Tannhirða hunda

Mynd: Svanhvít

Rétt eins og hjá mönnum er munnhirða hunda mikilvægur hluti af almennri vellíðan þeirra. Mikilvægt er að taka á tannhirðu hunda strax þar sem slæm munnheilsa getur tengst öðrum heilsufarsvandamálum og mögulega leitt til dauða. Þar fyrir utan sleikja hundar bæði sig sjálfa og oft eigendur sína og geta þannig flutt bakteríur. Fyrir utan hugsanleg tengsl munnheilsu og annarra sjúkdóma getur alvarlegur tannsjúkdómur verið mjög sársaukafullur en hundar geta fallið sársauka vel og hann getur leitt til breytinga á matarvenjum og hegðun. Heilbrigður munnur ætti að vera með ljósbleikt tannhold.

Til að koma í veg fyrir að tannholdsbólga myndist þarf að hreinsa tennurnar reglulega heima með hundatannbursta og tannkremi.

Tannholdsbólga eða rautt og bólgið tannhold af völdum tannsýklu og tannsteinsuppbyggingar er fyrsta stig tannholdssjúkdóma og einkennin eru lykt og blæðandi tannhold. Þegar tannhold bólgnar og þróar með sér tannholdssjúkdóm veldur bólgan beinmissi og tönn losnar og getur að lokum fallið úr munni.

Þegar þú þrífur tennur hundsins þíns ertu að fjarlægja mat, bakteríur og tannsýklu áður en hún harðnar, kalkar og breytist í tannstein sem er erfitt að fjarlægja.

Þú ættir að bursta tennur hundsins þíns daglega eða annan hvern dag því tannsýklu er auðvelt að bursta burt en það tekur hana um 48-72 klukkustundir að harðna og kalkast. Þegar það hefur gerst þarf dýralæknir að skafa tannsteininn af.

Hundatannkrem innihalda oft bakteríudrepandi ensím og ljúffengt bragð fyrir hunda. Tannkrem fyrir gæludýr hefur ensímvirkni þannig að jafnvel það að komast í munninn getur hjálpað, en burstun er lykillinn en aldrei á að nota tannkrem fyrir menn á hunda.

Gott er að nota fingurinn eða fingurbursta með tannkremi þegar byrjað er að þrífa tennur hunda í fyrsta sinn og síðan þegar þeir eru vanir að láta fara upp í munninn á sér má fara í hundatannbursta. Best er að hafa þessa stund skemmtilega og verðlaun fyrir góða hegðun.

Tannhreinsun hjá dýralækni er alltaf gerð í svæfingu. Á meðan hundurinn er undir svæfingu er auðvelt að taka röntgenmyndir, hreinsa tennur bæði fyrir ofan tannhold og undir tannholdi og draga tennur ef þarf. Engin hætta er á að dýralæknirinn sé bitinn og hundurinn upplifir ekki hræðslu vegna aðstæðna sem hann skilur ekki. Dýralæknirinn metur svo hversu oft þarf að gera þessa meðferð en algengt er að gera þetta árlega.

Það er hægt að finna mikið úrval af vörum sem eru sérstaklega hannaðar til að halda tönnum hunda hreinum og munni þeirra ferskum. Sumar þeirra hreinsa jafnvel tennur hunda án þess að bursta. Það að naga bein hreinsar tennur hunda.

Heimild: https://be.chewy.com/basic-dental-care-tips-for-dogs/?fbclid=IwAR17YD_ZVmgLBwDrNO4bKCE20Rrzwze4iLc3qJDBflyNPZAknel4seYF-wE

Mynd af: https://tlcpethospitalrc.com/dentistry/