Mættar: María, Ingibjörg, Guðríður og Elísabet
1. Mikilvæg uppgötvun
Búið er að finna genin sem valda sjúkdómunum „Dry Eye/Curly Coat syndrome“ og „Episodic Falling“. Þessir sjúkdómar erfast víkjandi og þurfa báðir foreldrar að vera berar til að sjúkdómarnir komi fram. Nú er hægt að gera DNA próf og finna út hvort hundar eru hreinir, berar eða með sjúkdóminn. Frá og með 18. apríl er hægt að fá „Test Kit“ sent frá Englandi, taka sýnið og senda út aftur og fá svo niðurstöðuna um hæl. Danski cavalierklúbburinn er fyrsti cavalierklúbburinn sem hefur tekið ákvörðun um að allir ræktunarhundar skulu taka DNA próf fyrir pörun. Byrjað verður að taka sýni þar nú í maí og frá og með 1. jan.2012 verður skylda að „testa“ alla ræktunarhunda fyrir pörun. Þetta verður gert í samráði við Danska Kennelklúbbinn og niðurstöður færðar í gagnagrunn, þar sem hægt verður að nálgast þær á netinu. Framvegis ættu því engir hvolpar að fæðast með þessa sjúkdóma, sem báðir valda hundunum ómældum þjáningum. Allir stjórnarmeðlimir voru sammála um að fara sömu leið og danirnir. Til að byrja með verða pöntuð „Test Kit“ fyrir nokkra hunda, til að finna út kostnaðinn og tímann sem það tekur að fá niðurstöðuna. Í Danmörku er verðið um 15 þús krónur fyrir hvern hund og vonandi verður það á svipuðu róli hjá okkur. Hunda sem greinast berar, er hægt að para með fríum hundum, en sýktir hundar, ef um einhverja er að ræða, fara í ræktunarbann.
María tekur að sér að setja frétt um þetta á heimasíðuna.
2. Deildarsýning
Rætt var um að hafa deildarsýningu næsta ár og ákveðið að sækja um sýningu annað hvort í lok mars eða einhverntíma í apríl. Áhugi er fyrir því að fá einhvern þekktan enskan cavalierræktanda og dómara og eru nokkrir í sigtinu. Sýningarnefndin hefur ákveðið að hafa a.m.k. eina sýningarþjálfun 11. maí í salnum hjá Gæludýrum á Korputorgi. Í athugun er að hafa einnig þjálfun 25.5 og 1.6. í einhverju bílageymsluhúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Sýningarþjálfunin verður auglýst á heimasíðunni okkar þegar þar að kemur.
3. Hjartavottorð undaneldisrakka og afmælisvottorð
Margir hundar voru skoðaðir í nóvember s.l. og renna þau vottorð út í maí. Nokkrir ræktunarhundar hafa ekki tekið 4ra ára vottorð og vottorð margra rakka á rakkalistanum eru útrunnin eða við það að renna út. Svo er þó nokkuð stór hópur sem þyrfti að taka 5 og 6 ára afmælisvottorð.
Rætt var um að tala við dýralæknana og athuga hvort þeir væru tilbúnir að hafa einhverja tilboðsdaga seint í maí eða byrjun júní n.k. Ekki tekin endanleg ákvörðun.
4. Rakkalistinn
Augnvottorð nokkurra rakka rennur út í byrjun júní, en þar sem næsta augnskoðun verður einmitt í byrjun júní, þá verða þau sennilega endurnýjuð þá, þannig að viðkomandi rakkar ættu ekki að fara af listanum. Nokkrir rakkar sem hafa bæði verið sýndir og tekið augnvottorð komast ekki inn á listann fyrr en þeir hafa tekið hjartavottorð eins og tekið er fram á cavaliersíðunni.
Einn rakki dettur út af listanum, þar sem hann er kominn með murr.
Staðfest er að tveir blenheim hundar eru nýkomnir til landsins, annar hvolpur en hinn um 3ja ára og tveir black and tan rakkahvolpar væntanlegir. Ekki er vitað ennþá hvort 3ja ára rakkinn verður skráður í ættbók hér, því ættbækur fyrir þessa hunda liggja ekki fyrir.
Fleira ekki tekið fyrir og fundið slitið
f.h.stjórnar
María Tómasdóttir