Gæludýr og jólin

Jólahátíðin er tími gleði og samveru, en fyrir gæludýrin okkar getur þessi tími oft verið áskorun. Mikið breytt matarræði fyrir ferfætlingana okkar getur skapað þeim meiri vandamál en gleði. Hættur fyrir ferfætlinga og fjaðraða heimilismeðlimi geta líka leynst víða, t.d. jólaseríur, skreytingar með kertum og blómum, jólamatur og sælgæti. Þó að við sjáum ekki að pakki sem liggur fallega skreyttur undir jólatrénu innihaldi konfekt, þá er nokkuð víst að hundur heimilisins viti nákvæmlega hvað er að finna í pakkanum. 

Eftirfarandi hlutir geta reynst gæludýrum varasamir:

Varasamur matur

Matur sem er varasamur fyrir gæludýrin er oft óvanalega aðgengilegur á jólum. Súkkulaði, laukur, rúsínur, avokado og vínber eru matvæli sem geta verið hættuleg dýrunum þínum. Skörp bein, svo sem fuglabein eða lambabein, geta stungist í gegnum meltingarveginn og önnur bein geta valdið stíflu.

Jólatré

Sérstaklega er varasamt að litlir hundar og hvolpar komist í vatnið í jólatrésfætinum. Flest tré eru þó ekki mjög eitruð en geta samt valdið niðurgangi og uppköstum ef þau eru étin. Nálarnar sjálfar geta líka valdið ertingu, stungist í slímhúð og jafnvel í þófa. Köttum finnst oft gaman að fara á jólaskrautsveiðar og geta lent í því að velta trjánum ef þau eru ekki vel skorðuð. Ekki er heldur víst að glerkúlur lifi slíkt fall af og glerbrot geta valdið skaða. 

Skreytingar

Bæði hundar og kettir geta tekið upp á því að éta gjafabönd og bandskreytingar. Ef böndin festast á leið sinni í gegnum meltinguna geta þau skapað mikla hættu fyrir dýrið. Stundum festist hluti af spottanum utan um tungu þó hluti af honum gangi niður. Ef spotti er kominn í maga eða þarm og gengur svo aftur úr dýri eða upp úr því er mjög mikilvægt að alls ekki toga í spottann þar sem það getur skorið þarmana eða vélindað eins og hnífur. Leitið strax til dýralæknis. 

Hundar sérstaklega geta tekið upp á því að bíta í jólaseríur og geta þá fengið óþægilegt rafstuð.

Blóma- og kertaskreytingar geta verið varasamar. Gæludýr vara sig oft ekki á kertaljósum og eiga það til að brenna sig og kveikja í feldinum ef þau fara of nálægt. Ófáir kettir hafa kveikt í veiðihárunum í þeirri tilraun að þefa af kertunum. Reynið að setja logandi ljós þar sem dýrið kemst ekki að því. Ef dýr fá heitt kertavax framan í sig getur þurft að skoða hvort það hafi brennt eða skaðað hornhimnu og ef dýrið pýrir augu getur það verið einkenni um skaða. Jólastjörnur, mistilteinn og önnur jólablóm eru mildilega eitruð ef þau eru étin og geta valdið slefi, uppköstum og niðurgangi.

Heimild, texti tekinn af: https://www.mast.is/is/dyraeigendur/hundahald/haettur-i-umhverfinu#jolin