ár hefur verið gjöfult af því leyti að við höfum fengið nokkuð marga dómara sem hafa persónulega reynslu af tegundinni.
Dagskrá:
- Farið yfir úrslit sýninga 16. og 17. ágúst sl.
Töluverður munur milli daga þó dómararnir hafi verið nokkuð sammála í sumum flokkum. Joakim Ohlsson á sunnudeginum var strangari og leiðinlegt að aðeins tveir rakkar fengu meistaraefni, svo það var ekki einu sinni hægt að fylla upp í öll fjögur sætin í keppni um besta rakka. Alþjóðlega rakkastigið fór einnig forgörðum þar sem besti rakki var ungliði (of ungur fyrir stigið) og annar besti rakki nú þegar alþjóðlegur meistari.
- Cavalier ráðstefna í Helsinki Finnlandi samhliða Heimssýningu
Anna og Svanhvít sátu cavalier ráðstefnu í Helsinki þann 9. ágúst sl. þar sem fóru fram ýmsir fyrirlestrar. Meðal annars var að sjálfsögðu fjallað um heilsufar tegundarinnar og stöðu hennar á mismunandi stöðum í heiminum. Umræður sköpuðust um að eingöngu hjartahlustun væri ekki endilega nóg, víða úti er hjartaómun (þá á 18 mánaða fresti) sem getur gefið meiri upplýsingar. Frakkar hafa haldið hópskoðun í hjartaómun í kringum sýningar. Kannski eitthvað sem við þurfum að hafa í huga upp á framtíðina og stefna að hér. Einnig var talað um að það vanti meiri samskipti milli landa og kom upp sú hugmynd að mynda einhvers konar alþjóðlegan vinnuhóp.
- Hópskoðun
Stefnum á að hafa hópskoðun (hjartahlustun og DNA sýnatöku) aðeins fyrr en vanalega, eða í september í stað október. Nánar auglýst þegar búið er að negla niður dagsetningu. Minnum á að hjartahlustun er mikilvæg til að fylgjast með stofninum og hvetjum fólk til að nýta sér hópskoðun. Gott ef ræktendur hvetja sína hvolpakaupendur sem eiga hunda 4-5 ára og eldri. Við viljum ekki bara fá inn ræktunardýr í þessar skoðanir þar sem þau eru aðeins lítill hluti af stofninum, mikilvægt er að fá inn sem flesta hunda svo við sjáum hvar sterkar hjartalínur liggja.
- Viðburðir
Þjálfun fyrir októbersýningu verður 16. september, 23. og 30. september.
Deildin mun halda hvolpahitting fyrir hvolpa 3-9 mánaða þann 12. október. Hittingurinn verður í húsnæði HRFÍ í Hafnarfirði en auglýsing ásamt skráningarblaði verður birt þegar nær dregur.
Við stefnum á deildarsýningu þann 18. apríl 2026 og búið er að óska eftir HRFÍ salnum á leigu þá helgi. Þessi dagsetning er því ekki staðfest ennþá. Umræður um mögulega dómara en allar tillögur vel þegnar.
Fundi slitið kl. 20
Fundargerð ritaði Sunna Gautadóttir