Mættar: María, Guðríður, Ingibjörg og Halldóra
Gotlisti ársins
Á árinu fæddust alls 113 hvolpar í 29 gotum sem er nánast sami hvolpafjöldi og á síðasta ári. Mikil breyting var þó á hvolpafjölda eftir litum en venjulega hafa blenheim hvolpar verið u.þ.b. helmingi fleiri en t.d. ruby og black and tan. S.l. ár áttu ruby hvolpar metið en alls fæddust 38 ruby hvolpar á árinu. Blenheim hvolparnir urðu 35 og sami fjöldi af black and tan hvolpum. Eins og venjulega voru þrílitir hvolpar sjaldséðir því aðeins 6 hvolpar fæddust í þeim lit á árinu 2009. 21 ræktandi var með got á árinu þar af 17 með ræktunarnöfn. 7 nýir ræktendur bættust í hópinn þar af 4 sem hafa fengið ræktunarnafn. 14 rakkar voru notaðir til undaneldis. Flesta hvolpana átti Sjarmakots Fígaró Freyr, black and tan rakki, alls 27 hvolpa í 5 gotum. Í öðru sæti var Salsara Take A Bow, ruby rakki sem eignaðist 21 hvolp í 6 gotum.
Got ársins, paranir og væntanleg got
Algjör fæðingarsprengja virðist vera í gangi þessa dagana og alls 9 got auglýst á cavaliersíðunni. Þrjú got komu t.d. í heiminn á einum degi þann 7. febrúar. Vonandi finnast góð heimili fyrir alla þessa hvolpa og mikilvægt er að ræktendur slái ekki af kröfum sínum þegar þeir velja heimili fyrir hvolpana. Betra er að halda hvolpunum lengur því góð heimili finnast alltaf þó einhver bið geti orðið á því.
Vitað er um 7 heillitar tíkur sem hafa verið paraðar og staðfest að alla vega þrjár þeirra eiga von á hvolpum svo ekkert lát er á frjóseminni.
Fjórar blenh./þrílitar tíkur hafa einnig verið paraðar nýlega en ekki vitað um árangur enn og stendur til að para nokkrar í viðbót á næstu 2 mánuðum.
Árið 2010 gæti því slegið met ársins 2007 þegar fæddust um 150 hvolpar sem var algjört met.
Vinna við vorsýninguna
Deildin á að útvega 3 í að setja upp sýninguna þ.e. í teppalögn og 4 til að vinna á sýningunni, bæði laugardag og sunnudag.
Búið er að fá 3 til 4 í teppin en ákveðið var að auglýsa á cavaliersíðunni eftir sjálfboðaliðum í hin störfin.
Halldóra hefur umsjón með þessu skipulagi.
Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið.