Flokkaskipt greinasafn: Fréttir

Jólaganga í Hafnarfirði

Jólaganga deildarinnar verður næstkomandi sunnudag, 11. desember. Hittumst á bílastæðinu fyrir framan Hafnarfjarðarkirkju og Tónlistarskólann. Taumganga um Hafnarfjörð og endum síðan á því að heimsækja jólaþorpið. Gaman væri ef sem flestir gætu komið í einhverju jólalegu t.d. með jólasveinahúfur, bæði menn og hundar. Í jólaþorpinu er síðan hægt að fá heitt kakó ef kalt er í veðri. Allir hundar í taumi, við viljum benda á að flexítaumar eru ekki æskilegir í taumgöngur vegna slysahættu. Munið eftir skítapokunum.

Hér má sjá viðburðinn á Facebook

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest í jólaskapi 🙂

8. stjórnarfundur Cavalierdeildar HRFÍ 14. nóvember 2022

Staðsetning: Spíran Garðheimum.

Mættar: Anna Þ Bachmann, Gerður Steinarrsdóttir, Sunna Gautadóttir og Svanhvít Sæmundsdóttir.

Fjarverandi: Valka Jónsdóttir

Fundur hófst 17.40

Dagskrá:

Nóvembersýning 

  • Bikarar
    • Þórshamrar gefur hvolpamedalíur og bikara

Vinna á sýningum á vegum deildarinnar

  • Miðasala og rósettusala
  • Uppsetning og niðurtaka
    • Auglýst á síðum deildarinnar

Niðurstaða augnskoðunar

  • Farið yfir niðurstöður
Lesa áfram 8. stjórnarfundur Cavalierdeildar HRFÍ 14. nóvember 2022

Winter Wonderland sýning 26. nóvember 2022

Helgina 26.-27. nóvember fór fram síðasta sýning ársins sem kölluð er Winter Wonderland og er bæði NKU Norðurlanda- og Crufts Qualification sýning. 54 cavalier hundar voru skráðir til leiks á laugardeginum (13 hvolpar, 21 rakki og 20 tíkur) en 7 mættu ekki. Dómari var Anne Tove Strande frá Noregi. Deildin gaf eignarbikara fyrir besta ungliða, bestu tík og besta rakka og Þórshamrar ræktun gaf bikar og medalíur fyrir hvolpa.

Í ljósi nýlegra atburða hjá vinum okkar í Noregi vildi deildin sýna samhug og báru sýnendur cavalier hunda, auk starfsfólks og fleiri sem vildu, barmnælur með norska og íslenska fánanum. Þetta vakti athygli og hafa ræktendur í Noregi lýst því yfir hvað þeim þótti vænt um þetta framtak. 

BOB og BOS – Eldlukku Ljúfi Bruno og ISCh Eldlukku Frán Þulu Lukka
Ljósmyndari: Hörður Vilhjálmsson

Besti hundur tegundar var Eldlukku Ljúfi Bruno sem er aðeins ársgamall og því aldeilis glæsilegur árangur hjá svona ungum hundi. Bruno varð einnig besti ungliði, fékk sitt annað ungliðameistarastig og titillinn ungliðameistari því í höfn. Hann fékk líka íslenskt meistarastig og norðurlandameistarastig auk þess sem HRFÍ hafði kynnt nýja titla fyrir þessa sýningu, þ.e. Ísland Winner. Sá titill er veittur bestu tík og besta rakka, bestu ungliðatík og -rakka og bestu öldungatík og -rakka. Bruno hlaut því tvo titla á þessari sýningu; ISJW-22 og ISW-22.

Best af gagnstæðu kyni var ISCh Eldlukku Frán Þulu Lukka með norðurlandameistarastig, auk titilsins ISW-22. Bæði hlutu þau svo einnig Crufts Qualification.

Besta ungliðatík var Litlu Giljár Blær sem hlaut sitt annað ungliðameistarastig og er þar með orðin ungliðameistari. Hún varð einnig önnur besta tík með íslenskt meistarastig og titilinn ISJW-22. Deildin eignaðist því tvo nýja ungliðameistara á þessari sýningu og við fögnum því svo sannarlega.

Besti hvolpur 4-6 mánaða var Eldlukku Vigrar Astró og besti hvolpur 6-9 mánaða Snjallar Kastaní Björt á brá. Besti öldungur var Eldlukku Ögri.

Þrír ræktunarhópar voru skráðir og besti ræktunarhópur tegundar var frá Eldlukku ræktun.

Nánari úrslit voru eftirfarandi:

Lesa áfram Winter Wonderland sýning 26. nóvember 2022

Hvaleyrarvatn og Stórhöfði

Næsta ganga deildarinnar verður sunnudaginn 16. október.

Við hittumst við kirkjugarðinn í Hafnarfirði kl. 12 og keyrum í samfloti upp að Hvaleyrarvatni og þar fara allir hundar í taum. Gengið er upp að fellinu Stórhöfða sem er aðeins fyrir ofan vatnið og þar getum við sleppt hundunum lausum.

