6. Stjórnarfundur Cavalierdeildar HRFÍ 2021-2022

Fundur haldinn í húsakynnum HRFÍ, Síðumúla 15 þann 23. júní 2021 kl. 19.30

Mættar: Gerður Steinarrsdóttir, Svanhvít Sæmundsdóttir, Valka Jónsdóttir.

Dagskrá:

  • Umræður um málstofu deildarinnar
    • Ræktun
    • Fræðsla og félagsstarf
  • Ákvörðun um stjórnarkjör
  • Frá ræktunarráði
  • Önnur mál

Efni fundar:

Umræður um málstofu

Á málstofu Cavalier deildarinnar sem haldin var 14. júní síðastliðinn mættu 21 manns en að auki voru þær Herdís Hallmarsdóttir og Sóley Ragnarsdóttir framsögumenn á staðnum en Herdís stýrði málstofunni.  Herdís fór yfir hlutverk og starfshætti ræktunardeilda en tók svo góðan tíma í að ræða samskipti, samvinnu og traust.  Hún ræddi mikilvægi starf sjálfboðaliða í okkar frábæra félagi HRFÍ og nauðsyn þess að bera virðingu fyrir fólki sem vinnur í þágu félagsins og deildanna í sjálfboðavinnu oftar en ekki eftir langan hefðbundinn vinnudag.  Lagði hún ríka áherslu á orðið “gagnrýni” þ.e. að rýna til gagns.  Hún sagði að við værum svo góð í að rýna og gera athugasemdir en gleymdum að koma með gagn í rýnina.  Ekki bara rýna verk sjálfboðaliðans heldur einnig að koma með gagnsemina inn í rýnina og bera virðingu fyrir því starfi sem fólk leggur fram.  Ef ekki væri neitt gagn í rýninni þá væri betra að sleppa því.

Þrjár málstofur voru í boði:

  1. Starf stjórnar og nefnda
  2. Ræktunarstefna
  3. Fræðsla og annað félagsstarf. 

Aðeins tveir félagsmenn völdu fyrstu málstofuna svo það var ákveðið að sleppa henni.  Alls voru 10 manns í hvorri málstofu nr. 2 og 3.  Herdís sagði að góðar og faglegar umræður hefðu farið fram í báðum málstofunum . Hugmyndir og umræður skráðar og forgangsraðaðar fyrir næstu stjórn að vinna að.  Tíminn leið ótrúlega hratt og ekki vannst tími til að fara yfir listana hjá hvorum hópnum á fundinum sjálfum.
Síðasta atriði var mjög áhugaverður fyrirlestur dómarans Sóleyjar Ragnarsdóttur um ræktunarstaðalinn og sýn hennar á stöðu tegundarinnar í dag.  Það var margt áhugavert sem kom þar fram og er nauðsynlegt að ræktendur hugi að því sem betur má fara.

  • Málstofa um ræktun
    Þátttaka í umræðum var mjög góð og fagleg og margt rætt.  Umræður um heilsufar og reglur tengdar þeim voru ræddar sem og rakkalistinn o.fl.  Hópurinn sagði það áhyggjuefni hversu fáir rakkar eru á rakkalista og uppfylla skilyrði þess að vera á listanum.  Á málstofunni kom fram hugmynd um að leyfa rakka á rakkalista sem uppfylla öll skilyrði utan þess að vera með gilt augnvottorð þar sem HRFÍ hefur veitt þessa undanþágu ef búið er að bóka tíma í næstu augnskoðun.   Voru allir þátttakendur sammála því að þetta gæti verið ein leið til að bæta rökkum á listann og voru allir þessu samþykkir. Einnig var umræða um að gera rakkalistann opinberan á heimasíðu deildarinnar.  Voru ekki allir ræktendur sammála um þetta.

Ræktunarráð og stjórn hafa tekið ákvörðun að setja rakka á rakkalista sem uppfylla öll skilyrði utan gilds augnvottorðs g mun ræktunarráð kalla eftir slíkum rökkum.  Ákveðið hefur verið að eigendur verða að skila inn staðfestingu þess að þeir eigi bókaðan tíma í augnskoðun næst þegar hún verður haldin.  Að auki verður skilyrði þess að ekki verið parað saman tík og rakki sem hvorugt eru með gild augnvottorð eða hafa aldrei farið í augnskoðun.
Þar sem það styttist óðum í að tölvukerfi HRFÍ verði tilbúið var ákveðið var bjóða rakkaeigendum sem eiga rakka á rakkalista að senda inn mynd og verður hún birt undir flipanum rakkalista ásamt nafni hundsins.   Þá geta tíkareigendur flett upp og skoðað myndir af rökkunum á listanum.  

  • Málstofa um fræðslu og félagsstarf
    Margar hugmyndir komu fram á málstofunni um fræðslu sem vantaði og eða mætti bæta í.  Einnig var talað um að auka þyrfti félagsstarfið bæði með og án hunda, það væri bæði mikilvægt og skemmtilegt.  Hugmyndum sem hópurinn kom með var forgangsraðað og var talið að mikilvægast væri að fara í kynningu á tegundinni og að nýta þyrfti fjölbreyttar leiðir t.d. bæklingar bæði rafrænir, á pappír og á myndbands formi til að ná til ólíkra kynslóða sem nýta sér mismunandi upplýsingaleiðir.  Margar mjög áhugaverðar hugmyndir sem komu fram kalla á fjármagn s.s. deildarsýningar, ólík fræðsluform, fjölskylduskemmtun með hoppukastala og fleira.  

Í ljósi þess hefur verið ákveðið að kanna möguleika á því að stofna skemmti- og fjáröflunarnefnd og sjá hvort það séu ekki einhverjir áhugasamir félagsmenn sem vilja sinna þessu mikilvæga hlutverki.

Stjórn mun svo taka saman hugmyndirnar og upplýsingarnar sem þátttakendur á málstofunum skrifuðu niður og leggja fyrir félagsmenn.

Ákvörðun um stjórnarkjör og aðstoð

Stjórn hefur ákveðið að nýta sér heimild í lögum HRFÍ og klára þetta stjórnarár með þremur stjórnarmönnum og boða ekki til aukaársfundar.  Rökin fyrir því er að nú er hásumar og erfitt að halda fund fyrr en í haust og þá er svo stuttur tími eftir af stjórnarárinu og setu tveggja aðila sem kæmu inn.  Það er sóun á tíma og vinnu allra.
Í staðinn mun stjórn óska eftir aðstoð félagsmanna við hin ýmsu störf ef áhugi er fyrir hendi og hvetjum við félagsmenn að hafa samband ef þeir hafa áhuga á einhverjum sérstökum störfum í þágu deildarinnar og tegundarinnar.

Frá ræktunarráði

Á síðasta stjórnarfundi var rætt um að kanna hvort meta megi hunda utan sýninga. Haft var sambandi við HRFÍ og er niðurstaðan sú að ef byggingadæma á hunda þarf eigandi að óska eftir því sjálfur við HRFÍ.  HRFÍ sér þá um að fá dómara til að meta hundana.  Þetta er ekki í höndum  ræktunardeilda svo þetta er ekki deildarinnar að skipuleggja.

Önnur mál

  • Félagsmaður og ræktandi Anna Bachmann var beðin um að kanna hvort fleiri dýralæknar á landinu hafi tilskilin leyfi til að skoða og gefa út hjartavottorð fyrir tegundina og samþykkti hún það.
    Stjórnin hefur mikinn áhuga á að setja af stað verkefni um ræktunarstaðalinn og fá dómara til að vinna með ræktunarráði og stjórn að nánari útskýringu á staðlinum með myndum
  • Engin önnur mál voru tekin fyrir.

Fundi slitið 22:00. Fundargerð ritaði Valka Jónsdóttir