1. Stjórnarfundur 17.3.2011

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar haldinn á  skrifstofu HRFÍ

Mættar:  María, Elísabet , Ingibjörg  og Guðríður

Stjórn skipti með sér verkum og er vinnutilhögun óbreytt frá því sem verið hefur.

Stjórn er þannig skipuð:

María Tómasdóttir, formaður og umsjón heimasíðu deildarinnar

Guðríður Vestars, ritari

Elísabet Grettisdóttir

Ingibjörg Halldórsdóttir

Ingunn Hallgrímsdóttir

Stefnumótunardagur HRFÍ.

Rætt var um stefnumótunardag HRFÍ sem haldinn verður 2. apríl n.k. og voru allir sammála um að þar gætu komið fram nýjar og ferskar hugmyndir. Hver deild getur sent þrjá fulltrúa og hafði stjórnin ákveðið að þeir yrðu ekki úr stjórn deildarinnar. Var mikil ánægja með þá fulltrúa okkar sem hafa gefið kost á sér. En það eru þær Arna Sif Kærnested, Steingerður Yngvarsdóttir og Guðrún Lilja Rúnarsdóttir.

Bréf frá framkvæmdanefnd sýninga

Fyrir lá bréf frá framkvæmdanefnd sýninga um breytingar á skipulagi við sýningar. Í bréfinu var vinnutilhögun lýst frá fimmtudegi til sunnudags. Sú hugmynd kom fram að hver deild útvegi einn starfsmann fyrir hverja sýningu, sem þarf að vera tilbúinn að vinna frá fimmtudegi til sunnudags, í stað nokkurra starfsmanna á tveggja ára fresti.

Einnig kom fram sú hugmynd að deildir fengju afnot af eigum félagsins fyrir deildarsýningar og að einhver úr viðkomandi deild legði fram greiðslukort sitt sem tryggingu. Báðar hugmyndirnar þóttu frekar óaðgengilegar og var stjórnin sammála um að eldra skipulag  væri vel ásættanlegt og hefði gengið ágætlega til þessa. Skilningur er á því að erfitt er að lána muni félagsins fyrir deildarsýningar, þar sem öllu er raðað skv. ákveðnu skipulagi fyrir stóru sýningarnar. Númeraskilti ætti þó að vera hægt að fá lánuð. 

Sýningarnefnd

Í framhaldi af þessu var ákveðið að skipa 5 manna sýningarnefnd deildarinnar með fulltrúum úr stjórninni. Sýningarnefnd mun sjá um að útvega fólk fyrir hönd deildarinnar til að vinna við uppsetningu á sýningum HRFÍ og einnig ef um deildarsýningar yrði að ræða. Einnig aðra vinnu í sambandi við deildarsýningar í samvinnu við stjórnina. Í sýningarnefnd verða þær Guðríður Vestar og Elísabet Grettisdóttir og munu þær sjá um að fá a.m.k. þrjá til viðbótar úr cavalierdeildinni til að fullmanna nefndina.

Göngu- bása- og kynningarnefndir

Kosið var í þessar nefndir á ársfundinum 2010 og verða þær óbreyttar fyrir næsta ár. Þessar nefndir hafa staðið sig frábærlega og er stjórnin mjög ánægð með störf þeirra.

Deildarsýning á næsta ári

Rætt var um deildarsýningu á næsta ári, staðsetningu hennar og hvaða tími væri hentugastur. Einnig hvort stefna ætti að tvöfaldri sýningu eins og virðist afskaplega vinsælt um þessar mundir.  Heppileg staðsetning var einnig rædd með tilliti til vinnu við uppsetningar og koma þá Garðheimar sterklega til greina og þá helst útiskálinn. Sá tími sem sennilega væri hentugastur væri sennilega mars eða október með tilliti til annarra sýninga HRFÍ og Garðheima.  Ekki var tekin nein ákvörðun að þessu sinni.

Sýningarþjálfun

Sú spurning kom upp hvort deildin ætti að hefja sýningarþjálfun að nýju. Engin ákvörðun tekin en málinu vísað til væntanlegrar sýningarnefndar. Staðsetning gæti verið hjá Gæludýrum, Korputorgi, þar sem okkur hefur verið boðin ókeypis aðstaða.

Pörunarbeiðnir og got, rakkalisti

Mjög fáar pörunarbeiðnir hafa borist á árinu og frekar lítið er um got. Góð eftirspurn er eftir hvolpum og því lítið um auglýsingar á cavaliersíðunni og þar af leiðandi litlar tekjur fyrir deildina!  Svör við pörunarbeiðnum og vinna við rakkalista verður unnin á sama hátt og áður hefur verið gert.  Yfirlit yfir got fyrstu mánuði ársins  verður lagt fram á næsta fundi.  Reikna má með að einhverjir rakkar bætist við á listann eftir væntanlega augnskoðun, en einnig þarf að skila inn hjartavottorðum fyrir þá, auk þess sem þeir verða að vera sýndir með a.m.k. „very good“ í einkunn til að komast á listann. Nýr rakkalisti verður lagður fram á næsta fundi.

Augnskoðun og fyrirlestur

Augnskoðun fer fram 25. – 26. mars n.k. og verða augnlæknarnir með fyrirlestur um augnsjúkdóma sunnudaginn 27. mars. María og Guðríður ætla að skrá sig á fyrirlesturinn.

Deildarsýningin í Garðheimum

Farið yfir sýningardóma frá marssýningu deildarinnar en þeir voru skrifaðir á þýsku. Formaður las dómana í lauslegri þýðingu. Frú Giza var mikill tannadómari og voru nokkrir hundar settir niður í dómum vegna yfirbits,undirbits og krossbits, einnig fengu 2 hundar þann úrskurð að tennur vantaði, ekki voru allir eigendur sammála þessu. Ekki er vitað hvort um raunverulegt yfirbit er að ræða eða aðeins ríflegt skærabit. Ótrúlegt er að einhverjir hafi komið með raunverulega yfirbits hunda á sýninguna.  Aðallega var um að ræða ruby hunda og vildi hún koma skilaboðum til ræktenda þeirra að þeir huguðu betur að bitinu í ræktuninni framvegis.

Önnur mál

Guðríður Vestars sem fór á Crufts sagði okkur frá öllum fallegu cavalierunum sem hún sá þar og ekki laust við að aðrir stjórnarmeðlimir væru grænir af öfund. Sennilega verður okkar íslenski cavalierstofn seint samkeppnishæfur við bestu ensku hundana en bót er þó í máli að við eigum alla vega einn cavalier sem gæti sómt sér vel á hvaða sýninu sem er í heiminum, eða hann Drauma Abraham sem varð 3. besti hundur á nóvembersýningunni en bætti svo um betur og náði 2. sætinu á febrúarsýningunni.  Frábær árangur hjá honum og ekki margir,  af hvaða tegund sem er, sem hafa leikið þetta eftir.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið.

f.h. stjórnar

María Tómasdóttir