Gangan er svona einn tími en með stoppi getur hún orðið 2 tímar. Gott er að vera í góðum skóm og jafnvel með nesti og vatn fyrir hundana. Munið eftir skítapokum og vatni fyrir hundana.

Við hvetjum ykkur til að mæta í þessar sameiginlegu gönguferðir en þar gefst cavaliereigendum tækifæri til þess að kynnast og hundarnir læra að umgangast aðra hunda.

Viðburðinn á Facebook má sjá með því að smella hér

Hlökkum til að sjá ykkur,
Göngunefnd Cavalierdeildar HRFÍ.

Alþjóðleg haustsýning 9. október 2022

Hundaræktarfélag Íslands hélt alþjóðlega sýningu í Samskipahöll Sprettara í Kópavogi nú um helgina og voru 53 cavalier hundar skráðir en 4 mættu ekki. Torbjörn Skaar frá Svíþjóð dæmdi og mættir voru 10 hvolpar, 18 rakkar og 21 tík. Deildin gaf eignarbikara fyrir besta ungliða, bestu tík og besta rakka og Þórshamrar ræktun gaf bikar og medalíur fyrir hvolpa.

BOB og BOS – Eldlukku Frán Þulu Lukka og Eldlukku Ljúfi Bruno

Besti hundur tegundar var Eldlukku Frán Þulu Lukka með íslenskt og alþjóðlegt meistarastig. Þetta var hennar þriðja íslenska stig og er hún því orðin íslenskur meistari. Í úrslitum dagsins náði hún svo í 8 hunda úrtak í tegundahópi 9.

Besti hundur af gagnstæðu kyni var Eldlukku Ljúfi Bruno sem einnig var besti ungliði tegundar. Hann fékk ungliðameistarastig og íslenskt meistarastig en er of ungur fyrir alþjóðlega stigið, það færðist því til Hafnarfjalls Selmu Jökuls sem var annar besti rakki. Bruno náði síðan glæsilegum árangri í úrslitum um besta ungliða sýningar og landaði þar 2. sæti.

Besta ungliðatík var Eldlukku Ögra Mandla, besti hvolpur tegundar 4-6 mánaða var Þórshamrar Freyju Jón Skuggi og af gagnstæðu kyni Snjallar Kastaní Björt á brá.

Ræktunarhópur Hafnarfjalls ræktunar náði í 6 hópa úrtak í úrslitum dagsins.

Hér að neðan eru nánari úrslit:

Lesa áfram Alþjóðleg haustsýning 9. október 2022

Aðstoð á sýningu – Öll hjálp vel þegin

Um komandi helgi, 8 – 9 nóvember, er Alþjóðleg sýning HRFÍ og bráðvantar sjálfboðaliða í hin ýmsu hlutverk yfir helgina.

Sjálfboðaliðar frá okkar deild hafa verið duglegir að taka að sér verkefni og erum við viss um að það verði einnig nú enda er sagt að margar hendur vinna létt verk og því munar um hvert viðvik.

Það geta allir aðstoðað þurfa ekkert að vera með hund á sýningunni. Bara hafa áhuga og gaman að því að umgangast hunda og fólk og vilja gleðja.

Hér fyrir neðan eru tvö skjöl þar sem hægt er að sjá hvaða verkefni þurfa að vinnast og er ýmislegt er í boði.

Uppsetning og niðurrif sýningar: https://hrfi.sharepoint.com/:x:/g/EUD5vDSDBKdMte78OVjBvVMB1k74gi4ZI9J8PuEel7k7dQ?rtime=nfP-Jaam2kg

Önnur aðstoð á sýningunni:
https://hrfi.sharepoint.com/:x:/g/Ef_dkCGVGiRLp1bmoFuhbxAB78a3VCriz9vIUe2YB-i1IA?e=xwJYdg&fbclid=IwAR2uEzHMvWG2pbQcB5yMib8h8HjCqL28FvFcqBKtIp3O4c2syK1Ub-BM0EQ

Vonumst við til og biðlum til félagsmanna Cavalierdeildarinnar að þeir hjálpi til við þessa sýningu líkt og við aðrar sýningar

Hlökkum til að sjá ykkur á sýningunni !

Ganga í Kaldársel og Undirhlíðar

Sunnudaginn 11. september var gengið í Kaldársel og Undirhlíðar. Í gönguna mættu 18 cavalierhundar og 17 tvífætlingar. Veðrið lék svo sannarlega við okkur og var það eins og á góðum sumardegi. Áð var í skógræktarreitnum.

Í göngunni voru cavalierhundar á öllum aldri. Aldursforsetarnir í göngunni voru Eldlukku Ögri sem er 11,6 ára og Drauma Þinur (Tumi) sem er rúmlega 10 ára. Einnig voru tvö dásamleg hvolpaskott með í för en það voru þær Miðkots Tindra 4 mánaða og Eldlukku Sópía 5 mánaða.

Við þökkum öllum fyrir þátttökuna og ánægjulega samveru. Fleiri myndir má sjá með þvi að smella á myndina hér að neðan.